Ár 2000, fimmtudaginn 21. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 38/2000; kæra tíu íbúa og eigenda íbúða að Eskihlíð 8a, 10a, 12, 12a, 12b, 14 og 14a í Reykjavík, á ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 18. maí 2000 um að veita leyfi til byggingar fimm hæða verslunar- og skrifstofuhúss, ásamt bílgeymslu, að Skógarhlíð 12 í Reykjavík.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. júlí 2000, sem barst nefndinni hinn 10. sama mánaðar, kæra tíu íbúar og eigendur íbúða að Eskihlíð 8a, 10a, 12, 12a, 12b, 14 og 14a í Reykjavík, ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 18. maí 2000 um að veita leyfi til byggingar fimm hæða verslunar- og skrifstofuhúss, ásamt bílgeymslu, að Skógarhlíð 12 í Reykjavík. Hin kærða ákvörðun var staðfest í borgarráði hinn 4. júlí 2000.
Af erindi kærenda verður ráðið að þeir krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en í kærunni vísa kærendur til þess að fyrir úrskurðarnefndinni séu til meðferðar ágreiningsmál um deiliskipulag lóðarinnar að Skógarhlíð 12 og að þeir telji óeðlilegt að staðið sé í miklum framkvæmdum á lóðinni meðan þessar kærur séu til umfjöllunar. Jafnframt virðist hafa vakað fyrir kærendum að fá því framgengt að framkvæmdir yrðu stöðvaðar. Krafa um það var þó ekki sett fram í kæru þeirra hinn 7. júlí 2000 og kom sú krafa fyrst fram mánuði síðar eða hinn 7. ágúst 2000.
Eftir að krafa kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis kom fram leitaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu byggingarnefndar til kröfunnar auk þess sem byggingarleyfishafa var gefinn kostur á að neyta andmælaréttar. Þá var jafnframt leitað umsagnar Skipulagsstofnunar um kæruefnið. Hafa nefndinni borist greinargerðir byggingarnefndar og byggingarleyfishafa og umsögn Skipulagsstofnunar um kæruefnið.
Með úrskurði, uppkveðnum hinn 3. október 2000, hafnaði úrskurðarnefndin kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. Segir m.a í forsendum þess úrskurðar að byggingarleyfishafa sé heimilt að halda áfram framkvæmdum í samræmi við hið umdeilda byggingarleyfi á eigin ábyrgð meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, en áréttað er að nefndin sé með öllu óbundin af þessari niðurstöðu þegar til efnisúrlausnar málsins komi.
Krafa kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis er á því byggð að til grundvallar byggingarleyfinu liggi deiliskipulag sem deilt sé um og séu kærumál um gildi þess til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Sé deiliskipulagið ógilt hljóti byggingarleyfið að vera það einnig.
Úrskurðarnefndin hefur nú, með úrskurði uppkveðnum í dag, fellt úr gildi deiliskipulag fyrir lóðina nr. 12 við Skógarhlíð, sem samþykkt var í borgarráði Reykjavíkur hinn 18. apríl 2000. Er í þeim úrskurði gerð ítarleg grein fyrir ágreiningi aðila, málsrökum þeirra og niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. Var deiliskipulag þetta forsenda hins umdeilda byggingarleyfis og fullnægir leyfið ekki skilyrðum 43. gr. laga nr. 73/1997 um byggingarleyfi eftir að deiliskipulagið hefur verið fellt úr gildi. Verður byggingarleyfið, af þeim ástæðum, einnig fellt úr gildi.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna og málafjölda hjá úrskurðarnefndinni. Þá hafa nokkrar tafir orðið á starfsemi nefndarinnar vegna flutnings skrifstofu hennar í nóvember síðastliðnum.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun byggingarnefndar Reykjavík frá 18. maí 2000, sem staðfest var í borgarráði hinn 4. júlí 2000, um að veita leyfi til byggingar fimm hæða verslunar og skrifstofuhúss ásamt bílgeymslu að Skógarhlíð 12 í Reykjavík, er felld úr gildi.