Ár 2003, fimmtudaginn 10. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl. formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 38/2003, kæra eigenda húseignarinnar að Viðarrima 47 í Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. júní 2002 um að veita leyfi til að byggja 87,5 m² einlyfta, steinsteypta viðbyggingu við norður- og austurhlið einbýlishúss að Viðarrima 49.
Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur
úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. júní 2003, kæra H og G, eigendur fasteignarinnar að Viðarrima 47 í Reykjavík þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. júní 2002 að veita leyfi til að byggja 87,5 m² einlyfta, steinsteypta viðbyggingu við norður- og austurhlið einbýlishúss að Viðarrima 49. Hin kærða ákvörðun var staðfest af borgarráði Reykjavíkur, í umboði borgarstjórnar, þann 2. júlí 2002.
Kærendur krefjast þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að úrskurðarnefndin kveði þegar upp úrskurð til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda við byggingu viðbyggingarinnar.
Úrskurðarnefndin hefur leitað afstöðu byggingarleyfishafa og byggingaryfirvalda í Reykjavík til kærunnar og framkominnar kröfu um stöðvun framkvæmda. Hafa nefndinni borist andmæli byggingarleyfishafa og greinargerð Reykjavíkurborgar um kæruefnið og er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu kæranda að framkvæmdir verði stöðvaðar.
Málavextir: Málavöxtum verður hér aðeins lýst stuttlega að því marki er þurfa þykir við úrlausn um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.
Fasteignirnar að Viðarrima 47 og 49 eru á svæði sem byggst hefur upp á grundvelli deiliskipulags sem samþykkt var í borgarráði hinn 4. júní 1991. Samkvæmt skipulagsskilmálum er gert ráð fyrir fjölbreytni í gerð húsa á svæðinu. Byggingarreitir setja staðsetningu húsa á lóðum rúmar skorður og gefa kost á byggingu allstórra húsa. Nýtingarhlutfall er ekki tilgreint í umræddu skipulagi. Á lóðum á því svæði við Viðarrima sem hér skiptir máli er gert ráð fyrir einbýlishúsum á einni hæð. Á þessu svæði ganga stuttir botnlangar norður úr Viðarrima og standa fjögur hús við hvern þeirra, en sunnan götunnar er einföld húsaröð. Húsin á lóðunum nr. 43-53 við Viðarrima (stök númer) voru reist á árunum 1992 til 1994 og er nýtingarhlutfall þeirra lóða á bilinu 0,2 – 0,27. Er gerð þessara húsa nokkuð breytileg.
Fyrir liggur að við byggingu hússins að Viðarrima 49 hefur norðvesturhorn bílgeymslu verið byggt nokkuð út fyrir byggingarreit á um 3,5 metra bili miðað við framhlið hússins, en ekki er til þess vitað að fram hafi komið athugasemdir af því tilefni á byggingartíma þess.
Eigendur Viðarrima 49 óskuðu eftir leyfi til að byggja við hús sitt til norðurs, innan þess byggingarreits sem markaður er á lóðinni í gildandi skipulagi svæðisins. Var það mat byggingarfulltrúa að umrædd viðbygging samræmdist skilyrðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og féllst hann því á að veita umbeðið leyfi. Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.
Málsrök kærenda: Kærendur benda á að húsið að Viðarrima 49 sé nú þegar komið út fyrir byggingarreit. Með því hafi bílskúr verið stækkaður og sé hann stærri en leyfilegt sé, sbr. byggingarreglugerð nr. 441/1998, gr 113.1. Þessi breyting á byggingarreit hafi aldrei verið kynnt fyrir öðrum húseigendum sem þarna búi, en telja verði eðlilegt að það hefði verið gert. Við þessa breytingu og vegna ólöglegrar fjarlægðar hússins frá götu hafi innkeyrsla að bílskúr og bílastæði orðið mjög brött og hafi þess vegna þurft að lækka gólfplötu í bílskúr umtalsvert, en kærendum sé ekki kunnugt um hvort leyfi hafi verið fyrir lækkun gólfsins.
Í skipulagsskilmálum fyrir Rimahverfi þá sé þess getið og sýnt á teikningum að hús ofan götu skuli vera 6 m frá götu. Samkvæmt teikningum fyrir Viðarrima 49, dagsettum þann 27. maí 1992, sé fjarlægð frá götu sýnd 6 metrar. Ef þessi sama teikning sé skoðuð megi sjá að fjarlægð frá götu sé miðuð við bílgeymsluhurð, sem sé inndregin um einn metra undir skyggni á húsinu, en ekki sé miðað við útveggi hússins eins og rétt sé að gera. Á þeim teikningum sem nú hafi verið gerðar og dagsettar séu 19. júní 2002 breytist talan og sé þar tilgreint að fjarlægð frá húsi að götu sé 5 metrar. Með þessari breytingu á fjarlægð húss frá götu hafi byggingarreitur verið stækkaður um ca. 22 m².
Kærendur telja að með fyrirhugaðri viðbyggingu og þeim sólpalli sem nú þegar sé á lóðinni verði lóðin ofnýtt. Búið sé þá að nýta nánast allan byggingarreit hússins og mjög lítið verði eftir af láréttum lóðarfleti.
Einnig megi spyrja hver verði notkunin á viðbyggingunni og hver hin raunverulega þörf sé, hvort verið sé að byggja til að fjölga svefnherbergjum eða til að koma fyrir aukaíbúð við húsið, en slíkt sé andstætt skipulagi. Af teikningum verði ekki annað ráðið en að til standi að byggja langt út fyrir þá stærð sem þrjú svefnherbergi þarfnist. Engir steyptir burðarveggir séu í rýminu og sérinngangur sé hafður á vesturhlið hússins, en þessi atriði geri það að verkum að auðvelt sé að nýta þessa viðbyggingu á hvern þann máta sem eigendur kjósi nú eða í framtíðinni. Það sé alþekkt að fólk leigi út frá sér íbúðir þó að það stangist á við lög og reglugerðir og hafi oftar en ekki verið erfitt að koma í veg fyrir það.
Nýting á byggingarreit hljóti að verða að taka mið af því að ekki séu skertir möguleikar annarra til að njóta útsýnis, friðsældar og sólar. Meginatriði málsins sé sú röskun sem viðbyggingin hafi í för með sér á byggingartímanum og þau áhrif sem byggingin hafi á umhverfið, sem kærendur geti ekki sætt sig við.
Loks árétta kærendur í samandregnu máli nokkur meginatriði um stærðir, fjarlægðir frá götu og lóðamörkum, tilfærslu á byggingarreit o.fl., sem þau telja að líta beri til við úrlausn máls þessa.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er því haldið fram að hið umdeilda byggingarleyfi samræmist að öllu leyti því deiliskipulagi sem það byggi á og hafi kærendur ekki fært fram nein þau rök sem við skoðun geti leitt til annarrar niðurstöðu. Það að leyft hafi verið að byggja húsið út fyrir byggingarreit á sínum tíma hafi enga þýðingu fyrir gildi þess byggingarleyfis sem nú sé kært, enda kæruréttur vegna eldra leyfis fallinn niður.
Í grein 1.0.9 í skilmálum skipulagsins komi fram að byggingarreitir séu sýndir á mæliblöðum og að hús skuli standa innan þeirra. Í grein 1.0.8 komi og fram að mæliblöð sýni byggingarreiti. Skýringarmynd sú sem kærandi vísi til breyti ekki framangreindum ákvæðum skilmálanna, enda sé hún ekki bindandi að öðru leyti en hvað varði hæð húsa, sbr. ákvæði 1.1.1. í skilmálunum. Byggingarreitur lóðarinnar hafi því ekki verið stækkaður. Ekki verði séð hvaða áhrif málsetningar á eldri uppdráttum hafi í þessu sambandi.
Nægilegt leik- og dvalarsvæði sé á lóðinni þrátt fyrir hina umdeildu breytingu á húsinu. Nýtingarhlutfall lóðarinnar sé eftir viðbygginguna innan viðmiðunar-nýtingarhlutfalls Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016, þ.e. 0,4, sem í gildi hafi verið á þeim tíma er leyfið hafi verið veitt. Sé nýting lóðarinnar því ekki meiri en almennt sé reiknað með á lóðum einbýlishúsa.
Ekki sé verið að samþykkja aukaíbúð í húsinu. Hugleiðingar kæranda um hugsanlega leigu húsnæðisins hafa því enga þýðingu.
Þar sem byggingarleyfið sé í samræmi við deiliskipulag og Aðalskipulag Reykjavíkur 1996-2016 séu grenndaráhrif ekki meiri en kærandi hafi mátt búast við. Í því sambandi sé rétt að hafa í huga að hús kæranda standi ofar en hús byggingarleyfishafa. Áhrif byggingarleyfisins séu því ekki veruleg. Í ljósi þessa verði það því heldur ekki fellt úr gildi á grundvelli almennra reglna grenndarréttarins.
Andmæli byggingarleyfishafa: Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfum og sjónarmiðum kærenda mótmælt. Framkvæmdir þeirra styðjist við gilt byggingarleyfi. Ekki verði séð að nú verði á því byggt að bílskúr hafi á sínum tíma að litlum hluta verið reistur utan byggingarreits. Ekkert nýtingarhlutfall sé tilgreint í skipulagi svæðisins og verði því að líta til viðmiðunar gildandi aðalskipulags á þeim tíma er hið umdeilda byggingarleyfi hafi verið veitt, en það hafi verið á bilinu 0,25-0,4 fyrir einbýlishús í íbúðarhverfum af því tagi sem hér sé um að ræða. Húseignin að Viðarrima 49 verði innan þessara marka að meðtalinni hinni umdeildu viðbyggingu. Inngangur í viðbyggingu á vesturhlið sé hafður til að fullnægja kröfum um flóttaleiðir komi til eldsvoða en svefnrými verði í viðbyggingunni. Önnur atriði í kærunni telja byggingarleyfishafar ýmist ekki eiga við eða ekki vera á rökum reist. Gera þau kröfu til þess að kröfum kærenda verði hafnað.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari röksemdir fyrir sjónarmiðum sínum í málinu. Hefur úrskurðarnefndin haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn þessa þáttar málsins.
Vettvangskönnun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 3. júlí 2003 en ekki þóttu efni til að boða til formlegrar vettvangsgöngu á þessu stigi málsins.
Niðurstaða: Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 19. júní 2002 um að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu að Viðarrima 49 í Reykjavík. Er það megin úrlausnarefni máls þessa hvort hið umdeilda byggingarleyfi samræmist skipulagsskilmálum, ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og öðrum réttarreglum um skipulags- og byggingarmál.
Fyrir liggur að úttekt á botni grunns fyrir hina umdeildu viðbyggingu fór fram hinn 16. júní 2003 og voru framkvæmdir við bygginguna því hafnar innan árs frá afgreiðslu byggingarleyfisins, svo sem áskilið er í 45. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Hin umdeilda viðbygging er alfarið innan þess byggingarreits sem markaður er í gildandi skipulagi og verður nýtingarhlutfall hússins eftir viðbygginguna innan þeirra marka sem kveðið var á um í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016, sem í gildi var við útgáfu leyfisins. Hvorki þykir skipta máli að bílgeymsla hafi að hluta verið reist utan byggingarreits á árinu 1992 né að vera kunni að miða hefði átt fjarlægð húss frá botnlanga við 6 metra að lágmarki eins og kærendur halda fram, enda hefði allt að einu verið unnt að reisa á lóðinni jafnstórt hús og um verður að ræða eftir viðbygginguna, sem að öllu leyti hefði verið innan byggingarreits. Verður því að telja líklegt, miðað við þau gögn sem nú liggja fyrir í málinu, að hin umdeilda viðbygging verði talin samræmast skipulagsskilmálum.
Ekki verður séð að umdeild viðbygging fari í bága við gildandi lög eða reglugerðir um skipulags- og byggingarmál eða raski grenndarhagsmunum kærenda svo að leitt gæti til ógildingar. Sé litið til afstöðu húss kærenda til viðbyggingarinnar, hæðarmunar lóða og gróðurs á lóðamörkum er það mat úrskurðarnefndarinnar að viðbyggingin hafi ekki umtalsverð áhrif á hagsmuni kærenda með tilliti til grenndarsjónarmiða.
Með hliðsjón af framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar í þessum þætti málsins að hafna beri kröfu kærenda um að framkvæmdir við viðbyggingu samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi verði stöðvaðar meðan úrskurðarnefndin hefur kærumál þetta til meðferðar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um að framkvæmdir við viðbyggingu að Viðarrima 49 í Reykjavík verði stöðvaðar meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.
______________________________
Ásgeir Magnússon
___________________________ _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir