Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

63/2005 Barmahlíð

Ár 2006, fimmtudaginn 5. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 63/2005, kæra íbúa að Miklubraut 50 og 52 í Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. júlí 2005 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir hækkun þaks, gerð kvista og svala og að taka í notkun rishæð (3. hæð) í húsinu að Barmahlíð 9 í Reykjavík ásamt breytingum á svölum fyrstu og annarrar hæðar og gerð kjallarainngangs á norðurhlið hússins.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. ágúst 2005, er barst nefndinni hinn 11. sama mánaðar, kæra J, K, F, E, E, B og H, íbúar að Miklubraut 50 og 52, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. júlí 2005 að samþykkja byggingarleyfi fyrir hækkun þaks, gerð kvista og svala og að taka í notkun rishæð (3. hæð) í húsinu að Barmahlíð 9 í Reykjavík ásamt breytingum á svölum fyrstu og annarrar hæðar og gerð kjallarainngangs á norðurhlið hússins.  Borgarráð staðfesti ákvörðunina hinn 7. júlí 2005. 

Skilja verður erindi kærenda svo að krafist sé ógildingar á hinu kærða byggingarleyfi.

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. febrúar 2005 var tekin fyrir umsókn íbúðareiganda að Barmahlíð 9 í Reykjavík, þar sem sótt var um leyfi til þess að hækka þak, byggja kvisti og svalir og taka í notkun rishæð (3. hæð) hússins á lóðinni nr. 9 við Barmahlíð.  Jafnframt var sótt um að breyta svölum á fyrstu og annarri hæð og gera kjallarainngang á norðurhlið hússins.  Umsókninni fylgdi samþykki meðeigenda umræddrar fasteignar fyrir umbeðnum breytingum.  Var málinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa sem ákvað að grenndarkynna erindið fyrir hagsmunaaðilum að Barmahlíð 7, 8, 10, 11 og 12 og Miklubraut 48, 50 og 52.  Að lokinni grenndarkynningu bárust athugasemdir frá 11 húseigendum og leigutökum að Miklubraut 50 og 52, sem mótmæltu umsóttri hækkun hússins að Barmahlíð 9 og gerð svala á rishæð.

Að lokinni grenndarkynningu var erindinu vísað til skipulagsráðs sem tók það fyrir á fundi hinn 6. apríl 2005 og lá þá fyrir umsögn skipulagsfulltrúa vegna framkominna athugasemda við grenndarkynningu umsóknarinnar.  Gerði skipulagsráð ekki athugasemd við að umsótt byggingarleyfi yrði veitt og vísaði erindinu til afgreiðslu byggingarfulltrúa sem samþykkti umsóknina hinn 5. júlí 2005.

Var þeim, sem gert höfðu athugasemdir við grenndarkynninguna, tilkynnt um lyktir málsins og skutu kærendur veitingu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur telja heimilaða hækkun hússins að Barmahlíð 9 og gerð svala á rishæð hafa í för með sér óásættanlega röskun á grenndarhagsmunum þeirra.  Útsýni til suðurs að Öskjuhlíð muni skerðast og skuggavaps gæta á lóðum þeirra.  Áskilji kærendur sér rétt til skaðabóta verði af heimiluðum framkvæmdum.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að kröfu kærenda verði hafnað.

Á það er bent að ekki sé fyrir hendi deiliskipulag á svæðinu og hafi því farið fram grenndarkynning á umræddri byggingarleyfisumsókn í samræmi við ákvæði laga 73/1997 og þeim sem hagsmuna hafi átt að gæta gefinn kostur á að tjá sig um breytingarnar.

Hafa verði í huga að borgir þróist og taki breytingum.  Fasteignaeigendur geti því vænst þess að útsýni og birtuflæði geti breytst í þéttri byggð.  Í hverfaskipulagi fyrir borgarhluta 3 í kaflanum um Hlíðar sé m.a. tekið fram að leyfa megi kvisti þar sem þeir falli vel að húsi og nánasta umhverfi.  Ekki séu til skilmálar um hækkun rishæða og kvisti í Hlíðarhverfi, en höfð hafi verið hliðsjón af rammaskilmálum fyrir Norðurmýri vegna svipaðra húsagerða, en þar sé gert ráð fyrir leyfðum þakhalla allt að 45 gráðum og hámarkshæð mænis 3,6 metra yfir steyptri plötu. 

Samþykktar hafi verið hækkanir á húsum í Hlíðunum á grundvelli fyrrgreindra viðmiðana en í umdeildu byggingarleyfi sé gert ráð fyrir um 30 sentimetra lægri mænishæð en skilyrt hámarkshæð samkvæmt greindum skilmálum auk þess sem kvistir séu taldir vera í samræmi við gerð hússins.  Því verði ekki talið að skipulagssjónarmið mæli gegn fyrirhuguðum breytingum að Barmahlíð 9. 

Útsýnisskerðing sú sem fylgi hinum samþykktu breytingum geti ekki talist meiri en vænta megi í borgarumhverfi.  Telja verði að hagsmunir byggingarleyfishafa séu meiri, að geta framkvæmt umdeildar breytingar, en hagsmunir kærenda vegna lítilsháttar útsýnisskerðingar.

Málsmeðferð hinnar kærðu byggingarleyfisumsóknar hafi í engu verið ábótavant og séu ekki efni til þess að fella það úr gildi.  Telji aðilar sig hins vegar geta sannað að þeir hafi orðið fyrir tjóni umfram það sem almennt megi búast við hjá fasteignaeigendum í þéttbýli geti þeir átt bótarétt skv. ákvæðum 33. gr. skipulags- og byggingarlaga, en það álitaefni falli utan verkahrings úrskurðarnefndarinnar.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi bendir á að við kaup hans á hluta fasteignarinnar að Barmahlið 9 á árinu 2003 hafi honum verið tjáð að samþykki byggingarfulltrúa lægi fyrir á beiðni fyrri eiganda um að hækka þak hússins.  Síðar hafi útlit þaks verið hannað í samráði við aðra eigendur fasteignarinnar og teikningar lagðar fram sem hafi verið samþykktar og mál þetta snúist um. 

Samskonar breytingar og hér um ræði hafi verið heimilaðar um langan aldur í Hlíðahverfi og fordæmi þess mörg í nágrenni húss byggingarleyfishafa.  Nú sé verið að gera sambærilegar breytingar á tveimur húsum í innan við 100 metra fjarlægð frá Barmahlíð 9.  Hafi mænishæð húsa á umræddu svæði því sætt breytingum í tímans rás.  Núverandi mænishæð og þakhalli umrædds húss sé lítill og þakleki verið vandamál af þeim sökum og sé fyrirhuguð framkvæmd, m.a. til þess að bæta þar úr. 

Bent sé á að talsverð fjarlægð sé milli Barmahlíðar 9 og húsa kærenda sem leiði til þess að grenndaráhrif heimilaðra breytinga séu óveruleg.

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér staðhætti á vettvangi.

Niðurstaða:  Ekki er til að dreifa deiliskipulagi er tekur til umræddrar byggðar sem reist var um miðbik síðustu aldar.  Voru umsóttar breytingar á fasteigninni að Barmahlíð 9 grenndarkynntar skv. 3. mgr. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Bera kærendur fyrir sig að heimiluð hækkun hússins og gerð svala á rishæð raski hagsmunum þeirra með skerðingu útsýnis og skuggavarpi. 

Með hinu kærða byggingarleyfi hækkar mænir umrædds húss um 1,8 metra vegna heimilaðrar rishæðar og þak verður nokkuð umfangsmeira en fyrir var.  Lóðir kærenda að Miklubraut 50 og 52 liggja norðanvert við lóð byggingarleyfishafa og stendur bílskúr við norðurmörk lóðarinnar að Barmahlíð 9 á móts við Miklubraut 50.  Fjarlægð milli hússins að Barmahlíð 9 og húsa kærenda er á bilinu 25 til 28 metrar og eru um 10 metrar frá húsi byggingarleyfishafa að umræddum lóðamörkum.  Á svæðinu er að finna hús, sambærileg húsinu að Barmahlíð 9, með rishæð sem þriðju hæð og því fordæmi fyrir nýtingu lóða með þeim hætti sem hið kærða byggingarleyfi heimilar. 

Í ljósi staðhátta verður ekki talið að aukið skuggavarp, er fylgir umdeildri hækkun og breytingum hússins að Barmahlíð 9, rýri svo nýtingu lóða kærenda eða skerði útsýni að varði ógildingu hins kærða leyfis, enda verður heimiluð hæð og umfang hússins ekki meiri en víða er á svæðinu.  Eru því ekki efni til að fallast á kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. júlí 2005, er borgarráð staðfesti hinn 7. sama mánaðar, um að veita byggingarleyfi fyrir hækkun þaks, gerð kvista og svala og að taka í notkun rishæð í húsinu að Barmahlíð 9 í Reykjavík ásamt breytingum á svölum fyrstu og annarrar hæðar og gerð kjallarainngangs á norðurhlið hússins.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                  ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Aðalheiður Jóhannsdóttir