Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

5/2006 Laugavegur

Ár 2006, fimmtudaginn 23. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður. 

Fyrir var tekið mál nr. 5/2006, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. nóvember 2005 um að veita leyfi fyrir niðurrifi húss að Laugavegi 85 í Reykjavík og byggingu fjögurra hæða húss með atvinnuhúsnæði á fyrstu hæð og sex íbúðum á efri hæðum hússins. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. janúar 2006, er barst nefndinni sama dag, kærir J, Hverfisgötu 100a, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. nóvember 2005 um að veita leyfi fyrir niðurrifi húss að Laugavegi 85 í Reykjavík og byggingu fjögurra hæða húss með atvinnuhúsnæði á fyrstu hæð og sex íbúðum á efri hæðum hússins. 

Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi.  Jafnframt hefur kærandi gert þá kröfu í bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. mars 2006, að kveðinn verði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi þar til efnisniðurstaða liggi fyrir í kærumálum hans vegna byggingarleyfisins og deiliskipulags umrædds reits. 

Gögn og umsagnir vegna byggingarleyfiskærunnar og greindrar skipulagskæru hafa nú borist úrskurðarnefndinni og telst málið nægilega upplýst til þess að taka það til efnismeðferðar.  Verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda. 

Málavextir:  Með bréfi, dags. 28. júní 2005, skaut kærandi til úrskurðarnefndarinnar gildistöku deiliskipulags fyrir reit sem afmarkast af Laugavegi, Barónsstíg, Hverfisgötu og Snorrabraut.  Skipulagið var samþykkt í skipulagsráði 1. júní 2005, staðfest í borgarráði 9. júní s.á. og öðlaðist gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 11. ágúst 2005.  Lóðin að Laugavegi 85 og lóð kæranda að Hverfisgötu 100a eru innan þessa skipulagsreitsreits.  Í kærunni er vísað til þess að í hinu samþykkta deiliskipulagi hafi verið gerð tillaga að nýjum lóðarmörkum hússins að Hverfisgötu 100a, en í skipulaginu hafi ekki verið tekið tillit til óska kæranda um byggingarreit efri hæða til samræmis við byggingarrreiti aðlægra húsa.  Skipulagið gangi gegn hagsmunum kæranda með ýmsu móti, m.a. sé innkeyrsla að baklóð við hús hans breikkuð. 

Hinn 29. nóvember 2005 samþykkti síðan byggingarfulltrúinn í Reykjavík, með stoð í hinu kærða skipulagi, umsókn um leyfi til þess að rífa eldra hús og byggja í þess stað fjögurra hæða hús úr steinsteyptum einingum með atvinnuhúsnæði á fyrstu hæð en sex íbúðum á efri hæðum á lóðinni nr. 85 við Laugaveg.  Hefur kærandi nú skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kærandi skírskotar til þess að hann hafi kært deiliskipulag það sem hið kærða byggingarleyfi grundvallist á, en af því skipulagi verði ekki annað ráðið en gert sé ráð fyrir gegnumakstri að húsum við Laugaveg 85-91 og virðist húsið að Laugavegi 85 eiga aðkomu frá Hverfisgötu um lóð kæranda.  Telur kærandi óeðlilegt að veitt sé byggingarleyfi fyrir umræddu húsi á meðan kæra hans er varði gildi deiliskipulags svæðisins sé ekki til lykta leidd. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg gerir þá kröfu að kærumáli vegna umdeilds byggingarleyfis verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að hin kærða ákvörðun standi óhögguð. 

Til stuðnings frávísunarkröfu vísar Reykjavíkurborg til þess að kæran sé of seint fram komin.  Byggingarfulltrúi hafi samþykkti umsótt byggingarleyfi hinn 29. nóvember 2005.  Skv. 5. málsl. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé kærufrestur einn mánuður frá þeim tíma að kæranda var kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á.  Kærufrestur vegna ákvörðunarinnar hafi því runnið úr þann 29. desember sama ár en kæran sé dagsett 19. janúar 2006.  Þá verði ekki séð að kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta vegna heimilaðrar byggingar að Laugavegi 85. 

Hvergi í skipulagskæru kæranda, sem vitnað sé til í kærumáli þessu, sé gerð athugasemd við uppbyggingarheimildir lóðarinnar að Laugavegi 85, heldur snúist óánægja kæranda um heimildir skipulagsins varðandi hans eigin lóð.  Því sé ranglega haldið fram að húsið að Laugavegi 85 eigi aðkomu um lóðina að Hverfisgötu 100a.  Eina aðkoman fyrir akandi umferð að umræddri lóð sé fyrirhuguð með skipulagskvöð yfir lóðirnar að Laugavegi 87-91 eins og umdeilt skipulag beri vitni um.  Verði ekki séð að hið kærða byggingarleyfi raski á nokkurn hátt hagsmunum kæranda. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi hefur mótmælt kröfum kæranda og krefst þess að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Hann hafi beðið með að hefja framkvæmdir þar til kærufrestur hafi verið liðinn samkvæmt lögum en kæran hafi borist að liðnum þeim fresti.  Byggingarleyfi hans sé í fullu samræmi við gildandi deiliskipulag og hafi verið farið að öllum reglum við undirbúning og meðferð þess. 

Niðurstaða:  Eins og fram er komið hefur kærandi skotið til úrskurðarnefndarinnar deiliskipulagsákvörðun þeirri er hið kærða byggingarleyfi á stoð í.  Skírskotað er til sömu raka fyrir byggingarleyfiskæru þeirri sem hér er til umfjöllunar og búa að baki greindri skipulagskæru að því viðbættu að kærandi telur umdeilt skipulag gera ráð fyrir að fasteignin að Laugavegi 85 hafi aðkomu frá Hverfisgötu við húshlið hans. 

Hús kæranda og fyrirhugað hús að Laugavegi 85 eru á sama skipulagsreit og í nálægð hvort við annað og verður ekki að fyrra bragði fullyrt um að fyrirhuguð bygging geti ekki snert hagsmuni kæranda.  Í málinu liggja ekki fyrir gögn um að kæranda hafi verið tilkynnt um veitingu hins kærða byggingarleyfis en borgaryfirvöldum var kunnugt um málskot hans til úrskurðarnefndarinnar vegna deiliskipulags þess sem umdeilt byggingarleyfi styðst við.  Þá verður ekki af málsatvikum ráðið hvenær kæranda mátti vera ljóst að veitt hafi verið byggingarleyfi fyrir húsi því sem fyrirhugað er að reisa á lóðinni að Laugavegi 85.  Verður að virða vafa í þessu efni kæranda í hag og liggur því ekki fyrir að kæra vegna umdeilds byggingarleyfis, sem barst úrskurðarnefndinni hinn 19. janúar sl., hafi borist að liðnum kærufresti. 

Af þessum sökum verður ekki fallist á að vísa beri kærumáli þessu frá vegna aðildarskorts kæranda eða vegna þess að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. 

Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumáli kæranda vegna gildistöku deiliskipulags þess sem tekur til umrædds skipulagsreits og í þeim úrskurði var kæru kæranda um ógildingu skipulagsins hafnað. 

Eina málsástæða kæranda, sem sérstaklega er færð fram í kærumáli þessu og ekki er tekið á í fyrrgreindum úrskurði, snýst um það hvort fasteignin að Laugavegi 85 muni hafa rétt til gegnumaksturs um húsasund það sem liggur við hús kæranda.  Gildandi deiliskipulagsuppdráttur ber með sér að svo er ekki. 

Í ljósi þess að hið kærða byggingarleyfi er í samræmi við greint skipulag og ekki er fram komið að það sé haldið annmörkum er áhrif gætu haft á gildi hinnar kærðu ákvörðunar verður ekki fallist á kröfu kæranda.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda, um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. nóvember 2005 um að veita leyfi fyrir niðurrifi húss að Laugavegi 85 í Reykjavík og byggingu fjögurra hæða húss með atvinnuhúsnæði á fyrstu hæð og sex íbúðum á efri hæðum hússins, er hafnað.

 

 

___________________________ 
 Ásgeir Magnússon

 

_____________________________       ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                               Geirharður Þorsteinsson