Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

37/2000 Herjólfsgata

Ár 2002, föstudaginn 28. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn, Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 37/2000, kæra íbúðareiganda í fasteigninni nr. 24 við Herjólfsgötu, Hafnarfirði, á ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar Hafnarfjarðar frá 6. júní 2000 um að synja erindi kæranda um að við deiliskipulagsgerð yrði gert ráð fyrir íbúð í kjallara fasteignarinnar og gerð bílastæða á lóð hennar.

  
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 28. júní 2000, sem barst nefndinni sama dag kærir S eigandi rishæðar og kjallara fasteignarinnar nr. 24 við Herjólfsgötu í Hafnarfirði þá ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar Hafnarfjarðar frá 6. júní 2000 að hafna erindi kæranda um að við deiliskipulagsgerð yrði gert ráð fyrir íbúð í kjallara hússins og gerð bílastæða á lóð þess.  Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:   Lóðinni að Herjólfsgötu 24, Hafnarfirði var úthlutað á árinu 1955 til byggingar tvíbýlishúss.  Árið 1973 var veitt byggingarleyfi fyrir bílskúr á lóðinni og árið 1995 samþykkti byggingarnefnd stækkun á risi hússins og var þá gert ráð fyrir sameiginlegum geymslum í kjallara. 

Í janúar 1999 var sótt um leyfi til byggingarnefndar fyrir byggingu tvöfalds bílskúrs með geymslum norðvestan við húsið að Herjólfsgötu 24 og var erindinu vísað til skipulags- og umferðarnefndar bæjarins sem sendi málið til umsagnar skipulags- og umhverfisdeildar.  Í umsögn skipulags- og umhverfisdeildar, dags. 15. febrúar 1999 kom fram að stærð bílskúrsins væri nokkuð mikil eða 60,3 fermetrar og væri gert ráð fyrir honum í aðeins 1,20 metra fjarlægð frá húsi  Nýtingarhlutfall fasteignarinnar yrði með bílskúrnum 0,56, sem væri mun hærra en á nágrannalóðum og bílskúrinn myndi rýra möguleika á útivist á lóðinni vegna skuggamyndunar.  Var því mælt með að erindinu yrði hafnað.  Á fundi hinn 16. febrúar 1999 lagðist skipulags- og umferðarnefnd gegn umsókninni með vísan til greindrar umsagnar og hafnaði byggingarnefnd umsókninni á sömu forsendum á fundi hinn 17. febrúar sama ár.

Hinn 5. maí 1999 sótti kærandi um leyfi til byggingarnefndar til að klæða húsið að Herjólfsgötu 24 með Steni klæðningu og einnig að fá kjallara hússins samþykktan sem íbúð.  Byggingarnefnd tók erindið fyrir á fundi sínum hinn 26. maí 1999 og synjaði erindinu eins og það lá fyrir með tilliti til bílastæða, lóðarfyrirkomulags og þess að deiliskipulag lá ekki fyrir.

Á fundi skipulags- og umferðarnefndar hinn 21. ágúst 1999 var tekið fyrir bréf Jóns Sigurgeirssonar hdl. er hann ritar fyrir hönd kæranda, dags. 15. ágúst 1999 vegna fasteignarinnar að Herjólfsgötu 24 og ritað er í tilefni að fyrirhuguðu deiliskipulagi viðkomandi svæðis.  Þar sem segir m.a.  „Eigandinn hefur óskað eftir að fá samþykkta íbúð í kjallara hússins svo og hefur hann óskað eftir leyfi til að fá að byggja bílskúr við húsið.  Beiðnum þessum hefur verið hafnað m.a. vegna þess að skipulag liggur ekki fyrir.  Af þessu tilefni óskar eigandi eftir að í skipulagsskilmálum verði gert ráð fyrir þeim möguleikum sem hann óskar eftir í mikilvægisröð.  1.  Að nýtingarhlutfall lóðar og annað heimili íbúð í kjallara.  2.  Að leyfð verði bílastæði á lóð, helst yfirbyggð (car-port)  3.  Bílskúr verði leyfður á lóð (Ekki er lögð áhersla á þennan lið).”  Erindinu var vísað til þeirra aðila er unnu að deiliskipulaginu en afgreiðslu þess frestað þar til skipulagsvinnunni væri lokið. 

Í septembermánuði 1999 samþykkti byggingarfulltrúi bæjarins „íverustað” í kjallara hússins og að bílgeymslu yrði breytt í geymslur.  Hinn 7. desember 1999 samþykkti byggingarfulltrúi aðalteikningar af fasteign kæranda þar sem húsinu var skipt upp í þrjá matshluta sem eru íbúð á 1. hæð, íbúð á 2. hæð og íbúð á rishæð ásamt herbergjum í kjallara.  Eignaskiptasamningur var gerður í samræmi við greindar teikningar og var honum þinglýst hinn 20. janúar 2000.

Kærandi ítrekaði erindi sitt frá 15. ágúst 1999 með bréfi, dags. 26. apríl 2000.  Þar kom fram að hann hefði kaupanda að rishæð hússins og því brýnt að erindið yrði afgreitt án tafar.  Í bréfinu gerði kærandi að tillögu sinni að íbúðareigendur að Herjólfsgötu 24 nytu forkaupsréttar að kjallaranum.

Umsögn barst frá arkitektum er unnu að deiliskipulagi svæðisins til skipulags- og umhverfisdeildar með bréfi, dags. 31. maí 2000, vegna erindis kæranda.  Þar kom fram það mat skipulagshöfunda að fjölgun íbúða að Herjólfsgötu 24 skapaði ekki augljós skipulagsleg vandamál að því gefnu að íbúðin uppfyllti reglur sem um slíkt húsnæði gilda m.a. um fjölda bílastæða.  Í umsögninni var lögð áhersla á að að bílskúr eða bílskýli sem reist kynni að verða á lóðinni félli vel að umhverfi sínu og samræmis yrði gætt í byggingarstíl, efnisvali og yfirbragði húss.

Á fundi skipulags- og umferðarnefndar hinn 6. júní 2000 var erindi kæranda í bréfum hans, dags. 15. ágúst 1999 og 26. apríl 2000, tekið fyrir og jafnframt lögð fram fyrrgreind umsögn deiliskipulagshöfunda frá 31. maí 2000.  Erindið var afgreitt með eftirfarandi bókun:  „Skipulags- og umferðarnefnd tekur undir umsögn skipulagshöfunda sem innber m.a. að fjölgun íbúða eða aðrar breytingar á lóð þurfa að uppfylla skipulags- og byggingarlög og reglugerðir og skipulagsskilmála deiliskipulagsins.  Nefndin telur að ekki hafi verið sýnt fram á ásættanlega lausn á fyrirkomulagi og fjölda bílastæða á lóðinni vegna fjölgunar íbúða, samanber ofangreind ákvæði, meðal annars vegna þess að aðkoma að húsinu er frá Herjólfsgötu og ekki eru áform um að breyta því.”

Kærandi undi ekki þessum málalokum og kærði afgreiðslu málsins til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir og sendi nefndinni bréf, dags. 23. ágúst 2000 þar sem hann rekur nánar sjónarmið sín.

Málsrök kæranda:  Kærandi kveður hina kærðu ákvörðun alls óviðunandi.  Afgreiðsla málsins hafi dregist úr hófi og niðurstaðan feli í sér skerðingu á eignarréttindum hans án þess að knýjandi rök hafi verið til þess.  Kærandi kveðst upphaflega hafa sótt um leyfi fyrir bílskúrsbyggingu á lóð sinni en hafi fengið synjun.  Síðar hafi hann hætt við þá byggingu.  Því sé nú ekki um það að ræða að byggja neitt á lóðinni að Herjólfsgötu 24. 

Kærandi kveðst hafa átt fasteignina um nokkurt skeið og hafi selt hluta eignarinnar.  Hann hafi reynt að selja núverandi eign sína án árangurs enda verulegt óhagræði í því að eignin sé nú skilin sundur með tveimur hæðum og eignin sé að stærð á við veglegt einbýlishús.  Hann hafi kaupanda að rishæðinni og því brýn nauðsyn á að fá kjallarann skilinn frá rishæðinni í eignaskiptasamningi fyrir fasteignina.

Honum væri umhugað um að eiga kjallarann áfram og byggðist umsókn hans um að fá kjallarann samþykktan sem íbúð fyrst og fremst á því að með því móti væri unnt að selja rishæðina sem sérstaka eign.  Bæði rishæð og kjallari hentuðu sem sjálfstæðar íbúðir.  Kjallarinn væri jarðhæð að austanverðu og hefði sér inngang.  Góðir gluggar væru mót suðri, gott geymslu- og þvottarými, full lofthæð og eignin um 103 fermetrar að stærð.  Risið væri eitt og sér hæfilega stórt til íbúðar eða um 119 fermetrar.  Kærandi hafi gert að tillögu sinni í bréfinu frá 26. apríl 2000 til skipulagsnefndar að íbúðareigendur að Herjólfsgötu 24 nytu forkaupsréttar að kjallaranum.

Ekki séu vandkvæði á að fá nægilegan fjölda bílastæða á lóðinni.  Fyrir hendi sé innkeyrsla að geymslum með snjóbræðslu sem henti vel sem bílastæði fyrir kjallarann og nægt rými sé einnig fyrir a.m.k. 4-5 bíla á lóðinni meðfram Drangagötu.

Hin kærða ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar valdi kæranda verulegu tjóni sem sé miklu þyngra á metunum en rök þau sem bæjaryfirvöld færi fram fyrir ákvörðun sinni.

Málsrök skipulags- og umferðarnefndar:  Í greinargerð nefndarinnar er á það bent að ekki hafi legið fyrir samþykkt deiliskipulag við afgreiðslur byggingarnefndar á breytingum fyrir Herjólfsgötu 24.  Upphafleg lóðarúthlutun og byggingarnefndarteikningar gefi þó til kynna áform byggingaryfirvalda um húsagerð og byggðarmynstur við götuna og beri að hafa hliðsjón af því.

þegar erindi kæranda frá 26. apríl 2000 var tekið fyrir í skipulagsnefnd hafi deiliskipulagstillaga fyrir viðkomandi svæði verið í auglýsingu.  Í þeirri tillögu hafi ekki verið heimilað að fjölga íbúðum í eldri húsum nema að stækkun húss félli að stíl þess og yfirbragði nágrennis.  Auk þess sé gerð krafa um að fullnægt sé ákvæði byggingarreglugerðar um fjölda bílastæða fyrir allar íbúðir fasteigna á svæðinu.  Deiliskipulag svæðisins tók gildi hinn 20. október 2000.  Í umsókn kæranda hafi ekki komið fram ásættanleg lausn á tilhögun bílastæða og hafi umsókninni því verið hafnað.

Niðurstaða:  Erindi kæranda, dags. 15. ágúst 1999, sem ítrekað var með bréfi, dags. 26. apríl 2000 var sent skipulags- og umferðarnefnd Hafnarfjarðar til afgreiðslu.  Í erindinu fólst ósk um að skilmálar deiliskipulags, sem þá var í undirbúningi fyrir svæði það sem Herjólfsgata tilheyrir, yrðu á þann veg að íbúð yrði heimil í kjallara hússins að Herjólfsgötu 24 og gert verði ráð fyrir bílastæðum eða bílskýli á lóð hússins.  Umrætt deiliskipulag fyrir Hleina að Langeyrarmölum tók gildi hinn 20. október 2000 og var samþykkt þess ekki kærð.

Byggingarnefndir fara með ákvörðunarvald í byggingarmálum undir yfirstjórn sveitarstjórna og afgreiða byggingarleyfisumsóknir samkvæmt 38. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Byggingarleyfi þarf til að breyta notkun húss og felur byggingarleyfi í sér samþykki aðaluppdrátta sbr. 3. mgr. 43. gr. laganna.  Aðaluppdrættir eiga  m.a. að sýna skipulag lóðar og þar á meðal bílastæði, sbr. 2. mgr. 46. gr. nefndra laga og gr. 18.14 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Það er því hlutverk byggingarnefndar og sveitarstjórnar að  taka lokaákvörðun á lægra stjórnsýslustigi um það með afgreiðslu á byggingarleyfisumsókn hvort kæranda sé heimilt að nýta kjallara fasteignar sinnar til íbúðar og með hvaða hætti bílastæðum er hagað á lóð.

Í  2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að ákvörðun sem ekki bindur endi á mál verði ekki kærð til æðra stjórnvalds fyrr en mál hefur verið til lykta leitt.  Hin kærða ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar felur í sér afstöðu til erindis er varðar undirbúning að gerð deiliskipulags.  Deiliskipulagstillagan, sem hér um ræðir, hlaut síðar staðfestingu bæjarstjórnar og var kæranleg sem endanleg stjórnvaldsákvörðun um skipulag umrædds svæðis.  Að þessu virtu verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna anna úrskurðarnefndarinnar er stafar af miklum málfjölda sem borist hefur nefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

 

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                              Ingibjörg Ingvadóttir