Ár 2005, föstudaginn 16. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari.
Fyrir var tekið mál nr. 46/2005, kæra á ákvörðun byggingafulltrúans í Reykjavík frá 3. maí 2005 um að samþykkja breytingu á byggingarleyfi er fól í sér stækkun og breytingu á áður samþykktri lager- og tengibyggingu á lóðinni að Vagnhöfða 29 í Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. júní 2005, er barst nefndinni hinn 16. sama mánaðar, kærir Hákon Stefánsson hdl., fyrir hönd A ehf., leigutaka fasteignarinnar að Vagnhöfða 27, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. maí 2005 að samþykkja breytingu á byggingarleyfi er fól í sér stækkun og breytingu á áður samþykktri lager- og tengibyggingu á lóðinni að Vagnhöfða 29 í Reykjavík.
Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um að úrskurðað yrði um stöðvun framkvæmda þar til efnisniðurstaða lægi fyrir í málinu. Þar sem framkvæmdir hafa ekki verið hafnar í skjóli hins kærða leyfis og með hliðsjón af því að málið þykir nú nægjanlega upplýst til þess að það verði tekið til efnisúrlausnar verður ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.
Málavextir: Hinn 1. júní 1999 samþykkti borgarráð breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða – Iðnaðarsvæðis sem upphaflega er frá árinu 1969. Með þeirri breytingu var ákveðið að eitt bílastæði yrði á lóð fyrir hverja 50 fermetra húsnæðis skv. gr. 4.3.1 í skipulagsskilmálum og að hámark nýtingarhlutfalls lóða yrði 0,7 skv. gr. 4.4.5 í greindum skipulagsskilmálum. Var í gr. 4.4.4 gert ráð fyrir að ónýttir byggingarmöguleikar á lóðum yrðu skoðaðir við byggingarleyfisumsóknir í hverju tilfelli með hliðsjón af hámarks nýtingarhlutfalli. Á skipulagsuppdrættinum er markaður byggingarreitur við norðurmörk lóðarinnar að Vagnhöfða 29.
Hinn 10. september 2002 var samþykkt byggingarleyfi fyrir 277,2 fermetra birgðaskemmu á norðurmörkum lóðarinnar að Vagnhöfða 29 og jafnframt heimiluð 22,8 fermetra tengibygging í suðaustur horni, milli skemmunnar og húss þess sem fyrir er á lóðinni. Með byggingarleyfinu fór nýtingarhlutfall lóðarinnar í 0,67. Þá samþykkti byggingarfulltrúi hinn 17. desember 2002 tillögu um byggingarreit, breytingu á bílastæðum og innkeyrslu að lóðinni.
Kærandi í máli þessu mótmælti heimiluðum mannvirkjum við byggingaryfirvöld við upphaf framkvæmda á árinu 2002 og mun hafa verið leitað sátta um fyrirkomulag bygginga að Vagnhöfða 29 og framkvæmdir stöðvast af þeim sökum.
Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 27. október 2004 var síðan lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Vagnhöfða 29 þar sem byggingarreitur á norðanverðri lóðinni var dreginn inn frá Vagnhöfða og breikkaður til suðurs og jafnframt stækkaður í 456 fermetra með jafnstórri bílageymslu neðanjarðar með nýrri aðkeyrslu frá Vagnhöfða. Þá fól tillagan í sér að reisa mætti í suðaustur horni lóðarinnar 432 fermetra þriggja hæða skrifstofubyggingu. Var samþykkt að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum að Vagnhöfða 27.
Málið var í kynningu frá 3. nóvember til 1. desember 2004. Engar athugasemdir bárust og samþykkti skipulags- og byggingarnefnd tillöguna sem öðlaðist gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 3. janúar 2005 að undangenginni umsögn Skipulagsstofnunar. Skaut kærandi þessari ákvörðun um deiliskipulagsbreytingu til úrskurðarnefndarinnar.
Hinn 3. maí 2005 samþykkti byggingarfulltrúi beiðni lóðarhafa að Vagnhöfða 29 um breytingu á byggingarleyfinu frá árinu 2002 til samræmis við hina nýsamþykktu deiliskipulagsbreytingu. Fól byggingarleyfið í sér heimild til að byggja 454 fermetra bílageymslu neðanjarðar, birgðaskemmu og skrifstofubyggingu, 450,1 fermetra að flatarmáli á fyrstu hæð og 137 fermetra á annarri og þriðju hæð, hvorri um sig. Samkvæmt byggingarleyfinu var gert ráð fyrir 37 bílastæðum á lóð og í kjallara og að greiða þyrfti í bílastæðasjóð fyrir 8 stæði sem á vantaði svo kröfum um bílastæði samkvæmt skipulagi væri fullnægt. Skaut kærandi þessari ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.
Hinn 21. júní 2005 var síðan samþykkt breyting á afstöðumynd af lóð þar sem tilhögun bílastæða var breytt þannig að á lóðinni og í bílakjallara voru sýnd alls 42 bílastæði.
Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hann hafi kært deiliskipulagsbreytingu þá er hin kærða breyting á byggingarleyfi styðjist við og sé sú kæra til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Telur hann að óheimilt sé að samþykkja breytingar á byggingarleyfi og þar með heimila byggingarframkvæmdir á lóðinni að Vagnhöfða 29 á meðan úrlausn um deiliskipulag liggi ekki fyrir.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg telur hið kærða byggingarleyfi í samræmi við deiliskipulag sem ekki hafi verið hnekkt og sé ekki neinum annmörkum háð. Sé framkominni ógildingarkröfu því mótmælt.
Andmæli byggingarleyfishafa: Byggingarleyfishafi mótmælir framkominni ógildingarkröfu og tekur undir sjónarmið Reykjavíkurborgar í málinu.
Niðurstaða: Hið kærða byggingarleyfi var veitt með stoð í gildandi skipulagi svæðisins svo sem því var breytt með samþykki borgarráðs hinn 8. desember 2004.
Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumáli vegna deiliskipulagsbreytingarinnar þar sem hún var staðfest. Í þeim úrskurði er fjallað um og tekin afstaða til málsástæðna kæranda í máli þessu er varða fyrirhugaðar byggingar á lóðinni að Vagnhöfða 29. Að gengum greindum úrskurði samræmast umþrættar byggingar og aðkoma að bílakjallara gildandi deiliskipulagi.
Ekki verður fallist á þá málsástæðu kæranda að ógilda beri hið kærða byggingarleyfi þar sem það hafi verið veitt á meðan skipulagsbreyting sú sem var undanfari leyfisins var í kærumeðferð hjá úrskurðarnefndinni. Við útgáfu leyfisins hafði umræddri skipulagsbreytingu ekki verið hnekkt.
Samkvæmt gildandi skipulagsskilmálum umrædds svæðis þarf eitt bílastæði fyrir hverja 50 fermetra húsnæðis. Samkvæmt þeirri reglu þurfa að vera 45 stæði á lóðinni að Vagnhöfða 29 miðað við byggingarmagn það sem heimilað hefur verið með hinu kærða byggingarleyfi, en fyrir liggur að þau eru 42.
Í 6. mgr. gr. 3.1.4 í skipulagsreglugerð er heimild til að víkja frá tilskildum fjölda bílastæða í deiliskipulagi, enda sé sýnt fram á að bílastæðaþörf sé minni eða unnt sé að uppfylla hana með öðrum hætti. Í gr. 4.3.1 í skipulagsskilmálum fyrir umrætt svæði er sambærileg heimild. Ekki er að finna í deiliskipulagsbreytingu þeirri sem var undanfari hins kærða byggingarleyfis á hvaða forsendu vikið sé frá bílastæðakröfum á lóðinni að Vagnhöfða 29 eða með hvaða hætti verði bætt úr bílastæðaþörf með öðrum hætti.
Með hliðsjón af því að stór hluti heimilaðrar byggingar er ætlaður undir birgðaskemmu sem ætla má að ekki fylgi mikil bílastæðaþörf og í ljósi þess að stórt almenningsbílastæði er handan Vagnhöfða þykir þessi skortur á þremur bílastæðum ekki alveg nægjanleg ástæða til þess að fella hið kærða byggingarleyfi úr gildi.
Með vísan til þess sem að framan greinir verður ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. maí 2005 um að samþykkja breytingu á byggingarleyfi fyrir mannvirkjum á lóðinni að Vagnhöfða 29 í Reykjavík.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ásgeir Magnússon