Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

10/2004 Vesturgata

Ár 2005, fimmtudaginn 13. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 10/2004, kæra eigenda fasteignanna nr. 23 og 25 við Vesturgötu, Akranesi á samþykkt bæjarstjórnar Akraness frá 16. desember 2003 um breytingu á deiliskipulagi Breiðarsvæðis á Akranesi er fól í sér breytt lóðamörk milli fasteignanna að Vesturgötu 3-9 og Vesturgötu 25a og skilgreiningu á aðkomu að síðarnefndri lóð.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 25. janúar 2004, er barst úrskurðarnefndinni hinn 28. sama mánaðar, kæra E og M, Vesturgötu 23 og 25, Akranesi, samþykkt bæjarstjórnar Akraness frá 16. desember 2003 um breytingu á deiliskipulagi Breiðarsvæðis á Akranesi er fól í sér stækkun lóðarinnar að Vesturgötu 25a og skilgreinda aðkomu að þeirri lóð. Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Málavextir:  Með bréfi, dags. 15. ágúst 2003, sóttu eigendur lóðarinnar nr. 25a við Vesturgötu á Akranesi um breytingu á gildandi deiliskipulagi fyrir svonefnt Breiðarsvæði frá árinu 1998 vegna stækkunar á lóðinni að Vesturgötu 25a um 135 fermetra með því að taka samsvarandi spildu úr lóðinni að Vesturgötu 3-9.   Breytingin fól í sér stækkun lóðarinnar að Vesturgötu 25a úr 679 fermetrum í 814 fermetra en lóðin að Vesturgötu 3-9 minnkaði að sama skapi og yrði 7.923 fermetrar.  Jafnframt var í umsóttri breytingu gert ráð fyrir kvöð um aðkomu að Vesturgötu 25a frá Bakkatúni.

Á fundi hinn 29. september 2003 samþykkti skipulags- og umhverfisnefnd bæjarins að grenndarkynna umsótta deiliskipulagsbreytingu skv. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og staðfesti bæjarráð þá ákvörðun hinn 2. október sama ár.  Við grenndarkynninguna komu fram tvær athugasemdir í bréfum, dags. 15. nóvember 2003, þar sem kærendur í máli þessu mótmæltu fyrirhugaðri breytingu.  Að grenndarkynningu lokinni var deiliskipulagstillagan tekin fyrir á fundi skipulags- og umhverfisnefndar bæjarins hinn 1. desember 2003 og tillagan samþykkt óbreytt.  Þessi afgreiðsla nefndarinnar var staðfest á fundi bæjarráðs Akraness hinn 4. desember og á fundi bæjarstjórnar hinn 16. desember 2003 og gildistökuauglýsing birt í B-deild Stjórnartíðinda að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar.

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að á lóðinni nr. 25a við Vesturgötu, Akranesi, hafi um áratuga skeið verið geymslur fyrir byggingavöruverslun en á árinu 1995 eða 1996 hafi orðið eigendaskipti að fasteigninni.  Síðan hafi fasteignin verið leigð undir rekstur vélsmiðju án samráðs við kærendur sem eigi fasteignir er liggi að umdeildri lóð.  Kærendur telja að fyrir dyrum standi að selja umrædda fasteign til fyrirtækis er reki stórar vinnuvélar og sé hin kærða deiliskipulagsbreyting til þess fallin að skapa greiðari aðgang að Vesturgötu 25a og aðstöðu til viðgerða á stórum vinnuvélum sem raski grenndarhagsmunum kærenda.

Ekki verði annað séð en að Aðalskipulag Akraneskaupstaðar 1992-2012 geri ráð fyrir grænu svæði á umræddri lóð og þar sé því ekki gert ráð fyrir iðnaðar- eða atvinnuhúsnæði.  Sé breytingu á lóðamörkum samkvæmt hinu kærða skipulagi því eindregið mótmælt.

Málsrök Akranesbæjar:  Af hálfu Akranesbæjar er á það bent að mótmæli kærenda lúti að hugsanlegri notkun lóðarinnar að Vesturgötu 25a.  Í gildandi deiliskipulagi séu lóðirnar að Vesturgötu 3-9 og 25a skilgreindar sem iðnaðarlóðir.  Hin umdeilda skipulagsbreyting feli aðeins í sér breytt lóðamörk milli fyrrgreindra lóða og geti framkomnar athugasemdir kærenda því ekki haggað gildi skipulagsbreytingarinnar.

Niðurstaða:  Málsrök kærenda fyrir kröfu um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar lúta að hugsanlegri nýtingu lóðarinnar að Vesturgötu 25a á Akranesi, en sú lóð er í næsta nágrenni við fasteignir þeirra.  Telja kærendur að nýting lóðarinnar til atvinnustarfsemi sé í andstöðu við gildandi aðalskipulag bæjarins.

Umdeild deiliskipulagsbreyting felur aðeins í sér breytingu á innbyrðis lóðamörkum lóðanna nr. 3-9 og 25a við Vesturgötu auk þess sem gerð er kvöð um aðkomu að Vesturgötu 25a utan lóða kærenda.  Í skipulagsbreytingunni er ekki tekin ákvörðun um breytingu á landnotkun umræddrar lóðar frá því sem gert er ráð fyrir í deiliskipulagi svæðisins frá árinu 1998, en það deiliskipulag sætir ekki endurskoðun úrskurðarnefndarinnar þar sem kærufrestur vegna þeirrar skipulagsákvörðunar er löngu liðinn skv. 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Að þessu virtu verður hin umdeilda deiliskipulagsbreyting ekki talin þess eðlis að hún raski hagsmunum kærenda með þeim hætti að ógildingu varði og er kröfu þeirra þar að lútandi því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á samþykkt bæjarstjórnar Akraness frá 16. desember 2003 um breytingu á deiliskipulagi Breiðarsvæðis á Akranesi.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir