Árið 2025, fimmtudaginn 26. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 58/2025, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 2. apríl 2025 um að synja beiðni um gerð deiliskipulags í Suður-Reykjalandi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 10. apríl 2025, kærir eigandi lands í Mosfellsbæ með landnúmer 125425 þá ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 28. mars 2025, sem staðfest var á fundi bæjarstjórnar 2. apríl s.á., að synja beiðni kæranda um gerð deiliskipulags í Suður-Reykjalandi. Er þess krafist að kæranda verði veitt heimild til að gera deiliskipulag á eigin landi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 8. maí 2025.
Málavextir: Hinn 4. maí 2023 sendi kærandi skipulagsnefnd Mosfellsbæjar rökstudda beiðni um heimild til að vinna sjálfur að deiliskipulagi á eigin landareign, sbr. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Beiðninni fylgdu drög að deiliskipulagslýsingu þar sem greind voru áform um skipulag landsins. Að fenginni umsögn skipulagsfulltrúa hafnaði nefndin beiðni kæranda á fundi 16. júní 2023 þar sem ekki lægi fyrir áætlun um uppbyggingu eða framkvæmd nauðsynlegra innviða. Var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun 19. s.m. Með tölvupósti til formanns skipulagsnefndar Mosfellsbæjar hinn 24. október 2024 óskaði kærandi að nýju eftir heimild til að vinna að deiliskipulagi fyrir eigin landareign. Skipulagsfulltrúi bæjarfélagsins svaraði þeirri beiðni í tölvupósti, dags. 25. nóvember s.á., með þeim orðum að erindið hefði þegar hlotið efnislega meðferð, verið hafnað með rökstuddum hætti og þar sem eðli og innihald þess væri óbreytt myndi það ekki hljóta frekari fyrirtöku skipulagsnefndar. Skaut kærandi þeirri afgreiðslu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem með úrskurði, uppkveðnum 12. mars 2025 í máli nr. 173/2024, vísaði kærumálinu frá þar sem ekki lægi fyrir endanleg stjórnvaldsákvörðun, en nefndin taldi að gögn málsins bæru ekki með sér að erindi kæranda hefði komið til umfjöllunar hjá því stjórnvaldi sem valdbært væri til að taka afstöðu til þess. Í kjölfar úrskurðarins tók skipulagsnefnd erindi kæranda fyrir á fundi 28. mars 2025 og synjaði beiðninni með vísan til fyrri afgreiðslu á fundi þess 16. júní 2023. Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu skipulagsnefndar á fundi 2. apríl 2025.
Málsrök kæranda: Kærandi telur að Mosfellsbæ sé ekki heimilt að synja beiðni um heimild til að gera deiliskipulag á eigin landi á eigin kostnað með vísan til 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en fyrirhuguð áform séu í samræmi við aðalskipulag. Vel hafi verið tekið í hugmyndir og áform landeigenda sem fram komi í deiliskipulagslýsingu og hafi verið kynnt á fundum með ráðamönnum sveitarfélagsins. Þar sem deiliskipulag sé framtíðaráætlun um landnotkun sé mikilvægt að deiliskipulagsáætlun liggi fyrir þegar ákvarðanir um nauðsynlegar innviði séu teknir. Sveitarfélagið geti hvenær sem er sýnt frumkvæði í að gera breytingar á deiliskipulagstillögunni ef það telur þörf á auk þess sem það geti stjórnað því hvenær áætlunin verði framkvæmd. Því sé sveitarfélaginu ekki stætt á að synja kæranda um heimild til að gera deiliskipulag fyrir landareign sína.
Málsrök Mosfellsbæjar: Vísað er til þess að sveitarfélög fari með skipulagsvald innan sveitarfélagamarka, sbr. 3. mgr. 3. gr., 12. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Sveitarfélögum sé það í sjálfsvald sett hvort landeiganda sé veitt heimild til að gera deiliskipulagsáætlun eða ekki, að því gefnu að málsmeðferðin sé lögum samkvæmt og að málefnaleg sjónarmið búi að baki ákvörðun um hvort fallist eigi á beiðni eða ekki. Erindi kæranda hafi verið synjað með vísan til þess að ekki lægi fyrir áætlun um uppbyggingu eða framkvæmd nauðsynlegra innviða á fyrirhuguðu skipulagssvæði, en varðandi frekari efnislegar ástæður synjunarinnar sé bent á það sem fram komi í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 8. júní 2023, vegna beiðni kæranda um gerð deiliskipulags.
Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur þau rök sveitarfélagsins um að ekki liggi fyrir áætlun um uppbyggingu eða framkvæmd nauðsynlegra innviða ekki ganga upp þar sem deiliskipulag sé einmitt áætlun um uppbyggingu og nauðsynlega innviði. Sjaldnast liggi fyrir áætlun um framkvæmd nauðsynlegra innviða þegar nýtt deiliskipulag sé unnið, enda sé gert grein fyrir því í deiliskipulagi. Liggi engin deiliskipulagsáætlun um uppbyggingu fyrir sé almennt ekki hægt að gefa út framkvæmdaleyfi. Ákvörðun Mosfellsbæjar í máli þessu sé því ekki málefnaleg heldur sé fremur um að ræða geðþóttaákvörðun. Færa þurfi fram sannfærandi rök fyrir synjun, t.d. að tillagan brjóti í bága við aðalskipulag en svo sé ekki í þessu tilfelli.
Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda–mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Úrskurðarnefndin tekur því lögmæti kærðrar stjórnvaldsákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í máli eða leggur fyrir stjórnvöld að framkvæma tilteknar athafnir. Fellur það því utan valdheimilda nefndarinnar að veita kæranda heimild til að gera deiliskipulag í landi hans. Telur úrskurðarnefndin því rétt að líta svo á að í málskoti kæranda felist krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Samkvæmt skipulagslögum er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Annast þær jafnframt og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags skv. 29. og 38. gr. sömu laga. Getur landeigandi óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað skv. 2. mgr. 38. gr. sömu laga, en ekki verður talið að landeigandi eigi lögvarða kröfu á grundvelli nefnds ákvæðis til þess að knýja skipulagsyfirvöld til deiliskipulagsgerðar. Aftur á móti ber sveitarstjórn við meðferð slíkra beiðna að gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins og byggja ákvörðun á málefnalegum sjónarmiðum í samræmi við réttmætisregluna.
Í deiliskipulagslýsingu þeirri sem fylgdi með beiðni kæranda um heimild til að gera deiliskipulag á grundvelli 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga er því lýst að í fyrirhuguðu deiliskipulagi yrði heimild fyrir byggingu 10 einbýlishúsa í samræmi við gildandi aðalskipulag. Beiðninni var synjað með þeim rökum að ekki lægi fyrir áætlun um uppbyggingu eða framkvæmd nauðsynlegra innviða. Var um nánari rökstuðning vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins, dags. 8. júní 2023, þar sem m.a. kom fram að innviðauppbygging á svæðinu, s.s. veitur eða vegtengingar, væru ekki á neinni tímasettri langtímaáætlun sveitarfélagsins. Einnig var tekið fram að ekki væri að fullu gerð grein fyrir innviðum í skipulagslýsingu, óvissa væri með uppbyggingu svæðisins og undirbúningur og hönnun annarra fyrirliggjandi íbúðarsvæða væri yfirstandandi. Verður að telja framangreind sjónarmið málefnaleg og með hliðsjón af því sem að framan er rakið um víðtækt vald sveitarfélaga til að annast og ákveða efni skipulags standa engin rök til þess að hnekkja hinni kærðu ákvörðun. Verður kröfu þess efnis því hafnað.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 2. apríl 2025 um að synja beiðni kæranda um gerð deiliskipulags í Suður-Reykjalandi.