Ár 2003, fimmtudaginn 3. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn nefndarinnar; Ásgeir Magnússon, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir, lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 30/2002, kæra Logos lögmannsþjónustu, f.h. Alcan á Íslandi hf., á álagningu skipulagsgjalds á kerskála 3 í Straumsvík, Hafnarfirði að fjárhæð kr. 6.013.959,- samkvæmt reikningi, dags. 1. apríl 2002.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi, dags. 18. júní 2002, til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála kærir Logos lögmannsþjónusta, f.h. Alcan á Íslandi hf., álagningu skipulagsgjalds á Kerskála 3 í Straumsvík, Hafnarfirði og krefst þess að álagningin verði felld niður.
Um kæruheimild vísast til 7. gr. reglugerðar nr. 737/1997, um skipulagsgjald.
Málavextir: Skipulagsgjald var lagt á vegna kerskála 3 í álverinu í Straumsvík, Hafnarfirði, sem er í eigu Alcan á Íslandi hf., skv. reikningi, dags. 1. apríl 2002, að fjárhæð kr. 6.013.959,-. Við álagninguna var lögð til grundvallar fyrirliggjandi brunabótavirðing mannvirkisins. Kærandi hefur nú skotið þessari ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.
Málsrök kæranda: Alcan á Íslandi hf. heldur því fram að félagið sé undanþegið skyldu til greiðslu skipulagsgjalds vegna kerskála 3 í Straumsvík á grundvelli aðalsamnings ríkisstjórnar Íslands annars vegar og Swiss Aluminium Ltd. hins vegar, frá 28. mars 1966, ásamt viðaukasamningum. Samningur þessi hafi verið staðfestur með lögum frá Alþingi, sbr. 1. gr. laga nr. 76/1966, um lagagildi samnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd. um álbræðslu við Straumsvík. Í ákvæði 2. gr. nefndra laga sé kveðið á um, að ákvæði samnings skuli hafa lagagildi hér á landi.
Í IV. kafla áðurnefnds samnings sé fjallað um skatta og gjaldskyldu kæranda og sú grein samningsins sem þýðingu hafi við úrlausn þessa máls sé 31. gr. hans sem beri heitið „Aðrir skattar og gjöld“. Í upphafi gr. 31.01 segi, að auk framleiðslugjaldsins sem kæranda beri að greiða, skuli honum skylt að greiða þá skatta og gjöld, sem núgildandi lög geri ráð fyrir, að því marki og í þeim mæli, sem segi í þessari málsgrein svo og aðra svipaða skatta og gjöld, sem almennt séu þau sömu að upphæð og síðar kunni að verða lögleidd. Í k) lið nefndrar greinar samningsins sé kveðið á um, að kæranda beri að greiða skipulagsgjald samkvæmt lögum nr. 19/1964 af öllum byggingum, sem skilgreindar séu sem „hús“ í grein 31.05. Ákvæði um skipulagsgjald hafi á þeim tíma er samningurinn var undirritaður verið að finna í 35. gr. skipulagslaga nr. 19/1964 og það sé sambærilegt skipulagsgjaldi því sem nú sé í 35. gr. skipulags- og byggingarlaga. Í nefndri gr. 31.05, lið k) í samningi kæranda og íslensku ríkisstjórnarinnar segi í 2. málslið: „ISAL skal vátryggja byggingar (að frátöldu fylgifé og búnaði), sem reistar eru á bræðslulóðinni, gegn bruna í samræmi við ákvæði laga nr. 9/1955, þó þannig, að bræðslukerjasalir, steypuhús, geymsluturnar og geymar bræðslunnar teljast ekki „hús“ í skilningi laganna“.
Skipulagsgjald það sem hér sé kært, sé lagt á vegna kerskála 3. Kærandi telji ótvírætt, að kerskálar flokkist til þess sem nefnt sé bræðslukerjasalir í tilvitnuðu samningsákvæði. Í samræmi við það hafi aldrei verið litið svo á, að kerskálarnir séu brunatryggingarskyldir. Þar sem kerskálar teljist samkvæmt framangreindu ekki til „húsa“, sbr. gr. 31.05 í áðurgreindum samningi, sé ekki fyrir að fara skyldu til greiðslu skipulagsgjalds samkvæmt gr. 31.01.
Málsrök innheimtumanns: Af hálfu innheimtumanns, Sýslumannsembættisins í Hafnarfirði, er álagning og innheimta gjaldsins rökstudd með tilvísun til réttarheimilda, sem prentaðar eru á bakhlið reiknings fyrir gjaldinu, nánar tiltekið 35. gr. skipulagslaga nr. 73/1997, ásamt síðari breytingum og reglugerð nr. 737/1997.
Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með síðari breytingum er skipulagsgjald sérstakt gjald af mannvirkjum sem innheimta skal í ríkissjóð og er því ætlað að standa straum af kostnaði við gerð skipulagsáætlana. Heimild var til innheimtu sambærilegs gjalds í 35. gr. eldri skipulagslaga nr. 19/1964 og var með stoð í því heimildarákvæði sett reglugerð um álagningu og innheimtu gjaldsins nr. 167/1980. Sú reglugerð var í gildi allt fram til ársins 1994 er ný reglugerð um það var sett. Nú er í gildi reglugerð nr. 737/1997 um sama efni.
Samkvæmt 2. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal greiða skipulagsgjald af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta. Telst nýbygging hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta, svo og viðbyggingar við eldri hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 verðs eldra húss. Í 3. mgr. sömu greinar segir að skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hafi farið fram og Fasteignamat ríkisins tilkynnt hana til innheimtumanns ríkissjóðs. Þá segir í nefndu ákvæði að gjaldinu fylgi lögveð í eigninni.
Með lögum nr. 76/1966, um lagagildi samnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd., um álbræðslu við Straumsvík, er staðfestur samningur milli sömu aðila, dags. 28. mars 1966, um byggingu og rekstur álbræðslu við Straumsvík. Í k) lið gr. 31.01 samningsins segir að kærandi skuli greiða skipulagsgjald af öllum byggingum, sem skilgreindar séu sem „hús“ í gr. 31.05, en í þeirri grein segir að kærandi skuli vátryggja byggingar sem reistar verði á bræðslulóðinni gegn bruna, þó þannig að bræðslukerjasalir o.fl. teljist ekki „hús“ í skilningi laganna. Að áliti úrskurðarnefndar var því óþarft að virða mannvirkið til brunabóta enda er kærandi ótvírætt undanþeginn, skv. samningsákvæðinu, skyldu til að vátryggja það og þar af leiðir að hann er á sama hátt undanþeginn skipulagsgjaldi vegna kerskála. Ber því að fella niður hina umdeildu álagningu.
Úrskurðarorð:
Felld er úr gildi álagning skipulagsgjalds vegna kerskála 3 í eigu Alcan á Íslandi hf. samkvæmt reikningi, dags. 1. apríl 2002, að fjárhæð kr. 6.013.959,-.
__________________________
Ásgeir Magnússon
_______________________ ______________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir