Ár 2003, miðvikudaginn 26. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður í forföllum aðalmanns.
Fyrir var tekið mál nr. 2/2003, kæra á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 4. desember 2002 um að gera eiganda 50m² húss að Vatnsendabletti nr. 241a í Kópavogi að fjarlægja umrætt hús af lóðinni eigi síðar en hinn 1. febrúar 2003, en að öðrum kosti verði húsið fjarlægt á kostnað eiganda.
Á málið er nú lagður svofelldur
Úrskurður.
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. jan 2003, kærir G ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 4. desember 2002 um að gera honum að fjarlægja 50m² hús af lóðinni að Vatnsendabletti nr. 241a í Kópavogi eigi síðar en hinn 1. febrúar 2003, en að öðrum kosti verði húsið fjarlægt á hans kostnað. Kærandi krefst ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og að réttaráhrifum hennar verði frestað meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.
Með bréfi byggingarfulltrúa og bæjarlögmanns Kópavogs, dags. 20. mars 2003, var kæranda tilkynnt að húsið yrði fjarlægt hinn 27. mars 2003 ef hann hefði ekki fyrir þann tíma orðið við kröfu bæjaryfirvalda um brottfltuning þess. Er málið nú tekið til úrlausnar um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.
Málavextir: Málavöxtum verður hér aðeins lýst í stuttu máli að því marki sem þurfa þykir við úrlausn þessa þáttar málsins. Kærandi var eigandi að húsi að Vatnsendabletti 241a, sem mun hafa eyðilagst í eldsvoða í aprílmánuði árið 1999. Ekki hefur komið til endurbyggingar húss á lóðinni og mun ágreiningur kæranda við landeiganda um réttindi yfir umræddri lóð hafa staðið því í vegi, en deiliskipulag hefur verið samþykkt fyrir umrætt svæði og er þar gert ráð fyrir að lóðin verði að hluta byggingarlóð fyrir íbúðarhús.
Haustið 2002 flutti kærandi 50m² timburhús eða skúr á lóðina. Kveðst hann hafa skipt um klæðningu á skúrnum og sett í hann glugga en ekki fest hann við undirstöður. Virðist hafa vakað fyrir kæranda að nýta hús þetta í tengslum við hagnýtingu lóðarinnar og eftir atvikum sem vinnuaðstöðu meðan byggt væri nýtt hús á lóðinni.
Fljótlega eftir að húsið var flutt á lóðina komu fram athugasemdir af hálfu byggingarfulltrúa um að ekki hefði verið aflað tilskilinna leyfa og tilkynnti hann kæranda að frekari framkvæmdir á lóðinni skyldu stöðvaðar.
Á fundi byggingarnefndar Kópavogs hinn 4. desember 2002 ákvað nefndin að gefa eiganda frest til 1. febrúar 2003 til þess að fjarlægja húsið af lóðinni en ella myndi nefndin hlutast til um að það yrði gert á kostnað eiganda.
Þessari ákvörðun vildi kærandi ekki una og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 3. janúar 2003, svo sem að framan greinir. Hafa bæjaryfirvöld nú ítrekað kröfu sína um brottflutning hússins eins og þegar hefur verið lýst.
Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er á því byggt að umrætt hús sé ekki fasteign þar sem það hafi ekki verið fest við undirstöður. Það standi þar sem áður hafi staðið hús það er brunnið hafi og telji hann sig eiga fullan rétt á að endurbyggja hús í þess stað. Þó hafi alltaf staðið til að byggja annað hús og stærra ofar í lóðinni á skilgreindum byggingarreit en af því hafi ekki orðið þar sem byggingarleyfi hafi ekki verið veitt. Hús það sem um sé deilt í málinu sé til bráðbirgða en fyrirhugað sé að nýta það á meðan byggingarframkvæmdum standi. Loks bendir kærandi á að aðstæður á lóðinni séu nú erfiðar til flutnings á húsinu vegna veðurfars og bleytu og kunni að vera ógerlegt að koma stórum bíl og tækjum að því eins og sakir standi. Ekki hafi verið sýnt fram á að neina nauðsyn beri til þess að fjarlægja húsið meðan ágreiningur um stöðu þess á lóðinni sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni og beri því að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar á meðan.
Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu Kópavogsbæjar er vísað til þess að á fundi byggingarnefndar Kópavogs hinn 9. ágúst 2002 hafi verið hafnað erindi kæranda um að honum yrði veitt leyfi til að flytja umrætt hús á lóðina til að nota sem aðstöðu meðan á endurbygging nýs húss á lóðinni stæði yfir og í framhaldi af því að mega nýta húsið sem bílskúr eða bátaskýli. Hafi m.a. verið vísað til þess að samkvæmt forsendum nýs skipulags á svæðinu þyrfti að gera nýja lóðarleigusamninga við landeiganda. Kærandi hafi ekki kært þessa synjun byggingarnefndar og standi því óhögguð sú ákvörðun nefndarinnar að veita ekki leyfi fyrir umræddu húsi á lóðinni. Kærandi hafi, þrátt fyrir þetta, flutt húsið á lóðina og hafist handa við endurbætur á því. Þetta hafi honum verið óheimilt og hafi framkvæmdir verið stöðvaðar jafnskjótt og um þær varð kunnugt. Ákvörðun byggingarnefndar um að gera kæranda að fjarlægja húsið af lóðinni eigi sér stoð í 2. og 5. mgr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Kærandi hafi ekki orðið við fyrirmælum um að fjarlægja húsið og hafi því verið ákveðið að láta vinna verkið á kostnað eiganda þrátt fyrir kæru hans til úrskurðarnefndarinnar, enda fresti kæran ekki réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarnefndar Kópavogs frá 4. desember 2002 að gera kæranda að fjarlægja hús það sem að framan greinir af lóðinni að Vatnsendabletti 241a innan tilskilins frests og um að láta að öðrum kosti fjarlægja húsið á kostnað kæranda. Frestur sá sem kæranda var veittur til verksins er liðinn og liggur nú fyrir ákvörðun bæjaryfirvalda í Kópavogi um að fjarlægja húsið á morgun, hinn 27. þessa mánaðar. Hefur kæranda verið tilkynnt sú ákvörðun.
Í hinni kærðu ákvörðun felst að beita skuli þvingunarúrræðum sem byggingaryfirvöldum eru tiltæk og vísa bæjaryfirvöld til ákvæða sem eiga annars vegar við um byggingarleyfisskyld mannvirki sem reist eru án samþykkis sveitarstjórnar og fara í bága við skipulag og hins vegar um ólöglegar byggingar eða byggingarhluta. Eru réttarúrræði þessi íþyngjandi og sæta lagareglur um beitingu þeirra þröngri túlkun. Verður jafnframt að gera ríkar kröfur til rökstuðnings fyrir ákvörðunum stjórnvalda um beitingu slíkra úrræða og þurfa þær að eiga sér ótvíræða lagastoð.
Ágreiningur er m.a. í málinu um það hvort umrætt hús sé byggingarleyfisskylt mannvirki þar sem það hafi ekki verið varanlega skeytt við undirstöður og þá jafnframt um það hvort ákvæði 2. og 5. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 eigi við í málinu. Engin rök hafa verið færð fyrir því af hálfu bæjaryfirvalda að nauðsyn beri til að fjalægja umrætt hús af öryggisástæðum eða vegna annarra brýnna hagsmuna bæjarfélagsins. Þá liggur ekki fyrir að nágrannar hafi amast við húsinu eða að krafa hafi komið fram frá þeim eða öðrum hagsmunaaðilum um brottflutning þess.
Að því virtu sem að framan er rakið þykir ekki hafa verið sýnt fram á að nauðsyn beri til að framfylgja hinni kærðu ákvörðun áður en úrskurðarnefndin kveður upp efnisúrskurð í málinu. Þykir því rétt, með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og með heimild í 2. mgr. 29. gr. sömu laga, að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.
Úrskurðarorð:
Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar byggingarnefndar Kópavogs frá 4. desember 2002 um að fjarlægja skuli 50m² hús af lóðinni að Vatnsendabletti nr. 241a í Kópavogi meðan mál þetta er til efnismeðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Fyrirhuguð framkvæmd ákvörðunarinnar skal því stöðvuð.
_______________________________
Ásgeir Magnússon
______________________________ _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Óðinn Elísson