Ár 2004, fimmtudaginn 11. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 24, Reykjavík. Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.
Fyrir var tekið mál nr. 27/2002, kæra eigenda húseignarinnar að Birtingakvísl 15, Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. apríl 2002 um breytingu á aðal- og deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 10 við Bleikjukvísl.
Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. júní 2002, er barst nefndinni hinn 12. sama mánaðar, kæra Á og E, eigendur húseignarinnar að Birtingakvísl 15, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. apríl 2002 að breyta aðal- og deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 10 við Bleikjukvísl, Reykjavík.
Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Samþykkt skipulags- og byggingarnefndar var staðfest í borgarráði hinn 30. apríl 2002.
Málavextir: Húseignin að Birtingakvísl 15, Reykjavík stendur innst í götu og austan og sunnan hennar er lóðin að Bleikjukvísl 10. Á milli þeirra er göngustígur.
Samkvæmt aðalskipulagi var svæðið skilgreint sem útivistarsvæði til sérstakra nota. Deiliskipulag frá árinu 1982 gerði ráð fyrir dagvistarstarfsemi en með samþykkt skipulagsnefndar hinn 5. júní 1989 og samþykkt borgarráðs hinn 6. sama mánaðar var samþykkt deiliskipulag lóðarinnar sem kvað á um að lóðin skyldi nýtt undir gæsluvöll. Á lóðinni skyldi standa um 60 m² hús og leiktæki en stór hluti lóðarinnar skyldi vera óraskaður. Rekstri gæsluvallarins var hætt fyrir nokkrum árum og var þá húsið sem stóð á lóðinni flutt burtu.
Í júlí árið 2001 sótti núverandi lóðarhafi um að fá lóðinni nr. 10 við Bleikjukvísl úthlutað fyrir leikskóla. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 30. sama mánaðar var bókað að það samrýmdist skipulagi að byggja leikskóla á lóðinni og var beiðninni vísað til skrifstofustjóra borgarverkfræðings. Í kjölfarið var honum úthlutað lóðinni og sótti hann um byggingarleyfi fyrir leikskóla. Byggingarleyfisumsóknin var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 30. janúar 2002. Ákvörðun í málinu var þá frestað en samþykkt að auglýsa óverulega breytingu á aðalskipulagi þar sem lóðinni skyldi breytt úr grænu svæði í stofnanasvæði. Jafnframt var bókað að hönnuður hússins skyldi hafa samband við skipulagsfulltrúa vegna breytinga á deiliskipulagi. Á fundi borgarráðs hinn 5. febrúar s.á. var staðfest afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar og í kjölfarið var þess óskað við Skipulagsstofnun að hún mælti með því við umhverfisráðuneytið að heimilað yrði að auglýsa óverulega breytingu á aðalskipulagi vegna lóðarinnar. Skipulagsstofnun lagði ofangreint til við umhverfisráðuneytið sem féllst á beiðnina. Tillaga að breyttu aðalskipulagi var auglýst til kynningar frá 19. febrúar 2002 með athugasemdafresti til 20. mars s.á. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 8. febúar 2002 var samþykkt að grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar Bleikjukvísl 10 fyrir húseigendum að Bleikjukvísl 1, 2, 6, 8, 12, 14, 16, 18, 24 og 26, Birtingakvísl 11-19 (oddatölur), frá 19. febrúar 2002 til og með 19. mars sama ár.
Tilkynning um grenndarkynningu á tillögu að breyttu deiliskipulagi var send til hagsmunaaðila með bréfi, dags. 18. febrúar 2002. Þar var sérstaklega vakin athygli á að samhliða grenndarkynningunni væri auglýst tillaga að breyttu aðalskipulagi og var auglýsing um breytinguna látin fylgja. Í tilkynningunni var vísað í uppdrátt er fylgdi henni, þar sem kom fram að tillögunni væri ætlað að breyta samþykktu deiliskipulagi frá árinu 1982 þar sem gert var ráð fyrir dagvistun á lóðinni.
Að lokinni auglýsingu um tillögu að breyttu aðalskipulagi og grenndarkynningu voru tillögurnar lagðar fram á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 24. apríl 2002. Þá voru einnig á sama fundi lagðar fram athugasemdir sem borist höfðu við kynningu þeirra, en athugasemdir bárust m.a. frá kærendum. Nefndin samþykkti tillögurnar þó með þeirri breytingu að bílastæði leikskólans skyldi einnig komið fyrir sunnan leikskólans með aðkomu frá Streng. Borgarráð staðfesti afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar á fundi hinn 30. apríl 2002 og var þeim er settu fram athugasemdir kynnt afgreiðsla nefndarinnar með bréfi, dags. 13. maí 2002. Auglýsingar um gildistöku aðal- og deiliskipulagsbreytinganna birtust í B-deild Stjórnartíðinda hinn 28. júní 2002.
Eftir framangreinda atburðarás áttu sér stað viðræður kærenda og byggingaryfirvalda um sættir málsins og óskuðu kærendur eftir því að Reykjavíkurborg keypti húseign þeirra. Því var hafnað með vísan til þess að ekki lægi fyrir í málinu bótaábyrgð borgarinnar og tókust ekki sættir með aðilum.
Kærendur hafa skotið ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir.
Málsrök kærenda: Kærendur krefjast þess að breyting sú sem skipulags- og byggingarnefnd samþykkti á aðalskipulagi vegna lóðarinnar nr. 10 við Bleikjukvísl verði felld úr gildi með vísan til þess að málsmeðferð og efnislegur grundvöllur ákvörðunarinnar séu haldin slíkum ágöllum að ógildingu hennar varði. Í bréfi Borgarskipulags til Skipulagsstofnunar, dags. 4. janúar 2002, sé þess getið að breyting aðalskipulagsins sé gerð til þess að samræmi sé á milli gildandi deiliskipulags og aðalskipulags svæðisins og þess getið að svo virðist sem lóðin hafi í aðalskipulagi verið skilgreind sem grænt svæði fyrir misgáning og því sé aðeins um leiðréttingu að ræða á gildandi aðalskipulagi. Þá benda kærendur á að hið sama komi einnig fram í greinargerð með aðalskipulaginu og auglýsingu þess.
Kærendur halda því fram að ákvörðun um breytingu á aðalskipulagi, sem reist sé á ofangreindu, byggist á ómálefnalegum sjónarmiðum og sé því ólögmæt að efni til og ógildanleg. Með skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 hafi verið lögfest stigskipting skipulagsáætlana þannig að skipulagsáætlanir af æðra stigi gangi framar skipulagsáætlunum af lægra stigi og sé ósamræmi þarna á milli víki hinar lægra settu. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. og 9. gr. laganna skuli aðalskipulag fela í sér stefnu sveitarstjórnar um landnotkun, þróun byggðar o.fl., en nánari útfærsla þess komi fram í deiliskipulagi, sbr. 3. mgr. 2. gr. sömu laga. Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skuli deiliskipulag grundvallast á aðalskipulagi en ekki öfugt og sé ósamræmi þarna á milli víki deiliskipulagið og þar með sé það ógilt. Aðalskipulag og tillaga um breytingu á því geti ekki byggst á því að verið sé að færa aðalskipulag til samræmis við deiliskipulag.
Kærendur halda því fram að kynning aðalskipulagstillögu sem beri að með ofangreindum hætti sé til þess fallin að valda misskilningi hjá almenningi. Misskilningurinn geti leitt til andvaraleysis um hinn mikilvæga rétt til að koma að athugasemdum um aðalskipulagstillögu sem síðan verður forsenda deiliskipulags á svæðinu og þar með bundið skilmála þess. Við slíka málsmeðferð sé sköpuð rík hætta á því að hagsmunaaðilar missi af möguleikanum á að koma að grundvallarsjónarmiðum sínum um skipulagið sem varði einmitt aðalskipulagið en ekki nánari útfærslur í deiliskipulagi. Slík málsmeðferð brjóti gegn markmiðum 1. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem segi að markmið laganna sé að tryggja vandaða málsmeðferð og réttaröryggi, sbr. gr. 3.2 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998. Málsmeðferð í máli þessu sé haldin verulegum ágöllum og til þess fallin að valda ruglingi hjá hagsmunaaðilum og því hljóti aðalskipulagið að teljast ógilt.
Kærendur krefjast þess að breyting sú sem skipulags- og byggingarnefnd samþykkti á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 10 við Bleikjukvísl verði felld úr gildi. Kærendur benda á að eldra deiliskipulag lóðarinnar, sem samþykkt var árið 1982, hafi gert ráð fyrir dagvistun á lóðinni en við endurskoðun Aðalskipulags Reykjavíkurborgar 1990-2010 hafi landnotkun lóðarinnar verið breytt úr íbúðarsvæði í útivistarsvæði til sérstakra nota og síðan þá haldist óbreytt. Ósamræmi hafi því verið milli aðalskipulags og deiliskipulags lóðarinnar og því teljist eldra deiliskipulagið ógilt, sbr. 1. mgr. 23. gr. og 7. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Málsmeðferð sú sem viðhöfð hafi verið í málinu hafi því verið röng. Ekki hafi verið um löglega breytingu deiliskipulags að ræða, skv. 2. mgr. 26. gr laganna þar sem ekkert gilt deiliskipulag hafi tekið til lóðarinnar. Vegna þessa hafi deiliskipulagið átt að fara eftir 25. gr. laganna og þegar af þeirri ástæðu verði hin kærða deiliskipulagsbreyting að teljast ógild.
Þessu til viðbótar benda kærendur á að deiliskipulagið verði allt að einu að teljast ógilt með vísan til þess að grenndarkynning deiliskipulagstillögunnar hafi farið fram samhliða auglýsingu aðalskipulagstillögunnar. Í 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé heimild til að auglýsa tillögu að deiliskipulagi samhliða auglýsingu um samsvarandi tillögu að breyttu aðalskipulagi. Þessi heimild eigi aðeins við um þá málsmeðferð sem viðhöfð sé þegar deiliskipulagstillaga sé auglýst skv. 25. gr. eða 1. mgr. 26. gr. laganna. Þegar beitt sé undanþáguheimild 2. mgr. 26. gr. laganna eigi heimild 2. mgr. 23. gr. ekki við og því sé óheimilt að grenndarkynna tillögu að óverulegri breytingu á deiliskipulagi skv. 2. mgr. 26. gr. samhliða auglýsingu á tillögu að breyttu aðalskipulagi. Þessi málsmeðferð fullnægi ekki efniskröfum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og því sé ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar ógildanleg. Heimild 2. mgr. 23. gr. laganna sé undanþáguheimild sem beri að túlka þröngt eða eftir orðanna hljóðan en ekki rýmkandi skýringu þannig að hún nái einnig til málsmeðferðar skv. 2. mgr. 26. gr. laganna.
Kærendur vísa einnig til þess að málsmeðferð skv. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé undanþágumeðferð sem geri minni kröfur til málsmeðferðar en 25. gr. og 1. mgr. 26. gr. s.l.
Kærendur benda á að í lögskýringargögnum komi skýrt fram að hugtakið „óverulegar breytingar“ á deiliskipulagi, sem sé forsenda beitingar 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, beri að túlka þröngt. Breyting deiliskipulags geti ekki talist óveruleg þegar sjálfu aðalskipulaginu, grundvelli deiliskipulagsins, sé breytt samhliða og alls ekki þegar aðalskipulagsbreytingin sé breyting á landnotkun úr útivistarsvæði í stofnanasvæði, sem sé grundvallarbreyting efnislega þótt hún varði aðeins lítið svæði.
Kærendur halda því og fram að óheimilt sé að auglýsa gildistöku deiliskipulags í Stjórnartíðindum fyrr en eftir að gildistaka samsvarandi aðalskipulagsbreytingar hafi verið auglýst þar og vísa til lögskýringargagna með lögum nr. 170/2000. Þetta sé til að uppfylla hina ríku kröfu skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um að deiliskipulag verði að byggja á gildu aðalskipulagi. Í máli kærenda hafi þannig háttað til að auglýsing um hina kærðu deiliskipulagsbreytingu hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 28. júní 2002 og hafi þar með tekið gildi, sbr. gr. 6.4 í skipulagsreglugerð. Sama dag hafi auglýsing um hina kærðu aðalskipulagsbreytingu verið birt þar og á sama hátt þar með öðlast gildi. Þessi birtingarháttur valdi því að gildistaka aðalskipulagsbreytingarinnar og deiliskipulagsbreytingarinnar sé nákvæmlega samtímis, sbr. 7. gr. laga nr. 64/1943, um birtingu laga og stjórnvaldserinda, og uppfylli ekki kröfu skipulags- og byggingarlaga um að deiliskipulag byggi á gildu aðalskipulagi. Þetta sjónarmið komi einnig fram í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 10. júní 2002, þar sem segi að stofnunin geri ekki athugasemdir við að deiliskipulagbreytingin verði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda þegar breyting á aðalskipulagi fyrir sama svæði hafi tekið gildi. Öll málsmeðferð á ákvörðunarstigi í máli þessu sé algerlega samtímis, bæði hvað varðar aðalskipulagið og deiliskipulagið. Málsmeðferð standist ekki kröfur skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um að ákvarðanir um deiliskipulag byggi á gildu aðalskipulagi og því teljist deiliskipulagsbreytingin ógild.
Kærendur byggja einnig á því að við málsmeðferð deiliskipulagsbreytingarinnar hafi ekki verið gætt ákvæðis 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þess efnis að sveitarstjórn sendi Skipulagsstofnun hið breytta skipulag, sbr. 3. mgr. 25. gr. laganna, ásamt yfirlýsingu um að hún taki að sér að bæta það tjón er einstakir aðilar kunni að verða fyrir við breytinguna. Samkvæmt 3. mgr. 25. gr. laganna beri að senda Skipulagsstofnun þær athugasemdir sem gerðar hafi verið við deiliskipulagstillöguna en ekki sé vísað til þeirra í meðsendum gögnum frá skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkurborgar, sbr. bréf, dags. 31. maí 2002. Þá sé hvergi að finna yfirlýsingu um bótaábyrgð, hvorki á deiliskipulagsuppdrættinum né í áðurnefndu bréfi, dags. 31. maí 2002.
Kærendur krefjast einnig ógildingar deiliskipulagsins sökum þess að breytingin, sem gerð hafi verið á deiliskipulagstillögunni eftir grenndarkynninguna, varðandi aðkomu viðskiptavina leikskólans frá Streng í stað Bleikjukvíslar, sé grundvallarbreyting og hana hafi þurft að grenndarkynna sérstaklega, sbr. 2. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga. Lóðin standi við Bleikjukvísl og eðli málsins samkvæmt hljóti aðkoman að vera frá þeirri götu sem lóðin standi við. Auk þess standist þessi breyting ekki efnislega þar sem að við gerð hennar hafi ekki verið fylgt ákvæðum skipulagsreglugerðar gr. 3.1.1 nr. 400/1998 þar sem kveðið sé á um að við skipulagsgerð skuli ávallt taka sérstakt tillit til þarfa barna, fatlaðra og aldraðra við ákvarðanir um landnotkun og tilhögun mannvirkja svo sem vega, stíga, bílastæða o.fl. Þá hafi heldur ekki verið tekið tillit til umferðaröryggissjónarmiða því mörg börn eigi leið um Streng á sama tíma og mesta umferðin sé í kringum leikskólann. Bílastæðin sem breytingin geri ráð fyrir séu hornrétt á akstursstefnu við Streng, sem sé mikil umferðargata. Slík bílastæði séu talin óæskileg vegna umferðaröryggissjónarmiða og vísa kærendur í þessu sambandi til bréfs Borgarverkfræðings í Reykjavík, dags. 21. ágúst 1996, þar sem lagst hafi verið gegn þess háttar bílastæðum við Stakkahlíð. Með því að kynna ekki breytinguna sérstaklega og kanna nánar en gert var, hvaða áhrif hún hefði á umferðaröryggi og þarfir barna í hverfinu, hafi skipulags- og byggingarnefnd brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1997. Þessi breyting sé ekki bindandi þar sem hún sé sett fram í skipulagsgreinargerð en ekki skipulagsskilmálum.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg bendir á að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hafi ekki úrskurðarvald um gildi hinnar kærðu aðalskipulagsbreytingar.
Varðandi deiliskipulagsbreytinguna þá heldur Reykjavíkurborg því fram að um óverulega breytingu hafi verið að ræða frá gildandi deiliskipulagi svæðisins. Því hafi verið heimilt að fara með tillöguna samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, enda hafi samhliða verið auglýst breyting á aðalskipulagi og athygli athugasemdaraðila sérstaklega vakin á því. Telja verði að heimilt sé, á grundvelli 2. mgr. 23. gr. laganna, að grenndarkynna breytingu samhliða auglýsingu á óverulegri breytingu á aðalskipulagi, sbr. tilgang og markmið þess sem að hafi verið stefnt með lagagreininni. Reykjavíkurborg bendir á að fyrst hið meira sé heimilt hljóti hið minna að vera það einnig, enda liggi sömu rök til grundvallar hvoru tveggja. Ákvæði 2. mgr. 26. gr. og 2. mgr. 21. gr. skipulags- og byggingarlaga verði að skýra í samræmi við ákvæði 2. mgr. 23. gr. laganna. Í ljósi þessa sé ekkert óeðlilegt við að málsmeðferð tillagnanna hafi farið fram samhliða enda samrýmist það beinlínis tilgangi og markmiðum ákvæða 2. mgr. 23. gr. laganna.
Reykjavíkurborg fellst á það með kærendum að láðst hafi að lýsa því yfir á uppdrætti eða í bréfi til Skipulagsstofunar að borgarsjóður bæti það tjón sem einstakir aðilar kunni að verða fyrir við breytinguna. Slíkri yfirlýsingu hafi verið bætt inn á uppdráttinn enda um augljósa villu að ræða.
Hvað varði athugasemdir kærenda um bílastæðin við Streng þá sé því mótmælt að Reykjavíkurborg hafi ekki verið heimilt að gera þessa breytingu á hinni kynntu tillögu við meðferð málsins, enda hafi þess verið krafist af flestum athugasemdaraðilum málsins, þ.m.t. kærendum. Sérfræðingar Reykjavíkurborgar hafi metið það svo að umferðaröryggi við Streng væri fullnægjandi með tilliti til aðstæðna. Ekki hafi verið ástæða til þess að fjalla um bílastæðin í skilmálum enda séu þau sýnd á uppdrættinum. Fráleitt sé að halda því fram að ákvörðun um þau sé ekki bindandi.
Andsvör kærenda við málsrökum Reykjavíkurborgar: Kærendur hafna þeirri fullyrðingu Reykjavíkurborgar að úrskurðarnefndina skorti lagaheimild til að leggja mat á breytinguna á aðalskipulaginu. Á því sé byggt að það sé of þröng afmörkun á valdsviði nefndarinnar og í andstöðu við tilgang 1. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um réttaröryggi, að nefndin geti ekki lagt mat á málsmeðferð og ákvarðanir á sveitarstjórnarstigi þótt þær séu síðan afgreiddar embættisafgreiðslu af umhverfisráðuneytinu. Auk þess sé á því byggt að það sé of þröng afmörkun á valdsviði úrskurðarnefndarinnar að hún geti ekki endurskoðað staðfestingu umhverfisráðherra á aðalskipulagi þar sem við afgreiðslu aðalskipulags í ráðuneyti sé ekki gætt þeirrar vönduðu málsmeðferðar sem kærumeðferð geri ráð fyrir.
Málsrök lóðarhafa: Í bréfi, dags. 10. desember 2002, lýsa lóðarhafar því að aðkoma viðskiptavina leikskólans er komi akandi sé aðallega frá Streng og þeir sem komi gangandi fari sömu leið, en einnig sé göngustígur við Bleikjukvísl notaður.
Lóðarhafar greina einnig frá því að þeir hafi óskað eftir því við byggingarfulltrúa að hlið inn á leikskólalóðina verði fært. Þá sé á lóðarmörkum gert ráð fyrir trjágróðri.
Vettvangsganga: Úrskurðarnefndin hefur skoðað aðstæður á vettvangi og kom þá í ljós að bílastæði eru við Streng og hlið inn á leikskólalóðina snýr að Streng. Samkvæmt upplýsingum frá byggingaryfirvöldum hefur verið sótt um leyfi fyrir þeirri staðsetningu en sú umsókn hefur ekki verið tekin til afgreiðslu.
Niðurstaða: Kærendur í máli þessu krefjast ógildingar á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar um breytingu á aðalskipulagi borgarinnar vegna lóðarinnar nr. 10 við Bleikjukvísl og samhljóða deiliskipulags vegna sömu lóðar. Hefur úrskurðarnefndin áður skorið úr um hliðstæð álitaefni, sbr. m.a. með úrskurði í máli nr. 22/2003, uppkveðnum hinn 20. nóvember 2003. Með vísan til þess er það niðurstaða nefndarinnar að aðalskipulagsuppdráttur vegna lóðarinnar nr. 10 við Bleikjukvísl sæti ekki endurskoðun úrskurðarnefndarinnar, þar sem hann er staðfestur af ráðherra sem æðsta handhafa stjórnsýsluvalds. Samkvæmt framansögðu verður kröfu kærenda um ógildingu samþykktar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur um breytt aðalskipulag lóðarinnar vísað frá úrskurðarnefndinni.
Kærendur halda því fram að borgaryfirvöldum hafi verið óheimilt að grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðarinnar og auglýsa breytingu á aðalskipulagi hennar á sama tíma. Hvað þetta atriði varðar verður að líta til tilurðar heimildar sveitarfélaga þess efnis að auglýsa samhliða tillögu að aðalskipulagi og tillögu deiliskipulags, sbr. 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Heimild þessi var sett með lögum um breytingu á skipulags- og byggingarlögum nr. 170/2000 og var tilefnið úrskurður úrskurðarnefndarinnar þess efnis að sveitarfélögum væri skylt að ganga frá aðalskipulagsbreytingu að fullu áður en deiliskipulagstillaga væri kynnt. Í greinargerð með frumvarpi því sem síðar varð að lögum nr. 170/2000 kemur fram að heimildin sé sett í lög svo unnt sé að auglýsa deiliskipulagstillögur, samkvæmt 25. og 26. gr. laganna, samtímis auglýsingu samkvæmt 21. gr. á tillögu að samsvarandi breytingu á aðalskipulagi. Í lagatexta og lögskýringargögnum er einvörðungu getið um tillögu að breyttu deiliskipulagi sem sé auglýst en í engu getið um tillögu að breyttu deiliskipulagi sem sé grenndarkynnt. Skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 og skipulagsreglugerð nr. 400/1998 hafa að geyma ítarleg ákvæði um kynningu skipulagstillagna og samráð við skipulagsgerð. Þessum ákvæðum er m.a. ætlað að tryggja vandaða málsmeðferð og réttaröryggi. Heimild sveitarstjórna til að auglýsa tillögu að deiliskipulagi samhliða auglýsingu tillögu að samsvarandi breytingu á aðalskipulagi er undantekning frá þeirri meginreglu að deiliskipulag skuli gert á grundvelli aðalskipulags og hana verður í ljósi framanritaðs að skýra þröngri lögskýringu. Með vísan til þessa verður ekki talið að sveitarstjórnum sé heimilt að grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi samtímis og auglýst er tillaga að samsvarandi breytingu á aðalskipulagi.
Kærendur halda því fram að deiliskipulagið verði að ógilda með vísan til þess að gildistaka þess og aðalskipulagsbreyting vegna lóðarinnar hafi verið auglýst samtímis. Fyrir liggur í máli þessu að um er að ræða tvær ákvarðanir sem teknar eru samtímis í skipulags- og byggingarnefnd borgarinnar. Aðalskipulagsbreytingin hlaut staðfestingu umhverfisráðherra og að henni fenginni birtust báðar samþykktirnar sama daginn í B-deild Stjórnatíðinda.
Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga skal gera deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags og verður við túlkun lagaákvæðis þessa að miða við að um sé að ræða aðalskipulag sem þá þegar hafi öðlast gildi. Að öðrum kosti grundvallast deiliskipulagið ekki á gildu aðalskipulagi. Túlkun þessi á sér stoð í greinargerð lagafrumvarps þess er varð að lögum nr. 170/2000, en þar segir að óheimilt verði að auglýsa gildistöku deiliskipulags í Stjórnartíðindum fyrr en auglýst hafi verið gildistaka samsvarandi breytingar á aðalskipulagi. Verður að telja að heimild 2. mgr. 23. gr. laganna sé undanþáguheimild sem skýra verði þröngt og því uppfylli samtímabirting gildistöku aðal- og deilskipulagsákvarðana ekki skilyrði lagagreinarinnar.
Í málavaxtalýsingu hér að framan kemur fram að við undirbúning hinar umdeildu deiliskipulagsákvörðunar var kynnt að breytingunni væri ætlað að breyta deiliskipulagi sem tók gildi árið 1982. Undir rekstri málsins kom í ljós skipulagsuppdráttur frá árinu 1989 af lóð þeirri sem um er deilt í málinu. Uppdráttur þessi var samþykktur í skipulagsnefnd borgarinnar hinn 5. júní 1989 og í borgarráði hinn 6. sama mánaðar. Samkvæmt eldra deiliskipulaginu er lóðin ætluð undir dagvistun og er gert ráð fyrir um 420 m² stóru húsi til starfseminnar en samkvæmt yngra deiliskipulaginu er gert ráð fyrir gæsluvelli ásamt 60 m² húsi. Þá er og á yngri deiliskipulagsuppdrættinum sýnt náttúrulegt holt sem sagt er að ekki megi raska. Af framangreindu má ráða að verulegur mismunur hafi verið á milli þess deiliskipulags sem í gildi var þegar grenndarkynningin átti sér stað og þess deiliskipulags sem kynningargögn báru með sér að verið væri að breyta. Þessi ranga kynning gat m.a. haft þær afleiðingar að þeim sem hagmuna áttu að gæta væri ekki gert kleift að koma á framfæri athugasemdum sínum við grenndarkynninguna, byggðum á réttum forsendum. Telst þessi ágalli á meðferð málsins verulegur.
Með vísan til alls framanritaðs er það niðurstaða úrskurðarnefndar að ógilda beri ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 24. apríl 2002 um deiliskipulag lóðarinnar nr. 10 við Bleikjukvísl.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kröfum kærenda um að felld verði úr gildi breyting á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar, sem samþykkt var í skipulags- og byggingarnefnd hinn 24. apríl 2002 og staðfest af umhverfisráðherra hinn 12. júní 2002, er vísað frá úrskurðarnefndinni.
Ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkurborgar frá. 24. apríl 2002 um að samþykkja deiliskipulag vegna lóðarinnar að Bleikjukvísl 10 í Reykjavík er felld úr gildi.
_____________________________
Ásgeir Magnússon
___________________________ _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir