Ár 2002, föstudaginn 4. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 6/2001, kæra eiganda fasteignarinnar að Austurstræti 16, Reykjavík, á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 13. desember 2000 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni nr. 18 við Austurstræti í Reykjavík, sem fólu m.a. í sér leyfi fyrir viðbyggingu úr gleri ofan á hluta fyrstu hæðar hússins.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. febrúar 2001, er barst nefndinni sama dag, kærir Kirkjuhvoll ehf. þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 13. desember 2000 að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni að Austurstræti 18 í Reykjavík, þar sem m.a. er gert ráð fyrir viðbyggingu ofan á þaki fyrstu hæðar hússins. Borgarstjórn Reykjavíkur staðfesti ákvörðunina á fundi sínum hinn 21. desember 2000. Kærandi gerir þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi.
Málavextir: Á miðborgarsvæði Reykjavíkur er í gildi deiliskipulag sem er að stofni til frá árinu 1988. Á árinu 1998 var deiliskipulaginu breytt og var þá leyfður glerveggur á framhlið tveggja neðstu hæða hússins að Austurstræti 18 og jafnframt heimiluð framlenging kaffihúss með glerskála til suðurs á þaki fyrstu hæðar ásamt afgirtum þaksvölum.
Með bréfi, dags. 23. nóvember 1998, til skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkur var sótt um leyfi fyrir þeim breytingum á húsinu að Austurstræti 18 að kaffihús á annarri hæð fengist framlengt út á þak fyrstu hæðar og þaksvalir stækkaðar í samræmi við teikningar frá 19. október 1998. Nam umsótt stækkun alls 102 fermetrum og var gert ráð fyrir að viðbyggingin yrði úr gleri. Fyrirspurn um erindið hafði áður verið send Borgarskipulagi sem hafði lagst gegn framkvæmdinni samkvæmt minnisblaði, dags. 11. nóvember 1998.
Ný byggingarleyfisumsókn um sömu framkvæmdir barst skipulags- og umferðarnefnd með bréfi, dags. 19. janúar 1999, þar sem breytingar höfðu verið gerðar á útfærslu framkvæmdanna frá fyrri umsókn og var umfang þeirra samkvæmt umsókninni 99 fermetrar. Erindið var tekið fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefndar hinn 25. janúar 1999 og lá jafnframt fyrir fundinum fyrrgreint minnisblað Borgarskipulags frá 11. nóvember 1998. Nefndin samþykkti að grenndarkynna breytingu á deiliskipulagi svæðisins til samræmis við umsóttar framkvæmdir. Við kynninguna bárust athugasemdir frá kæranda, Fíton ehf. og frá Húsafriðunarnefnd. Borgarskipulag vann umsögn um athugasemdirnar, dags. 2. mars 1999, þar sem fram kom að nokkuð hafi verið gert til að minnka áhrif viðbyggingarinnar frá fyrri tillögu en mælt var enn gegn samþykkt framkvæmdanna. Málið mun ekki hafa verið lagt fyrir skipulags- og umferðarnefnd að kynningu lokinni.
Á fundi byggingarnefndar hinn 9. mars 2000 var enn lögð fram byggingarleyfisumsókn þar sem sótt var um leyfi til þess að hækka útbyggða glerframhlið að Austurstræti 18 um eina hæð, byggja glerskála fyrir kaffisölu við suðurhlið 2. hæðar, loka þakgluggum á bakbyggingu og breyta þakinu í svalir. Einnig var óskað eftir samþykki fyrir áður gerðum breytingum á stigum í kjallara og á 1. hæð og opum í plötu 1. hæðar hússins. Í þeirri umsókn hafði glerskálinn verið minnkaður í 68,4 fermetra. Var málinu vísað til umsagnar Borgarskipulags. Umsóknin var næst tekin fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefndar hinn 27. mars 2000 þar sem samþykkt var að kynna hagsmunaaðilum breytingu á deiliskipulagi til samræmis við greinda umsókn samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Umsóknin var í kynningu frá 29. mars til 27. apríl 2000 og barst m.a. athugasemdabréf frá kæranda, dags. 10. apríl 2000. Málið var tekið fyrir að nýju í skipulags- og umferðarnefnd þann 29. maí 2000 þar sem einnig voru lögð fram drög að umsögn Borgarskipulags, dags. 25. maí sama ár, þar sem gerð var sú tillaga um breytingu á umsóttum framkvæmdum að grindverk á þaksvölum yrði dregið inn frá þakbrúnum. Á fundinum samþykkti nefndin að grenndarkynna tillöguna á ný með þeirri breytingu sem lögð var til í umsögn Borgarskipulags.
Í kjölfar þessarar samþykktar var unnin tillaga að breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar að Austurstræti 18 og hún grenndarkynnt fyrir hagsmunaaðilum að Lækjargötu 2, 2a og 4, Austurstræti 16 og 20 og Pósthússtræti 9 og 11. Tillagan var í kynningu frá 9. júní til 8. júlí 2000. Við þá grenndarkynningu bárust athugasemdir við tillöguna frá kæranda og Homeportal.com á Íslandi með bréfum, dags. 7. júlí 2000. Tillagan var lögð fyrir skipulags- og umferðarnefnd á ný hinn 21. ágúst 2000 ásamt athugasemdunum og umsögn Borgarskipulags, dags. 17. ágúst 2000, og var skipulagstillagan samþykkt og vísað til borgarráðs.
Borgarráð staðfesti afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum þann 29. ágúst 2000 með þeirri breytingu þó að gler í vesturhlið fyrirhugaðrar viðbyggingar skyldi vera ógegnsætt. Fyrir afgreiðsluna hafði borgarráði borist bréf kæranda, dags. 28. ágúst 2000, þar sem athugasemdir við deiliskipulagsbreytinguna voru áréttaðar. Tillagan var síðan send Skipulagsstofnun til skoðunar skv. 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga og athugasemdaaðilum tilkynnt um afgreiðslu málsins með bréfi, dags. 5. september 2000. Með bréfi, dags. 22. september 2000, tilkynnti Skipulagsstofnun að hún legðist ekki gegn því að auglýsing um gildistöku breytingarinnar yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda. Var auglýsing þar að lútandi birt þann 20. október 2000.
Kærandi kærði deiliskipulagsbreytinguna til úrskurðarnefndarinnar og síðan útgáfu byggingarleyfis fyrir breytingum á fasteigninni að Austurstræti 18 eins og að framan greinir. Gekk úrskurður í kærumálinu um deiliskipulagsbreytinguna hinn 5. september sl. þar sem kröfu um ógildingu skipulagsbreytingarinnar var hafnað.
Málsrök kæranda: Kærandi styður kröfu sína um ógildingu byggingarleyfisins þeim rökum að deiliskipulagsbreytingin, er byggingarleyfið styðjist við, hafi verið kært til úrskurðarnefnarinnar. Meðan úrskurður liggi ekki fyrir í því máli gildi að mestu sömu rök fyrir kæru hans á útgáfu byggingarleyfisins og færð séu fram í kærumáli hans vegna deiliskipulagsbreytingarinnar.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Byggingaryfirvöld gera þá kröfu að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
Hinn 5. september sl. hafi úrskurðarnefndin kveðið upp úrskurð í kærumáli þar sem kærð hafi verið deiliskipulagsbreyting fyrir lóðina að Austurstræti 18, þar sem heimilaðar voru þær breytingar sem umdeilt byggingarleyfi lúti að. Hafi deiliskipulagsbreytingin verið staðfest í þeim úrskurði.
Krafa um frávísun málsins byggi á því að í fyrrgreindum úrskurði hafi þegar verið tekin afstaða til málsástæðna kæranda í máli þessu og auk þess sé hið kærða byggingarleyfi fallið úr gildi. Nýtt byggingarleyfi, samhljóða hinu kærða leyfi, hafi verið samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 18. desember 2001.
Verði málið talið tækt til efnisúrlausnar vísi Reykjavíkurborg til fyrrgreinds úrskurðar úrskurðarnefndarinnar og greinargerðar borgarinnar í því kærumáli til stuðnings kröfu sinni um staðfestingu hinnar kærðu ákvörðunar.
Niðurstaða: Ákvörðun um útgáfu hins kærða byggingarleyfis var staðfest í borgarstjórn hinn 21. desember 2000 og er því liðið meira en ár frá útgáfu þess. Framkvæmdir munu ekki hafa hafist á grundvelli leyfisins og samþykkti byggingarfulltrúi nýtt leyfi hinn 18. desember 2001 fyrir sömu framkvæmdum og fyrra leyfið kvað á um. Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. skipulags- og byggingarlaga fellur byggingarleyfi sjálfkrafa úr gildi hafi framkvæmdir á grundvelli þess ekki hafist innan árs frá útgáfu leyfisins. Skiptir ekki máli í þessu sambandi þótt ágreiningi um útgáfu byggingarleyfis hafi verið vísað til æðra stjórnvalds, enda frestar kæra ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar.
Samkvæmt framansögðu er hin kærða ákvörðun úr gildi fallin. Á kærandi því ekki lengur lögvarða hagsmuni því tengda að fá skorið úr um lögmæti hennar. Verður kæru hans því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
____________________________________
Ásgeir Magnússon
______________________________ _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir