Ár 2005, miðvikudaginn 7. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússson héraðsdómari.
Fyrir var tekið mál nr. 61/2005, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. júlí 2005 um að veita byggingarleyfi fyrir bensínafgreiðslustöð með fjórum sjálfsafgreiðsludælum og stakstæðu verðskilti á lóðinni nr. 5 við Skeifuna í Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. ágúst 2005, er barst nefndinni 9. sama mánaðar, kærir Hanna Lára Helgadóttir hrl., f.h. húsfélagsins Skeifunnar 3, Reykjavík þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að veita byggingarleyfi fyrir bensínafgreiðslustöð á lóðinni nr. 5 við Skeifuna. Hin kærða ákvörðun var staðfest í borgarráði í umboði borgarstjórnar Reykjavíkur hinn 21. júlí 2005.
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Jafnframt krafðist kærandi þess að framkvæmdir, sem hafnar væru við byggingu bensínstöðvarinnar yrðu stöðvaðar meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Var þeirri kröfu hafnað með úrskurði uppkveðnum 18. ágúst 2005.
Málsatvik: Haustið 2004 var leitað afstöðu skipulags- og byggingarnefndar til þess hvort leyft yrði að reisa bensínsjálfsafgreiðslu á lóð nr. 5 við Skeifuna. Tók nefndin jákvætt í erindið og lét umsækjandinn því vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar þar sem gert var ráð fyrir bensínafgreiðslunni. Tillagan var fyrst tekin fyrir þann 8. október 2004 á fundi skipulagsfulltrúa og á fundi skipulags- og byggingarnefndar þann 15. desember s.á. Vísaði nefndin tillögunni til kynningar í samgöngunefnd og umhverfis- og heilbrigðisnefnd. Að þeirri kynningu lokinni var ákveðið að auglýsa tillöguna.
Snemma árs 2005 var auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi þar sem gert var ráð fyrir að reisa mætti sjálfsafgreiðslustöð fyrir bifreiðaeldsneyti á lóðinni nr. 5 við Skeifuna í Reykjavík. Var tillagan í auglýsingu til 8. apríl 2005 og bárust allmargar athugasemdir, m.a. frá eigendum eignarhluta að Skeifunni 3. Í umsögn skipulagsfulltrúa um framkomnar athugasemdir, dags. 2. maí 2005, var gerð tillaga að breytingum á skipulagstillögunni til að koma til móts við athugasemdir. Var lagt til að byggingarreitur ofanjarðar fyrir bensíndælur yrði færður frá lóðamörkum og að sett yrði í skilmála deiliskipulagsins að ekki mætti vera þak yfir dælum né óþarfa skilti við stöðina. Var auglýst tillaga samþykkt á fundi skipulagsráðs hinn 18. maí 2005 með þeim breytingum sem fram komu í umsögn skipulagsfulltrúa. Staðfesti borgarráð þessa samþykkt skipulagsráðs á fundi sínum þann 26. maí 2005. Skipulagstillagan hlaut lögboðna afgreiðslu Skipulagsstofnunar og var auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda þann 14. júlí 2005. Hafði kærandi þá þegar skotið skipulagsákvörðuninni til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 22. júní 2005.
Þann 19. júlí 2005 var tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa umsókn um leyfi til að koma fyrir bensínafgreiðslustöð með fjórum sjálfsafgreiðsludælum á lóðinni nr. 5 við Skeifuna. Jafnframt var sótt um leyfi fyrir 6 metra háu stakstæðu verðskilti við innkeyrslu á lóðina. Umsóknin var samþykkt á fundinum með eftirfarandi bókun:
„Samþykkt. Samræmist ákvæðum laga nr. 73/1997. Frágangur á lóðamörkum verði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða. Áskilin lokaúttekt byggingarfulltrúa. Áskilið samþykki heilbrigðiseftirlits.
Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 5. júlí s.l., var samþykkt byggingarleyfi fyrir húsfélagið Skeifunni 5 um byggingu bensínsjálfsafgreiðslustöðvar á lóðinni nr. 5 við Skeifuna. Þegar sú samþykkt var gerð var ekki búið að staðfesta deiliskipulag á reitnum með birtingu í Stjórnartíðindum.
Vegna þessa er umrædd samþykkt felld úr gildi en málið nú samþykkt þar sem formskilyrðum hefur verið fullnægt með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 14. júli s. l.“
Eins og áður er rakið var ofangreind ákvörðun byggingarfulltrúa einnig kærð til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 8. ágúst 2005, og þess krafist að byggingarleyfið yrði fellt úr gildi.
Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að hið umdeilda byggingarleyfi eigi stoð í skipulagi sem breytt hafi verið og hafi kærumál um lögmæti breytingarinnar verið til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Sé því haldið fram að skipulagsbreytingin hafi farið í bága við aðalskipulag Reykjavíkurborgar og að auki hafi verið verulegir ágallar á málsmeðferð skipulagsyfirvalda þegar skipulaginu hafi verið breytt. Rekstri bensínstöðvar fylgi óhjákvæmilega aukin umferð, slysahætta og mengun, sem allt gangi gegn lögvörðum hagsmunum kæranda. Loks dregur kærandi í efa að umdeilt byggingarleyfi uppfylli ákvæði byggingarreglugerðar sem og ákvæði reglna um heilbrigðiseftirlit, brunavarnir og mengunarvarnir. Sérstaklega sé á það bent að það skilyrði hafi verið fyrir byggingarleyfinu að leyfishafi hefði samráð við aðra lóðarhafa um frágang á lóðamörkum. Hann hafi þrátt fyrir þetta hvorki haft samráð né gert nokkurt samkomulag við eigendur fasteignarinnar nr. 3 við Skeifuna.
Málsrök borgaryfirvalda: Af hálfu borgaryfirvalda er því haldið fram að ákvarðanir um hina umdeildu skipulagsbreytingu og byggingarleyfi hafi verið teknar að vel ígrunduðu máli og að undirbúningur umræddra ákvarðana hafi í alla staði verið í samræmi við lög. Komið hafi verið til móts við athugasemdir er gerðar hafi verið við skipulagstillöguna og hafi henni verið breytt til hagsbóta fyrir nágranna, þar á meðal kæranda. Tillögunni hafi þó ekki verið breytt í grundvallaratriðum og hafi því ekki verið skylt að auglýsa hana að nýju. Samþykkt skipulagsráðs hafi hlotið lögboðna staðfestingu borgarráðs og verið afgreidd af Skipulagsstofnun og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda svo sem lögskylt sé. Ekki hafi verið sýnt fram á að annmarkar séu á umræddri skipulagstillögu eða byggingarleyfi er leitt geti til ógildingar og beri því að hafna kröfu kæranda.
Hvað varði byggingarleyfi vegna bensínstöðvarinnar að Skeifunni 5 þá geri kærandi ekki neinar efnislegar athugasemdir við það, þrátt fyrir kröfu um ógildingu þess, né bendi hann á nein atriði sem leitt geti til ógildingar þess. Varðandi yfirlýsingu lögmanns kæranda þess efnis að ekki hafi verið haft samráð við eigendur Skeifunnar 3 um frágang á lóðamörkum þá skuli bent á að ekkert komi fram í samþykktum aðaluppdráttum, sem bendi til þess að raska þurfi lóðamörkum, enda dælurnar staðsettar 6 metrum frá þeim. Bókun byggingarfulltrúa feli einungis í sér að samráð þurfi að hafa við kæranda ef einhverja breytingu þurfi að gera á lóðamörkum vegna framkvæmdanna. Valdi sú skylda framkvæmdaraðila að sjálfsögðu ekki ógildingu byggingarleyfis.
Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfum kæranda mótmælt. Byggir hann á sömu eða svipuðum sjónarmiðum og borgaryfirvöld, sem þegar hafa verið rakin.
Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu, sem ekki þykir ástæða til að rekja nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða: Eins og að framan er rakið er í máli þessu krafist ógildingar byggingarleyfis sem heimilar að reisa sjálfsafgreiðslustöð fyrir bifreiðaeldsneyti að Skeifunni 5 í Reykjavík. Hefur kærandi aðallega byggt á því að ógilda beri breytingu þá á deiliskipulagi sem hafi verið undanfari og forsenda fyrir útgáfu hins umdeilda byggingarleyfis.
Með ítarlegum úrskurði uppkveðnum fyrr í dag hefur úrskurðarnefndin hafnað kröfu kæranda um ógildingu umræddrar skipulagsbreytingar. Verður hið kærða byggingarleyfi því ekki ógilt með þeim rökum að skipulagslegar forsendur skorti.
Kærandi hefur ekki bent á neina tiltekna ágalla á byggingarleyfinu og ekki verður fallist á að skilyrði um samráð um frágang á lóðamörkum geti komið til álita sem ógildingarástæða í máli þessu enda óvíst að nokkuð hafi reynt á umrætt skilyrði. Ekki hafa heldur komið fram neinar ábendingar um að umdeilt mannvirki hafi haft í för með sér einhver vandkvæði þrátt fyrir að allangt sé síðan það var reist og rekstur stöðvarinnar hafinn. Verður kröfum kæranda því hafnað með vísan til þess sem að framan er rakið.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Kröfu kæranda um ógildingu á hinu kærða byggingarleyfi fyrir bensínafgreiðslustöð á lóðinni nr. 5 við Skeifuna í Reykjavík er hafnað.
_______________________________
Hjalti Steinþórsson
______________________________ _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ásgeir Magnússon