Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

28/1999 Smiðjuvegur

Ár 1999, fimmtudaginn 23. desember kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 28/1999; kæra eiganda hússins nr. 30 við Smiðjuveg í Kópavogi á ákvörðun byggingarnefndar frá 28. apríl 1999 um að synja umsókn hans um byggingarleyfi fyrir áður gerðum veggjum úr steinsteypu á lóðinni nr. 30 við Smiðjuveg.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. júní 1999, sem barst nefndinni hinn 4. sama mánaðar, kærir lögmaður Húseigendafélagsins f.h. J, Holtaseli 32, Reykjavík ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 28. apríl 1999 um að synja umsókn hans um byggingarleyfi fyrir áður gerðum veggjum á lóðinni nr. 30 við Smiðjuveg í Kópavogi.  Hin kærða ákvörðun var samþykkt á fundi bæjarráðs Kópavogsbæjar hinn 6. maí 1999.  Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Hinn 27. nóvember 1975 samþykkti byggingarnefnd Kópavogs teikningar af húsunum nr. 30, 32 og 34 við Smiðjuveg í Kópavogi ásamt uppdrætti af fyrirkomulagi á lóð húsanna.  Hús þessi eru sambyggð, tvær hæðir hvert, en vegna landhalla eru efri hæðir húsanna í götuhæð að sunnanverðu og neðri hæðir niðurgrafnar á þeirri hlið, en að norðanverðu eru neðri hæðir um það bil í götuhæð.  Húsin eru ætluð til atvinnustarfsemi.  Umrædd hús munu hafa verið byggð á árunum eftir 1975 en lóðarleigusamningar fyrir húsin eru gerðir hinn 8. mars 1977 (nr. 34), 13. mars 1978 (nr. 32) og 27. nóvember 1978 (nr. 30).  Snemma árs 1980 fékk eigandi hússins nr. 34 leyfi til að stækka neðri hæð hússins með því að byggja kjallara undir bílastæði efri hæðar þess en samsvarandi stækkun neðri hæðar hússins nr. 32 var samþykkt snemma árs 1982.  Eftir byggingu kjallaranna eru bílastæði við efri hæðir húsanna ofan á steyptri loftplötu viðbyggingarinnar en upp úr plönunum standa fyrirferðarmiklir steinsteyptir reyklosunarstokkar.  Er slíkur stokkur tilheyrandi húsinu nr. 32 fram af skilvegg efri hæða húsanna nr. 30 og 32 og er stokkur þessi, samkvæmt samþykktri teikningu, 50 cm á hæð, 1,1 metri á breidd og 8,2 metrar að lengd, samsíða mörkum húsanna, en inni á þeim hluta lóðarinnar sem er framan við húsið nr. 32.  Er 1,7 metra fjarlægð frá húsvegg að þeim enda stokksins sem veit að húsinu.

Í lok ágúst og byrjun september 1998 reisti eigandi hússins nr. 30 við Smiðjuveg steinsteyptan vegg frá mótum húsanna nr. 30 og 32 á mörkum lóðarhluta þeirra sem eru fram af húsunum.  Er veggur þessi 85 – 90 cm á hæð og nær fram undir götu þá sem liggur meðfram lóð húsanna.  Endar hann þar í veggstubb sem byggður er hornrétt á vegginn og er samsíða götunni inn á lóðarhluta hússins nr. 30.  Á 8,2 metra bili er veggur þessi samsíða áðurnefndum reyklosunarstokki og byggður fast upp að honum.  Auk veggjar þessa byggði eigandi hússins nr. 30 hliðstæðan vegg að norðanverðu milli lóðarhlutanna framan við jarðhæðir sömu húsa, en fyrir lá samþykki eiganda neðri hæðar hússins nr. 32 fyrir veggnum að norðanverðu við húsin.

Eigendur efri hæðar Smiðjuvegar 32 mótmæltu þessum framkvæmdum á lóðinni sunnan húsanna og komu á framfæri kvörtun við byggingarfulltrúa þegar veggirnir voru steyptir.  Hinn 10. september 1998 ritaði lögmaður þeirra bréf til byggingarfulltrúans í Kópavogi, þar sem þess var krafist að embætti byggingarfulltrúa hlutaðist til um það að veggirnir yrðu fjarlægðir og að gengið yrði frá lóðinni í fyrra horf.  Erindi þetta var tekið fyrir á fundi byggingarnefndar Kópavogs hinn 4. nóvember 1998.  Lágu þá fyrir nefndinni erindi frá eigendum efri hæðar Smiðjuvegar 32, svo og bréf eiganda Smiðjuvegar 30, dags. 6. október 1998, ásamt umsögn bæjarlögmanns Kópavogs um málið, dags. 21. október 1998.  Vísaði byggingarnefnd málinu frá á grundvelli umsagnar bæjarlögmanns og var sú ákvörðun staðfest á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 10. nóvember 1998.  Þessari ákvörðun byggingarnefndar vildu eigendur efri hæðar Smiðjuvegar 32 ekki una og skutu málinu því til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með bréfi dags. 10. desember 1998.

Með úrskurði uppkveðnum hinn 26. febrúar 1999 felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs um frávísun málsins.  Var lagt fyrir byggingarnefnd Kópavogs að taka til úrlausnar hvort veita skyldi byggingarleyfi fyrir veggjum þeim sem eigandi Smiðjuvegar 30 hafði byggt á sameiginlegri lóð húsanna nr. 30, 32 og 34 við Smiðjuveg í Kópavogi og skyldi gefa eiganda veggjanna kost á að sækja um byggingarleyfi fyrir þeim og afla tilskilins samþykkis og hönnunargagna innan hæfilegs frests.

Með vísan til úrskurðar nefndarinnar óskaði kærandi í máli þessu eftir leyfi fyrir steyptum stoðveggjum að Smiðjuveg 30.  Byggingarnefnd tók erindið fyrir og frestaði afgreiðslu þess á fundi sínum 24. mars 1999, með vísan í 18. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og gaf málsaðilum kost á að kynna sér afstöðu byggingarnefndar og gögn málsins.

Á fundi byggingarnefndar 28. apríl 1999 var tekið fyrir erindi kæranda varðandi leyfi til að reisa steypta stoðveggi að Smiðjuvegi 30.  Var erindinu synjað þar sem samþykki allra eigenda að Smiðjuvegi 30, 32 og 34 lægi ekki fyrir.  Taldi byggingarnefnd, með tilvísun til ákvæða 30., 33., 36. og 41. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 og sérstaklega með vísun til 7., 8. og 10. töluliða A-liðar 41. gr., að samþykki allra eigenda að Smiðjuvegi 30, 32 og 34 þyrfti fyrir framkvæmdum á lóð, þar með talið notkun og skiptingu á sameiginlegum bílastæðum.  Ennfremur hefði úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála með úrskurði sínum 26. febrúar 1999 úrskurðað að lóðin nr. 30, 32 og 34 við Smiðjuveg væri sameiginleg.

Þessari niðurstöðu vildi kærandi ekki una og skaut málinu til úrskurðarnefndar með bréfi dags. 2. júní 1999 eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kröfu sína rökstyður kærandi með því að samþykki allra eigenda fyrir umræddum veggjum sé ekki nauðsynlegt.  Samkvæmt D-lið 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, sé meginreglan sú að til ákvarðana um sameiginleg málefni þurfi samþykki einfalds meirihluta eigenda miðað við hlutfallstölur.  Þannig heyri það til undantekninga að aukinn meirihluti eða allir eigendur þurfi að samþykkja ákvörðun.  Það leiði af viðteknum lögskýringarreglum og sjónarmiðum að túlka beri undantekningar þröngt og séu jafnan líkur á því að til ákvarðana nægi samþykki einfalds meirihluta.

Kærandi bendir á að reglur 30. gr. fjöleignarhúsalaganna um það hvað sé veruleg, óveruleg eða smávægileg breyting séu háðar mati í hverju tilkviki.  Eins og fram komi í greinargerð með 30. gr. laganna hljóti ávallt að koma upp takmarkatilvik og verði að leysa þau þegar þau komi upp með hliðsjón af atvikum og staðháttum í hverju húsi.  Við úrlausn málsinsverði því að líta til aðstæðna að Smiðjuvegi 30 og hvernig staðið hafi verið að byggingu hússins, sbr. bréf hans til nefndarinnar, dags. 2. febrúar 1999, en þar komi fram að húsin nr. 30, 32 og 34 við Smiðjuveg, hafi verið byggð sem sjálfstæð hús og hafi kærandi byggt húsið nr. 30 og gengið frá lóð þess alfarið á eigin vegum og á eigin kostnað.  Í framkvæmd hafi ávallt verið litið á húsin sem sjálfstæð hús og viðhald þeirra og lóðarinnar hafi ekki verið sameiginlegt.  Þá hafi verið unnar ýmsar framkvæmdir á húsunum og lóðinni, án þess að samþykkis kæranda hafi verið aflað fyrir þeim.  Megi þar m.a. nefna reyklosunarstokka upp úr plötu á bílastæðum efri hæða á 32 og 34. Þá megi nefna að stórar innkeyrsludyr hafi verið settar í alla framhlið húss nr. 34 og stór innkeyrsla sett upp á nr. 32 af hálfu Jeppaþjónustunnar ehf., án þess að leitað hafi verið samþykkis kæranda.  Þessar breytingar hafa leitt til þess að bílastæðum hafi fækkað all verulega á Smiðjuvegi 32 og 34.

Kærandi kveður eigendur efri hæðar hússins nr. 32 reka bílaverkstæði og breytingar á jeppum og að á lóðinni hafa safnast bílar, gámar, olíutunnur og annað dót.  Bílastæðum fyrir viðskiptavini og starfsmenn hafi fækkað verulega við ofangreindar breytingar og hafi þetta allt leitt til verulegra óþæginda fyrir verslunina á nr. 30.  Aldrei hafi verið ágreiningur um afnotaskipti eða um það að lóðir nr. 30, 32 og 34 væru séreign fyrr en með nýjum eigendum efri hæðar nr. 32, sem vilji nýta lóðina fyrir framan nr. 30, þar sem þeir hafa lagt undir sig lóðina fyrir framan nr. 32 til einkanota, þannig að ótvírætt fari í bága við 34. – 36. gr. fjöleignarhúsalaganna.  Umræddir veggir séu því nauðsynlegir svo hagnýting lóðarinnar verði með eðlilegum hætti.

Hvað varði 33. gr. fjöleignarhúsalaganna, þar sem segi í 2. mgr. að óskiptum bílastæðum verði ekki skipt nema allir eigendur samþykki, bendi kærandi á að þar sé fyrst og fremst horft til formlegra eignaskipta, en greinin útiloki ekki að meirihluti eigenda, einfaldur eða aukinn, geti í einhverjum tilvikum tekið bindandi ákvörðun um einhvers konar óformlegri og ekki varanlega afnotaskiptingu, eins og fram komi í greinargerð með lögunum. Með umræddum veggjum sé því ekki um skiptingu bílastæða að ræða í skilningi 33. gr. fjöleignarhúsalaganna, sbr. 8. tl. A-liðar 41. gr. laganna.  Þá verði ekki séð að 10. tl. A-liðar 41. gr. um takmarkanir á ráðstöfunar- og hagnýtingarrétti eiganda yfir séreign eigi hér við, enda sé lóðin fyrir framan nr. 32 ekki séreign þeirra eigenda sem mótfallnir séu umræddum veggjum.

Málsrök eigenda efri hæðar Smiðjuvegar 32:  Björn Þorri Viktorsson hdl. hefur lagt fram greinargerð í máli þessu f.h. eigenda efri hæðar Smiðjuvegar 32.  Mótmælir hann alfarið sjónarmiðum þeim sem fram koma í kærunni, sérstaklega túlkun lögmanns kæranda á ákvæðum laga nr. 26/1994, varðandi það málefni sem hér er til úrlausnar.  Hafa beri í huga að um sé að ræða verulega breytingu á sameign hússins, þ.e. hinni sameiginlegu lóð.  Samþykki allra húseigenda þurfi því að liggja fyrir sbr. ákvæði 30., 31., sbr. og 41. gr. laganna.

Lögmaðurinn kveður umbjóðendur sína hafa óskað eftir viðræðum um málið strax í upphafi, er þeir hafi komist á snoðir um fyrirætlanir kæranda.  Því hafi kærandi hafnað alfarið og hafi hann allar götur síðan rekið mál þetta án nokkurs samráðs við þá né aðra sameigendur hússins. 

Þá er vakin athygli á því að aldrei hafi verið boðað til húsfundar vegna málsins og séu því allar ákvarðanir og meint samþykki í málinu ólögmæt, sbr. skýr ákvæði 42. gr. laga nr. 26/1994.

Telja verði að sjónarmið það sem sett er fram í 4. mgr. 27. gr. laganna um fjöleignarhús eigi við í máli þessu.  Því fremur sem um sé að ræða breytingu á hagnýtingu séreignar, sem hafi sérstök og veruleg óþægindi í för með sér fyrir sameiganda, hljóti sá hinn sami að þurfa að samþykkja breytingu á hagnýtingu sameignar, sem hafi í för með sér sérstök eða veruleg óþægindi fyrir hann.  Í þessu sambandi megi benda á það, að umþrættur veggur sé staðsettur alveg við göngudyr inn í húsnæði Jeppaþjónustunnar ehf. og hafi haft verulegar breytingar og óþægindi í för með sér hvað varði aðgengi að húsnæði fyrirtækisins.  Bent sé á niðurstöðu í sambærilegu máli í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í málinu nr. 44/1998, sem kærandi hafi sjálfur lagt fram í máli þessu.

Af því sem að framan sé rakið megi ljóst vera að skv. ákv. 4. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 hafi byggingarnefnd verið rétt og skylt að hafna umsókn kæranda um byggingarleyfi eins og mál þetta sé vaxið.  Sé þess krafist að úrskurðarnefndin staðfesti ákvörðun byggingarnefndar í málinu.

Afstaða annarra eigenda Smiðjuvegar 32 og 34:  Fyrir liggur að Sólning hf, sem er eigandi neðri hæða húsanna nr. 32 og 34, hefur samþykkt byggingu veggja þeirra, sem um er deilt í málinu.  Teljast eignarhlutar félagsin vera 63,12% alls hússins nr. 32 og 58% hússins nr. 34 samkvæmt þinglýstum eignaskiptasamningum.  Eigandi efri hæðar hússins nr. 34 hefur ekki tekið afstöðu í málinu, hvorki með eða á móti byggingu hinna umdeildu veggja.

Málsrök byggingarnefndar:  Af hálfu byggingarnefndar Kópavogs hefur verið leitað álits bæjarlögmanns á kæruefni máls þessa.  Í áliti lögmannsins, sem byggingarnefnd vísar til sem málsraka í kærumálinu,  kemur fram að hann sé í meginatriðum sammála röksemdum kæranda og telur að líta verið til þess hvernig staðið hafi verið að byggingu húsanna nr. 30, 32 og 34 við Smiðjuveg, en þau hafi verið byggð sem sjálfstæð hús og lóðarfrágangur hafi verið með sama hætti.  Hann telji hins vegar vafasamt að byggingarnefnd verði gert að úrskurða um það hvort samþykki allra eigenda þurfi til framkvæmda eða einungis meirihluta þeirra, aukins eða einfalds.  Það sé mat hans að þann ágreining verði að leysa á öðrum vettvangi áður en byggingarnefnd taki afstöðu til umsóknar um byggingarleyfi.

Málsgögn:  Auk þeirra gagna sem málsaðilar og byggingarnefnd hafa lagt fram í máli þessu styðst úrskurðarnefndin við gögn sem aflað var í fyrra kærumáli sömu aðila um margnefnda veggi.  Liggja fyrir uppdrættir af húsunum nr. 30, 32 og 34 við Smiðjuveg og af lóð þeirra, auk lóðarsamnings fyrir hvert hús.  Einnig liggja fyrir upplýsingar um stækkun kjallara húsanna nr. 32 og 34 og breytingar á fyrirkomulagi lóðar samfara þeirri stækkun.  Auk þess hafði úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi með óformlegum hætti og aflað ljósmynda af hinum umdeilda vegg, og húsum þeim og lóð er málið varðar.  Þá liggur og fyrir umsögn Skipulagsstofnunar um deiluefni málsaðila í fyrra máli.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið eru húsin nr. 30, 32 og 34 við Smiðjuveg sambyggð, en að öllu leyti séreignir eigenda.  Sérstakur lóðarleigusamningur er í gildi um hvert þessara húsa.  Er í 1. grein lóðarsamninganna tekið fram hvert sé flatarmál lóðar viðkomandi húss og vísað til uppdráttar.  Er ákvæði þetta svohljóðandi í lóðarleigusamningi fyrir húsið nr. 30: „ Lóðin er nr. 30 við Smiðjuveg.  Flatarmál hennar er 1294 fermetrar og lögun hennar eins og sýnt er á meðfylgjandi uppdrætti. (Stærð lóðar:  Sérlóð 400 m² + 894 m² sem er hluti hússins nr. 30 af 2973 m² sameiginlegri lóð húsanna nr. 30, 32 og 34 v/Smiðjuv.)”  Sambærilegt ákvæði er í lóðarleigusamningum fyrir húsin nr. 32 og 34.  Í samningunum er samhljóða ákvæði þar sem segir að húsin hafi sameiginlega lóð og beri lóðarhöfum að hafa samráð um frágang hennar.  Í sama ákvæði segir að óheimilt sé að girða lóðir og að eitt bílastæði skuli vera á lóðinni fyrir hverja 53 m² gólfflatar í húsi auk eins stæðis fyrir hvert fyrirtæki.

Kærandi, sem byggði húsið nr. 30 við Smiðjuveg og hefur verið eigandi þess frá upphafi, hefur bæði í fyrra máli og því sem nú er til úrlausnar haldið því fram að eigendur húsanna þriggja hafi aldrei haft samvinnu um frágang lóðarinnar heldur hafi hver þeirra um sig séð um frágang og viðhald síns lóðarhluta og hafi aldrei verið deilt um afnotaskiptingu lóðarinnar fyrr en ágreiningur hafi verið gerður um hana af hálfu nýrra eigenda efri hæðar Smiðjuvegar 32.  Hefur þessari staðhæfingu ekki verið hnekkt og sér þess hvergi stað að nokkru sinni hafi verið haldnir húsfundir eða með öðrum hætti efnt til samráðs eða samvinnu um frágang eða fyrirkomulag lóðarinnar.  Það þykir einnig renna stoðum undir þá staðhæfingu, að ætlun húsbyggjenda hafi verið að skipta afnotum af lóðinni, að meðal byggingarnefndarteikninga af húsunum er uppdráttur af lóðinni, samþykktur í byggingarnefnd 27. nóvember 1975, þar sem sýnt er fyrirkomulag og fjöldi bílastæða, og er á uppdrætti þessum strikuð lína milli lóðarhlutanna og bílastæði afmörkuð á hverjum lóðarhluta fyrir sig, að mestu í samræmi við gólfflatarmál hvers húss.

Fyrir liggur að af hálfu byggingarnefndar Kópavogs var ekki gerð krafa um samþykki annarra lóðarhafa þegar leyfi var veitt fyrir viðbyggingum við kjallara húsanna nr. 32 og 34 þrátt fyrir ákvæði 11. greinar þágildandi byggingarlaga nr. 54/1978, þar sem kveðið var á um að samþykki meðeigenda skyldi fylgja umsókn um byggingarleyfi, ef um sameign væri að ræða. Viðbyggingar þessar höfðu í för með sér stækkun gólfflatar neðri hæða húsanna nr. 32 og 34 sem líklegt var að leiddi af sér þörf fyrir aukinn fjölda bílastæða.  Þá var með bygginu reyklosunarstokks á suðurhluta lóðarinnar á mörkum lóðarhluta húsanna nr. 30 og 32, girt fyrir umferð ökutækja milli lóðarhlutanna á tæplega 10 metra bili frá húsunum og möguleikar á að koma fyrir bílastæðum á svæðinu skertir verulega.  Breyttu þessar framkvæmdir verulega forsendum og möguleikum til sameiginlegrar nýtingar lóðarinnar og stuðluðu í raun að skiptingu afnota hennar sunnan húsanna.

Á byggingartíma húsanna voru í gildi lög nr. 59/1976 um fjölbýlishús.  Lögin áttu við um íbúðarhús, en í 2. mgr. 2. gr. sagði þó að reglur laganna yrðu einnig notaðar, eftir því sem við ætti, um önnur hús sem fleiri en einn ætti eða nýtti. Lögin höfðu að geyma ákvæði um skiptingu eignarráða og um réttindi og skyldur sameigenda, sem m.a. tóku til sameiginlegra lóðarréttinda.  Núgildandi lög nr. 26/1994 um fjöleignarhús gilda um öll hús sem skiptast í séreignir í eigu fleiri en eins aðila og í sameign sem bæði getur verið sameign allra eða sumra.  Ákvæði laganna eru í aðalatriðum ófrávíkjanleg, þó með þeirri undantekningu að eigendum fjöleignarhúsa sem eingöngu hýsa atvinnustarfsemi er heimilt að víkja frá fyrirmælum laganna með samningi sín á milli.  Ákvæði laganna um sameign taka m.a. til sameiginlegrar lóðar og lóðarréttinda.

Úrskurðarnefndin telur að við mat á því hvaða kröfur verði gerðar um samþykki meðeigenda lóðarinnar, sem að formi til er í sameign, verði að hafa til hliðsjónar að afnotum hennar virðist frá upphafi hafa verið skipt, óátalið, og að með byggingu reyklosunarstokks á lóðinni var henni í raun að hluta til skipt í aðskilin svæði.  Þar sem um atvinnuhúsnæði er að ræða höfðu eigendur heimild til að víkja með samningi frá reglum fjöleignarhúsalaganna um samskipti sín um sameignina.  Enda þótt ekki hafi verið gerður skriflegur samningur um afnotaskiptingu lóðarinnar verður ekki framhjá því litið að eigendur hafa allt frá upphafi séð um framkvæmdir hver á sínum lóðarhluta, án samráðs og án þess að hafa með sér félag um rekstur lóðarinnar.  Varð engin breyting á þessu fyrirkomulagi við gildistöku fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 og hafa eigendurnir þannig í verki vikið frá reglum þeirra laga í veigamiklum atriðum um hina sameiginlegu lóð.  Er það niðurstaða nefndarinnar, að eins og atvikum er háttað í máli þessu og með tilliti til þeirra framkvæmda sem áður hafa verið unnar á lóðinni og þess hvernig að þeim hefur verið staðið verði bygging hinna umdeildu veggja einungis talin smávægileg breyting skv. 3. mgr. 30 gr. laga nr. 26/1994.  Nægi því samþykki einfalds meirihluta sameigenda að lóðinni, miðað við eignarhluta, til þess að byggingarnefnd sé heimilt að samþykkja umsókn um leyfi fyrir veggjunum.  Þykja ákvæði í lóðarleigusamningunum ekki standa í vegi fyrir því að veggirnir verði samþykktir, enda eru þeir ekki á lóðarmörkum og geta því ekki talist girðing um lóðina.  Þá felst ekki í gerð þeirra skipting bílastæða enda aðgangur að þeim eftir sem áður óhindraður og stendur ákvæði 33. gr. laga nr. 26/1994 því eigi í vegi fyrir samþykkt þeirra. 

Nefndin fellst hins vegar á þau sjónarmið eigenda efri hæðar Smiðjuvegar 32 að veggur á suðurhluta lóðarinnar, næst inngangi í húsnæði þeirra, hafi veruleg óþægindi í för með sér, þar sem hann hindrar umferð gangandi manna meðfram húsunum og að inngöngudyrum þeirra, og beri því við veitingu leyfis fyrir veggjunum að leggja fyrir umsækjanda að opna leið fyrir gangandi umferð á hentugum stað í námunda við inngöngudyr hússins nr. 32.  Jafnframt verður umsækjandi að sýna fram á með fullnægjandi hætti að undirstöður veggjanna uppfylli kröfur um fyllsta öryggi.  Samkvæmt framansögðu verður hin kærða ákvörðun byggingarnefndar felld úr gildi og er lagt fyrir byggingarnefnd að afgreiða umsókn eiganda Smiðjuvegar 30 um byggingarleyfi fyrir veggjum á lóðinni með þeim skilmálum sem að framan greinir.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna í úrskurðarnefndinni, en einnig tafðist málið meðan beðið var umsagnar bæjarlögmanns Kópavogsbæjar, sem byggingarnefnd óskaði eftir að koma að í málinu.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 28. apríl 1999 um að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir áður gerðum veggjum úr steinsteypu á lóðinni nr. 30 við Smiðjuveg er felld úr gildi.  Lagt er fyrir byggingarnefnd að taka umsókn kæranda til meðferðar og gefa honum kost á að sækja að nýju um byggingarleyfi fyrir veggjunum, með þeirri breytingu að gert verði ráð fyrir að umferð gangandi manna verði óhindruð milli lóðarhlutanna sunnan húsanna nr. 30 og 32 við Smiðjuveg.  Áður en byggingarleyfi verður veitt ber að gera úttekt á undirstöðum veggjanna.  Samþykki einfalds meirihluta sameigenda lóðarinnar, miðað við eignarhluta, telst nægja í máli þessu til þess að fullnægt sé skilyrði 4. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 um samþykki meðeigenda.