Árið 2025, miðvikudaginn 7. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 27/2025, kæra á ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 15. janúar 2025 um að synja umsókn um löggildingu sem hönnuður.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. febrúar 2025, er barst nefndinni sama dag, kærir A þá ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 15. janúar 2025 að synja umsókn hennar um löggildingu sem hönnuður. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og umsóknin samþykkt.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun 27. febrúar 2025.
Málavextir: Kærandi hlaut M.Sc. gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík 20. júní 2020 og fékk tæplega ári síðar leyfi ráðherra iðnaðarmála til að nota starfsheitið verkfræðingur. Í september 2024 sótti kærandi um og fékk leyfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til að sækja löggildingarnámskeið fyrir mannvirkjahönnuði sem stofnunin stóð fyrir, en meðal skilyrða fyrir löggildingu hönnuða er að umsækjandi hafi staðist slíkt próf. Með bréfi stofnunarinnar til kæranda, dags. 26. nóvember s.á., var honum tilkynnt um prófseinkunn sína og á meðfylgjandi prófskírteini kom fram að kærandi hefði lokið námskeiði og staðist próf fyrir löggilta mannvirkjahönnuði, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.
Hinn 2. desember 2024 sendi kærandi inn umsókn til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um löggildingu mannvirkjahönnuða skv. 25. gr. mannvirkjalaga. Stuttu síðar hafði starfsmaður stofnunarinnar samband við kæranda símleiðis vegna meintra annmarka á vottorði sem skilað hafði verið inn með umsókninni og kom kærandi að frekari gögnum. Með tölvubréfi stofnunarinnar til kæranda 8. janúar 2025 var honum bent á að það væri metið svo að rekstrarverkfræði fæli ekki í sér þá sérmenntun sem krafa væri gerð um í b-lið 1. mgr. 25. gr. laga nr. 160/2010, þar sem í því námi væri ekki lögð sérstök áhersla á neinn þeirra þátta sem taldir væru upp í stafliðnum. Því væri gerð krafa um að kærandi skilaði inn upplýsingum um þá viðbótarmenntun sem uppfyllti skilyrði ákvæðisins. Veittur var tíu daga frestur til að útvega umrædd gögn og jafnframt bent á að bærust þau ekki yrði umsókninni synjað. Mun kærandi í framhaldinu hafa lagt fram prófskírteini yfir þá áfanga sem hann hafði lokið í skiptinámi sínu við Chalmers tækniháskólann í Svíþjóð. Með bréfi stofnunarinnar til kæranda, dags. 15. janúar 2025, var honum tilkynnt að umsókn hans væri hafnað þar sem ekki þætti nægilega sannað að í námi hans sem rekstrarverkfræðingur hefði falist sérmenntun sem uppfyllti kröfur b-liðar 1. mgr. 25. gr. laga nr. 160/2010. Fæli krafa um sérmenntun að lágmarki í sér að viðkomandi hefði í námi sínu sérhæft sig í þeim greinum sem aðili leitaði eftir löggildingu í. Þá var tekið fram að kærandi hefði hvorki átt að fá þátttökurétt á fyrrnefndu námskeiði né prófrétt og að í ljósi þess yrðu honum endurgreidd gjöld vegna námskeiðsins.
Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann sé með B.Sc. gráðu í fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Fyrra árið í meistaranámi sínu hafi hann numið verkefnastjórnun í hönnun og mannvirkjaiðnaði í Chalmers tækniháskólanum í Svíþjóð og hið síðara rekstrarverkfræði við Háskólann í Reykjavík. Árið 2020 hafi hann útskrifast sem verkfræðingur frá síðarnefnda háskólanum og fengið alla áfanga metna sem hann hefði lokið á ári sínu í Chalmers.
Kærandi telur sig uppfylla skilyrði 26. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki enda hafi hann fengið að sækja námskeið og taka próf til löggildingar hönnuða hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Engin málefnaleg rök hafi verið fyrir þeirri ákvörðun að veita honum þátttökurétt á slíku námskeiði ef menntun hans hafi ekki uppfyllt þær kröfur til að geta öðlast réttindi þau er námskeiðið veiti. Hefði stofnunin þá átt að synja kæranda um aðgang að námskeiðinu enda hafi gögnum um menntun hans verið skilað inn með beiðni um þátttökurétt á námskeiðinu. Það hafi ekki verið gert og eigi kærandi því fullan rétt á að fá umsókn sína samþykkta.
Í b-lið 1. mgr. 25. gr. mannvirkjalaga sé kveðið á um að verkfræðingar og tæknifræðingar með viðkomandi sérmenntun geti fengið löggildingu til að hanna og gera séruppdrætti að m.a. burðarvirkjum og boðveitum. Hvergi sé skilgreint nánar í lögum hvað felist í orðalaginu viðkomandi sérmenntun og hafi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun í engu rökstutt að hvaða leyti kærandi uppfylli ekki framangreindar kröfur. Virðist sem um geðþóttaákvörðun sé að ræða og órökstudda skoðun án þess þó að það eigi sér einhverja stoð í lögum. Sé stjórnvöldum óheimilt að beita svo rýmkandi lögskýringu þegar um íþyngjandi ákvarðanir í garð borgaranna sé að ræða.
Synjun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sé matskennd ákvörðun og því hafi stofnuninni borið að gæta meðalhófs og jafnræðis. Hafi kærandi haft réttmætar, málefnalegar og eðlilegar væntingar til að hljóta löggildingu skv. 25. gr. mannvirkjalaga enda hafi hann staðist öll skilyrði sem tiltekin séu í 26. gr. laganna. Reglan byggist á sjónarmiðum um réttaröryggi, fyrirsjáanleika og traust og beri stjórnvöldum að taka tillit til slíkra væntinga við úrlausn mála. Vegi réttmætar væntingar kæranda þyngra en órökstudd og matskennd ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Málsrök Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar: Stofnunin krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest. Kærandi uppfylli hvorki skilyrði b-liðar 1. mgr. 25. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki né c-liðar 26. gr. sömu laga. Í b-lið 1. mgr. 25. gr. komi fram að viðkomandi verkfræðingur eða tæknifræðingur þurfi að hafa viðkomandi sérmenntun til að geta hannað og gert nánar upptalda séruppdrætti. Listuð séu upp skilyrði fyrir löggildingu hönnuða skv. 25. gr. í 26. gr. mannvirkjalaga. Feli a- og b-liðir 26. gr. ekki í sér matskennd ákvæði. Það geri hins vegar c-liður greinarinnar, en þar sé skilyrði um sérhæfingu á viðkomandi löggildingarsviði og starfsreynslu eftir að námi í viðkomandi sérfræðigrein ljúki.
Við mat á því hvort kærandi hafi uppfyllt skilyrði 1. mgr. 26. gr. mannvirkjalaga hafi farið fram sérhæft mat stofnunarinnar. Það sé mat hennar að próf í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík veiti ekki þá sérþekkingu sem gera verði kröfu um vegna hönnunar og gerðar séruppdrátta af burðarvirki, boðveitum, rafkerfum og raflögnum, vatns-, hita- og fráveitulögnum, loftræsikerfum og lýsingarkerfum. Enda megi við skoðun námsáfanga bæði fyrir B.Sc. próf og M.Sc. próf í rekstrarverkfræði frá háskólanum sjá að þeim námsáföngum sé ekki ætlað að undirbúa nemanda til að hanna og gera séruppdrætti af slíkum kerfum. Einnig megi sjá að námsáföngum sem kærandi hafi lokið í skiptinámi sínu við Chalmers tækniháskólann sé heldur ekki ætlað að vera til undirbúnings fyrir nemendur til að læra að hanna neitt af framantöldu. Kærandi hafi skilað inn staðfestingum frá löggiltum fagmönnum á öllum fyrrgreindum sviðum nema varðandi lýsingarkerfi. Þær hafi þó ekki uppfyllt kröfur sem fram komi í c-lið 1. mgr. 26. gr. mannvirkjalaga þar sem ekki hafi verið gerð nægileg grein fyrir þeim verkefnum sem umsækjandi hafi unnið á starfsreynslutímanum.
Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að eftir að hann hafi skilað inn frekari gögnum til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hafi honum ekki borist frekari athugasemdir frá stofnuninni um þau vottorð sem hann hafi sent inn. Það sé fyrst núna sem honum sé gerð grein fyrir því að umræddar staðfestingar hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem fram komi í c-lið 26. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þar sem ekki hafi verið gerð nægjanleg grein fyrir þeim verkefnum sem kærandi hafi unnið á starfsreynslutímanum. Hafi stofnunin því brotið gegn leiðbeiningarskyldu sinni og kæranda ekki verið gefinn kostur á að bæta úr meintum annmörkum. Uppfylli umrædd verkefni þau skilyrði sem kveðið sé á um í c-lið 1. mgr. 26. gr. mannvirkjalaga og feli nám kæranda í sér þá sérmenntun sem lögin kveði á um.
Viðbótarathugasemdir Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar: Stofnunin bendir á að fram komi á eyðublaði með umsókn um löggildingu sem hönnuður að meðal fylgigagna sem skila þurfi með umsókn sé staðfesting um að umsækjandi hafi sérhæft sig á viðkomandi löggildingarsviði og öðlast starfsreynslu hjá löggiltum fagmanni á því sviði. Starfsreynslutími skuli ekki vera skemmri en þrjú ár eftir að námi í viðkomandi sérfræðigrein ljúki, þar af minnst eitt ár við mannvirkjagerð á Íslandi. Í vottorði um starfsreynslu skuli gera grein fyrir þeim verkefnum sem umsækjandi hafi unnið að á starfsreynslutímanum.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 15. janúar 2025 að synja umsókn kæranda um löggildingu sem hönnuður séruppdrátta mannvirkja. Kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.
Í V. kafla laga nr. 160/2010 er fjallað um hönnun mannvirkja. Þar kemur fram í 25. gr. að rétt til að leggja fram uppdrætti vegna byggingarleyfis hafi þeir sem til þess hafi hlotið löggildingu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Löggilding skiptist í tiltekin svið, en þar á meðal geta verkfræðingar og tæknifræðingar með viðkomandi sérmenntun fengið löggildingu til að hanna og gera séruppdrætti að burðarvirkjum, boðveitum, rafkerfum og raflögnum í mannvirkjum, vatns-, hita- og fráveitukerfum, loftræsikerfum og lýsingarkerfum, sbr. b-lið 1. mgr. 25. gr. laganna. Skilyrði fyrir löggildingu eru rakin í 1. mgr. 26. gr. sömu laga. Samkvæmt a- og b-lið 1. mgr. þarf umsækjandi að hafa hlotið heimild ráðherra til starfsheitis samkvæmt lögum nr. 8/1996 um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum og hafa staðist próf sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun stendur fyrir að undangengnu námskeiði um gildandi lög og reglur á sviði mannvirkjagerðar. Þarf umsækjandi að hafa sérhæft sig á viðkomandi löggildingarsviði og öðlast starfsreynslu hjá löggiltum fagmanni á sviðinu, sbr. c-lið 1. mgr. 26. gr. laganna. Skal starfsreynslutími ekki vera skemmri en þrjú ár eftir að námi í viðkomandi sérfræðigrein lýkur, þar af minnst eitt ár við mannvirkjagerð á Íslandi. Í vottorði um starfsreynslu skal gerð grein fyrir þeim verkefnum sem umsækjandi hefur unnið að á starfsreynslutímanum og honum skal lokið áður en námskeið og próf samkvæmt b-lið séu sótt.
Samkvæmt framangreindu þurfa öll skilyrði 1. mgr. 26. gr. laganna að vera uppfyllt til að unnt sé að hljóta löggildingu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Þrátt fyrir að kærandi hafi fengið heimild stofnunarinnar til að sækja námskeið vegna löggildingarinnar og kunni því að hafa haft væntingar til þess að hann gæti í framhaldinu fengið umsókn um löggildingu samþykkta geta þær væntingar ekki leitt til þess að vikið sé frá skýrum ákvæðum laganna um þau skilyrði sem uppfylla þarf til að öðlast löggildingu hönnuða.
Fyrir liggur að kærandi er með leyfi ráðherra til að nota starfsheitið verkfræðingur, en skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 8/1996 má engum veita slíkt leyfi nema hann hafi lokið fullnaðarprófi í viðkomandi starfsgrein. Þá hefur kærandi sótt námskeið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og staðist próf fyrir löggilta mannvirkjahönnuði, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 160/2010. Jafnframt hefur kærandi sent inn til stofnunarinnar vottorð um starfsreynslu. Í september 2024 lagði hann inn vottorð frá Isavia, dags. 16. september 2024, um hönnunarverkefni sem hann hefði starfað við á Keflavíkurflugvelli frá 1. mars 2020. Gerði Húsnæðis- og mannvirkjastofnun kæranda viðvart um að vottorðið væri haldið annmörkum og í framhaldinu skilaði kærandi inn tveimur nýjum vottorðum frá Isavia. Í vottorði, dags. 10. desember 2024, er staðfest að kærandi hafi starfað við mannvirkjagerð, hönnun, hönnunarrýni, verkefnastjórnun og eftirlit fyrir Isavia ohf. á Keflavíkurflugvelli frá 1. mars 2020. Hafi hönnunarverkefnin samanstaðið af hönnun burðarvirkja, vatns-, hita- og fráveitukerfa. Í síðara vottorðinu, dags. 12. desember s.á., er staðfest að kærandi hafi starfað á Keflavíkurflugvelli frá 1. mars 2020 og m.a. tekið fram að hönnunarverkefnin hafi samanstaðið af hönnun boðveitna og loftræsikerfa. Eru umrædd vottorð undirrituð af aðilum sem báðir hafa hlotið löggildingu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem hönnuðir.
Hin kærða synjun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar var á því byggð að ekki hefði verið nægilega sannað að í námi kæranda sem rekstrarverkfræðingur hefði falist sérmenntun sem uppfyllti kröfur b-liðar 1. mgr. 25. gr. laga nr. 160/2010. Fæli krafa um sérmenntun að lágmarki í sér að viðkomandi hefði í námi sínu sérhæft sig í þeim greinum sem aðili óskaði eftir löggildingu í. Uppfyllti meistaragráða í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík, sem að hluta til var í skiptinámi við Chalmers tækniháskólann í Svíþjóð, ekki þær kröfur að geta veitt réttindi til löggildingu til að hanna og gera séruppdrætti að burðarvirkjum, boðveitum, rafkerfum og raflögnum í mannvirkjum, vatns-, hita- og fráveitukerfum, loftræsikerfum og lýsingarkerfum. Ekki var færður fram frekari rökstuðningur í ákvörðuninni, en bent á að hægt væri að fara fram á rökstuðning fyrir henni innan 14 daga frá dagsetningu hennar. Í umsögn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til úrskurðarnefndarinnar í tilefni af kærumáli þessu er einnig tekið fram að þau vottorð um staðfestingu á starfsreynslu sem kærandi hafi skilað inn frá löggiltum fagmönnum hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem fram komi í c-lið 1. mgr. 26. gr. mannvirkjalaga þar sem ekki hafi verið gerð nægileg grein fyrir þeim verkefnum sem umsækjandi hafi unnið á starfsreynslutímanum.
Með vísan til framanritaðs geta verkfræðingar með viðkomandi sérmenntun fengið löggildingu til að hanna og gera nánar tilgreinda séruppdrætti sbr. b-lið 1. mgr. 25. gr. laganna. Nánari skilgreining á því hvað felst í orðalaginu „viðkomandi sérmenntun“ virðist hvorki að finna í téðum lögum né í lögskýringargögnum. Verður ekki talið að í orðalaginu felist svigrúm til annarrar túlkunar en þeirrar að viðkomandi þurfi að hafa lokið námi með viðurkenndri prófgráðu eða lokaprófi í greininni og hafi jafnframt hlotið sérmenntun sérstaklega á því sviði sem sótt er um löggildingu á.
Líkt og áður greinir taldi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að prófgráða kæranda í rekstrarverkfræði uppfyllti ekki skilyrði um viðeigandi sérmenntun, sbr. b-lið 1. mgr. 25. gr. laga nr. 160/2010. Af þeirri ástæðu veitti stofnunin kæranda færi á að skila inn upplýsingum um viðbótarmenntun sína er uppfyllti nefnt skilyrði og mun kærandi þá í framhaldinu hafa lagt fram prófskírteini yfir þá áfanga sem hann hafði lokið í námi sínu við Chalmers tækniháskólann í Svíþjóð.
Að framangreindu virtu verður hvorki talið að rannsókn né rökstuðningi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hafi verið áfátt í máli þessu. Verður sönnun um að skilyrði mannvirkjalaga fyrir löggildingu séu uppfyllt ekki lögð á stofnunina heldur er það kæranda að sýna fram á að svo sé.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 15. janúar 2025 um að synja umsókn kæranda um löggildingu sem hönnuður.