Ár 2001, fimmtudaginn 31. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 24/2000; kæra Múrarafélags Reykjavíkur og Múrarameistarafélags Reykjavíkur á úrskurði byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. apríl 2000, þar sem hafnað er kröfu kærenda um að viðurkennt verði að vinna við frágang keramikflísa, sem ystu klæðningar á útveggi hússins nr. 1 við Sætún og á inn- og útveggi Grafarvogskirkju, sé á sérfagsviði félaganna.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. maí 2000, sem barst nefndinni sama dag, kæra Múrarafélag Reykjavíkur og Múrarameistarafélag Reykjavíkur, úrskurð byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. apríl 2000, þar sem hafnað er kröfu kærenda um að viðurkennt verði að vinna við frágang keramikflísa, sem ystu klæðningar á útveggi hússins nr. 1 við Sætún og á inn- og útveggi Grafarvogskirkju, sé á sérfagsviði félaganna. Krefjast kærendur þess að úrskurðinum verði hrundið og breytt á þá leið að krafa félaganna verði tekin til greina. Kæruheimild er í 1. mgr. 46. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.
Málavextir: Ágreiningur reis snemma árs 2000 milli kærenda og byggingarfélagsins Eyktar ehf. um fagsvið múrara og húsasmiða við uppsetningu granitflísa sem ysta byrðis á nýbyggingu að Sætúni 1 í Reykjavík og við sambærilega verkþætti við byggingu Grafarvogskirkju. Óskuðu kærendur úrskurðar byggingarfulltrúans í Reykjavík um ágreining þennan með vísan til ákvæðis í 1. mgr. 46. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Gerðu félögin kröfu til þess að staðfest yrði að umræddir verkþættir féllu undir fagsvið múrara þar sem um flísalögn væri að ræða. Af hálfu Eyktar ehf. var þessum kröfum mótmælt og þess krafist að umrædd fagvinna félli undir fagsvið húsasmiða, m.a. með vísun til ákvæða í grein 38.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Ennfremur var þess krafist að verkefni við Grafarvogskirkju yrðu ekki tekin til skoðunar við meðferð málsins þar sem því verki væri að mestu lokið.
Með rökstuddum úrskurði, dags. 11. apríl 2000, hafnaði byggingarfulltrúinn í Reykjavík kröfum kærenda í málinu. Þeirri niðurstöðu vildu kærendur ekki una og skutu málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 9. maí 2000, eins og að framan greinir.
Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er á því byggt að í 39. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 komi skýrt fram að múrarameistari, sem staðfest hafi ábyrgð sína á verki, beri m.a. ábyrgð á allri flísalögn, en í því felist að flísalögn heyri undir múraraiðn. Ákvæðið geymi ekki skýringu á því hvað sé flísalögn og verði því að leita annað um skýringu á því. Af orðskýringu, m.a. með vísan til orðabóka, verði hins vegar ráðið að það að flísaleggja í skilningi 39. gr. byggingarreglugerðar sé að klæða veggi og gólf með flísum. Á síðari hluta 20. aldar hafi farið að tíðkast hér á landi að klæða steinsteypt hús að utan með flísum af ýmsum stærðum og þykktum. Hafi þessar flísar ýmist verið unnar af íslenskri steinsmiðju úr innlendu efni eða fluttar til landsins. Séu flísar þessar hengdar á veggi með þar til gerðum festingum, oftast úr málmi. Ýmist sé fyllt á bak við flísarnar með múr eða holrúm haft á bak við þær sem loft leiki um. Nefna kærendur allmargar byggingar sem klæddar hafi verið steinflísum á undanförnum árum og áratugum og taka fram að klæðningar þeirra hafi verið unnar af múrurum.
Kærendur kveða utan- og innahússklæðningar með flísum frá öndverðu hafa heyrt undir iðngreinarnar múrsmíði og steinsmíði, sem séu tvær greinar af sama meiði. Námsefni í greinunum sé að verulegu leyti hið sama og sé Múrarafélag Reykjavíkur stéttarfélag steinsmiða jafnt sem múrara. Múrarar hafi í nokkrum mæli sótt námskeið erlendis í flísaklæðningum, en frá árinu 1992 hafi flísaklæðning verið fastur liður í kennsluskrá múraradeildar Iðnskólans í Reykjavík. Þá hafi verið haldin þar endurmenntunarnámskeið í flísa- og steinlögnum fyrir múrara.
Kærendur taka fram að flísar þurfi að sníða við glugga- og dyraop, á hornum og þar sem flísalagður flötur endi og eigi það jafnt við um upphengdar flísar sem límdar. Til þess séu notuð handverkfæri, svo sem flísaskerar og flísatengur, sem séu meðal þeirra verkfæra er múrara eigi að leggja sér til en ekki trésmiðir. Einnig séu notaðar flísasagir með vatnsbaði og slípitæki við þessi verk en múrarar fái kennslu í notkun slíkra verkfæra. Ágreiningur í þessu máli snúist annars vegar um granítflísar og hins vegar um granítplötur og leiði af eðli máls að vinna við að sníða þær og koma þeim fyrir sé steinsmíði en ekki trésmíði.
Þá vísa kærendur til erlendra handbóka og kennslubóka þar sem fjallað sé um flísalagnir sem hluta af múraraiðn og sé þar ekki gerður greinarmunur á því hvernig flísar séu festar við undirlagið.
Loks vísa kærendur til gagna um menntunargrundvöll múrara, m.a. áfangalýsingar iðnfræðsluráðs í 10 iðngreinum frá 1983 og prófverkefna til sveinsprófs múrara, sem samin voru af fræðslunefnd um menntunarmál múrara á árinu 1989. Vísa kærendur sérstaklega til greinar 3.1.9. um steinlögn í nefndum prófverkefnum, en þar telja kærendur að átt sé við loftaðar veggjaklæðningar.
Kærendur hafa fært frekari rök fyrir kröfu sinni og sjónarmiðum í málinu. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður þó ekki gerð frekari grein fyrir röksemdum kærenda í úrskurði þessum, en úrskurðarnefndin hefur haft allar röksemdir þeirra til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Málsrök byggingarfulltrúans í Reykjavík: Úrskurðarnefndin leitaði afstöðu byggingarfulltrúans í Reykjavík til álitaefna kærumáls þessa. Af hans hálfu er vísað til rökstuðnings í úrskurði hans frá 11. apríl 2000, en þar segir m.a:
„Sú aðferð sem um er deilt við byggingu hússins við Sætún nr. 1 er þannig að á steypta útveggi hússins er fest með múrboltum þar til gerðum vinkilfestingum úr galvaniseruðu stáli. Á þessar vinkilfestingar eru síðan festir álleiðarar sem skrúfaðir eru á stálvinkilinn með stálskrúfum og er útflötur veggjarins tekinn réttur um leið. Álleiðararnir eru með u.þ.b. 30 sm millibili miðju á miðju. Útveggurinn er einangraður með steinull sem dýfluð er á vegginn.
Á álleiðarana eru festir með draghnoðum þar til gerðar klemmur úr ryðfríu stáli. Í þessar klemmur er komið fyrir granítsteyptuflísum 30×60 sm að stærð og um 12 mm þykkum. Opin fúga er milli flísa lárétt og gefa klemmur fast millibil. En álleiðarinn lokar lóðréttum fúgum. Gott loftunarbil er milli einangrunar og bakflatar flísanna og kerfið í heild loftræst. Þar sem nema þarf af flísum er það gert með þar til gerðri sög í vatnsbaði.
Í Grafarvogskirkju eru notaðar granítplötur sem bornar eru uppi af þar til gerðum festingum sem boltaðar eru beint á steypta veggi innanhúss. En utanhúss er um sama kerfi að ræða að viðbættri steinullareinangrun.
Á undanförnum árum hafa loftaðar útveggjaklæðningar mjög rutt sér rúms, sem lokafrágangur steyptra útveggja og hafa verið notuð til klæðninganna ýmis efni. Má þar nefna gegnheilar sléttar stál- og álplötur, álplötur með kjarna úr plastefnum, plastplötur með sérstökum kjörnum og trefjabundnar plastplötur með margskonar yfirborðsáferð auk báraðra málmplatna og hvers kyns flísa og náttúrusteins.
Ágreiningslaust hafa húsasmiðir annast uppsetningu allra þeirra klæðninga annara en þeirra er hér er um deilt. Blikksmiðir hafa þó annast þær klæðningar þar sem samskeytum er lokað með „læsingu“. Húsasmiðir hafa og annast klæðningu þaka þar sem notaðar eru báraðar málmplötur. Sama á við um lagningu steyptra og glerjaðra þaksteina og þakskífur úr náttúrusteini.
Í 52. grein skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1998 er fjallað um iðnmeistara. Í 2. mgr. greinarinnar segir að í byggingarreglugerð skuli kveðið á um menntun, starfsreynslu, réttindi og skyldur iðnmeistara.
Í gr. 37.5 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 segir:
Skulu ábyrgðarsvið iðnmeistara, skv. 38. – 45. gr., vera í samræmi við gildandi hæfniskröfur og námskrár til meistaraprófs í viðkomandi iðngrein á hverjum tíma. Um ábyrgðarsvið iðnmeistara vísast að öðru leyti til reglugerðar um löggiltar iðngreinar, námssamninga, sveinspróf og meistararéttindi.
Ekki er að finna í Iðnaðarlögum eða öðrum gögnum sem vísað er til í gr. 37.5 afgerandi skilgreiningar á fagsviðum.
Í 38. gr. segir um húsasmíðameistara:
Húsasmíðameistari, sem staðfest hefur ábyrgð sína á verki, ber m.a. ábyrgð á: Allri trésmíðavinnu við bygginguna, steypumótum, svo og öllum stokkum og götum sem í þau koma, stokkum fyrir lagnir sem sett eru í steypumót, veggklæðningum með raka-, hljóð- og eldvörn ásamt einangrun og loftun eftir því sem við á, að lóð sé jöfnuð í rétta hæð, frágangi einangrunar sem lögð er laus á plötu eða í grind og ef hún er sett í steypumót.
Þá segir um múrarameistara í 39. gr.:
Múrarameistari, sem staðfest hefur ábyrgð sína á verki, ber m.a. ábyrgð á:
Grunngreftri og sprengingum, allri steinsteypu, niðurlögn hennar og eftirmeðhöndlun, allri hleðslu, múrhúðun, ílögnum og vélslípun, allri flísalögn, allri járnalögn, fyllingu í og við grunn og þjöppun hennar, frágangi á einangrun undir múrvinnu.
Af hálfu múrarafélaganna er vísað til gr. 39 þar sem segir að múrarameistari beri ábyrgð á allri flísalögn og jafnframt vísað til þess að flísalögn eins og hér um ræðir sé kennd á endurmenntunarnámskeiðum fyrir múrara. Ekki er að finna í orðabókum Menningarsjóðs eða Sigfúsar Blöndal fullnægjandi orðskýringar á orðinu flísalögn, né heldur í öðrum fagbókum sem aðgangur er að. Í almennu máli er talað um að veggir, gólf eða sundlaug séu flísalögð og þá átt við að flísar séu límdar beint á viðkomandi fleti, ekki er talað um að viðkomandi flötur sé klæddur flísum. Á sama hátt er talað um að baðherbergi eða eldhús í húsum séu flísalögð.
Óumdeilt er að flísalagnir í þessum skilningi orðsins eru meðal námsefnis múraranema.
Í byggingarlýsingu sem fylgdi byggingarleyfisumsókn á aðaluppdráttum af húsinu nr. 1 við Sætún segir:
Húsið er steinsteypt og einangrað og kætt að utan með keramikflísum og setrusviði.
Í áður nefndri 38. grein í byggingarreglugerð kemur fram að húsasmíðameistari beri ábyrgð á: „[] veggklæðningum með raka, hljóð- og eldvörn ásamt einangrun og loftun eftir því sem við á:“[]
Loftaðar veggklæðningar eru eðli máls samkvæmt útveggjaklæðning en óloftaðar klæðningar innan dyra. Í greininni er ekki kveðið á um hvert klæðningarefnið sé heldur aðeins notað orðið veggklæðning.
Húsasmiðir hafa annast hverskyns klæðningar veggja og þaka eins og áður er komið fram. Engin múr eða límefni eru notuð við frágang þeirra klæðninga sem hér um ræðir. Með hliðsjón af framanrituðu er það niðurstaða byggingarfulltrúans í Reykjavík að sú vinna sem hér um ræðir sé ekki flísalögn í þess orðs merkingu heldur vegg klæðningarvinna sbr. gr. 38.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.“
Af hálfu byggingarfulltrúa er sérstaklega mótmælt þeim skilningi kærenda að átt sé við loftaðar útveggjaklæðningar í grein 3.1.9. í próverkefnum til sveinsprófs múrara.
Niðurstaða: Úrskurðarnefndin hefur af sjálfsdáðum tekið til athugunar álitaefni um aðild og hagsmuni kærenda í máli þessu. Almennt er það skilyrði aðildar að kærumáli fyrir úrskurðarnefndinni að kærendur eigi einstaklegra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Í þessu máli koma kærendur hins vegar fram sem stéttar- og hagsmunafélög faggreinar, en málið er ekki rekið í umboði tiltekins félagsmanns eða félagsmanna. Þrátt fyrir þetta verður að telja, með hliðsjón af eðli og hlutverki stéttarfélaga og lagareglum um starfsemi þeirra og aðildarhæfi, að kærendur geti komið fram ótilgreint fyrir hönd félagsmanna sinna í stjórnsýslumáli í því skyni að fá skorið úr ágreiningi um starfssvið þeirra. Styður það og þessa niðurstöðu að sérákvæði er í 46. gr. byggingarreglugerðar um vald byggingarfulltrúa til að skera úr ágreiningi af þessum toga og að málskot til úrskurðarnefndarinnar á sér stoð í sama ákvæði.
Þar sem úrlausn málsins hefur nokkra almenna þýðingu um fagréttindi iðnmeistara á tilteknu sviði verður einnig að telja að kærendur eigi enn lögvarða hagsmuni því tengda að fá úrlausn um kæruefni máls þessa, þrátt fyrir að framkvæmdum sé nú lokið við verk þau, sem hinn kærði úrskurður tók til. Verður kæran því tekin til efnislegrar meðferðar.
Í máli þessu er til úrlausnar hvort uppsetning upphengdra veggjaklæðninga úr steinefnum skuli teljast á fagsviði múrarameistara.
Ekki verður fallist á þau málsrök kærenda að leiða megi af orðskýringu að uppsetning veggjaklæðninga úr steinefnum teljist flísalögn í skilningi 39. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Í kærunni tala kærendur sjálfir m.a. um upphengdar klæðningar úr steinefnum, að klæða steinsteypt hús að utan með flísum, hús klædd með flísum, flísaklæðningar á byggingum, utanhúss- og innanhússklæðningar með flísum og flísaklæðningar sem lið í námsefni múrara, svo dæmi séu nefnd. Bendir þetta orðfar ekki til þess að fagmönnum sé tamt að nota orðið flísalögn eða tala um að flísaleggja þegar um er að ræða uppsetningu steinflísa með festingum eins og um er deilt í málinu. Telur úrskurðarnefndin þá orðnotkun ekki heldur samræmast almennri málvenju. Verður því ekki fallist á að túlka beri orðalag 39. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 á þann veg að umrædd verkefni séu þar berum orðum felld undir ábyrgð og starfssvið múrara.
Samkvæmt grein 37.5 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 skulu ábyrgðarsvið iðnmeistara vera í samræmi við hæfniskröfur og námsskrár til meistaraprófs í viðkomandi iðngrein á hverjum tíma. Í gildandi námsskrá fyrir iðnsveina til iðnmeistaraprófs er námsáfangi um útveggjaklæðningar meðal valgreina bæði í húsasmíði og múraraiðn og er um sama námsáfanga að ræða. Svarar hluti innihaldslýsingar hans vel til veggjaklæðninga af því tagi sem um er deilt í málinu. Þá hafa nemendur í nefndum greinum svipaðan bakgrunn í byggingarefnisfræði. Verður ekki annað ráðið en að bæði húsasmíðameistarar og múrarameistarar hafi fullnægjandi menntunargrundvöll til þess að standa fyrir og bera ábyrgð á veggjaklæðningum af því tagi sem um ræðir í málinu, en ljóst er að uppsetning slíkra klæðninga felur í sér fjölmarga verkþætti sem snerta jafnt fagsvið húsasmiða og múrara.
Byggingarreglugerð nr. 441/1998 hefur að geyma skýrt fordæmi um að starfssvið húsasmíðameistara og múrarameistara geti skarast, þannig að tilteknir verkþættir geti ýmist verið á ábyrgð hins fyrrnefnda eða hins síðarnefnda. Vísast um þetta annars vegar til ákvæðis 39. greinar byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um ábyrgð múrarameistara á grunngreftri, sprengingum og fyllingu í og við grunn og hins vegar til ákvæðis í grein 38.2 í sömu reglugerð, sem kveður á um að heimilt sé að húsasmíðameistari annist og ábyrgist þessa sömu verkþætti.
Samkvæmt grein 20.3, sbr. grein 19.4.a, í byggingarreglugerð nr. 441/1998 skal m.a. gera grein fyrir frágangi útveggjaklæðninga á byggingaruppdráttum (séruppdráttum) mannvirkis. Er það á valdsviði byggingarfulltrúa að meta, með hliðsjón af hönnunargögnum í hverju tilviki, hvernig best verði fullnægt kröfum um meistaraábyrgð á umræddum verkþætti.
Með vísan til framanritaðs og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er kröfum kærenda í máli þessu hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils málafjölda og anna hjá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu Múrarafélags Reykjavíkur og Múrarameistarafélags Reykjavíkur um að hrundið verði úrskurði byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. apríl 2000 í ágreiningsmáli um starfssvið múrara og húsamiða við frágang upphengdra veggjaklæðninga. Skal hinn kærði úrskurður standa óhaggaður.