Ár 2000, miðvikudaginn 6. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 72/2000; kæra P, Hálsum, Skorradalshreppi á ákvörðun sveitarstjórnar Skorradalshrepps frá 30. október 2000 um að samþykkja deiliskipulag af þéttbýlissvæði í landi Grundar í Skorradal og á ákvörðun byggingarnefndar Skorradalshrepps frá 24. nóvember 2000 um að veita leyfi til byggingar þriggja húsa á svæðinu.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. nóvember 2000, sem barst nefndinni 30. sama mánaðar, kærir Ólafur Sigurgeirsson hrl., f.h. P, Hálsum, Skorradalshreppi, ákvörðun sveitarstjórnar Skorradalshrepps frá 30. október 2000 um að samþykkja deiliskipulag af þéttbýlissvæði í landi Grundar í Skorradal. Með bréfi, dags. 4. desember 2000, áréttar kærandi fyrri kröfu og kærir jafnframt til ógildingar samþykkt byggingarnefndar Skorradalshrepps frá 24. nóvember 2000 um að veita Skorradalshreppi leyfi til byggingar þriggja húsa á svæðinu. Hin kærða ákvörðun byggignarnefndar var staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 1. desember 2000.
Kærandi krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að framkvæmdir, sem hafnar eru á svæðinu, verði stöðvaðar.
Vegna kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda var oddvita Skorradalshrepps gert viðvart um kæruna með símbréfi hinn 1. desember 2000 og sveitarstjórn gefinn kostur á að koma að andmælum og athugasemdum. Bárust nefndinni gögn og athugasemdir sveitarstjórnar hinn 4. desember 2000.
Málavextir: Með bréfi, dags. 9. febrúar 2000, tilkynnti stjórn Íbúðalánasjóðs sveitarstjórn Skorradalshrepps að samþykkt hefði verið að veita hreppnum lán til byggingar eða kaupa leiguíbúða á árinu 2000. Í framhaldi af þessu erindi hóf sveitarstjórn undibúning að byggingu nokkurra íbúðarhúsa á svæði, sem valið var í landi Grundar, norðan Andakílsár, skammt frá vesturenda Skorradalsvatns. Gerð var tillaga að deiliskipulagi svæðisins og var tillagan auglýst í Lögbirtingablaðinu 1. september 2000. Einnig birtist auglýsing um tillöguna í Morgunblaðinu um líkt leyti. Nokkrar athugasemdir bárust um tillöguna, m.a. frá kæranda.
Með bréfi Skipulagsstofnunar til Skorradalshrepps, dags. 29. september 2000, var athygli vakin á nokkrum annmörkum, sem stofnunin taldi vera á deiliskipulagstillögunni. Jafnframt var athygli vakin á því að gera þyrfti breytingar á staðfestu svæðisskipulagi sveitarfélaganna norðan Skarðsheiðar þar sem deiliskipulagstillagan væri ekki í samræmi við svæðisskipulagið. Brást sveirtarstjórn við þessum athugasemdum og hefur gert reka að því að bætt verði úr því sem áfátt var. Hefur m.a. verið samþykkt breyting á svæðisskipulagi sveitarfélaganna norðan Skarðsheiðar og mun breytingin hafa verið send umhverfisráðherra til staðfestingar. Enn hefur hins vegar hvorki verið auglýst breyting á svæðisskipulaginu eða gildistaka deiliskipulags.
Þrátt fyrir að frágangi skipulagsmála svæðisins sé ekki lokið eru framkvæmdir hafnar þar og hafa byggingarleyfi þriggja húsa þegar verið samþykkt, eins og fram kemur í erindi kæranda.
Af hálfu kæranda er á því byggt í kærunni að sveitarstjórn fari ekki að skipulags- og byggingarlögum, en fyrst og fremst verði að liggja ljóst fyrir hver séu mörk milli jarðanna Grundar í Skorradal og jarðar hans, Hálsa, en þessar tvær jarðir liggi saman.
Af hálfu sveitarstjórnar er því haldið fram að svæði það sem afmarkað er með hinu umdeilda deiliskipulagi sé alfarið í landi Grundar og er sjónarmiðum kæranda mótmælt.
Kærandi og sveitarstjórn Skorradalshrepps hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinum kærðu ákvörðunum hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum eins og málinu er háttað, en úrskurðarnefndin hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða: Aðild kæranda að kærumáli til ógildingar hinna kærðu ákvarðana er háð þeim skilyrðum að hann eigi einstaklegra eða verulegra hagsmuna að gæta hvað varðar skipulag og byggingar á umræddu svæði. Telur kærandi sig eiga slíka hagsmuni með hliðsjón af því að ekki liggi ljóst fyrir hver séu mörk milli jarðanna Grundar í Skorradal og jarðar hans, Hálsa.
Af hálfu sveitarstjórnar hafa verið lögð fyrir úrskurðarnefndina gögn um merki jarðanna á umræddum stað og lágu þau gögn til grundvallar ákvörðun sveitarstjórnar við staðarval fyrir hinar umdeildu byggingar. Eru gögn þessi í samræmi við uppdrátt jarðamarka í svæðisskipulagi sveitarfélaganna norðan Skarðsheiðar. Gögn þessi eru kæranda kunn.
Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið að umrætt deiliskipulag snerti land Hálsa eða að mannvirkjagerð á svæðinu sé í landi kæranda. Enda þótt úrskurðarnefndin skeri ekki úr hugsanlegum vafa um landamerki telur hún að leggja verði þessi gögn til grundvallar við mat á því hvort kærandi eigi lögvarða hagsmuni í málinu.
Þótt ekki verði séð að hið umdeilda byggingarsvæði nái inn á land jarðarinnar Hálsa er svæðið nærri mörkum jarðarinnar. Engin mannvirki eru hins vegar í landi Hálsa í námunda við svæðið og eru bæjarhús all fjarri svæðinu. Verður því ekki séð að byggingar á svæðinu skerði hagsmuni kæranda með tilliti til grenndarsjónarmiða.
Þar sem kærandi telst samkvæmt framansögðu ekki eiga lögvarða hagsmuni því tengda að fá úrlausn um kæruefnið, eða lögmæti hinna kærðu ákvarðana, svo sem áskilið er, sbr. 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997, ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Kæru P, Hálsum, Skorradalshreppi á ákvörðunum sveitarstjórnar og byggingarnefndar Skorradalshrepps frá 30. október og 24. nóvember 2000, um samþykkt deiliskipulags og þriggja byggingarleyfa, er vísað frá úrskurðarnefndinni.