Ár 2003, fimmtudaginn 13. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 54/2001, kæra eiganda verslunarhúsnæðis að Hraunbæ 102, Reykjavík, á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 23. október 2001 um breytingu á deiliskipulagsreit á móts við Hraunbæ 102-120 er fólst í breytingu á notkun lóðar, á þann veg að í stað heilsugæslustöðvar yrði heimiluð bygging húss undir verslunar- og þjónustustarfsemi.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. nóvember 2001, er barst nefndinni hinn 26. sama mánaðar, kærir Reynir Karlsson hrl., fyrir hönd Saxhóls ehf., kt. 420987-1109, Nóatúni 17, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 23. október 2001, að samþykkja breytingu á deiliskipulagsreit á móts við Hraunbæ 102-120, er fólst í breytingu á þann veg að í stað heilsugæslustöðvar yrði heimiluð bygging húss undir verslunar- og þjónustustarfsemi. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi.
Málavextir: Hinn 8. ágúst 2001 var auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi reits sem afmarkast af Hraunbæ í suður, Bæjarbraut í vestur og Bæjarhálsi í norður. Í tillögunni fólst að notkun lóðar merktri C yrði breytt á þann veg að í stað ráðgerðar heilsugæslustöðvar yrði heimilað að reisa þar hús undir verslunar- og þjónustustarfsemi. Í auglýsingunni kom fram að tillagan væri til kynningar til 5. september 2001 en frestur veittur til 12. september 2001 til að koma að athugasemdum og ábendingum í tilefni af fyrirhugaðri deiliskipulagsbreytingu. Athugasemdir voru gerðar við skipulagstillöguna, m.a. af hálfu kæranda, en tillagan var samþykkt óbreytt í skipulags- og byggingarnefnd hinn 3. október 2001 og sú ákvörðun staðfest í borgarráði hinn 23. október 2001. Kæranda voru tilkynnt málalok með bréfi, dags. 24. október 2001, og fylgdu því bréfi svör Borgarskipulags við framkomnum athugasemdum, dags. sama dag.
Málsrök kæranda: Kærandi byggir ógildingarkröfu sína á því að við meðferð skipulagstillögunnar hafi ekki verið farið að lögum. Við auglýsingu og kynningu tillögunnar hafi aðeins verið gefinn 5 vikna frestur til að koma að athugasemdum. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 18. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi hins vegar borið að veita 6 vikna frest til athugasemda frá birtingu auglýsingar um tillöguna. Samkvæmt orðanna hljóðan sé sá frestur lágmarksfrestur sem sé settur til þess að vernda hagsmuni borgaranna og verði ekki vikist undan því að virða þann frest. Þá sé á það bent að í umræddu tilviki hafi fresturinn byrjað að líða hinn 8. ágúst 2001 þegar fjöldi fólks hafi verið í sumarfríi og því þeim mun mikilvægara að víkja ekki frá hinum lögboðna fresti. Færa megi að því rök, að vegna styttri frests hafi aðilar, sem hagsmuna eigi að gæta í málinu, ekki náð að koma að athugasemdum við deiliskipulagstillöguna. Kærandi hefði viljað undirbúa athugasemdir sínar og mótmæli betur, en ekki hafi unnist tími til þess vegna hins stutta frests.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Rétt sé hjá kæranda að kynningartími hinnar umdeildu tillögu hafi verið of stuttur. Hafi deiliskipulagstillagan því verið auglýst að nýju hinn 19. desember 2001 með athugasemdafresti til 30. janúar 2002. Engar athugasemdir við tillöguna hafi þá borist og hafi hún hlotið samþykki borgarráðs hinn 19. febrúar 2002 og hafi hin kærða samþykkt þar með fallið úr gildi. Skipulagsstofnun hafi ekki gert athugasemdir við að gildistaka deiliskipulagstillögunnar yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda og svo hafi verið gert hinn 17. maí 2002. Af þessum ástæðum beri að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.
Niðurstaða: Fyrir liggur, að vegna ágalla við málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagstillögu, var hún auglýst og kynnt að nýju með lögboðnum fresti til að koma á framfæri athugasemdum við tillöguna. Með staðfestingu borgarráðs hinn 19. febrúar 2002 á skipulagstillögunni féll úr gildi hin kærða samþykkt og hefur kærandi því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð um gildi þeirrar stjórnvaldsákvörðunar. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
______________________________
Ásgeir Magnússon
______________________________ _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir