Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

2/2003 Vatnsendablettur

Ár 2005, fimmtudaginn 7. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Sesselja Jónsdóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2003, kæra á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 4. desember 2002 um að gera eiganda 50 m² húss að Vatnsendabletti nr. 241a í Kópavogi að fjarlægja það af lóðinni eigi síðar en hinn 1. febrúar 2003, en að öðrum kosti verði húsið fjarlægt á kostnað eiganda.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. janúar 2003, kærir G ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 4. desember 2002 um að gera honum að fjarlægja 50 m² hús af lóðinni að Vatnsendabletti nr. 241a í Kópavogi eigi síðar en hinn 1. febrúar 2003, en að öðrum kosti verði húsið fjarlægt á hans kostnað.  Kærandi krefst ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar ásamt því að lagt verði fyrir byggingarnefnd að veita byggingarleyfi vegna fyrirhugaðra byggingarframkvæmda hans á fyrrgreindri lóð.  Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar hinn 26. mars 2003 frestaði úrskurðarnefndin réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar og hefur hún því eigi komið til framkvæmda.

Málavextir:  Kærandi var eigandi að húsi að Vatnsendabletti 241a, sem mun hafa eyðilagst í eldsvoða í aprílmánuði árið 1999.  Ekki hefur komið til endurbyggingar húss á lóðinni og mun ágreiningur kæranda við landeiganda um réttindi yfir umræddri lóð hafa staðið því í vegi, en deiliskipulag hefur verið samþykkt fyrir umrætt svæði og er þar gert ráð fyrir að lóðin verði að hluta byggingarlóð fyrir íbúðarhús.

Haustið 2002 flutti kærandi 50 m² timburhús eða skúr á lóðina.  Kveðst hann hafa skipt um klæðningu á skúrnum og sett í hann glugga en ekki fest hann við undirstöður.  Hafi hann ætlað að nýta hús þetta í tengslum við hagnýtingu lóðarinnar og eftir atvikum sem vinnuaðstöðu meðan byggt væri nýtt hús á lóðinni. 

Fljótlega eftir að húsið var flutt á lóðina komu fram athugasemdir af hálfu byggingarfulltrúa um að ekki hefði verið aflað tilskilinna leyfa og tilkynnti hann kæranda að frekari framkvæmdir á lóðinni skyldu stöðvaðar.

Á fundi byggingarnefndar Kópavogs hinn 4. desember 2002 ákvað nefndin að gefa kæranda frest til 1. febrúar 2003 til þess að fjarlægja húsið af lóðinni en ella myndi nefndin hlutast til um að það yrði gert á kostnað eiganda.

Þessari ákvörðun vildi kærandi ekki una og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 3. janúar 2003, svo sem að framan greinir. 

Bæjaryfirvöld ítrekuðu kröfu sína um brottflutning hússins, en með úrskurði uppkveðnum hinn 26. mars 2003 frestaði úrskurðarnefndin réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar og hefur hún því ekki komið til framkvæmda.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á því byggt að umrætt hús sé ekki fasteign þar sem það hafi ekki verið fest við undirstöður.  Það standi þar sem áður hafi staðið hús það er brunnið hafi og telji hann sig eiga fullan rétt á að endurbyggja hús í þess stað.  Þó hafi alltaf staðið til að byggja annað hús og stærra ofar í lóðinni á skilgreindum byggingarreit en af því hafi ekki orðið þar sem byggingarleyfi hafi ekki verið veitt.  Hús það sem um sé deilt í málinu sé til bráðbirgða en fyrirhugað sé að nýta það á meðan á byggingarframkvæmdum standi. 

Kröfu sínu um útgáfu byggingarleyfis styður kærandi þeim rökum að allt frá árinu 1999 hafi landeiganda verið kunnugt um að hann hygðist byggja íbúðarhús á lóðinni og í þeim tilgangi hafi aðalskipulagi svæðisins verið breytt.  Efir að fyrrum landeigandi hafi fallið frá hafi núverandi landeigandi sagt lóðarleigusamningnum upp og hafi samningurinn ekki fengist endurnýjaður.  Á meðan svo sé neiti byggingaryfirvöld í Kópavogi að gefa út byggingarleyfi vegna byggingar íbúðarhúss á lóðinni og nauðsynlegt sé að fá úr því skorið hvort útgáfa byggingarleyfis sá háð samþykki landeiganda.

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er vísað til þess að á fundi byggingarnefndar Kópavogs hinn 9. ágúst 2002 hafi verið hafnað erindi kæranda um að honum yrði veitt leyfi til að flytja umrætt hús á lóðina til að nota sem aðstöðu meðan á endurbyggingu nýs húss á lóðinni stæði og í framhaldi af því að mega nýta húsið sem bílskúr eða bátaskýli.  Hafi m.a. verið vísað til þess að samkvæmt forsendum nýs skipulags á svæðinu þyrfti að gera nýja lóðarleigusamninga við landeiganda.  Kærandi hafi ekki kært þessa synjun byggingarnefndar og standi því óhögguð sú ákvörðun nefndarinnar að veita ekki leyfi fyrir umræddu húsi á lóðinni.  Kærandi hafi, þrátt fyrir þetta, flutt húsið á lóðina og hafist handa við endurbætur á því.  Þetta hafi honum verið óheimilt og hafi framkvæmdir verið stöðvaðar jafnskjótt og um þær hafi orðið kunnugt.  Ákvörðun byggingarnefndar um að gera kæranda að fjarlægja húsið af lóðinni eigi sér stoð í 2. og 5. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Kærandi hafi ekki orðið við fyrirmælum um að fjarlægja húsið og hafi því verið ákveðið að láta vinna verkið á kostnað kæranda.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarnefndar Kópavogs frá 4. desember 2002 að gera kæranda að fjarlægja hús það sem að framan greinir af lóðinni að Vatnsendabletti 241a og að það verði að öðrum kosti fjarlægt á kostnað kæranda. 

Í hinni kærðu ákvörðun felst að fyrirhugað er að beita þvingunarúrræðum sem byggingaryfirvöldum eru tiltæk og vísa bæjaryfirvöld til ákvæða í 56. gr. skipulags- og byggingarlaga sem eiga annars vegar við um byggingarleyfisskyld mannvirki sem reist eru án samþykkis sveitarstjórnar og fara í bága við skipulag og hins vegar um ólöglegar byggingar eða byggingarhluta. 

Ágreiningur er m.a. í málinu um það hvort umrætt hús sé leyfisskylt mannvirki í skilningi IV. kafla skipulags- og byggingarlaga þar sem það hafi ekki verið varanlega skeytt við undirstöður og þá jafnframt hvort ákvæði 2. og 5. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 eigi við í málinu. 

Hús það sem um er deilt í máli þessu stendur á steinsteyptum hnöllum og eru þeir ekki áfastir húsinu.  Það er því ekki varanlega skeytt við jörð.  Engar lagnir eru tengdar því og verður ekki talið að um sé að ræða mannvirki í skilningi IV. kafla skipulags- og byggingarlaga heldur verði að líta svo á að um lausafé sé að ræða.

Ákvæði 56. gr. skipulags- og byggingarlaga er skipað í VI. kafla laganna er fjallar um þvingunarúrræði og viðurlög.  Verður þessum ákvæðum ekki beitt með rýmkandi lögskýringu og verður tilvitnuðum ákvæðum 56. gr. ekki beitt um lausafé sem ekki fellur undir mannvirkjakafla lagnanna.  Var hin kærða ákvörðun því ekki reist á réttum lagagrundvelli.  Var rökstuðningi hennar að þessu leyti áfátt.

Í kærunni er þess krafist að úrskurðarnefndin leggi fyrir byggingarnefnd að veita byggingarleyfi vegna fyrirhugaðra framkvæmda kæranda á lóðinni.  Í kröfu þessari felst að úrskurðarnefndinni er ætlað að taka afstöðu til byggingaráforma kæranda án þess að fyrir liggi ákvörðun byggingarnefndar um að synja umsókn hans um leyfi til byggingar húss á lóðinni.  Er það ekki á færi úrskurðarnefndarinnar að mæla fyrir um að byggingarnefnd veiti leyfi þegar svo háttar til og verður kröfu kæranda í því efni vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 4. desember 2002 um að fjarlægja skuli 50 m² hús af lóðinni að Vatnsendabletti 241a, Kópavogi.

Vísað er frá kröfu um að úrskurðarnefndin leggi fyrir byggingarnefnd að veita byggingarleyfi vegna fyrirhugaðra byggingarframkvæmda kæranda á fyrrgreindri lóð.

___________________________
Ásgeir Magnússon         

 
_____________________________         ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Sesselja Jónsdóttir