Ár 2005, fimmtudaginn 7. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Sesselja Jónsdóttir lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 66/2004, kæra eiganda landspildu í Skammadal í landi Reykja í Mosfellsbæ á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 12. október 2004 að ítreka synjun á fyrri umsókn um varanlegt byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við eldra hús að Höfða í Skammadal, svo og að krefjast þess að kærandi fjarlægi þegar í stað umrædda viðbyggingu, og að mælast til þess við bæjarstjórn að beitt verði dagsektum verði viðbyggingin ekki fjarlægð fyrir 1. desember 2004.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. nóvember 2004, er barst nefndinni sama dag, kærir Ólafur Gústafsson hrl., f.h. G, Ásgarði II, Mosfellsbæ, samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 12. október 2004 um að ítreka synjun á fyrri umsókn um varanlegt byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við eldra hús að Höfða í Skammadal, að gera kæranda að fjarlægja þegar í stað umrædda viðbyggingu svo og að mælast til þess við bæjarstjórn að verði viðbyggingin ekki fjarlægð fyrir 1. desember 2004 verði beitt dagsektum.
Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar hinn 27. október 2004.
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að frestað verði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar meðan úrskurðarnefndin hafi kærumál þetta til meðferðar.
Málavextir: Kærandi er eigandi að landspildu í Skammadal í landi Reykja í Mosfellsbæ, en þar stendur húsið Höfði sem reist var á árunum 1936 – 1938 af Starfsmannafélagi Sambands íslenskra samvinnufélaga. Síðar eignaðist kærandi fasteignina og árið 1998 óskaði hann eftir heimild byggingarnefndar Mosfellsbæjar til að setja niður sumarbústað til bráðabirgða á landinu og gaf nefndin út stöðuleyfi til eins árs. Stöðuleyfi þetta var tvívegis framlengt og í bæði skiptin til eins árs, fyrst hinn 22. nóvember 1999 og síðar hinn 5. september 2000. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi innréttað sumarbústaðinn og tengt hann eldra húsinu sem fyrir stóð á landspildunni. Í júlí árið 1999 var kæranda veittur réttur til heilsársbúsetu í húsinu, en bæjaryfirvöld hafa þó vefengt þá heimild.
Eins og fyrr segir veittu byggingaryfirvöld kæranda stöðuleyfi fyrir sumarbústaðnum en beiðni hans um að viðbyggingin fengi að standa til frambúðar var hafnað á fundi byggingarnefndar hinn 16. desember 1999. Kærandi ritaði bæjarráði bréf, dags. 12. mars 2000, þar sem hann fór fram á hið sama, en á fundi skipulagsnefndar hinn 18. apríl sama ár var erindinu synjað og fór nefndin fram á að viðbyggingin yrði fjarlægð. Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar á fundi hinn 26. apríl 2000.
Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 10. september 2002 var tekið til afgreiðslu erindi kæranda þar sem hann óskaði eftir heimild til stækkunar hússins og var eftirfarandi fært til bókar af því tilefni: „Erindi frá Guðmundi Lárussyni, dags. 01.09.2002, þar sem óskað er eftir heimild til stækkunar á húsnæði. Heildarstærð hússins eftir stækkun er 120m². Um er að ræða leyfi fyrir húsnæði sem fékk tímabundið stöðuleyfi til eins árs og rann sá frestur út á árinu 2000. Samkvæmt gildandi aðalskipulagi er sumarhúsið á svæði sem skilgreint er sem almennt útivistarsvæði, þar sem ekki er gert ráð fyrir sumarhúsi eða heilsárshúsi. Málinu frestað og vísað til umhverfisdeildar til frekari skoðunar í samræmi við umræður á fundinum.“
Hinn 5. nóvember 2002 var erindi kæranda tekið til afgreiðslu á ný og er eftirfarandi fært til bókar: „Erindi frá Guðmundi Lárussyni, dags. 29.08.2002. Framhaldsumræða. Símbréf, dags. 4.11.2002, þar sem óskað er eftir frestun á erindi hans. Umræðu um framtíðar landnotkun er frestað. Nefndin ítrekar fyrri samþykktir nefndarinnar um að viðbygging við eldra hús skuli fjarlægð, en framlenging stöðuleyfis hennar rann út 05. september 2001. Nefndin felur umhverfisdeild að vinna að því að viðbyggingin verði fjarlægð.“ Bæjarstjórn staðfesti framangreinda bókun á fundi hinn 13. nóvember 2002.
Í kjölfar bókunar skipulags- og byggingarnefndar sendi byggingarfulltrúi kæranda máls þessa bréf þar sem m.a. sagði: „Þann 14. nóvember 2002 var þér tilkynnt bréflega um afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar vegna framtíðarnotkunar á landi þínu ásamt ítrekun á fyrri samþykktum nefndarinnar um að fjarlægja skuli sumarbústaðinn. Í bréfinu var bent á málskotsrétt samkvæmt 8. gr. skipulags- og byggingarlaga og reglugerðar nr. 621/1997. Hér með tilkynnist að í framhaldi af samþykkt skipulags- og byggingarnefndar þann 05.11.2002 er þess krafist að þú fjarlægir sumarbústaðinn fyrir 6. janúar 2003. Hafi bústaðurinn ekki verið fjarlægður þá verður farið með málið í samræmi við ákvæði 56. og 57. greinar skipulags- og byggingarlaga og dagsektarákvæðum beitt, þar til úr hefur verið bætt. Þetta erindi verður kynnt á fundi skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar þann 3. desember 2002. Að öðru leiti skal bent á meðfylgjandi ákvæði 56. og 57. gr. skipulags- og byggingarlaga um þvingunarúrræði og viðurlög“.
Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 3. desember 2002 var bréf byggingarfulltrúa, dags. 28. nóvember 2002, kynnt nefndinni og bókaði nefndin eftirfarandi: „Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að verði umrædd bygging ekki fjarlægð fyrir tilskilinn tíma þá samþykki bæjarstjórn að beita dagsektum og ákveða upphæð þeirra“ Bæjarstjórn staðfesti framangreint á fundi hinn 18. sama mánaðar.
Kærandi vildi ekki una ákvörðunum bæjaryfirvalda í málinu og skaut hann þeim til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með kæru, dags. 14. desember 2002. Lauk því máli með úrskurði hinn 8. janúar 2004 og var framangreind ákvörðun bæjaryfirvalda felld úr gildi með þeim rökum að ekki hefði verið gætt andmælaréttar kæranda er hin umdeilda ákvörðun var tekin. Lýsti skipulags- og byggingarnefnd Mosfellsbæjar vanþóknun sinni á niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar með ítarlegri bókun á fundi sínum hinn 13. janúar 2004. Var bókun þessi staðfest af bæjarstjórn og send úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 27. janúar 2004. Í niðurlagi umræddrar bókunar sagði svo: „Nefndin samþykkir að fela umhverfisdeild að tilkynna Guðmundi Lárussyni að nefndin muni í framhaldi af úrskurði úrskurðarnefndar í skipulags- og byggingarmálum, dags. 8. janúar 2003 (sic) taka fyrir þann 10. febrúar 2004 kröfu um að fjarlægja skuli sumarhús sem veitt var tímabundið stöðuleyfi fyrir sem stakstætt geymsluhús með vísan til 56 og 57 gr. skipulags- og byggingarlaga. Guðmundi verði gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina andmælum sínum við að byggingin skuli fjarlæg (sic).“
Skipulags- og byggingarnefnd tók málið fyrir á 105. fundi sínum hinn 10. febrúar 2004 eins og áformað hafði verið. Var eftirfarandi m.a. bókað á fundinum: „Samkvæmt samþykkt skipulags- og byggingarnefndar á 103. fundi nefndarinnar var samþykkt að gefa Guðmundi Lárussyni kost á andmælarrétti til 6. feb. 2004 vegna ákvörðunar nefndarinnar um að fjarlægja núverandi viðbyggingu við sumarbústaðinn Höfða í Skammadal, sem veitt var stöðuleyfi fyrir til eins árs sem stakstæðu húsi en ekki sem viðbyggingu. Umrædd viðbygging er sumarbústaður sem Guðmundur fékk leyfi til að láta standa á lóðinni á meðan hann innréttaði bústaðinni sem flytja átti noður í land skv. upplýsingum í umsókn hans. Guðmundi var tilkynnt bréflega um afgreiðslu nefndarinnar á 103. fundi auk þess að haft var samband við hann símleiðis í síðustu viku og hann minntur á þann frest sem honum var gefinn til andmæla, en engar athugsemdir báust frá Guðmundi Lárussyni. Nefndin íterkar kröfu sína um að viðbyggingarbústaðurinn verði fjarlægður nú þegar í samræmi við 56. gr. skipulags- og byggingarlaga, þar sem veitt var tímabundið stöðuleyfi sem nú er löngu útrunnið. Jafnframt áréttar nefndin að engir samþykktir uppdrættir liggja fyrir um burðarvirki húss eða undirstöðu þess. Auk þess er þegar ljóst að þær undirstöður sem eru undir óleyfisbyggingunni uppfylla ekki ákvæði byggingarreglugerðar og gildandi staðla. Ekki liggur fyrir deiliskipulag þar sem gert er ráð fyrir byggingarframkvæmdum. Nefndin ítrekar synjun á fyrri umsókn hans um varanlegt byggingarleyfi fyrir viðbygginguna. Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að verði umrædd viðbyggingi ekki fjarlægð fyrir 1. júní 2004 þá samþykki bæjarstjórn að beyta dagsektum í samræmi við 57 gr. skipulags- og byggingarlaga.“
Framangreind afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar var tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar hinn 18. febrúar 2004 og afgreidd með svofelldri bókun: „ 4. mál. Niðurrif óleyfisbyggingar við Höfða í Skammadal. Til máls tók: RR. Samþykkt með sjö atkvæðum að vísa málinu aftur til nefndarinnar til efnislegrar meðferðar.“
Skipulags- og byggingarnefnd tók málið enn fyrir á 106. fundi sínum hinn 24. febrúar 2004 og var eftirfarandi bókað: „Niðurrif óleyfisbyggingar við Höfða í Skammadal. Tekin var fyrir krafa um að fjarlægja hús sem veitt var tímabundið stöðuleyfi fyrir sem stakstætt geymsluhús með vísan til 56 og 57 gr. skipulags- og byggingarlaga. Vísun frá bæjarstjórn. Fyrir fundinum var greinargerð Guðmundar Lárusson, dags. 06.02.2004. Á fundinum var lagt fram greinargerð bæjarverkfræðings vegna athugasemda Guðmundar Lárusson frá 06.02.2004. Nefndin frestar afgreiðslu málsins til næsta fundar.“
Málið var loks tekið fyrir á 107. fundi nefndarinnar hinn 2. mars 2004 og var enn ítrekuð fyrri synjun á umsókn kæranda um varanlegt byggingarleyfi fyrir viðbyggingunni. Beindi nefndin því til bæjarstjórnar að yrði umrædd viðbygging ekki fjarlægð fyrir 1. júní 2004 myndi bæjarstjórn samþykkja að beita dagsektum í samræmi við 57. gr. skipulags- og byggingarlaga. Var þessi ákvörðun staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 3. mars 2004.
Þessari ákvörðun skaut kærandi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með kæru, dags. 7. apríl 2004.
Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar hinn 12. október 2004 var málið enn tekið fyrir og dró nefndin til baka „…samþykkt sína frá 105. fundi nefndarinnar 10. febrúar sl. þar sem ekki kom nægilega skýrt fram í bókun nefndarinnar hver skyldi fjarlægja óleyfisbygginguna.“
Í framhaldi af afturköllun þessari og með vísunar til 5. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga tók nefndin þá ákvörðun sem kærð er í máli þessu en kærandi dró til baka fyrri kæru frá 7. apríl 2004 með vísan til þess að ekki var þá betur vitað en að hin kærða ákvörðun í því máli hefði verið afturkölluð.
Við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni kom hins vegar í ljós að svo var ekki heldur hafði skipulags- og byggingarnefnd dregið til baka samþykkt frá 10. febrúar 2004 í stað ákvörðunar þeirrar frá 2. mars 2004, sem verið hafði lokaákvörðun nefndarinnar í fyrra máli. Ákvað úrskurðarnefndin að gefa byggingaryfirvöldum kost á að bæta úr þeim ágöllum sem á málinu voru, enda talið að um augljós mistök eða misritun hefði verið að ræða, sem stjórnvaldinu væri heimilt að leiðrétta. Var kæranda jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um þennan þátt málsins.
Með bréfi sem úrskurðarnefndinni barst hinn 7. júní 2005 var gerð grein fyrir af hálfu byggingaryfirvalda í Mosfellsbæ að fyrrnefnd mistök hefðu verið leiðrétt og að ákvörðun nefndarinnar frá 2. mars 2004 hefði verið dregin til baka, enda hefði það verið það sem vakað hefði fyrir nefndinni. Jafnframt var í bréfinu svarað fyrirspurn úrskurðarnefndarinnar um afdrif deiliskipulagstillögu sem auglýst hafði verið snemma árs 2002 og lýst þeirri skoðun að umrædd skipulagstillaga hefði aldrei öðlast gildi.
Með bréfi sem úrskurðarnefndinni barst einnig hinn 7. júní 2005 kom lögmaður kæranda á framfæri athugasemdum hans. Taldi hann orka tvímælis að heimila byggingaryfirvöldum að leiðrétta framangreind mistök. Jafnframt taldi hann að umrædd deiliskipulagstillaga frá 2002 hefði öðlast gildi og að kærandi gæti byggt rétt á því.
Málsrök kæranda: Kærandi heldur því fram að viðbyggingin hafi verið tengd eldra húsinu án nokkurra athugasemda bæjaryfirvalda enda forsendur leyfisins þær að fjölskylda hans gæti búið í húsinu sem heilsárshúsnæði. Á sama tíma hafi staðið fyrir dyrum framkvæmdir við einbýlishús í hans eigu annars staðar í sveitarfélaginu.
Kærandi bendir á að skipulags- og byggingarnefnd hafi samþykkt á fundi hinn 30. apríl 2002 að auglýsa deiliskipulag á landi Höfða, sem sýni húsbyggingu á lóðinni eins og hún sé í dag. Engar athugasemdir hafi borist við tillögu þessari en hún hafi þó ekki verið afgreidd. Kærandi telji hins vegar að hún hafi öðlast gildi.
Með nýlega samþykktu aðalskipulagi fyrir Mosfellsbæ hafi landnotkun þessa svæðis, þar með talið lands kæranda, verið breytt og sé það nú samkvæmt hinu nýja aðalskipulagi skilgreint sem íbúðarsvæði. Hafi sú breyting verið gerð að frumkvæði bæjaryfirvalda og í fullri sátt við kæranda og aðra á svæðinu.
Í samræmi við það hafi þegar verið hafist handa við að deiliskipuleggja land á þessu svæði sem íbúðarbyggð, m.a. í Helgafellslandi, sem liggi næst landi kæranda til norðvesturs. Kærandi hafi farið fram á það að fá að deiliskipuleggja land sitt sumarið 2004 en erindi hans hafi verið hafnað af hálfu Mosfellsbæjar. Á sama tíma hafi öðrum sambærilegum aðilum verið heimilað að deiliskipuleggja eigið land. Telji kærandi þessa afgreiðslu bæjarins enn eina staðfestingu á þeirri mismunun, sem við lýði sé hjá skipulags- og byggingaryfirvöldum í Mosfellsbæ.
Með vísan til framanritaðs sé ljóst að allar forsendur fyrir landnýtingu á því landi sem mál þetta taki til hafi gjörbreyst frá því umræddri viðbyggingu var veitt stöðuleyfið. Landsvæðið sé orðið íbúðarsvæði og því liggi fyrir að þarna verði um íbúðarbyggingar að ræða í næstu framtíð. Hús kæranda að Höfða, bæði eldra hús og viðbygging, standi því ekki í neinni andstöðu við skipulag svæðisins.
Stærstur hluti húss kæranda að Höfða hafi fullt leyfi byggingaryfirvalda og bæjarstjórnar Mosfellsbæjar og ákvörðun og krafa bæjaryfirvalda um að fjarlægja skuli viðbygginguna komi því ekki til með að hafa neina afgerandi breytingu í för með sér fyrir svæðið sem slíkt. Eldra húsið muni standa áfram með fullu byggingarleyfi og búseturétti.
Af hálfu bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ hafi ekki verið sett fram nein efnisleg rök fyrir kröfu þeirra um að fjarlægja skuli viðbygginguna. Krafan sé í raun órökstudd. Kærandi vísi til þess að stjórnvöldum, þ.m.t. bæjarstjórn Mosfellsbæjar, beri við töku ákvarðana sinna að gæta meðalhófs og grípa ekki til harðari aðgerða gegn þegnunum en nauðsynlegt sé. Þessa hafi ekki verið gætt í þessu máli. Kærandi hafi mun meiri hagsmuni af því að viðbyggingin fái að standa en bærinn af því að hún fari. Verði í raun alls ekki séð hvaða hagsmuni bæjaryfirvöld hafi yfirleitt af því að viðbyggingin fari. Sé hér um óskiljanlega valdbeitingu að ræða, sem brjóti í bága við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Þá vísar kærandi til þess að í Skammadal í Mosfellsbæ standi fjöldi húsa, sem ekki hafi verið veitt byggingarleyfi fyrir lögum samkvæmt. Enn fremur sé tveggja hæða hús örskammt frá landi kæranda sem reist hafi verið án tilskilinna leyfa og staðið hafi þar óáreitt árum saman. Ekki virðast hafa komið fram athugasemdir við þessar byggingar og bæjaryfirvöld Mosfellsbæjar, þ.m.t. skipulags- og byggingarnefnd, hafi heldur ekki aðhafst neitt þeirra vegna. Þá hafi bæjaryfirvöld samþykkt fjölda viðbygginga við þegar byggð hús á ýmsum stöðum í sveitarfélaginu og heimilað deiliskipulag eignarlanda á svæðinu. Með því að neita kæranda um heimild til að umrædd viðbygging standi áfram séu bæjaryfirvöld að brjóta gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga, en samkvæmt henni sé stjórnvaldi óheimilt að mismuna aðilum heldur verður það að gæta samræmis og jafnræðis við úrlausn mála. Það geri bæjarstjórn Mosfellsbæjar ekki.
Hvað varðar athugasemdir byggingaryfirvalda um að ekki hafi verið lagðir fram fullnægjandi uppdrættir að hinni umdeildu viðbygginu tekur kærandi fram að hann hafi með umsókn, dags. í apríl 2005, sótt formlega um byggingarleyfi fyrir hinni umdeildu viðbygginu og að umsókninni hafi fylgt allir tilskyldir uppdrættir. Sé það von hans að umsókn hans verði nú samþykkt, enda eigi ekki að vera á því nein vandkvæði.
Loks styður kærandi kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar þeim rökum að ekki hafi af hálfu bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ verið gætt þeirra lágmarksfresta, sem skipulags- og byggingarlög áskilji þegar eiganda mannvirkis sé gert að aðhafast með þeim hætti, sem í hinni kærðu ákvörðun felist. Vísi kærandi í þeim efnum m.a. til gr. 61.6 í byggingarreglugerð, en kæranda hafi ekki verið veittur frestur til samræmis við umrætt ákvæði.
Málsrök Mosfellsbæjar: Af hálfu Mosfellsbæjar er áréttað að í kæru sinni nú virðist kærandi aðallega byggja á því að óleyfisbyggingin sé ekki fyrir neinum og að bærinn hafi enga hagsmuni af því að krefjast þess að hún verði fjarlægð. Kærandi telji sig hins vegar hafa mikla fjárhagslega hagsmuni af því að byggingin fái að standa. Þessu sé til að svara að kærandi hafi í upphafi sótt um bráðabirgðastöðuleyfi og fengið það tímabundið. Hann hafi sjálfur tekið þá ákvörðun að leggja fé og fyrirhöfn í að innrétta húsið og tengja það við eldra hús. Það hafi hann gert vitandi það að hann væri einungis með bráðabirgðastöðuleyfi, sem gefið hafi verið á grundvelli upplýsinga frá honum sjálfum, þess efnis að húsið yrði flutt norður í land eftir veturinn. Það fjárhagstjón sem kærandi kunni að verða fyrir vegna þess að honum sé gert að fjarlægja óleyfisbygginguna sé vegna þess að hann hafi sjálfur kosið að leggja í þann kostnað að innrétta húsið og tengja það við hús það sem fyrir hafi verið á landinu. Ef Mosfellsbær myndi nú heimila þessa óleyfisbyggingu væri verið að senda þau skilaboð til almennings að hægt væri að fá óleyfisbyggingar samþykktar eftir á, ef menn bara streittust nógu lengi á móti því að fjarlægja þær. Slíkt sé í andstöðu við 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Það verði því ekki séð að krafa bæjaryfirvalda um að óleyfisbyggingar verði fjarlægðar fari gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna. Kærandi hafi ekki verið í góðri trú er hann hafi kosið að skeyta húsi með bráðabirgðastöðuleyfi varanlega við húsið sem fyrir hafi verið á lóðinni og megi um þetta vísa til Hæstaréttardóms í máli nr. 114/2001 frá 20. september 2001.
Í kærunni sé því haldið fram að eldra húsið hafi verið heilsársstarfsmannabústaður. Hið rétta sé að aldrei hafi verið búið í þessu húsi meðan það hafi verið starfsmannabústaður. Húsið hafi verið nýtt með þeim hætti sem frístundarhús séu nýtt í dag og hafi ávallt verið skráð sem sumarhús hjá Fasteignamati ríkisins. Búseta í húsinu hafi ekki hafist fyrr en árið 1998.
Þegar stöðuleyfið hafi verið veitt hafi það verið að ósk kæranda og þess jafnframt getið í umsókn hans um stöðuleyfi að um væri að ræða tímabundna staðsetningu hússins einn vetur. Skipulags- og byggingarnefnd hafi ávallt hafnað óskum kæranda um varanlega staðsetningu hússins og hafi þess verið farið á leit við hann að húsið yrði fjarlægt. Um leið og byggingarfulltrúi hafi orðið þess var að húsið hafði verið tengt við eldra húsið hafi hann strax gert athugasemd við það. Fullyrðingar um annað séu ekki réttar. Sú staðhæfing sem fram komi í kærunni um að ástæða framlengingar á stöðuleyfi árið 2001 hafi verið beiðni kæranda um breytta landnotkun á landi hans á þessu svæði sé ekki rétt. Hið rétta sé að á þeim tíma hafi verið unnið að deiliskipulagi og uppbyggingu húss kæranda á annarri lóð í Mosfellsbæ og í ljósi þess og aðstæðna hans hafi þótt rétt að framlengja stöðuleyfið.
Í kærunni komi einnig fram að bæjarverkfræðingur hafi með bréfi til kæranda staðfest heilsársbúseturétt honum til handa. Hið rétta í þessu máli sé að starfsmaður á tæknideild bæjarins hafi útbúið og undirritaði umrætt plagg. Umræddur starfsmaður sé ekki bæjarverkfræðingur þrátt fyrir að hann noti stimpil bæjarverkfræðings. Þetta hafi kæranda verið ljóst í upphafi enda hafi hann fengið umrædda staðfestingu til þess að fá lækkun á kostnaði við heimæðargjald fyrir síma að sögn þess starfsmanns sem hafi útbúið og undirritaði bréfið. Heimild til heilsársbúsetu í húsi sem samkvæmt gildandi aðalskipulagi sé á opnu, óbyggðu svæði sé ekki veitt af starfsmanni, heldur sé það skipulagsskyld ákvörðun sem sveitastjórn veiti í samræmi við lög. Þetta hafi kæranda verið ljóst.
Þá sé í kærunni rætt um deiliskipulagstillögu um stækkun á stofnunarsvæði Reykjalundar sem auglýst hafi verið að beiðni Reykjalundar. Þessi skipulagstillaga hafi aldrei verið samþykkt þar sem Reykjalundur hafi dregið til baka ósk sína um stækkun á stofnunarsvæðinu og í núgildandi aðalskipulagi hafi svæðið í raun verið minnkað frá því sem verið hafi í fyrra aðalskipulagi. Tillagan hafi því, að mati Mosfellsbæjar, ekkert gildi fyrir Höfða, enda hafi þar ekki verið tekið á uppbyggingu svæðisins. Rétt sé að vinna sé hafin við gerð rammaskipulags í landi Helgafells sem sé vestan við Skammadalslæk. Svæðið sé aðgreint frá landi Höfða með belti lands sem sé opið óbyggt svæði og ef rýnt sé í þéttbýlisuppdrátt aðalskipulagsins megi sjá að húsið sé innan þess svæðis sem skilgreint sé sem opið, óbyggt svæði. Það sé því ekki rétt sem komi fram í kærunni að öðrum aðilum hafi verið heimilað að gera deiliskipulag við sambærilegar aðstæður. Í aðalskipulagi Mosfellsbæjar sé svæði fyrir blandaða byggð sem nái inn á land Höfða, tilheyrandi svæði austan Reykjalundar, og sé það til skipulagningar eftir 2012. Það hafi verið stefna Mosfellsbæjar að taka ekki einstök svæði út úr til að skipuleggja sérstaklega heldur sé horft á svæðin sem heild. Rétt sé að til sé nokkurra áratuga gömul heimild til handa eigendum að stærstum hluta umrædds svæðis sem heimili deiliskipulagningu á því svæði, en önnur skipulagslög hafi verið í gildi er sú heimild hafi verið veitt. Skipulagsvinnu við það hafi aldrei verið lokið.
Í kærunni vísi kærandi til þess að í Skammadal standi fjöldi húsa sem ekki hafi verið veitt byggingarleyfi fyrir. Hið rétta sé að Mosfellsbær hafi ekki veitt byggingarleyfi fyrir húsi í Skammadal í 23 ár. Flest „hús“ sem standi í Skammadal séu kartöflugeymslur. Það tvílyfta hús sem minnst sé á í kærunni sé væntanlega frístundarhús í landi Helgafells, vestan við Skammadalslækinn, og sé það eldra en 23 ára og hafi sennilega verið samþykkt á sama hátt og bústaðurinn Höfði á sínum tíma.
Mosfellsbær leggi áherslu á að um sé að ræða óleyfisbyggingu. Stöðuleyfi fyrir henni hafi verið framlengt og frá því það hafi runnið út hafi Mosfellsbær ítrekað farið fram á að byggingin yrði fjarlægð án þess að kærandi hafi orðið við því. Engar teikningar séu til að húsinu og við skoðun byggingarfulltrúa hafi komið í ljós að undirstöðum sé áfátt. Ljóst sé að frá upphafi hafi Mosfellsbær verið á móti því að þessi bygging fengi að standa til framtíðar og um það vitni nokkrar samþykktir skipulags- og byggingarnefndar sem staðfestar hafi verið af bæjarstjórn.
Það sé alveg ljóst að það sé ekki til staðar deiliskipulag fyrir þetta svæði sem geri ráð fyrir byggingarframkvæmdum. Þá sé það alveg ljóst að samkvæmt 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 beri að fjarlægja byggingar sem reistar séu í óleyfi. Flóknara sé málið ekki.
Mosfellsbær telji því að efni og lög standi ekki til annars en að samþykkt skipulags- og byggingarnefndar frá 12. október 2004 verði staðfest.
Vettvangsganga: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 13. apríl 2005 að viðstöddum kæranda og byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar.
Niðurstaða: Ekki verður fallist á með kæranda að þeir annmarkar sem voru á hinni kærðu ákvörðun og í ljós komu við meðferð málsins hafi verið þess eðlis að ekki hafi verið heimilt að gefa skipulags- og byggingarnefnd kost á að leiðrétta bókun sína í málinu. Telur úrskurðarnefndin að aðalefni hinnar kærðu ákvörðunar hefði getað staðið óhaggað þrátt fyrir þennan annmarka en rétt þótti að beina því til nefndarinnar að leiðrétta bókunina til að réttar forsendur væru fyrir afturköllun og niðurfellingu fyrra kærumáls. Verður málið því tekið til meðferðar eftir þá leiðréttingu sem skipulags- og byggingarnefnd hefur gert á bókun sinni.
Ekki verður heldur fallist á að ógilda beri hina kærðu ákvörðun þar sem að kæranda hafi ekki verið veittur sá frestur til framkvæmdar hennar sem honum beri að lögum. Að vísu má finna að því að í hinna kærðu ákvörðun var kæranda gert að fjarlægja umrætt hús þegar í stað en til þess verður hins vegar að líta að að í ákvörðuninni felst einnig að þvingunarúrræðum verði ekki beitt fyrr en að fullum mánuðum liðnum og verður að telja að með því hafi verið fullnægt lagaskilyrðum þeim sem kærandi vísar til.
Hin kærða ákvörðun fól í sér að lagt var fyrir kæranda að fjarlægja hús sem skeytt hefur verið við hús kæranda að Höfða í Skammadal í Mosfellsbæ. Fékk kærandi á sínum tíma leyfi til að flytja það á land sitt að Höfða, en um tímabundið stöðuleyfi var að ræða. Leyfið var síðar tvívegis endurnýjað en er löngu útrunnið.
Ekki verður talið að í leyfi þessu hafi falist heimild til að tengja húsið við hús það sem fyrir var á landinu eða koma því fyrir á undirstöðum með þeim hætti sem kærandi gerði. Voru þær framkvæmdir byggingarleyfisskyldar og hefðu átt að fara fram undir eftirliti byggingarfulltrúa og sæta úttektum í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar þar um. Voru þessar framkvæmdir kæranda því ólögmætar og fóru þar að auki í bága við þágildandi skipulag. Voru ákvarðanir bæjaryfirvalda um að synja umsókn kæranda um varanlegt leyfi fyrir byggingunni framan af studdar þeim rökum að byggingin færi í bága við skipulag og væri því ekki unnt að fallast á umsókn um byggingarleyfi fyrir húsinu. Voru þau rök í fullu samræmi við ákvæði 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Við gildistöku Aðalskipulags Mosfellsbæjar 2002-2024 breyttust þessar forsendur þar sem nú er gert ráð fyrir íbúðarbyggð á umræddu svæði, sem áður var opið svæði. Verður ekki dregin sú ályktun að með því að rýna í þéttbýlisuppdrátt aðalskipulagsins megi sjá að hluti mannvirkja að Höfða sé utan íbúðarsvæðis, enda gefur mælikvarði aðalskipulags ekki tilefni til slíkra ályktana. Verður því að leggja til grundvallar að umrædd mannvirki séu á fyrirhuguðu íbúðarsvæði. Af því leiðir að ekki er lengur skylt að fjarlægja umrætt hús með vísan til 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga en eftir stendur að byggingarnefnd er heimilt að mæla fyrir um að fjarlægja skuli ólöglega byggingu eða byggingarhluta með stoð í 5. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga. Verður að ætla byggingaryfirvöldum nokkurt svigrúm til mats á því hvort beita eigi umræddu heimildarákvæði og þykja ekki efni til að hnekkja mati byggingaryfirvalda Mosfellsbæjar í því efni. Verður því að telja að sú ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar að leggja fyrir kæranda að fjarlægja hina umdeildu viðbyggingu hafi verið lögmæt og verður því hafnað kröfu kæranda um ógildingu hennar. Með tilliti til málskotsréttar kæranda er þó lagt fyrir bæjarstjórn að ákvarða að nýju frest kæranda til að fjarlægja sjálfur hina umdeildu byggingu, sbr. 1. mgr. 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Með hinni kærðu ákvörðun var einnig ítrekuð fyrri synjun byggingaryfirvalda á umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir hinni umdeildu viðbyggingu. Eiga fyrri röksemdir um skipulag þó ekki lengur við en þess í stað er nú vitnað til þess að uppdrætti skorti að mannvirkinu og að undirstöður þess séu ófullnægjandi.
Úrskurðarnefndinni er kunnugt um að fyrir skipulags- og byggingarnefnd liggur ný umsókn kæranda um byggingarleyfi og að uppdrættir hafi verið lagðir fram. Þykir við þessar aðstæður ekki hafa þýðingu að staðfesta ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar um að ítreka synjun á umsókn kæranda um byggingarleyfi og verður því ekki frekar um hana fjallað. Verður að vænta þess að umsókn kæranda komi til afgreiðslu áður en ákvörðun um að beita þvingunarúrræðum getur komið til álita.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu þeirrar ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 12. október 2004 að leggja fyrir kæranda að fjarlægja hús það sem kærandi skeytti án heimildar við húseign sína að Höfða í Skammadal.
_____________________
Ásgeir Magnússon
_______________________ _________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Sesselja Jónsdóttir