Ár 2006, fimmtudaginn 30. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður.
Fyrir var tekið mál nr. 11/2002, kæra 12 íbúa við Sigluvog í Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. apríl 2002 um að veita byggingarleyfi fyrir breyttri notkun hússins að Drekavogi 4, Reykjavík, úr skrifstofuhúsnæði í íbúðarhúsnæði með 11 íbúðum ásamt heimild til viðbyggingar og hækkunar hússins um eina hæð.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. maí 2002, er barst nefndinni hinn 8. sama mánaðar, kæra M, Sigluvogi 6, G, Sigluvogi 8, M, M og H, Sigluvogi 10, J, V og E, Sigluvogi 12, G, Sigluvogi 14 og R, H og J, Sigluvogi 16, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. apríl 2002 að veita byggingarleyfi fyrir breyttri notkun húss að Drekavogi 4, úr skrifstofuhúsnæði í íbúðarhúsnæði með 11 íbúðum ásamt heimild til viðbyggingar og hækkunar hússins um eina hæð. Sú ákvörðun var staðfest í borgarstjórn hinn 18. apríl 2002. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málavextir: Hinn 10. janúar 2001 barst Borgarskipulagi fyrirspurn um hvort breyta mætti notkun lóðarinnar að Langholtsvegi 115 í íbúðarbyggð, en fyrir var á lóðinni skrifstofu- og þjónustustarfsemi. Var fyrirspurninni svarað á þá leið að ekki væri lagst gegn því að breyta notkun lóðarinnar úr athafnasvæði í íbúðasvæði með nýtingarhlutfalli allt að 0,7. Eftir að tillögur frá fyrirspyrjanda höfðu borist um uppbyggingu svæðisins samþykkti skipulags- og byggingarnefnd að unnin yrði skipulagstillaga með hliðsjón af framlögðum tillögum.
Hinn 22. ágúst 2001 var hagsmunaaðilum sent bréf þar sem tilkynnt var að skipulags- og byggingarnefnd hefði samþykkt að hefja vinnu að deiliskipulagi svæðisins og var þeim gefinn kostur á að koma á framfæri ábendingum eða athugasemdum, sem nýst gætu við mótun skipulagsins.
Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 24. október 2001 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir umræddan skipulagsreit og breytingu á aðalskipulagi í samræmi við hana og samþykkti borgarráð erindið á fundi sínum hinn 30. október það ár.
Með bréfi, dags. 2. nóvember 2001, var óskað eftir heimild Skipulagsstofnunar til auglýsingar á tillögunni í samræmi við 2. mgr. 17. gr. laga nr. 73/1997 vegna fyrirhugaðrar aðalskipulagsbreytingar og gerði stofnunin ekki athugasemd við að tillagan yrði auglýst til kynningar.
Tillaga að breyttu deiliskipulagi svæðisins var í auglýsingu frá 21. nóvember til 19. desember 2001 með athugasemdafresti til 4. janúar 2002. Sex athugasemdabréf bárust frá nágrönnum og voru þau kynnt fyrir skipulags- og byggingarnefnd á fundi hinn 18. janúar 2002 auk þess sem skuggavarp vegna fyrirhugaðra mannvirkja var kynnt. Umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdirnar var síðan lögð fram á fundi nefndarinnar hinn 30. janúar 2002 og var auglýst tillaga að deiliskipulagi og breyting á aðalskipulagi samþykkt með þeim breytingum sem lagðar voru til í umsögninni og fram koma á uppfærðum deiliskipulagsuppdrætti. Borgarráð samþykkti afgreiðsluna á fundi sínum hinn 5. febrúar 2002. Þeim sem gert höfðu athugasemdir var tilkynnt um afgreiðsluna og leiðbeint um kærurétt með bréfi, dags. 7. febrúar 2002. Hinn 20. febrúar s.á. staðfesti umhverfisráðherra nefnda breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur. Aðalskipulagsbreytingin öðlaðist síðan gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 11. mars 2002.
Skipulagsstofnun tilkynnti síðan í bréfi, dags. 12. mars 2002, að stofnunin gerði ekki athugasemd við að auglýsing um gildistöku deiliskipulags yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda en auglýsing þess efnis var þó ekki birt í Stjórnartíðindum.
Kærendur skutu síðan aðal- og deiliskipulagsbreytingunni til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 5. mars 2002.
Byggingarfulltrúinn í Reykjavík gaf síðan út hið kærða byggingarleyfi fyrir breyttri notkun hússins að Drekavogi 4 ásamt viðbyggingu og hækkun hússins á grundvelli hins samþykkta deiliskipulags hinn 9. apríl 2002, en áður hafði heimild verið veitt fyrir skiptingu lóðarinnar að Langholtsvegi 115 þar sem teknir voru undir lóðina við Drekavog 4a og 4b 2991 fermetri af heildarlóðinni í samræmi við fyrrgreint deiliskipulag. Skutu kærendur veitingu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.
Með bréfi, dags. 14. febrúar 2004, lagði forstöðumaður lögfræði og stjórnsýslu hjá skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkurborgar það til við skipulags- og byggingarnefnd að nefndin afturkallaði samþykki sitt á deiliskipulagstillögunni frá 30. janúar 2002 og samþykkti hana að nýju með vísan til 2. tl. 1. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var lagt til að þeim sem hefðu andmælt tillögunni á sínum tíma yrði tilkynnt um afturköllun fyrri ákvörðunar og um hina nýju samþykkt og þeim leiðbeint um kærurétt að nýju. Tilgreind ástæða þessarar málsmeðferðar var sú að líklegt þótti að úrskurðarnefndin felldi deilskipulagið úr gildi í ljósi úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 13/2002, dags. 13. mars 2003, en þar komst nefndin að þeirri niðurstöðu að þótt heimilt væri að auglýsa samhliða breytingu á aðal- og deiliskipulagi mætti ekki samþykkja deiliskipulag sem fengið hefði slíka meðferð fyrr en að umhverfisráðherra hefði staðfest aðalskipulagsbreytinguna. Skipulags- og byggingarnefnd afturkallaði samþykkt sína um deiliskipulagið frá 30. janúar 2002 og samþykkti deiliskipulagstillöguna að nýju á fundi sínum hinn 18. febrúar 2004. Borgarráð samþykkti þá afgreiðslu á fundi sínum hinn 25. febrúar 2004. Ekki verður séð að skipulagsákvörðunin hafi eftir þetta fengið lögboðna afgreiðslu Skipulagsstofnunar eða verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.
Úrskurðarnefndinni bárust loks í hendur gögn og umsögn borgaryfirvalda vegna skipulags- og byggingarleyfiskæru kærenda hinn 28. september 2005 og kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumálinu vegna skipulagsins hinn 5. nóvember 2005. Var kæru vegna aðalskipulagsbreytingarinnar vísað frá þar sem það er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar að dæma um gildi slíkrar breytingar og kæru vegna deiliskipulagsins var einnig vísað frá nefndinni með þeim rökum að sú skipulagsákvörðun hefði ekki tekið gildi þar sem hún hefði ekki verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.
Málsrök kærenda: Kærendur styðja ógildingarkröfu sína þeim rökum að óeðlilegt hafi verið að veita byggingarleyfið á meðan kæra þeirra vegna skipulags svæðisins væri óafgreidd. Húsið að Drekavogi 4a og 4b sé í engu samræmi við nærliggjandi hús og muni tróna yfir þeim. Hæðafjöldi hússins, þ.e. kjallari og þrjár hæðir, sé ekki í samræmi við svör þau sem kærendur hafi fengið við athugasemdum sínum við umdeilda skipulagstillögu þar sem húsið hafi þar verið talið tvær hæðir og þakhæð auk kjallara.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld gera þá kröfu að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Kærendur hafi ekki lengur hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi byggingarleyfisins þar sem umrætt hús sé löngu risið í samræmi við það deiliskipulag sem afturkallað hafi verið á árinu 2004.
Niðurstaða: Húsið Drekavogi 4 mun hafa verið fullbyggt á árinu 2003 í samræmi við hið kærða byggingarleyfi. Þrátt fyrir þessa staðreynd verður ekki fallist á kröfu Reykjavíkurborgar um frávísun kærumáls þessa, enda ekki útilokað að greind bygging geti snert hagsmuni kærenda og þeim verður ekki kennt um þann drátt sem orðið hefur á afgreiðslu málsins.
Fyrir liggur að deiliskipulag það sem umrætt byggingarleyfi studdist við tók aldrei gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda og var skipulagsákvörðunin afturkölluð af borgaryfirvöldum á árinu 2004 og ný ákvörðun sama efnis tekin. Sú ákvörðun fékk heldur ekki lögboðna meðferð skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem hún var ekki send Skipulagsstofnun til umsagnar og auglýsing um gildistöku hennar var ekki birt í B-deild Stjórnartíðnda.
Hið kærða byggingarleyfi hefur því hvorki stoð í gildandi deiliskipulagi né hefur það verið grenndarkynnt skv. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga. Brast því lagagrundvöll fyrir veitingu þess og ber af þeim sökum að fallast á kröfu kærenda um ógildingu þess.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist úr hömlu. Valda því miklar annir og málafjöldi hjá úrskurðarnefndinni og óhæfilegur dráttur borgaryfirvalda á því að nefndin fengi í hendur umbeðin málsgögn, þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. apríl 2002, um að veita byggingarleyfi fyrir breyttri notkun hússins Drekavogur 4 úr skrifstofuhúsnæði í íbúðarhúsnæði með 11 íbúðum ásamt heimild til viðbyggingar og hækkunar hússins um eina hæð, er felld úr gildi.
_______________________________
Ásgeir Magnússon
________________________________ ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Geirharður Þorsteinsson