Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

48/2003 Hafnarbraut

Ár 2004, föstudaginn 5. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 48/2003, kæra eigenda fasteignarinnar að Bjarkarbraut 9, Dalvík, á ákvörðun umhverfisráðs Dalvíkurbyggðar frá 7. maí 2003 um að veita byggingarleyfi fyrir bílskúr og viðbyggingu á lóðinni nr. 18 við Hafnarbraut, Dalvík.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. ágúst 2003, sem barst nefndinni hinn 22. sama mánaðar, kærir Hákon Stefánsson hdl., f.h. S og I, Bjarkarbraut 9, Dalvík, þá ákvörðun umhverfisráðs Dalvíkurbyggðar frá 7. maí 2003 að veita byggingarleyfi fyrir bílskúr og viðbyggingu á lóðinni nr. 18 við Hafnarbraut, Dalvík.  Bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar staðfesti ákvörðun umhverfisráðs hinn 13. maí 2003.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og umdeildar byggingarframkvæmdir fjarlægðar.

Málavextir:  Lóðin að Hafnarbraut 18 er 880 m² að stærð og á lóðinni stendur 165,3 fermetra einbýlishús úr timbri.  Fasteign kærenda að Bjarkarbraut 9 liggur skáhallt frá norðvesturhorni lóðarinnar að Hafnarbraut 18 og mun vera um 5 metra bil milli lóðamarka umræddra lóða.  Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði.

Í febrúar 2003 var gerð fyrirspurn til byggingarfulltrúa sveitarfélagsins um hvort heimilaðar yrðu byggingarframkvæmdir á lóðinni er fælust í að reisa 36,14 fermetra bílskúr og viðtengt 37,5 fermetra íbúðarrými auk 37,5 fermetra kjallararýmis eða samtals 111,14 fermetra.  Var umsækjanda tjáð að umsóknina þyrfti væntanlega að grenndarkynna en bent á að komast mætti hjá formlegri grenndarkynningu ef fyrir lægju yfirlýsingar nágranna um að þeir gerðu ekki athugasemdir við fyrirhugðar framkvæmdir.

Fyrirspurnin var tekin fyrir á fundi umhverfisráðs Dalvíkurbyggðar hinn 2. apríl 2003 þar sem lágu frammi teikningar af fyrirhugaðri byggingu, dags. 14. mars 2003, ásamt yfirlýsingu eigenda Bjarkarbrautar 11 og Hafnarbrautar 16 um að þeir gerðu ekki athugasemdir við hana.  Bókað var á fundinum að umhverfisráð gerði ekki athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir og samþykkti bæjarstjórn þá afgreiðslu nefndarinnar hinn 15. sama mánaðar.  Í kjölfar þess mun byggingarfulltrúi hafa heimilað framkvæmdir við gröft á lóðinni til undirbúnings byggingarframkvæmdum og þær þá þegar hafist.

Með bréfi, dags. 2. maí 2003, gerði lögmaður kærenda fyrirspurn til umhverfisráðs bæjarins í tilefni af framkvæmdunum og mun formaður umhverfisráðs hafa átt fund með öðrum kærenda vegna framkvæmdanna hinn 7. maí 2003, eða sama dag og umhverfisráð samþykkti umdeilt byggingarleyfi.  Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu hinn 13. maí 2003.  Lögmaður kærenda ítrekaði fyrirspurn sína frá 2. maí 2003 með tölvupósti, dags. 5. júní 2003, sem formaður umhverfisráðs svaraði með sama hætti hinn 6. júní það ár.  Í svarinu kom fram að álitið hafi verið að málið væri úr sögunni af hálfu kærenda og fyrrgreind fyrirspurn hafi því ekki verið tekin fyrir.  Jafnframt var lofað svari af hálfu bæjaryfirvalda við fyrirspurn lögmanns kærenda.  Kærandi ítrekaði enn fyrirspurn sína vegna framkvæmdanna með bréfi, dags. 25. júní 2003, og var erindi hans svarað með bréfi, dags. 27. júní s.á.  Kærendur skutu síðan málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 20. ágúst 2003, svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur kveðast hafa haft samband við bæjaryfirvöld er framkvæmdir hófust á lóðinni að Hafnarbraut 18, Dalvík og leitað skýringa bæjarins á þeim framkvæmdum.  Bréf hafi verið sent af því tilefni hinn 2. maí 2003 og aftur hinn 25. júní s.á. þar sem svör hefðu ekki borist.  Upplýsingar um umdeildar framkvæmdir hafi fyrst borist með bréfi hinn 27. júní 2003, sem þó hafi ekki haft að geyma fullnægjandi svör við erindi kærenda.  Í bréfinu hafi komið fram að byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir umdeildum framkvæmdum að fengnu samþykki eigenda fasteignanna að Bjarkarbraut 11 og Hafnarbraut 16 en ekki hafi þótt ástæða til að kynna kærendum fyrirhugaða framkvæmd þar sem lóðirnar liggi ekki saman og að aðkoma að lóðunum sé úr gangstæðri átt.  Telja kærendur að sömu rök eigi við um lóðina að Bjarkarbraut 11. 

Kærendur geti ekki fallist á svör bæjaryfirvalda og ófullnægjandi útskýringar á umræddum byggingarframkvæmdum og telja að ekki hafi verið gætt ákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 við útgáfu byggingarleyfisins.  Grenndarkynning hafi ekki farið fram svo sem lögskylt hafi verið skv. 7. mgr. 43. gr. laganna og komi samþykki tveggja nágranna ekki í hennar stað.  Kærendur eigi hagsmuna að gæta í málinu og nægi að benda á að umdeild framkvæmd skerði útsýni frá húsi þeirra.  Þrátt fyrir skort á fullnægjandi gögnum um aðra þætti leyfisveitingarinnar telji kærendur að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Hafnarbraut 18 fari yfir leyfileg mörk með veitingu hins umdeilda byggingarleyfis og við útgáfu þess hafi ekki legið fyrir nauðsynleg gögn.  Bent sé á að framkvæmdir hafi byrjað áður en byggingarleyfi hafi verið gefið út og það látið afskiptalaust af byggingaryfirvöldum.

Af greindum ástæðum beri að fella hið kærða byggingarleyfi úr gildi og jafnframt beri að fjarlægja hina ólöglegu byggingu skv. VI. kafla skipulags- og byggingarlaga.

Kærendur skírskota til þess að kærufrestur hafi ekki verið liðinn er kæra hafi borist úrskurðarnefndinni.  Svarbréf bæjaryfirvalda við fyrirspurn lögmanns kærenda vegna byggingarleyfisins virðist að vísu hafa borist á starfsstöð hans hinn 7. júlí 2003 en vegna fjarveru í feðraorlofi hafi honum ekki borist svarið fyrr en hinn 18. ágúst 2003.  Beri því að miða upphaf kærufrests við þann dag, þegar kærendum varð fyrst kunnugt um hina umdeildu ákvörðun umhverfisráðs Dalvíkurbyggðar, en kærendum hafi ekki enn verið tilkynnt um afgreiðslu bæjarstjórnar á hinu kærða byggingarleyfi.

Málsrök Dalvíkurbyggðar:  Lögmaður bæjaryfirvalda gerir aðallega þá kröfu, fyrir hönd bæjarins, að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni sem of seint fram kominni með vísan til 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997 um úrskurðarnefndina, en ella að kröfu um ógildingu umdeilds byggingarleyfis og kröfu um niðurrif framkvæmda verði hafnað.

Með minnispunktum byggingarfulltrúa Dalvíkurbyggðar, dags. 14. október 2003, og tölvupóstssamskiptum formanns umhverfisráðs og lögmanns kærenda í maí og júní 2003 sé í ljós leitt að kærendur fengu upplýsingar um afgreiðslu umhverfisráðs á byggingarleyfisumsókninni hinn 8. maí 2003, eða daginn eftir að hún var samþykkt í ráðinu.  Í síðasta lagi hafi kærendum verið kunnugt um afgreiðslu erindisins við móttöku bréfs Dalvíkurbæjar til lögmanns kærenda, dags. 27. júní 2003.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar um úrskurðarnefndina sé kærufrestur á veitingu byggingarleyfa 30 dagar frá því kæranda var kunnugt um þá samþykkt sem hann hyggst kæra.  Kærubréfið til úrskurðarnefndarinnar sé dagsett 20. ágúst 2003, eða að loknum kærufresti, hvort heldur sem miðað sé við 8. maí eða 27. júní 2003.  Ekki sé byggjandi á staðhæfingu lögmanns kæranda, sem fram komi í niðurlagi kærubréfsins, þess efnis að hann hafi fyrst fengið vitneskju um efni þess hinn 18. ágúst 2003.  Beri því að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.

Um efnishlið máls vísa bæjaryfirvöld til þess að kærendur hafi ekki fært fram fullnægjandi rök fyrir ógildingar- og niðurrifskröfu sinni.  Samkvæmt fyrrgreindum minnispunktum byggingarfulltrúa hafi umsækjanda byggingarleyfisins verið gerð grein fyrir því í febrúar 2003 að hinar fyrirhuguðu byggingarframkvæmdir þyrfti trúlega að grenndarkynna og tæki það sinn tíma, en unnt væri að flýta afgreiðslu málsins ef samþykki nágranna lægi fyrr og gæti umhverfisráð litið svo á að slíkt samþykki væri ígildi grenndarkynningar.  Hafi umsækjanda og verið bent að það að umhverfisráð liti oftast þannig á að næstu nágrannar væru þeir sem ættu lóðir saman.

Í 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga sé heimilað að stytta tímabil grenndarkynningar ef þeir sem hagsmuna eiga að gæta hafa lýst skriflega yfir því með áritun á uppdrátt að þeir geri ekki athugasemdir við fyrirhugaða framkvæmd.  Með ákvæðinu sé því lögfest heimild til að afla skriflegra yfirlýsinga þeirra nágranna, sem hagsmuna eigi að gæta, um að þeir geri ekki athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir.  Heimildin verði ekki skilin á annan veg en þann að slíkar yfirlýsingar séu ígildi grenndarkynningar, sem raunar sé ekki skilgreind í lögunum sérstaklega, svo sem gert sé við flest hugtök skipulags- og byggingarlaga í 2. grein laganna.

Samkvæmt þessum skilningi hafi farið fram lögboðin kynning á hinum fyrirhuguðu byggingarframkvæmdum.  Um það megi deila hvort kynningin hafi verið nægilega víðtæk, þ.e. hvort hún hafi tekið til allra þeirra, sem hagsmuna áttu að gæta í skilningi ákvæðisins.  Við mat á því sé óhjákvæmilegt að líta til viðhorfa umhverfisráðs og bæjarstjórnar í þeim efnum og ennfremur þeirrar staðreyndar, að engir húseigendur aðrir en kærendur á umræddum byggingarreit (Hafnarbraut 2-14 og Bjarkarbraut 1-9) hafi gert athugasemdir eða haft í frammi mótmæli við umræddri byggingu á lóðinni Hafnarbraut 18.

Staðhæfing kærenda um of hátt nýtingarhlutfall á umræddri lóð eigi ekki við rök að styðjast.  Leyfilegt nýtingarhlutfall lóðar skv. gildandi aðalskipulagi sé 0,35.  Nýtingarhlutfall lóðarinnar að Hafnarbraut 18 eftir veitingu hins umdeilda byggingarleyfis sé 0,314.

Ekki sé fallist á að ófullnægjandi gögn hafi búið að baki veitingu byggingarleyfisins.  Eins og áður hafi verið frá greint haf umhverfisráð talið að fullnægjandi grenndarkynning fyrir hagsmunaaðilum hafi átt sér stað áður en byggingarleyfi hafi verið veitt og vegna ummæla kærenda þess efnis að framkvæmdir hafi byrjað áður en byggingarleyfi hafi verið gefið út sé rétt að taka fram að gröftur á lóð hafi verið heimilaður fyrir útgáfu leyfisins með stoð í 2. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga, í framhaldi af samþykkt bæjarstjórnar þann 15. apríl 2003.  Sé slíkt leyfi algengur framgangsmáti slíkra mála.

Að lokum sé vakin athygli á því að aðild að kröfugerð um niðurrif skv. VI. kafla skipulags- og byggingarlaga sé einvörðungu í höndum skipulags- og/eða byggingarfulltrúa viðkomandi bæjarfélags.  Hér sé um að ræða þvingunarúrræði sem byggingaryfirvöldum sé heimilt að beita með þeim skilyrðum að sýnt sé með óyggjandi hætti fram á að viðkomandi framkvæmd brjóti í bága við gildandi skipulag eða hún hafin eða framkvæmd án leyfis viðkomandi byggingaryfirvalda.  Eigi kærendur enga aðild að slíkri kröfu.

Niðurstaða:  Samkvæmt því sem fram er komið í málinu hófust framkvæmdir á lóðinni nr. 18 við Hafnarbraut á Dalvík í aprílmánuði 2003 og sendu kærendur af því tilefni bréf, dags. 2. maí það ár, til umhverfisráðs bæjarins með fyrirspurnum af því tilefni.  Fundur mun hafa verið haldinn af hálfu formanns umhverfisráðs með öðrum kærenda hinn 7. maí 2003 vegna málsins og endanlegt svar við fyrirspurnum lögmanns kærenda gefið í bréfi, dags. 27. júní s.á., er að sögn hans barst hinn 7. júlí.  Efni þess bréfs hafi ekki komist til vitundar hans fyrr en hinn 18. ágúst s.á.

Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar vegna ákvarðana byggingarnefnda og sveitarstjórna er einn mánuður frá því að þeim, er telur rétti sínum hallað með þeirri ákvörðun, er kunnugt um hana.  Kærendur og lögmaður þeirra höfðu samskipti við bæjaryfirvöld vegna umdeildra framkvæmda frá maíbyrjun 2003 eða skömmu eftir að þær hófust og var fyrirspurnum kærenda um málsmeðferð og forsendur umdeilds byggingarleyfis svarað með bréfi, dags. 27. júní s.á., eins og áður greinir.  Af þessum málsatvikum verður ráðið að kærendum hlaut að hafa verið ljós veiting hins umdeilda byggingarleyfis skömmu eftir að framkvæmdir hófust og í öllu falli í kjölfar svarbréfs bæjaryfirvalda við fyrirspurnum lögmanns þeirra er barst starfsstöð hans hinn 7. júlí 2003.  Enda þótt innihald bréfsins hafi eigi komist til vitundar kærenda fyrr en nokkru seinna þykir hér verða að miða við að kærufrestur hafi byrjað að líða á fyrrgreindum móttökudegi bréfsins, sbr. meginreglu 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið barst kæra í máli þessu að liðnum kærufresti og ber því skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga að vísa henni frá úrskurðarnefndinni.  Ekki þykja þær ástæður vera fyrir hendi í máli þessu að tilefni sé til að víkja frá kærufresti skv. 1. og 2. tl. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________            _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir