Ár 2003, fimmtudaginn 23. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður í forföllum aðalmanns.
Fyrir var tekið mál nr. 47/2001, kæra eiganda fasteignarinnar að Hamrahlíð 8, Vopnafirði, vegna dráttar á afgreiðslu byggingarnefndar og sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps á erindi um byggingarleyfi fyrir breytingum á greindri fasteign.
Á málið er nú lagður svofelldur
Úrskurður.
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. október 2001, er barst nefndinni 22. október sama ár, kærir Hilmar Gunnlaugsson hdl., fyrir hönd V hf., kt. 640179-0159, Lyngási 6-7 Egilsstöðum, drátt á afgreiðslu byggingarnefndar og sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps á erindi kæranda, dags. 17. júlí 2001, um byggingarleyfi vegna fyrirhugaðra breytinga á fasteigninni að Hamrahlíð 8, Vopnafirði.
Kærandi gerir þá kröfu að úrskurðarnefndin fallist á umbeðnar breytingar í samræmi við erindi hans til Vopnafjarðarhrepps.
Málavextir: Með bréfi til byggingarfulltrúa Vopnafjarðarhrepps, dags. 17. júlí 2001, óskaði kærandi eftir heimild byggingaryfirvalda hreppsins fyrir breytingum á íbúðarhúsinu að Hamrahlíð 8, Vopnafirði. Í fyrirhuguðum framkvæmdum fólst að gluggum yrði fjölgað og breytt, svalir byggðar, bíleymsla stækkuð og bætt við göngudyrum á húsið. Í bréfinu var tekið fram að fullnaðaruppdrættir samkvæmt byggingarreglugerð yrðu lagðir fram að fengnu samþykki byggingarnefndar fyrir breytingunum.
Erindi kæranda var tekið fyrir á fundi byggingarnefndar Vopnafjarðarhrepps hinn 13. september 2001 og afgreitt með eftirfarandi bókun: „Byggingarnefnd Vopnafjarðarhrepps getur fallist á útlit fyrirhugaðra breytinga en getur ekki tekið endanlega afstöðu til erindisins fyrr en endanlegar teikningar liggja fyrir með endanlegum málsetningum. Sérstaklega þarf að gæta að skilyrðum um brunavarnir sé uppfyllt hvað fjarlægðarmörk snertir og einnig staðsetning framkvæmda innan lóðar. Jafnframt er minnt á nauðsyn þess að fá samþykki nágranna fyrir breytingunum.” Mun hafa láðst að tilkynna kæranda um þessa afgreiðslu málsins.
Kærandi kærði síðan drátt á afgreiðslu málsins til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.
Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að honum sé ekki kunnugt um að efnisleg rök mæli gegn beiðni hans um greint byggingarleyfi. Kæra til úrskurðarnefndarinnar byggi á ákvæði 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er heimili að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verði kærð til. Fer kærandi fram á að úrskurðarnefndin heimili umræddar breytingar í samræmi við erindi kæranda frá 17. júlí 2001 enda fullnægi erindið skilyrðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. einkum 3. mgr. 43. gr. laganna.
Málsrök Vopnafjarðarhrepps: Bent er á að erindi kæranda hafi verið afgreitt á fundi byggingarnefndar Vopnafjarðarhrepps hinn 13. september 2001. Í bókun nefndarinnar hafi verið tekið jákvætt á erindinu en bent á að ekki væri hægt að taka ákvörðun í málinu fyrr en fullnægjandi uppdrættir er uppfylltu skilyrði byggingarreglugerðar lægju fyrir. Þau mistök virðist hafa átt sér stað að kæranda hafi ekki verið tilkynnt um þessa afgreiðslu en það hafi verið gert jafnskjótt og mistökin hafi komið í ljós.
Hinn 14. mars 2002 barst úrskurðarnefndinni símbréf frá sveitarstjóra Vopnafjarðarhrepps, þar sem fram kom að erindi kæranda hafi verið tekið fyrir hinn 13. september 2001 og afgreitt með bókun. Var haft samband við lögmann kæranda og leitað eftir afstöðu kæranda til framhalds málsins í ljósi framkominna upplýsinga. Kærandi telur mál sitt enn óafgreitt af hálfu byggingarnefndar þar sem svo hafi verið um samið að grenndarkynning yrði látin fara fram áður en endanlegar teikningar yrðu gerðar og þá að teknu tilliti til athugasemda nágranna ef einhverjar yrðu.
Niðurstaða: Tilefni kærumáls þessa er ætlaður dráttur á afgreiðslu byggingarnefndar Vopnafjarðarhrepps á erindi kæranda frá 17. júlí 2001, þar sem leitað var eftir heimild til þar greindra breytinga á húsinu að Hamrahlíð 8, Vopnafirði.
Umrætt erindi kæranda fól í sér beiðni um heimild til breytinga sem byggingarleyfi þarf til samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Í bréfi kæranda er tekið fram að fullnaðaruppdrættir samkvæmt byggingarreglugerð verði lagðir fram að fengnu samþykki byggingarnefndar fyrir umbeðnum breytingum en erindinu munu hafa fylgt teikningadrög er sýndu breytingarnar. Í 4. mgr. 43. gr. nefndra laga segir að byggingarleyfisumsókn skuli fylgja nauðsynleg hönnunargögn og skilríki sem nánar sé kveðið á um í byggingarreglugerð. Í 46. gr. laganna og 15.-24. gr. reglugerðarinnar eru ákvæði um fylgigögn byggingarleyfisumsóknar og kröfur sem gerðar eru til uppdrátta og annarra hönnunargagna.
Fyrir liggur að umrætt erindi kæranda til byggingaryfirvalda Vopnafjarðarhrepps fullnægði ekki lögboðnum skilyrðum skipulags- og byggingarlaga og byggingarreglugerðar um fylgigögn enda tekið fram í erindinu að fullnaðaruppdrættir yrðu lagðir fram að lokinni afgreiðslu þess. Bókun byggingarnefndar frá 13. september 2001 ber þess og vitni að réttilega hafi verið litið á erindi kæranda sem fyrirspurn um afstöðu nefndarinnar til erindisins áður en kærandi réðist í að láta gera fullnaðaruppdrætti, sbr. gr. 12.4 í byggingarreglugerð, en slíkt mun tíðkað til þess að komast hjá kostnaði við gerð aðal- og séruppdrátta reynist byggingaryfirvöld mótfallin umsókn. Verður að skýra 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga svo, með hliðsjón af 3. og 4. mgr. ákvæðisins, að byggingarleyfisumsókn verði að uppfylla lágmarkskröfur þess, um aðaluppdrátt og framkvæmdaáform, til þess að umsóknin verði grenndarkynnt með lögformlegum hætti.
Að þessu virtu telur úrskurðarnefndin að erindi kæranda frá 17. júlí 2001 hafi verið afgreitt með fullnægjandi hætti á fundi byggingarnefndar Vopnafjarðar hinn 13. september sama ár eða áður en kæra um drátt á afgreiðslu barst úrskurðarnefndinni. Kærandi hafði því ekki hagsmuni af því að fá afstöðu úrskurðarnefndarinnar til þess álitaefnis hvort óhæfilegur dráttur væri orðinn á afgreiðslu erindisins og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
______________________________
Ásgeir Magnússon
___________________________ _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Óðinn Elísson