Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

21/2025 Torgsöluhús

Árið 2025, fimmtudaginn 27. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 21/2025, beiðni um að úrskurðað verði hvort fyrirhugað torgsöluhús á Seyðisfirði sé háð byggingarleyfi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með erindi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála hinn 4. febrúar 2025 fór Sveitarfélagið Múlaþing fram á það við úrskurðarnefndina með vísan til 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að skorið yrði úr um hvort fyrirhugað torgsöluhús, sem sótt hafði verið um stöðuleyfi fyrir, væri háð byggingarleyfi.

Málavextir og rök: Með umsókn, móttekinni 3. febrúar 2025, var sótt um stöðuleyfi fyrir torgsöluhús hjá Sveitarfélaginu Múlaþingi. Í umsókninni kom fram að um væri að ræða 35 m2 skúr á hjólum sem standa ætti í Hafnargarði við Lónsleiru/Ferjuleiru á Seyðisfirði. Fyrirhugað væri að grafa tvær holur fyrir hjólabúnað svo húsið gæti sest niður á grindina. Um sé að ræða nýtt hús sem byggt yrði á stálgrind og klætt að utan með bárujárni. Húsið verði einn salur að innan með fimm gluggum ásamt einni hurð þar sem beisli sé tengt við vörubíl. Húsið verði notað til sölu á handverki og fest niður með steyputunnum sem auðvelt sé að fjarlægja.

Á grundvelli 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki óskaði sveitarfélagið eftir að úrskurðarnefndin úrskurðaði um hvort torgsöluhúsið væri byggingarleyfisskylt þar sem vafi léki á hvort það væri jarðfast í skilningi laga nr. 160/2010.

Niðurstaða: Í máli þessu er tekin fyrir sú beiðni sveitarfélagsins Múlaþings að úrskurðarnefndin skeri úr um hvort torgsöluhús, sem sótt hefur verið um stöðuleyfi fyrir, sé háð byggingarleyfi. Er beiðnin lögð fram með vísan til 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sem kveður á um að ef vafi leikur á því hvort mannvirki sé háð byggingarleyfi skuli leita niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.

Í 9. gr. laga nr. 160/2010 er fjallað um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir. Þar segir í 1. mgr. að óheimilt sé að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi leyfisveitanda. Í 13. tl. 3. gr greindra laga er mannvirki skilgreint sem hvers konar jarðföst, manngerð smíð, svo sem hús og aðrar byggingar eða skýli, virkjanir, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, fráveitumannvirki, umferðar- og göngubrýr í þéttbýli, stór skilti og togbrautir til fólksflutninga. Til mannvirkja teljast einnig tímabundnar og lausar byggingar sem ætlaðar eru til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, svo sem starfsmannabúðir og húsvagnar. Mannvirki á eða í hafi, vötnum og ám sem hafa fasta staðsetningu teljast einnig til mannvirkja samkvæmt lögum þessum.

Í 9. tl. 1. mgr. 60. gr. laga nr. 160/2010 er tekið fram að í reglugerð skuli setja ákvæði um skilyrði fyrir veitingu stöðuleyfa fyrir gáma, báta, torgsöluhús, stór samkomutjöld og þess háttar sem ætlað sé að standa utan skipulagðra svæða fyrir slíka hluti í lengri tíma en tvo mánuði. Í reglugerð skuli kveða á um atriði sem varði öryggi og hollustuhætti vegna þessara lausafjármuna og um heimildir byggingarfulltrúa til að krefjast þess að þeir séu fjarlægðir ef ekki séu uppfyllt ákvæði reglugerðarinnar.

Í kafla 2.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er fjallað um stöðuleyfi. Í gr. 2.6.1. kemur fram að sækja skuli um stöðuleyfi til leyfis­veitanda til að láta eftirfarandi lausafjármuni standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega séu skipulögð og ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna: a. Hjólhýsi, á tíma­bilinu frá 1. október til 1. maí. b. Gáma, báta, torgsöluhús, frístundahús í smíðum, sem ætlað sé til flutnings, og stór samkomutjöld.

Af fyrirliggjandi lýsingu er um að ræða hús á hjólum sem verður tyllt niður á grind hússins og fest niður með steyputunnum. Af lýsingunni má ráða að húsið sé ekki varanlega fest við jörðu, þrátt fyrir að það sé fest niður með steyputunnum. Ber lýsing hússins með sér að auðvelt sé að fjarlægja það og ekki sé fyrirhugað að leggja lagnir að því.

Að framangreindu virtu er það álit úrskurðarnefndarinnar að ekki sé um jarðfast mannvirki að ræða í skilningi 13. tl. 3. gr. laga nr. 160/2010 og sé það því ekki byggingarleyfisskylt skv. 9. gr. laga nr. 160/2010. Þá er og sérstaklega gert ráð fyrir í lögum nr. 160/2010 og byggingarreglugerð að sótt sé um stöðuleyfi en ekki byggingarleyfi fyrir torgsöluhús, líkt og hér um ræðir.

 Úrskurðarorð:

Umrætt torgsöluhús á Seyðisfirði er ekki háð byggingarleyfi samkvæmt 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.