Ár 2003, fimmtudaginn 26. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 36/2001, kæra eigenda fasteignarinnar að Háhæð 1, Garðabæ, á þeirri ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 17. maí 2001, að synja um breytingu á deiliskipulagi sem heimilaði hækkun hússins um 25 sentimetra vegna byggingar kvista.
Á málið er nú lagður svofelldur
Úrskurður.
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. júlí 2001, er barst nefndinni hinn 26. júlí sama ár, kæra Ö og S, eigendur fasteignarinnar að Háhæð 1, Garðabæ þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 17. maí 2001 að hafna umsókn kærenda um breytingu á skipulagi, sem fæli í sér heimild til hækkunar á húsi kærenda um 25 sentimetra vegna byggingar kvista. Kærendur gera þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málavextir: Með bréfi, dags. 9. mars 2000, leituðu kærendur álits byggingarfulltrúa Garðabæjar á fyrirhuguðum breytingum á húsinu að Háhæð 1, Garðabæ. Breytingarnar voru í því fólgnar að reisa tvo kvisti og gera glugga á rými undir íbúð og opna milli hæða. Spurðust kærendur fyrir um hvort skipulag stæði í vegi fyrir nefndum breytingum. Byggingarfulltrúi mun hafa óskað eftir útlitsteikningum að fyrirhuguðum breytingum og kærendur skilað inn umbeðnum teikningum, unnum af arkitekt hússins. Byggingarfulltrúi benti kærendum á að með fyrirhuguðum breytingum yrði hæð hússins 80 sentimetra umfram heimildir í gildandi deiliskipulagi. Í kjölfar þessa sóttu kærendur um samþykki skipulagsnefndar fyrir umræddum framkvæmdum, en nefndin hafnaði erindinu með vísan til þess að umsóknin fæli í sér þörf á breytingu á skipulagi hvað varðaði hámarkshæð húss og aukið nýtingarhlutfall.
Kærendur sendu inn nýja umsókn til byggingarfulltrúa hinn 9. nóvember 2000 þar sem kvistir höfðu verið lækkaðir svo húsið væri innan hæðarmarka deiliskipulags. Var kærendum þá bent á að fyrirhuguð lofthæð þakrýmis fullnægði ekki skilyrðum byggingarreglugerðar um lofthæð í híbýlum manna. Kærendur leituðu þá til skipulagsnefndar með bréfi, dags. 9. janúar 2001, með fyrirspurn um hvort nefndin gæti mælt með breytingum á húsi kærenda í samræmi við umsókn frá 9. nóvember 2000, með þeirri breytingu að kvistir yrðu lækkaðir og næðu aðeins 20 sentimetra yfir leyfilega hámarkshæð, svo fullnægt yrði skilyrðum byggingarreglugerðar um vegghæð. Skipulagsnefnd tók erindið fyrir á fundi hinn 14. febrúar 2001 og mælti með að grenndarkynning færi fram vegna erindis kærenda, þegar teikningar hefðu borist, á þeim grundvelli að um óverulega breytingu á deiliskipulagi væri að ræða. Breyttar teikningar, dags. 14. mars 2001, voru sendar skipulagsnefnd og voru þær notaðar við grenndarkynningu, sem fram fór skv. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Skipulagsnefnd tók málið til umfjöllunar að kynningu lokinni hinn 2. maí 2001 og lagðist gegn hækkun hússins en mælti með breytingu á deiliskipulagi er fæli í sér hækkun nýtingarhlutfalls lóðarinnar. Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum hinn 17. maí 2001.
Kærendur undu ekki þessari niðurstöðu og skutu málinu til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.
Málsrök kærenda: Kærendur styðja kröfu sína þeim rökum að umsókn þeirra um leyfi fyrir breytingum á húsinu að Háhæð 1, Garðabæ feli í sér óverulegar breytingar á deiliskipulagi þar sem aðeins sé um að ræða hækkun lítils hluta hússins um 25 sentimetra. Aðeins hafi komið fram ein athugasemd við grenndarkynningu á fyrirhuguðum breytingum en þremur aðilum hafi verið sent málið til kynningar.
Í bókun skipulagsnefndar fyrir afstöðu hennar til málsins komi fram að lagst sé gegn erindinu m.a. í ljósi framkominna athugasemda án þess að önnur rök, en nefnd athugasemd, séu færð fram fyrir umdeildri niðurstöðu.
Í tilefni af því að skírskotað sé til fordæmisgildis í athugasemd þeirri sem fram hafi komið við grenndarkynninguna taka kærendur fram að fjöldi fordæma sé fyrir heimiluðum breytingum þar sem vikið sé frá skipulagi. Megi nefna hús þess sem sendi inn athugasemd við grenndarkynninguna, en það sé tvær hæðir þótt skipulag geri þar ráð fyrir húsi á einni og hálfri hæð. Fasteignin að Melhæð 2 sé tvær hæðir en megi aðeins vera ein hæð samkvæmt skipulagi. Þá hafi verið heimilað að hafa stóra kvisti á húsunum nr. 4 og 6 við Melhæð þannig að húsin séu í raun tveggja hæða þrátt fyrir að skipulag heimili aðeins eina hæð á þeim lóðum. Loks benda kærendur á að heimilað hafi verið að setja kvist á fasteignina að Melhæð 5, sem sé áþekkur kvistum þeim sem kærendur hugðust reisa, en var hafnað þar sem vegghæð uppfyllti ekki skilyrði byggingarreglugerðar.
Kærendur vísa og til þess að fjöldi raðhúsa í næsta nágrenni við hús þeirra hafi milliloft sem nýtt séu til daglegra nota þótt vegghæð rýmanna nái ekki tilskilinni lofthæð íbúðarherbergja. Óeðlilegt sé að teikningar af húsi þeirra hafi á sínum tíma verið samþykktar með millilofti sem næði ekki lágmarkslofthæð þótt um geymslu hafi verið að ræða. Hafi ákvæðum byggingarreglugerðar síðar verið breytt í þessu efni, geti sú breyting vart verið afturvirk og takmarkað nýtingarmöguleika fasteignaeigenda á rýmum í þegar byggðum húsum.
Málsrök Garðabæjar: Bæjaryfirvöld gera þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
Umsókn kærenda hafi lotið að því að setja kvisti á hús sitt, sem leitt hafi til þess að farið væri yfir leyfileg hæðarmörk húss og umfram nýtingarhlutfall lóðar miðað við gildandi skipulagskilmála. Skipulagsnefnd hafi ákveðið að grenndarkynna fyrirhugaðar framkvæmdir sem óverulega breytingu á deiliskipulagi í samræmi við 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Að kynningu lokinni hafi legið fyrir athugasemdir nágranna þar sem hækkun hússins hafi verið mótmælt. Skipulagsnefnd hafi á fundi sínum hinn 2. maí 2001 samþykkt að breyta deiliskipulagi fyrir lóðina að Háhæð 1-3 með hækkun nýtingarhlutfalls í allt að 0,4 en ekki talið fært, með hliðsjón af framkomnum athugasemdum, að breyta hámarkshæð hússins frá gildandi skipulagi.
Afstaða skipulagsnefndar til erindis kærenda byggi á því að fram hafi komið mótmæli við hækkun hússins umfram gildandi skipulag. Skipulagsnefnd hafi það hlutverk að tryggja að mannvirki séu byggð í samræmi við gildandi skipulag enda verði menn að treysta því að hönnun bygginga sé í samræmi við gildandi skilmála, jafnræðis sé gætt og heildarmynd hverfis sé ekki raskað gegn vilja íbúa. Í framkomnum mótmælum hafi verið vísað til þess að hækkun á húsi kærenda sé líkleg til að skerða útsýni og hafa önnur neikvæð áhrif vegna nálægðar, auk þess sem hækkun hússins hefði fordæmisgildi, sem gæti leitt til að fleiri hús yrðu hækkuð með þeim neikvæðu áhrifum sem því fylgdi.
Garðabær líti svo á að þegar fram komi athugasemdir, sem almennt geti talist málefnalegar frá aðila sem sannanlega eigi hagsmuna að gæta, verði ekki hróflað við gildandi skipulagi um byggingu húsa. Aðilar eigi að geta treyst því að farið sé að gildandi skilmálum og ekki fáist síðar leyfi til að víkja frá þeim nema fyrir liggi samþykki þeirra sem hagsmuna eigi að gæta.
Rétt sé hjá kærendum að vikið hafi verið frá deiliskipulagsskilmálum í þeim tilvikum sem þeir tilgreini, að undanskildu húsinu nr. 2 við Háhæð, sem teljist uppfylla skipulagsskilmála. Í þeim tilvikum, að undanskildu einu, hafi sérstaklega verið um þau mál fjallað og leyfi veitt fyrir framkvæmdum. Við þær afgreiðslur hafi legið fyrir eftir atvikum samþykki nágranna, sem hagsmuna hafi átt að gæta, og farið hafi verið eftir ákvæðum byggingarreglugerðar um lágmarkshæðir.
Niðurstaða: Í máli þessu er um það deilt hvort hafna hafi átt erindi kærenda um að fá leyfi til að reisa kvisti á hús sitt að Háhæð 1 í Garðabæ, sem skyldu rísa um 20 sentimetra yfir leyfilega hámarkshæð húss samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Kærendur beindu erindi sínu til skipulagsnefndar eftir að embætti byggingarfulltrúa benti á að fyrirliggjandi byggingarleyfisumsókn frá 9. nóvember 2001 uppfyllti ekki skilyrði byggingarreglugerðar um lágmarkshæð íbúðarhúsnæðis. Að tilhlutan skipulagsnefndar sendu kærendur teikningar og uppdrætti með breytingum, dags. 14. mars 2001, að umsóttum breytingum hússins til nefndarinnar.
Umsóknir um byggingarleyfi skal senda byggingarnefnd, sbr. 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og ályktar nefndin um úrlausn þeirra til viðkomandi sveitarstjórnar samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laganna. Þegar sótt er um byggingarleyfi, sem felur í sér óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi, skal skipulagsnefnd fjalla um málið og láta fara fram grenndarkynningu áður en umsókn hlýtur afgreiðslu byggingarnefndar, sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga. Ákvæðið veitir byggingarnefnd heimild til að afgreiða byggingarleyfisumsókn, að undangenginni grenndarkynningu og umfjöllun skipulagsnefndar, þegar umsóknin felur í sér óveruleg frávik frá gildandi skipulagi eða þegar ekki er við að styðjast deiliskipulag, sbr. ennfremur gr. 12.5 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.
Af málsatvikum er ljóst að umdeilt erindi kærenda til skipulagsnefndar tengdist byggingarleyfisumsókn sem vék lítillega frá gildandi deiliskipulagi í nýtingarhlutfalli lóðar og leyfilegri hámarkshæð húss vegna fyrirhugaðra kvista. Eftir að kærendur lögðu fram uppdrætti og teikningar er fullnægðu kröfum um byggingarleyfisumsókn hefði verið rétt af hálfu skipulagsnefndar að framsenda byggingarnefnd erindið sem byggingarnefndarmál og fara hefði átt með málið að hætti 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga. Þetta var ekki gert heldur var málið sett í farveg skv. 2. mgr. 26. gr. laganna sem óveruleg breyting á deiliskipulagi og þar með sem almennt skipulagsmál og hefur byggingarnefnd ekki ályktað um byggingarleyfisumsókn kærenda, svo sem hún lá fyrir með breyttum teikningum.
Að þessu virtu verður að telja að erindi kærenda um umsóttar breytingar samkvæmt innsendum teikningum frá 14. mars 2001 hafi ekki fengið lögboðna meðferð og er lagt fyrir bæjarstjórn Garðabæjar að hlutast til um að umsókn kærenda um leyfi til að setja kvisti á hús sitt að Háhæð 1, Garðabæ, í samræmi við nefndar teikningar, verði tekin til meðferðar í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Hin kærða ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 17. maí 2001 fól í sér lítils háttar breytingu á nýtingarhlutfalli lóðarinnar að Háhæð 1-3 sem telja verður óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi svo sem heimilað er í 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga. Breyting samkvæmt téðu lagaákvæði verður gerð að frumkvæði sveitarstjórna og er óháð því hvort fyrir liggi byggingarleyfisumsókn er kalli á deiliskipulagsbreytingu. Þykja ekki liggja fyrir þeir annmarkar á þeirri ákvörðun sem gætu leitt til ógildingar hennar.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar frá 17. maí 2001, en lagt er fyrir bæjarstjórnina að hlutast til um að umsókn kærenda um að setja kvisti á hús sitt að Háhæð 1, Garðabæ, samkvæmt fyrirliggjandi teikningum, dags. 14. mars 2001, verði tekin til meðferðar í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
_______________________________
Ásgeir Magnússon
______________________________ _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir