Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

63/2003 Langagerði

Ár 2004, fimmtudaginn 19. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 24, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 63/2003, kæra eiganda fasteignarinnar að Langagerði 80, Reykjavík á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur um að koma fyrir sparkvelli við Réttarholtsskóla í Reykjavík. 

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. október 2003, er barst nefndinni hinn 13. sama mánaðar, kærir B, Langagerði 80, Reykjavík samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 7. maí 2003, um að koma fyrir sparkvelli með gervigrasi austan við og samsíða íþróttahúsi Réttarholtsskóla, Réttarholtsvegi 21 – 25 í Reykjavík. 

Ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar var staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 15. maí 2003.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík hinn 25. mars 2003 var sótt um leyfi til að koma fyrir upphituðum sparkvelli með gervigrasi austan við og samsíða íþróttahúsi Réttarholtsskóla á lóðinni nr. 21 – 25 við Réttarholtsveg.  Skyldi völlurinn vera hluti útileiksvæðis skólans.  Samkvæmt teikningu sem lögð var fyrir byggingarfulltrúa var gert ráð fyrir að umhverfis sparkvöllinn yrði timburgirðing á steinsteyptum sökkli sem væri þriggja metra há bak við mörk en einn metri á hæð á langhliðum.  Völlurinn skyldi upplýstur með tveimur kösturum með tímarofa á íþróttahúsi sem myndu beina ljósi beint á völlinn en lítið umhverfis hann.  Byggingarfulltrúi frestaði erindinu þar sem mæliblað skorti en vísaði því til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu. 

Erindi byggingarfulltrúa var tekið fyrir hjá Borgarskipulagi hinn 25. mars 2003 og var samþykkt að grenndarkynna umsóknina fyrir hagsmunaaðilum að Ásgarði 73.

Erindið var í grenndarkynningu frá 2. apríl 2003 til 2. maí sama ár og bárust engar athugasemdir. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 7. maí 2003 var erindið samþykkt og hlaut fundargerð nefndarinnar staðfestingu borgarstjórnar hinn 15. sama mánaðar.

Kærandi er ósáttur við framangreinda afgreiðslu skipulags- og byggingaryfirvalda í Reykjavík og hefur kært hana til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að garður hennar snúi að lóð Réttarholtsskóla.  Þar hafi ríkt ró og næði en með tilkomu sparkvallarins, sem byggður hafi verið síðast liðið sumar, hafi umhverfinu verið raskað svo um muni.  Þetta telur kærandi alls óviðunandi, því frá vellinum sé töluvert ónæði frá því snemma morguns og langt fram á kvöld og tiltekur sérstaklega flóðlýsinguna sem kviknar á kvöldin. 

Kærandi heldur því fram að þegar hún hafi keypt fasteign sína að Langagerði 80 hafi hún leitað sér upplýsinga um deiliskipulag svæðisins og fengið þau svör að auða svæðið við skólann yrði eingöngu nýtt fyrir skólabyggingar, þar sem starfsemi færi fram innan dyra á virkum dögum. 

Kærandi telur að með tilkomu sparkvallarsins hafi skipulags- og byggingarlög verið margbrotin, þar sem hvorki hafi farið fram grenndarkynning né nýtt deiliskipulag auglýst eða birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Með vísan til þessa sé þess krafist að völlurinn verði fjarlægður hið fyrsta. 

Reykjavíkurborg hefur ekki sett fram sérstakar athugasemdir í máli þessu en sendi úrskurðarnefndinni tölvuskeyti, dags. 28. janúar 2004, þar sem fram kemur að tilboð í völlinn hafi verið opnuð hinn 20. maí 2003 og verkið hafist hinn 10. júní sama ár.  Þá kemur fram að völlurinn hafi verið vígður hinn 7. ágúst 2003 og verklok hafi verið hinn 13. sama mánaðar.  Þá sendi Reykjavíkurborg einnig nefndinni forúttekt verksins, dags. 8. september 2003, þar sem fram koma athugasemdir við verkið og hvað sé áskilið við lokaúttekt. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um framkvæmdir við gerð sparkvallar á lóð Réttarholtsskóla við Réttarholtsveg í Reykjavík.  Fyrir liggur að framkvæmdir við gerð vallarins hófust í júní 2003, vígsla hans fór fram hinn 7. ágúst sama ár og verklok voru hinn 13. sama mánaðar.  Kæran barst úrskurðarnefndinni hinn 13. október 2003.

Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar vegna ákvarðana byggingarnefnda og sveitarstjórna er einungis einn mánuður samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 frá því að kæranda mátti vera kunnugt um hina kærðu framkvæmd. 

Eins og áður segir hófust framkvæmdir við hinn umdeilda sparkvöll í júní 2003 og þá þegar var kæranda í lófa lagið að leita frekari upplýsinga um verkið.  Allt að einu setti kærandi ekki fram kæru í málinu fyrr en fjórum mánuðum eftir að framkvæmdir hófust og tveimur mánuðum eftir að gerð sparkvallarins var lokið.  Verður við það að miða að kærufrestur hafi í allra síðasta lagi byrjað að líða hinn 25. ágúst 2003, eða þann dag er skólastarf hófst í Réttarholtsskóla. 

Með hliðsjón af framansögðu barst kæra í máli þessu að liðnum kærufresti og ber því samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

______________________________
Ásgeir Magnússon

 

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ingibjörg Ingvadóttir