Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

20/2025 Grundarland

Árið 2025, mánudaginn 24. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 20/2025, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. janúar 2025 um álagningu dagsekta vegna bílskýlis að Grundarlandi 22.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. febrúar 2025, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Grundarlands 22, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. janúar s.á. um álagningu dagsekta að fjárhæð 25.000 kr. á dag frá og með 24. s.m. vegna bílskýlis að Grundarlandi 22. Einnig er kærð ákvörðun byggingarfulltrúa, dags. 22. ágúst 2024, um niðurrif bílskýlisins. Með tölvupósti frá 14. febrúar 2025 gerðu kærendur þá kröfu að réttaráhrifum ákvörðunar um dagsektir verði frestað á meðan málið verði til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 21. febrúar 2025.

Málsatvik og rök: Með bréfi, dags. 22. ágúst 2024, sem móttekið var af kærendum 3. september s.á. tilkynnti byggingarfulltrúi lóðarhöfum Grundarlands 22 að borist hefði ábending um að búið væri að reisa mannvirki á lóðarhluta húss nr. 22 á lóð nr. 18.–24. við Grundarland. Samkvæmt ábendingu væri búið að reisa skúr og bílskýli utan byggingarreits. Var kærendum tilkynnt að þeim væri skylt að rífa skýlið innan 90 daga, ella yrðu lagðar á dagsektir. Með tölvupósti frá 28. nóvember s.á. var kærendum tilkynnt að ákvörðun byggingarfulltrúa stæði og að hún væri kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Með bréfi byggingarfulltrúa til kærenda, dags. 23. janúar 2025, var síðan tilkynnt um ákvörðun um álagningu dagsekta, kr. 25.000 fyrir hvern þann dag sem dragast mundi að verða við kröfu um niðurrif.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 20. febrúar 2025 var tekin fyrir beiðni kærenda um að stöðva innheimtu dagsekta á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þeirri beiðni var synjað.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun er íþyngjandi fyrir hann, veldur honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi.

Í máli þessu er kærð sú ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. janúar 2025 að leggja á dagsektir að fjárhæð 25.000 kr. fyrir hvern þann dag sem kærendur draga að verða við kröfu um að fjarlægja mannvirki er tilheyri húsi nr. 22 á lóð nr. 18.–24 við Grundarland. Kærendur hafa nýtt sér heimild til að bera lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar undir úrskurðarnefndina. Um íþyngjandi ákvörðun er að ræða, sem beinist einungis að kærendum. Eins og málsatvikum er háttað þykir rétt að fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar enda liggja ekki fyrir knýjandi ástæður sem gera það að verkum að varhugavert sé að bíða niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um ágreiningsefni máls þessa.

 Úrskurðarorð:

Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. janúar 2025, um beitningu dagsekta að fjárhæð 25.000 kr. á dag frá og með 24. janúar 2025.