Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

15/2025 Lækjarhorn

Árið 2025, miðvikudaginn 11. júní, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 15/2025, kæra á ákvörðun Sveitarfélagsins Árborgar frá 27. janúar 2025 um álagningu rotþróargjalds fyrir fasteignina Lækjarhorn.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. janúar 2025, er barst nefndinni sama dag, kærir A þá ákvörðun sveitarfélagsins Árborgar frá 27. janúar 2025 að leggja rotþróargjald á fasteignina Lækjarhorn á Selfossi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá sveitarfélaginu 11. mars 2025.

Málavextir: Kærandi er eigandi fasteignarinnar Lækjarhorns í sveitarfélaginu Árborg. Hinn 27. janúar 2025 voru lögð á hana fasteignagjöld vegna ársins 2025. Hluti þeirra var rotþróargjald að fjárhæð 19.585 kr. og kom fram að væri vegna 0–6.000 lítra rotþróar. Með tölvubréfi til sveitarfélagsins 30. janúar 2025 var óskað eftir niðurfellingu gjaldsins með vísan til þess að kærandi væri ekki með rotþró á fasteigninni heldur hreinsistöð. Í svari sveitarfélagsins í tölvupósti sama dag kom fram að samkvæmt samþykkt sveitarfélagsins um fráveitu bæri að hreinsa seyru reglulega frá öllum frá öllum hreinsivirkjum og væri rotþróargjaldi ætlað að standa undir þeim kostnaði. Var um nánari upplýsingar vísað til samþykktarinnar og leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hreinsistöð hafi verið sett niður á fasteign hans árið 2021. Samkvæmt leiðbeiningum frá framleiðanda sé hún fyrir einn til sex menn og tæma þurfi hana á þriggja til fimm ára fresti. Tveir einstaklingar búi á fasteigninni en til viðbótar sé einn einstaklingur þar skráður með lögheimili. Ósanngjarnt sé að  krefja um sama gjald fyrir hreinsistöðina og rotþró. Kærandi hafi „lagt út meiri kostnað með því að fá sér hreinsistöð til þess að vera umhverfisvænn og sleppa einnig við rotþróargjald.“ Samkvæmt 19. gr. samþykktar um fráveitu í Sveitarfélaginu Árborg nr. 1403/2023 sé sveitarfélaginu heimilt að innheimta aukagjald þegar um óvenjumikinn kostnað sé að ræða við hreinsun og tæmingu eða þegar um sérstaka rotþró við útihús sé að ræða. Gjaldið megi þó aldrei vera hærra en nemi sannanlegum kostnaði við verkið. Velta megi fyrir sér hvort þessi grein gildi aðeins í aðra áttina og hvort sveitarfélaginu sé heimilt að rukka umfram þörf. Þá vanti tæmingaráætlun sveitarfélagsins og gögn um hvað liggi til grundvallar gjaldinu.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins kemur fram að ekki sé að finna neina form- eða efnisannmarka á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar sem raskað geti gildi hennar. Álagning rotþróargjalda hjá sveitarfélaginu sé byggð á lögum nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna, laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, samþykkt um fráveitu í Sveitarfélaginu Árborg nr. 1403/2023 og gjaldskrá fráveitugjalda í Sveitarfélaginu Árborg nr. 1776/2024. Í samræmi við reglugerð nr. 799/1999 um meðhöndlun seyru annist sveitarfélagið alla meðferð seyru í sveitarfélaginu. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar skuli sveitarstjórnir sjá til þess að komið sé á kerfisbundinni tæmingu seyru úr rotþróm. Sveitarfélögum sé skylt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs, sbr. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003. Í 19. gr. samþykktar um fráveitu í Sveitarfélaginu Árborg komi fram að húseigandi skuli greiða gjald sem standa skuli undir kostnaði við tæmingu rotþróa, annarra stakra hreinsimannvirkja og förgun seyru.

Í sveitarfélaginu sé innheimt árlegt rotþróargjald til niðurjöfnunar á kostnaði við hreinsun og tæmingu rotþróa og sé miðað við fast árlegt gjald og séu stök hreinsimannvirki tæmd á þriggja ára fresti, sbr. 9. og 1. mgr. 14. gr. samþykktar um fráveitu í Sveitarfélaginu Árborg. Við útreikning gjaldsins skv. 4. gr. gjaldskrár fráveitugjalda í Sveitarfélaginu Árborg, sé ekki gerður greinarmunur á stökum hreinsimannvirkjum og því sé tekið gjald vegna tæmingar slíkra hreinsistöðva. Væri gjald ákveðið atviksbundið á grundvelli útlagðs kostnaðar væri fyrirséð að kostnaður yrði meiri en samkvæmt gjaldskrá. Viðmið um að tæma skuli hreinsimannvirki á þriggja ára fresti taki m.a. mið af þörf á tæmingu stakra hreinsimannvirkja að jafnaði innan sveitarfélagsins. Þegar komi að viðhaldi og notkun slíks búnaðar sé mælt með tæmingu á þriggja ára fresti. Sé þörf á tíðari tæmingu stakra hreinsimannvirkja sé innheimt viðbótargjald. Með þessu fyrirkomulagi sé sveitarfélaginu unnt að halda kostnaði og þjónustugjaldi í lágmarki fyrir íbúa sveitarfélagsins sem séu með stök hreinsimannvirki við fasteignir sínar. Þá sé viðmið um tæmingu á þriggja ára fresti í samræmi við leiðbeiningar framleiðanda þess búnaðar sem komið hafi verið fyrir við fasteign kæranda.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að rök vanti fyrir viðmið um losanir hreinsimannvirkja og hvaðan viðmiðunartölur komi. Samkvæmt leiðbeiningum frá framleiðanda sé nóg að tæma hreinsistöð kæranda á fimm ára fresti. Því væri eðlilegra að rukka 11.779 kr. á ári.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti álagningar rotþróargjalds fyrir fasteignina að Lækjarhorni í Árborg og er kæruheimild í 65. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 799/1999 um meðhöndlun seyru, sem sett var með stoð í 5. gr. laga nr. 7/1998, skulu sveitarstjórnir sjá til þess að komið sé á kerfisbundinni tæmingu á seyru úr rotþróm. Í 14. gr. samþykktar nr. 1403/2023 um fráveitu í Sveitarfélaginu Árborg segir að hvert hreinsivirki skuli hreinsa og tæma eftir þörfum, og ekki sjaldnar en þriðja hvert ár, og skuli húseigandi tryggja greiðan aðgang að þeim. Hreinsun fari fram á vegum sveitarfélagsins eða þess aðila sem falin sé framkvæmd verksins og skuli hann hafa starfsleyfi heilbrigðisnefndar til að annast verkið. Mannvirkja- og umhverfissvið sveitarfélagsins ákveði verktilhögun og annað sem skipti máli til að tryggja góðan árangur. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. samþykktarinnar skal húseigandi greiða gjald fyrir hreinsun og tæmingu á rotþró, annarra stakra hreinsivirkja og förgun seyru sem standa skuli undir útlögðum kostnaði vegna verksins. Gjaldið megi aldrei vera hærra en svo að nemi sannanlegum kostnaði við verkið. Í 2. mgr. greinarinnar segir að gjald þetta skuli ákveðið með sérstakri gjaldskrá í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. og ákvæði 23. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Hreinsigjald skuli innheimt á sama hátt og fasteignagjöld til sveitarsjóðs.

Sveitarfélagið Árborg hefur sett gjaldskrá nr. 1776/2024 um fráveitugjöld í Sveitarfélaginu Árborg og var hún birt í B-deild Stjórnartíðinda 10. janúar 2025. Í 1. gr. gjaldskrárinnar kemur fram að sveitarfélagið innheimti stofngjald fráveitu, fráveitugjald og gjald fyrir hreinsun rotþróa í sveitarfélaginu samkvæmt gjaldskránni og II. kafla samþykktar um fráveitur í Sveitarfélaginu Árborg nr. 1403/2023. Um rotþróargjald er fjallað í 4. gr. gjaldskrárinnar. Þar segir að sveitarfélagið innheimti árlega rotþróargjald til niðurjöfnunar á kostnaði við hreinsun og tæmingu rotþróa skv. 19. gr. samþykktar um fráveitur í Sveitarfélaginu Árborg. Árlegt rotþróargjald þar sem tæming eigi sér stað að jafnaði þriðja hvert ár skuli vera 19.632 kr. á ári vegna 0–6.000 lítra rotþróa.

Þegar um svokölluð þjónustugjöld er að ræða gilda ýmis sjónarmið um álagningu þeirra, m.a. að beint samhengi sé á milli fjárhæðar gjaldsins og þess kostnaðar sem til fellur við það að veita þjónustuna. Fjárhæðin verður einnig að byggja á traustum útreikningi, en þó hefur verið litið svo á að sé ekki hægt að sérgreina nákvæmlega ákveðna kostnaðarliði sé heimilt að byggja þá á skynsamlegri áætlun. Sá sem greiðir þjónustugjöld getur hins vegar almennt ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út heldur er heimilt að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald.

Við meðferð þessa máls óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum frá Sveitarfélaginu Árborg um forsendur fjárhæðar rotþróargjalds. Sveitarfélagið greindi frá því að árið 2024 hafi nýtt skipulag um um tæmingu rotþróa verið sett á fót sem felist í „skipulögðum þriggja ára tæmingarhring“ með það að markmiði að auka hagræði og minnka kostnað fyrir íbúa. Þá hefur sveitarfélagið birt tæmingaráætlun á vefsíðu sinni. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum tekur umdeilt gjald mið af áætluðum kostnaði sveitarfélagsins við veitta þjónustu vegna tæmingar rotþróa og annarra hreinsivirkja og telur úrskurðarnefndin ekki tilefni til þess að kalla eftir nánari gögnum frá sveitarfélaginu hér að lútandi.

Af hálfu kæranda hefur komið fram að hann telji sér óskylt að greiða sama gjald fyrir tæmingu á hreinsistöð á lóð sinni og eigi við um rotþrær þar sem hreinsistöðina þurfi að tæma sjaldnar en rotþrær. Til þess er að líta af þessu tilefni að samkvæmt lögum nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna teljast til fráveitna margvísleg mannvirki sem eru til meðhöndlunar og flutnings á frárennsli og eru hreinsistöðvar þar nefndar í dæmaskyni. Má einnig vísa til þeirra sem stakra hreinsivirkja. Í 1. mgr. 19. gr. samþykktar nr. 1403/2023 um fráveitu í Sveitarfélaginu Árborg er enginn greinarmunur gerður á rotþróm og öðrum hreinsistöðvum sem sambærileg geta talist og eru ekki tengd sameiginlegu fráveitukerfi. Að þessu virtu verður að telja að sveitarfélaginu hafi verið heimilt að innheimta rotþróargjald vegna tæmingar á hreinsistöð kæranda eru því ekki skilyrði til að fallast á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun Sveitarfélagsins Árborgar frá 27. janúar 2025 um álagningu rotþróargjalds fyrir fasteignina á Lækjarhorni.