Ár 2004, fimmtudaginn 19. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 24, Reykjavík. Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.
Fyrir var tekið mál nr. 14/2003, kæra eiganda byggingarlóðar að Áslandi 24 í Mosfellsbæ á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 18. desember 2002 um að breyta lóðinni að Áslandi nr. 22 úr einbýlishúsalóð í parhúsalóð.
Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. mars 2003, er barst nefndinni hinn 7. sama mánaðar, kærir I ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 18. desember 2002 um að breyta lóðinni að Áslandi nr. 22 úr einbýlishúsalóð í parhúsalóð.
Skilja verður málatilbúnað kæranda á þann veg að hann krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. apríl 2003, sem barst nefndinni 16. sama mánaðar, áréttar kærandi að kæra hans hafi einnig átt að taka til byggingarleyfis fyrir húsi á lóðinni og að hann geri kröfu til að engar framkvæmdir fari fram á lóðinni Áslandi 22 meðan úrskurðarnefndin fjalli um kæruna.
Málavextir: Hinn 8. október 2002 sótti eigandi lóðarinnar að Áslandi 22 í Mosfellsbæ um leyfi skipulags- og bygginganefndar Mosfellsbæjar til að byggja parhús á lóðinni. Umrædd lóð er í íbúðarhverfi þar sem í gildi eru skipulags- og byggingarskilmálar frá maí 1982 sem gera ráð fyrir að á svæðinu rísi einbýlishús. Þó er kveðið á um það í skilmálum að tvær íbúðir megi vera í húsum þar sem aðstæður leyfi. Skipulags- og byggingarnefnd ákvað á fundi sínum sama dag að láta fara fram grenndarkynningu á erindinu, enda fólst í því að vikið yrði frá skipulagsskilmálum um húsgerð. Grenndarkynning stóð yfir frá 15. október til 18. nóvember 2002. Bárust athugasemdir frá tveimur aðilum, þar af önnur frá kæranda í máli þessu með símbréfi, dags. 18. nóvember 2002. Taldi hann fyrirhugað hús m.a. ekki samræmast kröfum um húsgerð á svæðinu, skipting lóðar og fyrirkomulag húss væri í andstöðu við skipulagsskilmála, nýtingarhlutfall væri of hátt og húsið færi út fyrir byggingarreit. Athugasemdum þessum var svarað en af málsgögnum verður jafnframt ráðið að nýtingarhlutfall hafi verið lækkað vegna athugasemda kæranda. Málið var tekið til umfjöllunar á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 3. desember 2002 og afstaða nefndarinnar til framkominna athugasemda færð til bókar. Lagði nefndin til við bæjarstjórn að samþykkt yrði að breyta lóðinni úr einbýlishúsalóð í parhúsalóð „..í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.“ Tillögu þessa samþykkti bæjarstjórn Mosfellsbæjar á fundi sínum hinn 18. desember 2002 og er það sú samþykkt sem upphaflega var vísað til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður er rakið.
Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 19. desember 2002, var kæranda greint frá afstöðu skipulags- og byggingarnefndar til framkominna athugasemda og ákvörðun bæjarstjórnar í málinu. Var honum, í niðurlagi bréfsins, gerð grein fyrir því að ákvörðuninni væri hægt að skjóta til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og að kærufrestur væri einn mánuður.
Hinn 24. desember 2002 gaf byggingarfulltrúinn í Mosfellsbæ út byggingarleyfi fyrir umræddu parhúsi. Var bókun byggingarfulltrúa um afgreiðslu málsins lögð fram í skipulags- og byggingarnefnd hinn 21. janúar 2003 og staðfest í bæjarstjórn 29. sama mánaðar. Var kæranda tilkynnt um þessa afgreiðslu með bréfi, dags. 4. febrúar 2003, og bent á að ákvörðunina mætti kæra til úrskurðarnefndarinnar innan eins mánaðar.
Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. mars 2003, sem barst hinn 7. sama mánaðar, kærði kærandi „…samþykki skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar að breyta lóðinni Ásland 22 úr einbýlishússlóð í parhússlóð, sem samþykkt var af bæjarstjórn 18. 12. 2002.“
Hinn 16. apríl 2003 barst úrskurðarnefndinni bréf kæranda, dags. 8. apríl 2003, þar sem hann áréttar að kæra hans frá 4. mars 2003 hafi einnig átt að taka til byggingarleyfisins og að gerð væri krafa til þess að engar framkvæmdir færu fram meðan úrskurðarnefndin fjallaði um kæruna. Kveðst kærandi í bréfi þessu ekki hafa fengið bréf byggingarfulltrúa frá 19. desember 2002 fyrr en 13. janúar 2003 og að áður en hann hafi sent kæru sína hafi honum borist bréf byggingarfulltrúa, dags. 4. febrúar 2003. Hafi hann skilið það svo að kærufrestur hefði verið lengdur til 4. mars 2003.
Málsrök kæranda: Málsrök kæranda koma einkum fram í athugasemdabréfi hans dags. 18. nóvember 2002. Kveðst hann hafa keypt lóð sína að Áslandi 24 beinlínis sem lóð undir einbýlishús í einbýlishúsahverfi samkvæmt samþykktum skipulags- og byggingarskilmálum. Þótt tvær íbúðir geti verið í einbýlishúsi undir sömu eign sé það ekkert sambærilegt við parhús með skiptingu lóðar, gjörólíkt að útliti og svip, tilheyrandi umferð og umgengni, kaupum og sölum. Þá sé nýtingarhlutfall of hátt og húsið fari út fyrir byggingarreit. Óréttmætt sé að vísa til þess að parhús hafi verið leyft að Áslandi 20, enda séu aðstæður þar aðrar, en sú lóð sé innst í botnlanga og nýtingarhlutfall allt annað.
Í niðurlagi athugasemdabréfs kæranda segir m.a: „Vægt til orða tekið á þetta hús ekkert heima á þessum stað. Þessir menn eiga ekki að vera að kássast upp á fólk í þessu hverfi, það er nóg til af stöðum fyrir þessa húsagerð.“
Málsrök bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ: Úrskurðarnefndinni hafa borist gögn málsins frá byggingarfulltrúanum í Mosfellsbæ. Telur hann að rétt hafi verið staðið að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar og að tillit hafi verið tekið til athugasemda kæranda. Honum hafi verið tilkynnt um ákvarðanir í málinu með venjubundnum hætti.
Málsrök byggingarleyfishafa: Af hálfu byggingarleyfishafa er á það bent að grenndarkynning hafi farið fram eins og lög standi til og hafi íbúar við götuna ekki mómælt fyrirhugaðri byggingu. Einu efnislegu mótmælin hafi komið frá kæranda, sem búi úti á landi. Við byggingu hússins séu ákvæði um hæðarkóta og nýtingarhlutfall virt og séu athugasemdir kæranda um þau atriði ekki á rökum reistar.
Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari röksemdir fyrir kröfum sínum og sjónarmiðum í málinu. Verða þær ekki raktar hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða: Samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 getur hver sá er telur rétti sínum hallað með ákvörðun byggingarnefndar eða sveitarstjórnar skotið málinu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála innan mánaðar frá því honum varð kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Liggur fyrir að kæranda hafði borist bréf byggingarfulltrúa, dags. 19. desember 2002, eigi síðar en hinn 13. janúar 2003. Var kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar sem honum var kynnt í umræddu bréfi því til 13. febrúar 2003.
Með kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar hinn 4. mars 2003 kærði kærandi framangreinda ákvörðun og gerði í kærunni með skýrum hætti grein fyrir því um hvaða ákvörðun væri að ræða. Var kærufrestur vegna hennar þá liðinn og mátti kæranda vera það ljóst, enda var í framangreindu bréfi byggingarfulltrúa gerð grein fyrir kæruheimild, kærufresti og kærustjórnvaldi.
Með bréfi sem úrskurðarnefndinni barst hinn 16. apríl 2003 kom kærandi því fyrst á framfæri að fyrir honum hafi vakað að kæra hans tæki einnig til ákvörðunar byggingarfulltrúa um útgáfu byggingarleyfis sem kæranda hafði verið tilkynnt um með bréfi, dags. 4. febrúar 2003. Kveðst kærandi hafa skilið málið svo að með síðastnefndu bréfi hefði kærufrestur verið framlengur til 4. mars 2003.
Úrskurðarnefndin fellst ekki á framangreind sjónarmið kæranda. Með bréfi byggingarfulltrúa hinn 4. febrúar 2003 var kæranda kynnt ný ákvörðun sem ekki verður séð að hann hafi kært fyrr en með bréfi sínu hinn 8. apríl 2003, sem úrskurðarnefndinni barst hinn 16. sama mánaðar. Var kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar því liðinn.
Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti. Víkja má frá þeirri reglu ef afsakanlegt verður talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða ef veigamiklar ástæður mæla með því að hún verði tekin til meðferðar. Verður hvorki talið að kærandi hafi sýnt fram á að afsakanlegt sé að kæra hans barst svo seint sem raun ber vitni né að veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til meðferðar. Væri það og andstætt hagsmunum byggingarleyfishafa, enda mátti hann með réttu ætlast til að hagsmunaaðilar tækju ákvörðun um það innan lögboðins frest hvort þeir ætluðu að neyta kæruréttar.
Með hliðsjón af framansögðu ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni og koma efnisatriði þess því ekki til úrlausnar.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils málafjölda og anna hjá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
________________________________
Ásgeir Magnússon
______________________________ _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir