Ár 2002, fimmtudaginn 31. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 81/2000, kæra Haraldar Bjargmundssonar húsasmíðameistara á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 6. desember 2000 að hafna umsókn hans um staðbundna löggildingu sem húsasmíðameistara í lögsagnarumdæminu.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. desember 2000, er barst úrskurðarnefndinni hinn 29. sama mánaðar, kærir Guðmundur Jónsson hrl., fyrir hönd H, Úthlíð 9, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 6. desember 2000 að hafna umsókn kæranda um staðbundna löggildingu sem húsasmíðameistara í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Borgarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar hinn 21. desember 2000. Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt verði fyrir skipulags- og byggingarnefnd að veita hina umbeðnu löggildingu.
Málavextir: Kærandi lauk sveinsprófi í húsasmíði á árinu 1970 og fékk meistararéttindi í iðngrein sinni með meistarabréfi útgefnu af lögreglustjóranum í Reykjavík hinn 23. maí 1975.
Með bréfi til byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 15. júní 2000, sótti lögmaður kæranda fyrir hans hönd um heimild til þess að bera ábyrgð á byggingarframkvæmdum í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur sem húsasmíðameistari. Umsókn kæranda fylgdu staðfestingar um sambærilegar staðbundnar heimildir til handa kæranda í Stykkishólmsbæ, Snæfellsness- og Borgarfjarðarumdæmi, Akureyrarbæ, Hafnarfjarðarbæ, Kópavogsbæ, Seltjarnarnesi, Snæfellsbæ, Garðabæ og Vatnsleysustrandahreppi auk sveins- og meistarabréfs kæranda. Í bréfinu var farið fram á að við afgreiðslu umsóknarinnar yrði gætt jafnræðis og stuðst yrði við þær heimildir er stæðu að baki meðfylgjandi afgreiðslum annarra sveitarfélaga. Byggingarfulltrúi mun hafa synjað umsókn kæranda hinn 7. nóvember 2000.
Kærandi hafði jafnframt sótt um heimild til að bera ábyrgð á byggingarframkvæmdum sem húsasmíðameistari í lögsagnarumdæmi Mosfellsbæjar og hafði byggingarfulltrúi bæjarins leitað umsagnar umhverfisráðuneytis um gildandi rétt á þessu sviði vegna umsóknar kæranda og annarra iðnmeistara um staðbundna viðurkenningu samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og byggingarreglugerð. Í svari ráðuneytisins, dags. 23. maí 2000, er m.a. vikið að 2. mgr. 37. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og 10. tl. ákvæðis til bráðabirgða í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 með áorðnum breytingum skv. lögum nr. 117/1999. Í bréfinu er síðan komist að eftirfarandi niðurstöðu:
„Í 75. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands segir að öllum mönnum sé frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa en heimilt sé að setja þessu frelsi skorður með lögum enda krefjist almannahagsmunir þess. Skýra verður því alla skerðingu á atvinnufrelsi manna í lögum þröngri skýringu. Ráðuneytið hefur eftir gildistöku laga nr. 73/1997 litið svo á með vísan til ofangreinds, að þeir aðilar sem höfðu öðlast staðbundna viðurkenningu í tíð eldri laga héldu þeim rétti sínum og einnig þeim rétti að heimilt væri að yfirfæra þessi réttindi til annara byggingarumdæma.”
Kærandi skaut afgreiðslu byggingarfulltrúa til byggingarnefndar skv. gr. 8.6 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 með bréfi, dags. 24. nóvember 2000, og krafðist þess að honum yrði veitt heimild til að bera ábyrgð á byggingarframkvæmdum í Reykjavík. Í bréfinu kom fram að kærandi hafi fengið samskonar umsókn samþykkta í Mosfellsbæ eftir að umsókn hans til byggingaryfirvalda í Reykjavík var lögð fram. Kærandi fór fram á að afgreiðslu erindisins fylgdi rökstuðningur á hvorn veg sem niðurstaðan yrði.
Skipulags- og byggingarnefnd tók erindi kæranda fyrir á fundi hinn 29. september 2000 og vísaði því til umsagnar skrifstofustjóra byggingarfulltrúa. Málið var síðan tekið fyrir á fundi hinn 6. desember 2000 þar sem fyrir lá umsögn skrifstofustjóra byggingarfulltrúa frá 4. sama mánaðar. Skipulags- og byggingarnefnd synjaði erindi kæranda með vísan til greindrar umsagnar.
Kærandi sætti sig ekki við niðurstöðu málsins og kærði hana til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.
Kærandi sendi úrskurðarnefndinni bréf umhverfisráðuneytisins, dags. 23. nóvember 2001, þar sem hafnað er umsókn kæranda um þátttöku í námskeiði til löggildingar iðnmeistara skv. 10. tölulið til bráðabirgða í skipulags- og byggingarlögum þar sem umsókn kæranda hafi borist of seint eða eftir 1. júlí 2001. Í bréfinu kemur fram að með lögum nr. 74/2001 hafi frestur til að sækja um þátttöku í greindum námskeiðum verið styttur til 1. júlí 2001 í stað 1. september 2001.
Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann hafi hlotið meistararéttindi í iðn sinni árið 1975 og starfað sem slíkur síðan. Á árunum 1999 og 2000 hafi hann fengið staðbundin réttindi til þess að bera ábyrgð á byggingarframkvæmdum sem húsasmíðameistari í 12 sveitarfélögum.
Með hinni kærðu synjun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur séu meistararéttindi hans ekki viðurkennd og sé afgreiðsla málsins öndverð við afgreiðslur annarra sveitarfélaga á sambærilegum umsóknum kæranda. Hin kærða ákvörðun sé jafnframt ósamrýmanleg túlkun umhverfisráðuneytisins á réttarstöðu iðnmeistara samkvæmt gildandi lögum og reglugerðum á þessu sviði sem fram komi í bréfi ráðuneytisins frá 23. maí 2000. Loks skírskotar kærandi til þess að skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur hafi ekki gætt jafnræðis við afgreiðslu umsóknar hans þar sem dæmi séu um að öðrum iðnmeisturum, sem ekki hafi borið ábyrgð á byggingarframkvæmdum, hafi verið veitt staðbundin réttindi í Reykjavík.
Málsrök skipulags- og byggingarnefndar: Í 2. mgr. 52. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segi að þeir iðnmeistarar einir geti borið ábyrgð á einstökum verkþáttum við byggingarframkvæmdir sem hlotið hafi til þess leyfi ráðherra. Þá segi ennfremur í sömu grein að iðnmeistarar sem hafi fullgilt meistarabréf og hafi lokið prófi frá meistaraskóla geti hlotið slíka löggildingu enda séu þeir starfandi sem meistarar í iðngrein sinni.
Samkvæmt grein 37.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 geti iðnmeistari, sem ekki hafi lokið námi í meistaraskóla en leyst út meistarabréf, hlotið staðbundna viðurkenningu byggingarnefndar til að bera ábyrgð á einstökum verkþáttum við byggingarframkvæmdir. Í ákvæðinu séu talin upp þau skilyrði sem uppfylla þurfi svo byggingarnefnd geti veitt slíkt leyfi, en þau eru: Að umsækjandi hafi lokið sveinsprófi fyrir 1. janúar 1989, hafi áður fengið staðbundna viðurkenningu í öðru umdæmi og leggi fram verkefnaskrá staðfesta af byggingarfulltrúa er sýni fram á að hann hafi að staðaldri haft umsjón með og borið ábyrgð á byggingarframkvæmdum í a.m.k. þrjú ár eftir viðurkenningu í viðkomandi byggingarnefndarumdæmi/um.
Umsókn kæranda hafi fylgt meistarabréf en hann hafi ekki framvísað prófskírteini frá meistaraskóla og umsókninni hafi ekki fylgt staðfest verkefnaskrá ef frá er talin yfirlýsing byggingarfulltrúans í Snæfellsness- og Borgarfjarðarumdæmi um að kærandi hafi staðið fyrir og borið ábyrgð á byggingu eins sumarhúss að Varmabrekku nr. 8 sumarið 1992. Kærandi hafi því ekki sýnt fram á að hann hafi haft umsjón með eða borið ábyrgð á byggingarframkvæmdum í a.m.k. þrjú ár í þeim umdæmum sem hann hafi fengið viðurkenningu í. Af þeim sökum hafi skipulags- og byggingarnefnd ekki haft heimild til að veita kæranda staðbundna viðurkenningu í Reykjavík.
Allir iðnmeistarar sem sótt hafi um staðbundna viðurkenningu til að hafa umsjón með og bera ábyrgð á verkframkvæmdum í Reykjavík hafi orðið að framvísa þeim gögnum sem talin séu upp í grein 37.2 í byggingarreglugerð og væri jafnræðis gætt við afgreiðslu mála. Iðnmeistari sá sem kærandi vitnar til í kæru sinni hafi fengið staðbundna viðurkenningu í Reykjavík m.a. með hliðsjón af vottorði byggingarfulltrúans á Siglufirði um að sá umsækjandi hafi verið starfandi meistari á Siglufirði á árunum 1983 til 1998 og hafi á þeim tíma séð um uppsetningu timbureiningahúsa auk margra annarra verka sem hann hafi borið ábyrgð á.
Bent er á heimild kæranda samkvæmt 10. tölulið til bráðabirgða í skipulags- og byggingarlögum til þess að sækja námskeið á vegum umhverfisráðuneytis sem veitti honum umrædd réttindi á landsvísu en sú heimild gilti til 1. júlí 2001. Það ákvæði hafi verið sett til þess að binda endi á styr sem staðið hafi um starfsleyfi iðnmeistara. Umrædd heimild hafi verið framlengd til 1. júlí 2002 með 19. gr. laga nr. 170/2000 en sækja skyldi um þátttöku í námskeiði fyrir 1. september 2001.
Niðurstaða: Hin kærða ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar fól í sér synjun á umsókn kæranda um staðbundna viðurkenningu til að bera ábyrgð á einstökum verkþáttum við byggingarframkvæmdir í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.
Meginregla núgildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um réttindi iðnmeistara er hér um ræðir er að finna í 2. mgr. 52. gr. laganna. Þar er kveðið á um að einungis þeir iðnmeistarar sem lokið hafi námi í meistaraskóla geti fengið löggildingu ráðherra á landsvísu til að bera ábyrgð á byggingarframkvæmdum. Tímabundið ákvæði var sett í 10. tölulið ákvæðis laganna til bráðabirgða þar sem þeim iðnmeisturum sem ekki höfðu lokið námi í meistaraskóla var gefinn kostur á að öðlast umrædd réttindi með því að sækja sérstakt námskeið.
Í 5. tölulið bráðabirgðaákvæðis laganna er tekið fram að gildistaka þeirra hafi ekki áhrif á réttindi iðnmeistara og byggingarstjóra sem hlotið hafa viðurkenningu byggingaryfirvalda til þess að standa fyrir framkvæmdum hver á sínu sviði. Í lögunum er ekki nánar fjallað um veitingu staðbundinna réttinda til handa iðnmeisturum eða hvort og þá hvaða skilyrði skuli setja fyrir slíkum viðurkenningum eftir gildistöku þeirra.
Núgildandi heimild til þess að veita iðnmeisturum staðbundna viðurkenningu til þess að bera ábyrgð á verkframkvæmdum gagnvart byggingarnefnd er hins vegar í gr. 37.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Kærandi uppfyllir þau skilyrði ákvæðisins að hafa lokið sveinsprófi fyrir 1. janúar 1989 og hafa fengið viðurkenningu í byggingarnefndarumdæmi. Umsókn kæranda var hins vegar hafnað á þeirri forsendu að hún fullnægði ekki því skilyrði ákvæðisins að umsókn skuli fylgja verkefnaskrá staðfest af byggingarfulltrúa er sýni fram á að umsækjandi hafi að staðaldri haft umsjón með og borið ábyrgð á byggingarframkvæmdum í a.m.k. þrjú ár eftir viðurkenningu í viðkomandi byggingarnefndarumdæmi eða umdæmum. Kærandi mun fyrst hafa fengið staðbundna viðurkenningu byggingarnefndar á árinu 1992 er hann hlaut slík réttindi í núverandi Snæfellsness- og Borgarfjarðarumdæmi en í öðrum umdæmum á árunum 1999 og 2000. Umsókn kæranda um staðbundin réttindi í Reykjavík fylgdi aðeins staðfesting á því að hann hafi á árinu 1992 borið ábyrgð á einni byggingu sem iðnmeistari. Verður að fallast á þau rök skipulags- og byggingarnefndar að umrædd staðfesting sýni ekki fram á að kærandi fullnægi því skilyrði gr. 37.2 í byggingarreglugerð að hafa að staðaldri haft umsjón með og borið ábyrgð á byggingarframkvæmdum í a.m.k. þrjú ár.
Tilvitnað ákvæði í gr. 37.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 er ófrávíkjanlegt og hefur ekki verið hnekkt. Verður það því lagt til grundvallar við úrlausn máls þessa. Þykja hvorki réttarframkvæmd í einstökum umdæmum utan Reykjavíkru né umsögn umhverfisráðuneytis eiga að leiða til annarrar niðurstöðu.
Loks verður ekki séð að afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur hafi falið í sér brot á jafnræðisreglu gagnvart kæranda enda hefur ekki verið í ljós leitt að öðrum iðnmeisturum hafi verið veitt staðbundin viðurkenning í umdæmi Reykjavíkur án þess að fyrir hafi legið að fyrrgreindu skilyrði gr. 37.2 í byggingarreglugerð væri fullnægt.
Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið telur úrskurðarnefndin rétt að hafna kröfu kæranda um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til nefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar Skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 6. desember 2000 að synja umsókn kæranda um staðbundna viðurkenningu til þess að bera ábyrgð á byggingarframkvæmdum í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.
____________________________________
Ásgeir Magnússon
___________________________ _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir