Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

26/1999 Kálfatjörn

Ár 1999, miðvikudaginn 27. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 26/1999; kæra H, Kálfatjörn, Vatnsleysustrandarhreppi á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vatnsleysustrandarhrepps frá 26. apríl 1999 um að synja umsókn kæranda um framhaldsstöðuleyfi fyrir íverugám að Kálfatjörn og um að gámurinn skuli fjarlægður án tafar, svo og á ákvörðun sem tilkynnt var kæranda með bréfi byggingarfulltrúa dags. 4. júní 1999 um að hafi gámurinn ekki verið fjarlægður fyrir 1. júlí 1999 verði það gert á kostnað eiganda.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags 28. maí 1999, til félagsmálaráðuneytisins kærir H, Kálfatjörn, Vatnsleysustrandarhreppi ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vatnsleysustrandarhrepps frá 26. apríl 1999 um að synja umsókn kæranda um framhaldsstöðuleyfi fyrir íverugám að Kálfatjörn og um að gámurinn skuli fjarlægður án tafar.  Hin kærða ákvörðun hafði verið staðfest á fundi hreppsnefndar Vatnsleysustrandarhrepps hinn 4. maí 1999 og kæranda tilkynnt um ákvörðunina með bréfi dags. 19. maí 1999.  Kæran var framsend umhverfisráðuneytinu og móttekin þar hinn 28. maí 1999.  Með bréfi, dags. 1. júní 1999, var erindi kæranda framsent úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála og barst það nefndinni hinn 3. sama mánaðar.  Með bréfi til umhverfisráðuneytisins, dags. 15. júní 1999, sem barst ráðuneytinu hinn 30. sama mánaðar, kærði kærandi ákvörðun sem henni hafði verið tilkynnt um með bréfi byggingarfulltrúa Vatnsleysustrandarhrepps, dags. 4. júní 1999, um að yrði gámurinn ekki fjarlægður fyrir 1. júlí 1999 yrði það gert á kostnað eiganda.  Var þetta erindi kæranda framsent úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála með bréfi, dags. 15. júlí 1999, og barst það nefndinni hinn 19. sama mánaðar.  Kærandi krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.  Þá óskaði kærandi þess í upphaflegri kæru sinni dags. 28. maí 1999 að réttaráhrif þeirrar ákvörðunar, sem þá var kærð, frestuðust meðan málið væri á kærustigi, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málavextir:  Eftir bruna íbúðarhúss að Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd haustið 1998 lét kærandi, sem þar hafði búið, koma þar fyrir tveimur gámum.  Var annar þeirra notaður undir rusl sem til féll við hreinsun brunarústanna en hinn sem vinnuaðstaða fyrir þá sem að hreinsuninni unnu.  Eftir skoðun á vettvangi hinn 20. nóvember 1998 gerði byggingarfulltrúi Vatnsleysustrandarhrepps nokkrar athugasemdir við staðsetningu ruslagámsins o.fl. og benti jafnframt á að sækja bæri um stöðuleyfi byggingarnefndar fyrir gámum, sbr. 71. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. 

Með bréfi, dags. 18. desember 1998, sótti Friðrik H. Ólafsson fyrir hönd kæranda um stöðuleyfi til 6-8 mánaða fyrir gámi, sem í yrði vinnu- og kaffiaðstaða meðan á endurbyggingu hússins að Kálfatjörn stæði.  Byggingarnefnd tók umsóknina fyrir á fundi hinn 22. desember 1999.  Tók nefndin jákvætt í erindið en fól byggingarfulltrúa að ganga frá málinu þegar undirskrift kæranda bærist.  Benti nefndin á að ekkert erindi hefði borist vegna endurbyggingar á Kálfatjörn.  Umsókn sama efnis, undirrituð af kæranda, var tekin fyrir á fundi byggingarnefndar hinn 26. janúar 1999 og veitti nefndin stöðuleyfi fyrir gáminum til allt að 6 mánaða á meðan gengið væri frá eftir bruna íbúðarhússins á Kálfatjörn.  Afgreiðsla þessi var tekin fyrir á fundi hreppsnefndar Vatnsleysustrandarhrepps hinn 1. febrúar 1999.  Var samþykkt byggingarnefndar samþykkt með þeirri breytingu að stöðuleyfi var einungis veitt til tveggja mánaða eða til 1. apríl 1999.  Enginn rökstuðningur kemur fram í bókun hreppsnefndar fyrir þeirri ákvörðun að stytta gildistíma stöðuleyfis frá því sem byggingarnefnd hafði ákveðið.  Var kæranda tilkynnt niðurstaða hreppsnefndar með bréfi sveitarstjóra, dags. 2. febrúar 1999.  Segir í bréfinu að þar sem rústir hafi nú þegar verið fjarlægðar telji hreppsnefnd að tveir mánuðir dugi ríflega til endanlegs frágangs á grunni og lóð.

Með bréfi, dags. 1. apríl 1999, óskaði kærandi eftir framhaldsstöðuleyfi fyrir íverugámi á hlaði Kálfatjarnar þar til endurbyggingu húss yrði lokið.  Umsókn þessari var hafnað á fundi byggingarnefndar hinn 26. apríl 1999 með þeim rökum að ekki hefði borist erindi um endurbyggingu íbúðarhússins að Kálfatjörn en stöðuleyfi hafi eingöngu verið veitt fyrir íverugáminum meðan brunarústir væru hreinsaðar.  Segir í bókun nefndarinnar að gámurinn skuli fjarlægður án tafar, þar sem stöðuleyfið sé útrunnið.  Ákvörðun þessi var samþykkt á fundi hreppsnefndar hinn 4. maí 1999.  Hinn 4. júní 1999 ritaði byggingarfulltrúi Vatnsleysustrandarhrepps kæranda bréf þar sem henni er gert að fjarlægja gáminn fyrir 1. júlí 1999 en að öðrum kosti verði hann fjarlægður á hennar kostnað. Gámurinn var síðan fjarlægður að beiðni sveitarstjórnar hinn 5. júlí 1999.  Eru það þessar ákvarðanir og athafnir sem kærðar eru í máli þessu.

Málsrök kæranda: Í greinargerð Haraldar Blöndal hrl. f.h. kæranda, sem barst úrskurðarnefndinni hinn 20. júlí 1999, er því haldið fram að hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps hafi verið búin að veita stöðuleyfi fyrir gáminum til 26. júlí 1999, sbr. fundargerð frá 26. janúar 1999.  Kæranda hafi hins vegar verið tilkynnt um styttingu leyfisins til 1. apríl 1999.  Þegar af þessari ástæðu hafi verið óheimilt að fjarlægja gáminn.  Tekið, er fram að gámurinn sé með gluggum og í honum aðstaða til að drekka kaffi, skipta um föt, geyma verkfæri og þess háttar.

Þá segir í greinargerðinni að byggingarfulltrúa og sveitarstjóra hafi verið fullkunnugt um að ætlunin sé að endurreisa það hús, sem brann á Kálfatjörn.  Kærandi og hennar fólk sé með skepnur á Kálfatjörn og húsin sem enn standi séu á hennar forræði.  Hún hafi enn ábúð á jörðinni þar sem hún hafi nytjað hana og ábúð ekki verið sagt upp.  Kærandi hafi þurft að hafa aðstöðu á jörðinni til þess að fólk á hennar vegum gæti fylgst með jörðinni og gætt hagsmuna hennar.  Loks segir í greinargerðinni: „Hafi sveitarstjórn talið gáminn spilla útsýni kirkjugesta eða annarra var einfalt mál að flytja gáminn til.  Aldrei var talað við H og henni ekki tilkynnt um nein stjórnsýsluúrræði, ef hún sætti sig ekki við ákvörðun byggingarnefndar.  Ljóst er að sveitarstjóri er að flæma gömlu konuna af jörðinni”

Málsrök sveitarstjórnar:  Í bréfi sveitarstjóra Vatnsleysustrandarhrepps til úrskurðarnefndarinnar varðandi kæruefni máls þessa er í stuttu máli rakin meðferð málsins frá því umsókn barst um stöðuleyfi hinn 18. desember 1999 þar til gámurinn var fjarlægður hinn 5. júlí 1999.  Er í því vísað til fyrirliggjandi bókana byggingarnefndar og sveitarstjórnar í málinu svo og bréfs byggingarfulltrúa til kæranda dags. 4. júní 1999.  Telur sveitarstjórn að allar ákvarðanir byggingarnefndar og sveitarstjórnar í málinu eigi sér stoð í heimildum skipulags- og byggingarlaga og í byggingarreglugerð.  Krefst hreppsnefnd þess að kröfu kæranda verði hafnað.

Niðurstaða:  Þegar upphafleg kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni, framsend frá umhverfisráðuneytinu, lá einungis fyrir synjun byggingarnefndar Vatnsleysustrandahrepps á umsókn um framlengingu stöðuleyfis fyrir umræddum gámi, ásamt fyrirmælum um að gámurinn skyldi fjarlægður.  Hins vegar lá þá ekki fyrir ákvörðun um að beitt yrði þvingunarúrræði skv. 2. mgr. 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Var því ekki tilefni til þess að taka afstöðu til beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar, eins og hún lá þá fyrir.  Þegar úrskurðarnefndinni barst síðara erindi kæranda, sem framsent var frá umhverfisráðuneytinu hinn 15. júlí 1999 og varðaði þá ákvörðun byggingarfulltrúa, f.h. byggingarnefndar, að beita tilvitnuðu þvingunarúrræði, var frestur sá sem kæranda hafði verið veittur þegar liðinn og hafði ákvörðuninni jafnframt verið framfylgt. Gat frestun réttaráhrifa hinna kærðu ákvarðana ekki komið til álita eftir það og hefur beiðni kæranda þar að lútandi því ekki komið til úrlausnar  nefndarinnar.

Í máli þessu er annars vegar til úrlausnar hvort synjun byggingarnefndar þann 26. apríl 1999 á umsókn kæranda um framlengingu stöðuleyfis fyrir umræddum gámi hafi verið lögmæt og hins vegar hvort heimilt hafi verið að fjarlægja gáminn með þeim hætti sem gert var.

Ekki verður fallist á þá málsástæðu kæranda að stöðuleyfi fyrir umræddum gámi hafi verið í gildi til 26. júlí 1999 samkvæmt ákvörðun byggingarnefndar frá 26. janúar 1999 eins og kærandi heldur fram.  Þegar umrædd ákvörðun byggingarnefndar kom til afgreiðslu sveitarstjórnar hinn  1. febrúar 1999 breytti sveitarstjórn henni og  veitti stöðuleyfið til 1. apríl 1999.  Til þessarar ákvörðunar hafði sveitarstjórnin vald, enda koma afgreiðslur byggingarnefndar til umfjöllunar sveitarstjórnar sem tekur lokaákvörðun um þær.

Þegar metið er lögmæti synjunar byggingarnefndar hinn 26. apríl 1999 á umsókn kæranda um framlengingu stöðuleyfis verður að horfa til þess hvernig málið lá á þeim tíma fyrir nefndinni.  Eldra stöðuleyfi, sem veitt hafði verið til 1. apríl 1999, var við það miðað að fyrir þann tíma yrði endanlega lokið frágangi á grunni og lóð eftir brunann á Kálfatjörn.  Umsókn kæranda um framlengingu stöðuleyfisins laut að því að fá það framlengt þar til endurbygging íbúðarhúss að Kálfatjörn yrði lokið.  Í rökstuðningi byggingarnefndar fyrir synjun nefndarinnar kemur fram að ekki hafi borist erindi um endurbyggingu íbúðarhússins og að stöðuleyfið hafi eingöngu verið veitt meðan brunarústir væru fjarlægðar.  Úrskurðarnefndin telur að  synjun byggingarnefndar hafi verið réttmæt og studd málefnalegum rökum ef litið er til þeirrar umsóknar sem fyrir lá.  Þannig lætur kærandi þess ekki getið í umsókn sinni að þörf sé á stöðuleyfi fyrir gáminum af öðrum ástæðum en þeim er tengjast hreinsun brunarústa og endurbyggingu húss.  Verður ekki séð að kærandi hafi hreyft þeim sjónarmiðum að þörf væri á stöðuleyfi fyrir gáminum vegna nytja og eftirlits á jörðinni fyrr en í kæru dags. 28. maí 1998.  Ekki verður heldur ráðið af málsgögnum að kærandi hafi nokkru sinni sótt um stöðuleyfi til byggingarnefndar fyrir gáminum á þessum forsendum. 

Þar sem stöðuleyfi fyrir margnefndum gámi var runnið út, og synjað hafði verið um framlengingu þess, telur úrskurðarnefndin að byggingarnefnd hafi verið heimilt að láta fjarlægja gáminn með heimild í grein 210.2. í byggingarreglugerð nr. 441/1998, sbr. grein 209.3. í sömu reglugerð, en tilvitnað reglugerðarákvæði á sér stoð í 2. mgr. 57. greinar skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Úrskurðarnefndin telur að áður en þvingunarúrræðum samkvæmt 57. grein skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og grein 210 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 verði beitt, þurfi að jafnaði að tilkynna ákvörðun um beitingu þeirra með sannanlegum hætti og hæfilegum fyrirvara.  Í máli þessu liggur fyrir að kæranda var sérstaklega tilkynnt með viðunandi fyrirvara um þá ákvörðun að gámurinn yrði fjarlægður og að henni var kunnugt um ákvörðunina eigi síðar en hinn 15. júní 1999, en þann dag ritaði hún umhverfisráðuneytinu bréf vegna tilkynningarinnar.

Átelja verður, að þegar kæranda var tilkynnt um synjun umsóknar hennar um framlengingu stöðuleyfisins, með bréfi dags. 19. maí 1999, var henni ekki gerð grein fyrir kæruheimild, kærustjórnvaldi og kærufresti svo sem skylt er skv. 2. tl. 2. mgr. 20. greinar stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Má af málsgögnum ráða að þetta hafi valdið kæranda aukinni fyrirhöfn og tafið fyrir því að ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða bærist réttu stjórnvaldi á kærustigi.  Þykir þetta eitt þó ekki eiga að leiða til ógildingar hinna kærðu stjórnvaldsákvarðana.

Með hliðsjón af eðli úrlausnarefnis máls þessa þótti ekki ástæða til þess að leita umsagnar Skipulagsstofnunar í málinu.

Drátt á uppkvaðning úrskurðar í máli má rekja til frátafa vegna sumarleyfa og mikilla anna á þeim tíma sem málið hefur verið til meðferðar í nefndinni.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfum kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Vatnsleysustrandarhrepps frá 26. apríl 1999, sem staðfest var af sveitarstjórn hinn 4. maí 1999 um að synja umsókn kæranda um framlengingu á stöðuleyfi fyrir íverugámi á hlaði Kálfatjarnar í Vatsleysustrandarhreppi og um ógildingu ákvörðunar um að láta fjarlægja gáminn, að undangenginni viðvörun.