Ár 1999, fimmtudaginn 30. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 53/1999; kæra Náttúruverndar ríkisins á ákvörðun hreppsnefndar Bólstaðarhlíðarhrepps frá 7. október 1999 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir gerð reiðvegar í Langadal.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar, dags. 29. október 1999, sendir Náttúruvernd ríkisins nefndinni til umfjöllunar erindi er varðar framkvæmdaleyfi sem hreppsnefnd Bólstaðarhlíðarhrepps veitti hinn 7. október 1999 til lagningar reiðvegar í Langadal, Austur- Húnavatnssýslu. Skilja verður erindi kæranda sem kröfu um að ákvörðun hreppsnefndar um að veita framkvæmdaleyfið verði felld úr gildi.
Málavextir: Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sótti hestamannafélag um leyfi hreppsnefndar Bólstaðarhlíðarhrepps til lagningar reiðvegar í hlíð Skeggjastaðafjalls í Langadal, um það bil 2,7 km að lengd. Fyrir lá samþykki landeigenda, dags. 4. september 1999. Erindið var tekið fyrir á fundi hreppsnefndar hinn 27. september 1999, en formlegt framkvæmdaleyfi var veitt á fundi nefndarinnar hinn 7. október 1999. Í lok september sl. varð S, eftirlitsráðgjafi Náttúruverndar ríkisins á Norðurlandi, vör við framkvæmdir við reiðveginn og gerði kæranda viðvart um málið. Vann eftirlitsráðgjafinn skýrslu um málið og kynnti sér aðstæður á vettvangi og viðhorf oddvita Bólstaðarhlíðarhrepps, skipulagsfulltrúa svæðisins og arkitekts, sem vinnur að gerð aðalskipulags fyrir hreppinn. Skýrsla þessi barst Náttúruvernd ríkisins hinn 20. október 1999. Í framhaldi af móttöku skýrslunnar óskaði stofnunin eftir upplýsingum frá Skipulagsstofnun um það hvaða umfjöllun málið hefði fengið hjá Skipulagsstofnun og hvort það hefði fengið lögmæta afgreiðslu áður en ráðist hafi verið í framkvæmdir.
Með bréfi, dags. 27. október 1999, óskaði Skipulagsstofnun upplýsinga sveitarstjórnar um það hvernig staðið hefði verið að veitingu leyfisins. Er tekið fram í bréfinu að það sé mat stofnunarinnar að umrædd reiðvegagerð sé framkvæmdaleyfisskyld skv. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 m.s.br. Hafi stofnuninni ekki borist neitt erindi sveitarstjórnar þar sem óskað hafi verið meðmæla stofnunarinnar skv. 3. tl. bráðabirgðaákvæðis laganna. Fyrirspurn þessari svaraði hreppsnefnd með bréfi, dags. 1. desember 1999, þar sem rakin eru sjónarmið hreppsnefndar í málinu. Kemur þar m.a. fram að oddviti hafi haft samráð við skipulagsfulltrúa og hafi honum verið falið að hafa samráð við framkvæmdaaðila en jafnframt hafi hann haft samband við Skipulagsstjóra ríkisins um málið. Hafi skipulagsfulltrúinn ennfremur haft samráð við arkitekt, sem vinni að gerð aðalskipulags fyrir hreppinn. Þá hafi skipulagsfulltrúinn sagt framkvæmdina langt innan þeirra marka að þörf væri mats á umhverfisáhrifum. Eru hörmuð þau mistök að ekki skyldi hafa verið haft samráð við Náttúruvernd ríkisins um málið en beðið um biðlund í 2 – 3 ár. Er það von hreppsnefndar að það takist að vinna þannig að málum að umrædd slóð verði ekki áberandi í landslaginu og komi að góðum notum fyrir hestamenn.
Niðurstaða: Í máli þessu leitar Náttúruvernd ríkisins úrlausnar um gildi ákvörðunar sveitarstjórnar. Eru málsástæður kæranda þær, að óheimilt hafi verið að veita leyfi til umræddrar framkvæmdar fyrr en að undangengnu mati á umhverfisáhrifum. Jafnframt hafi borið að afla meðmæla Skipulagsstofnunar samkvæmt 3. tl. ákvæða til bráðbirgða með lögum nr. 73/1997, enda sé ekki í gildi staðfest aðalskipulag fyrir umrætt svæði. Loks sé framkvæmdin ekki í samræmi við 34. og 35. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd.
Eins og mál þetta liggur fyrir kemur fyrst til úrlausnar hvort vísa beri því frá úrskurðarnefndinni. Hvorki þykir einsýnt að það sé á valdsviði nefndarinnar að fella úrskurð um kæruefni málsins né að kærandi geti átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni.
Samkvæmt 3. gr. laga nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum fer umhverfisráðherra með yfirstjórn þeirra mála, sem lögin taka til. Verður af lögunum ráðið að það sé á valdsviði umhverfisráðherra að skera úr um það hvort tiltekin framkvæmd skuli sæta mati á umhverfisáhrifum komi upp ágreiningur um það.
Samkvæmt 3. tl. ákvæða til bráðabirgða í lögum nr. 73/1997 er sveitarstjórn heimilt að leyfa einstakar framkvæmdir án þess að fyrir liggi staðfest aðalskipulag eða samþykkt deiliskipulag, að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar. Er heimilt að vísa niðurstöðu Skipulagsstofnunar varðandi slíkt erindi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Í máli þessu var ekki leitað meðmæla Skipulagsstofnunar og liggur því ekki fyrir kæranleg niðurstaða stofnunarinnar samkvæmt tilvitnuðu ákvæði.
Samkvæmt 74. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd verður ágreiningi um ákvörðun er varðar framkvæmd þeirra laga skotið til umhverfisráðherra. Verður ekki séð að mál er varða framkvæmd náttúruverndarlaga eða brot gegn þeim geti með beinum hætti komið til úrlausnar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.
Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er það ekki meðal lögbundinna verkefna úrskurðarnefndarinnar að leysa úr ágreiningi um þau efnisatriði sem kærandi byggir á í málinu. Eftir stendur þó, að í málinu er kærð útgáfa framkvæmdaleyfis sem sveitarstjórn veitti. Á það undir nefndina að úrskurða um lögmæti ákvörðunar sveitarstjórnar samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, þar á meðal um undirbúning ákvörðunar um útgáfu framkvæmdaleyfis, komi fram krafa um það frá aðila, sem telja verður að eigi lögvarinna hagsmuna að gæta, sbr. 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga.
Náttúruvernd ríkisins er opinber stofnun, sem hefur m.a. það hlutverk að hafa eftirlit með framkvæmd laga um náttúruvernd. Ekki þykir leiða af eftirlitshlutverki stofnunarinnar að hún teljist eiga einstaklega og lögvarða hagsmuni því tengda að fá skorið úr ágreiningi um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar. Þá nýtur stofnunin ekki lögfestrar kæruheimildar. Er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að vísa beri máli þessu frá nefndinni vegna aðildarskorts kæranda.
Úrskurðarorð:
Kröfu Náttúruverndar ríkisins um ógildingu ákvörðunar hreppsnefndar Bólstaðarhlíðarhrepps frá 7. október 1999 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir reiðvegi í Langadal er vísað frá úrskurðarnefndinni.