Ár 2003, fimmtudaginn 26. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 28/2001, kæra eiganda fasteignarinnar að Sævangi 6, Hafnarfirði á ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 16. maí 2001 að hafna umsókn kæranda um að í fasteigninni verði samþykktar tvær íbúðir.
Á málið er nú lagður svofelldur
Úrskurður.
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. júní 2001, er barst nefndinni hinn 21. júní sama ár, kærir L, kt. 310858-4209, eigandi fasteignarinnar að Sævangi 6, Hafnarfirði, þá ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 16. maí 2001 að synja umsókn kæranda um að fá samþykki byggingaryfirvalda fyrir tveimur íbúðum í greindri fasteign. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar staðfesti afgreiðslu byggingarnefndar á fundi sínum hinn 22. maí 2001. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málavextir: Hinn 23. febrúar 1976 var gerður lóðarleigusamningur við Hafnarfjarðarbæ um lóðina að Sævangi 6, Hafnarfirði. Í 14. gr. samningsins, er hefur fyrirsögnina „Sérstakir skilmálar”, er kveðið á um í lið 2.b að á lóðinni skuli reisa einnar hæðar einbýlishús og óheimilt sé að hafa fleiri íbúðir en eina í húsinu. Í úthlutunarskilmálum vegna lóðarinnar, samþykktum í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 20. janúar 1976, er umrædd lóð ætluð undir einbýlishús.
Kærandi keypti fasteignina að Sævangi 6, Hafnarfirði á árinu 1999. Með ódagsettu bréfi til byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar leitaði kærandi eftir samþykki bæjaryfirvalda fyrir skiptingu hússins í tvær íbúðir og lýsti í umsókn sinni ástæðum erindisins. Umsóknin var tekin fyrir á fundi byggingarnefndar Hafnarfjarðar hinn 16. maí 2001 og var málið afgreitt með svofelldri bókun: „Þar sem ekki er gert ráð fyrir fjölgun íbúða í deiliskipulagi synjar byggingarnefnd erindinu.” Kæranda var tilkynnt um þessi málalok með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 25. maí 2001.
Kærandi sætti sig ekki við þessi málalok og skaut synjun byggingarnefndar til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.
Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að eftir því sem best sé vitað hafi verið tvær íbúðir í húsinu nr. 6 við Sævang frá byggingu þess og hafi íbúðirnar verið leigðar út í um áratug þegar kærandi festi kaup á húsinu. Ekki sé farið fram á breytingar á húsinu, hvorki innan- né utanhúss enda fylgi hvorri íbúð geymsla og sér bifreiðastæði á lóð hússins. Í kjölfar kaupanna hafi kærandi þurft að ráðast í miklar endurbætur á húsinu og framundan séu frekari viðhaldsframkvæmdir. Sonur kæranda hafi hug á að kaupa íbúðina í kjallara hússins en lán úr Íbúðalánasjóði fáist ekki nema byggingaryfirvöld samþykki íbúðina sem sérstaka eign. Kæranda sé þörf á að selja íbúðina til að standa straum af viðgerðarkostnaði hússins.
Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Byggingarnefnd Hafnarfjarðar byggir hina kærðu ákvörðun sína á því að ekki sé gert ráð fyrir fjölgun íbúða á svæðinu í deiliskipulagi. Í umsögn til úrskurðarnefndarinnar er skírskotað til þess að í b lið 14. gr. lóðarleigusamnings um umrædda lóð sé kveðið á um að þar skuli reisa einnar hæðar einbýlishús og úthlutunarskilmálar lóðarinnar beri með sér að lóðinni hafi verið úthlutað undir einbýlishús.
Niðurstaða: Hin kærða ákvörðun fól í sér synjun á umsókn kæranda um samþykki byggingaryfirvalda fyrir tveimur íbúðum í húsinu nr. 6 við Sævang í Hafnarfirði sem sjálfstæðum eignarhlutum. Um er að ræða íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem rökstudd var með þeim hætti að gildandi skipulag stæði því í vegi að umsóknin yrði samþykkt.
Úrskurðarnefndin leitaði upplýsinga hjá Skipulagsstofnun og skipulagsfulltrúa Hafnarfjarðar um gildandi deiliskipulag umrædds svæðis. Upplýst hefur verið að í gildi sé skipulagsuppdráttur fyrir Norðurbæ Hafnarfjarðar, samþykktur af bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 19. desember 1967 með breytingu frá árinu 1972, er tekur til umrædds svæðis og sýnir lóðir og byggingarreiti en kveður ekki á um gerð einstakra bygginga eða fjölda íbúða á svæðinu. Áritun á uppdrættinum ber með sér að ásamt skipulagsuppdrættinum hafi verið samþykkt greinargerð en hún hefur ekki fundist, hvorki hjá Skipulagsstofnun né hjá Hafnarfjarðarbæ.
Ekki hafa verið lögð fram gögn af hálfu byggingarnefndar Hafnarfjarðar er renni stoðum undir þá ályktun að gildandi deiliskipulag standi því í vegi að samþykktar verði tvær íbúðir í húsinu nr. 6 við Sævang og eftirgrennslan úrskurðarnefndarinnar hefur ekki leitt í ljós að gildandi skipulag hafi að geyma takmarkanir á fjölda íbúða á umræddu svæði. Ákvæði í lóðarleigusamningi felur ekki í sér skipulagsskilmála enda kveður slíkur samningur á um einkaréttarlegt samningssamband viðkomandi sveitarstjórnar og einstakra lóðarleiguhafa og sama á við um úthlutunarskilmála lóða. Umræddum ákvæðum og skilmálum er unnt að breyta svo fremi að breytingarnar fari ekki í bága við gildandi skipulag.
Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga ber byggingarnefnd að rökstyðja afgreiðslu erinda er henni berast. Af 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 73/1997 verður ráðið að tilgangur rökstuðnings fyrir stjórnvaldsákvörðun sé sá að fyrir liggi hvaða málefnaleg sjónarmið hafi leitt til tiltekinnar ákvörðunar. Rökstuðningur ákvörðunar er og það atriði sem aðili máls lítur til við mat á réttarstöðu sinni í kjölfar stjórnvaldsákvörðunar.
Eins og rakið hefur verið liggur ekki fyrir í málinu að gildandi deiliskipulag feli í sér ákvörðun um íbúðafjölda á skipulagssvæðinu og á því rökstuðningur byggingarnefndar fyrir hinni kærðu ákvörðun ekki viðhlítandi stoð, en önnur rök voru ekki færð fram við ákvarðanatökuna. Að þessu virtu og með hliðsjón af 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga verður að telja rökstuðning hinnar kærðu ákvörðunar haldinn slíkum annmörkum að ekki verði hjá því komist að fella hana úr gildi.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 16. maí 2001, um að synja umsókn kæranda um að fá samþykki fyrir tveimur íbúðum í húsinu nr. 6 við Sævang, Hafnarfirði, er felld úr gildi.
_______________________________
Ásgeir Magnússon
___________________________ _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir