Árið 2025, fimmtudaginn 10. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 180/2025, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 11. september 2024 um að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Vestmannaeyja, 2. áfanga, vegna lóðar nr. 51 við Strandveg.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. desember 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra eigandi, Strandvegi 49, eigandi, Herjólfsgötu 5B, eigandi, Herjólfsgötu 5 og eigandi, Herjólfsgötu 2, þá ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 11. september 2024 að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Vestmannaeyja, 2. áfanga, vegna lóðar nr. 51 við Strandveg. Verður að skilja kæruna á þann veg að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Vestmannaeyjabæ 17. janúar 2025.
Málavextir: Á lóðinni Strandvegi 51 í Vestmannaeyjum stendur bygging á einni hæð. Lóðin er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag miðbæjar Vestmannaeyja, 2. áfangi, frá árinu 2015. Samkvæmt skipulaginu var heimilt að byggja á lóðinni tveggja hæða hús með möguleika á þriðju hæð að hluta.
Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar 5. júní 2023 var tekin fyrir umsókn um breytingu á fyrrgreindu deiliskipulagi vegna umræddrar lóðar sem fólst í því að heimilt yrði að byggja þar fjögurra hæða hús með átta íbúðum. Samþykkti ráðið að auglýsa tillöguna samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 og var sú afgreiðsla staðfest af bæjarstjórn á fundi hennar 22. júní 2023. Að kynningartíma loknum var tillagan tekin fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 4. september 2023. Samþykkti ráðið breytingartillöguna sem og framlagða greinargerð með svörum við athugasemdum sem bárust á kynningartíma og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi 14. s.m. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 22. janúar 2024. Kærendur þessa máls kærðu ákvörðun bæjarstjórnar til úrskurðarnefndarinnar hinn 1. febrúar s.á. og með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 13/2024, uppkveðnum 16. apríl 2024, var ákvörðun bæjarstjórnar frá 14. september 2023 felld úr gildi vegna framsetningar deiliskipulagsbreytingarinnar hvað varðaði nýtingarhlutfall og hámarksbyggingarmagn.
Á fundi skipulags- og umhverfisráðs 4. júlí 2024 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og var sú afgreiðsla staðfest í bæjarstjórn á fundi hennar 11. s.m. Tillagan var auglýst til kynningar frá 19. júlí til og með 29. ágúst s.á. Athugasemdir bárust frá kærendum en að kynningartíma loknum var tillagan tekin fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 3. september s.á. Ráðið samþykkti breytingartillöguna og framlagða greinargerð með svörum við athugasemdum og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi 11. s.m. Deiliskipulagsbreytingin var send Skipulagsstofnun til yfirferðar og tilkynnti stofnunin með bréfi, dags. 7. nóvember 2024, að hún gerði ekki athugasemdir við birtingu auglýsingar um deiliskipulagsbreytinguna og tók hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 26. nóvember 2024.
Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að fyrirhugað fjölbýlishús að Strandvegi 51 sé sem slíkt ekki efni óánægju þeirra, heldur hvernig staðið hafi verið að bílastæðamálum vegna byggingarinnar. Bæjaryfirvöldum hefði verið sent bréf árið 2023 þar sem gerð hefði verið grein fyrir því hvernig byggingarfulltrúi hefði brotið lög með því að leyfa byggingaraðila hússins að nýta sér aðra lóð í hans eigu undir bílastæði fyrir fjölbýlishúsið. Skipulags- og umhverfisráð hafi nú samþykkt samkomulag sem búið sé að gera við bæjaryfirvöld um leigu á fjórum bílastæðum við annað hús í eigu sveitarfélagsins hinum megin við götuna að Strandvegi 50. Í því húsi sé aðstaða fyrir 40 listamenn sem stundi iðju sína á öllu tímum sólarhringsins en afnotin af bílastæðunum einskorðist samkvæmt fyrrgreindum samningi við tímann frá kl. 17 síðdegis til kl. 9 að morgni. Þá sé íbúum ekki leyfilegt að nota bílastæðin á fimmtudegi fyrir Þjóðhátíð. Sú spurning hljóti að vakna um hvar íbúar hússins eigi að leggja bílum sínum að samningstíma liðnum. Þá sé ábyrgðarlaust af bæjaryfirvöldum að leigja þriðja aðila bílastæði hússins að Strandvegi 50 ef ske kynni að húsið yrði selt. Samkvæmt gr. 64.5. í byggingarreglugerð þurfi að gera ráð fyrir a.m.k. einu bílastæði á hverja 35 m2 og verði eitt bílastæði að vera fyrir hreyfihamlaða. Á þessu svæði séu þegar of fá bílastæði en í næsta nágrenni sé gistiheimili og veitingastaður.
Málsrök Vestmannaeyjabæjar: Af hálfu Vestmannaeyjabæjar er bent á að í núgildandi lögum og reglum sé ekki gert ráð fyrir tilteknum fjölda bílastæða vegna íbúða eða verslunarhúsnæðis. Samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 90/2013 skuli setja skilmála í deiliskipulag m.a. um bílastæði, sbr. m.a. b-lið 5.3.2.5. gr. reglugerðarinnar. Í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hafi verið fjallað um tilhögun bílastæða og þá komi afstaða bílastæðanna fram á uppdrættinum. Bílastæði fyrir hreyfihamlaða verði staðsett utan lóðar Strandvegar 51, næst aðalinngangi, og verði bílastæðið merkt af sveitarfélaginu, sbr. gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.
Umrædd deiliskipulagsbreyting hafi verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 26. nóvember 2024 en kæra í máli þessu hafi borist 30. desember s.á. Þá hafi eins mánaðar kærufrestur verið liðinn og beri því að vísa málinu frá nefndinni.
Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur ítreka að mikilvægt sé að vanda til verka með þarfir komandi kynslóða í huga en húsið muni að öllum líkindum standa lengi. Í nágrenni Strandvegar 51 séu fyrirtæki sem treysti á gott aðgengi og næg bílastæði, þ. á m. hótel sem muni finna fyrir vandræðum fyrir sína gesti þegar bílastæði séu annars vegar. Kanna verði hvort yfir höfuð sé leyfilegt að gera slíkan samning um bílastæði líkt og gerður hefði verið.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar bæjarstjórnar Vestmannaeyja um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Vestmannaeyja, 2. áfanga, vegna lóðar nr. 51 við Strandveg. Kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og eiga kærendur slíka grenndarhagsmuni af skipulagsbreytingunni að þeim verður játuð aðild að málinu.
Samkvæmt 2. gr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur einn mánuður. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Hin kærða deiliskipulagsbreyting birtist í B-deild Stjórnartíðinda 26. nóvember 2024. Byrjaði kærufrestur því að líða 27. s.m. í samræmi við 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga, og lauk kærufresti 27. desember s.á. Í máli þessu barst kæra með tölvupósti 23. desember 2024 og fékk móttökustimpil á skrifstofu úrskurðarnefndarinnar 27. s.m. Barst kæran því innan kærufrests.
Árið 2015 tók gildi deiliskipulag miðbæjar Vestmannaeyja, 2. áfangi, sem heimilaði byggingu tveggja hæða húss auk þakhæðar á lóðinni en á lóðinni stendur einnar hæðar hús. Hin kærða deiliskipulagsbreyting gerir m.a. ráð fyrir stækkun byggingarreits lóðarinnar og að reist verði fjögurra hæða hús á lóðinni með auknu byggingarmagni. Gert er ráð fyrir því að átta íbúðir verði í húsinu og að á jarðhæð verði atvinnuhúsnæði og bílageymsla. Lúta athugasemdir kærenda að tilhögun bílastæða samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni. Þau séu ekki nægilega mörg auk þess að í greinargerð skipulagsins sé vísað til þess að bílastæðaþörf verði mætt að hluta með samnýtingu stæða utan lóðar og stæða utan marka skipulagsbreytingarinnar, sem fái ekki staðist.
Gerð skipulags innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórnar skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en í því felst einnig heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Skal deiliskipulag byggja á stefnu aðalskipulags og rúmast innan heimilda þess, sbr. 3. mgr. 37. gr. og 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Við töku skipulagsákvarðana er sveitarstjórn bundin af meginreglum stjórnsýsluréttar, þ. á m. lögmætisreglunni sem felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum og sem endranær er hún bundin af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að gættum framangreindum reglum hafa sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi og breytingum á því skuli háttað.
Í kafla 3.4, „Öflugur miðbær“, í Aðalskipulagi Vestmannaeyja 2015–2035, kemur fram að miðbær Vestmannaeyja einkennist af góðri blöndu þjónustu og íbúðarbyggðar. Aukin ásókn sé í að búa í miðbænum. Miðbærinn sé vel nýttur og þar séu fáar lausar lóðir. Áhugi sé á endurgerð eldri bygginga og uppbyggingu sem styrki ásýnd og starfsemi í miðbænum. Endurgerð þeirra hafi gjarnan verið á þann veg að jarðhæðir séu lagðar undir fjölbreytta starfsemi en íbúðir eða skrifstofur séu á efri hæðum. Á heildina litið sé ekki vandamál með bílastæði og yfirleitt sé stutt að fara. Er að öðru leyti í aðalskipulaginu ekki fjallað um bílastæði á umræddu svæði eða gerð krafa um tiltekinn fjölda bílastæða.
Í 1. mgr. 19. gr. skipulagslaga er kveðið á um að sveitarstjórn geti ákveðið að innheimta bílastæðagjald ef ekki er unnt að koma fyrir á lóð nýbyggingar þeim fjölda bílastæða sem kröfur eru gerðar um í deiliskipulagi. Samkvæmt 1. mgr. b-liðar gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 skal í deiliskipulagi setja skilmála um fjölda bílastæða og frágang þeirra innan og utan lóðar, sérmerkt bílastæði fyrir fatlaða, stæður fyrir reiðhjól og önnur farartæki eftir því sem við á. Varðandi fjölda og fyrirkomulag bílastæða fyrir fatlaða skal taka mið af ákvæðum byggingarreglugerðar. Í eldri skipulagsreglugerð nr. 400/1998 var kveðið á um lágmarksfjölda bílastæða en jafnframt tekið fram að unnt væri að víkja frá þeim í deiliskipulagi ef sýnt væri fram á að bílastæðaþörf væri minni eða unnt væri að uppfylla hana með öðrum hætti. Í núgildandi skipulagsreglugerð er m.ö.o. ekki gerð krafa um fjölda bílastæða að öðru leyti en að taka skuli mið af ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um fjölda og fyrirkomulag bílastæða fyrir hreyfihamlaða.
Í skilmálum hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar segir: „Fjögur bílastæði verða í bílageymslu við Herjólfsgötu. Stærð bílageymslu verður allt að 120 m2. Bílastæðaþörf verður mætt að hluta með samnýtingu stæða utan lóðar og stæðum utan marka skipulagsbreytingarinnar. Gert hefur verið þinglýst samkomulag um afnot af 4 bílastæðum á lóð við Strandveg 50 utan dagvinnutíma frá kl. 17:00 síðdegis til kl. 9:00 að morgni sem gildir til ársins 2035. Auk almennra bílastæða við Strandveg 51 eru í nálægð 20 almenn bílastæði vestan við Strandveg 54.“ Verður ekki af þessu ráðið að tilhögun bílastæða samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni fari í bága við framangreind ákvæði skipulagslaga og skipulagsreglugerðar. Hvað snertir bílastæðin að Strandvegi 50 þá hvíla afnot af þeim ekki á skipulagsákvörðun heldur á einkaréttarlegum tímabundnum samningi. Tilvísun til samningsins í greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar er einungis í upplýsingarskyni.
Á uppdrætti sem er hluti hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar eru ekki merkt bílastæði fyrir hreyfihamlaða og ekki er fjallað um slík bílastæði í greinargerð hennar. Af hálfu sveitarfélagsins hefur í máli þessu komið fram að bílastæði fyrir hreyfihamlaða verði staðsett utan lóðar Strandvegar 51, næst aðalinngangi, og muni sveitarfélagið merkja bílastæðin í samræmi við gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Samkvæmt fyrrnefndum b-lið gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð skal í deiliskipulag setja skilmála m.a. um sérmerkt bílastæði fyrir fatlaða. Hefði því verið rétt að gera grein fyrir bílastæði fyrir hreyfihamlaða í skilmálum deiliskipulagsbreytingarinnar en með hliðsjón af því sem fram hefur komið af hálfu sveitarfélagsins í máli þessu verður ekki litið svo á að um slíkan annmarka sé að ræða að varði ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Þá skal á það bent að kröfum gr. 6.2.4. byggingarreglugerðar um bílastæðafjölda og fyrirkomulag bílastæða skal vera fullnægt við útgáfu byggingarleyfis.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir form- eða efnisannmarkar á hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu sem raskað geta gildi hennar. Er kröfu kærenda um ógildingu hennar því hafnað.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 11. september 2024 um að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Vestmannaeyja, 2. áfanga, vegna lóðar nr. 51 við Strandveg.