Árið 2025, þriðjudaginn 11. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 6/2025, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar dags. 20. desember 2024, um að synja kröfu um stöðvun framkvæmda að Álfabakka 2A
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags, 13. janúar 2025, er barst nefndinni sama dag, kærir Búseti húsnæðissamvinnufélag, eigandi íbúða í Árskógum 5-7, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar, dags. 20. desember 2024, að synja kröfu um stöðvun framkvæmda að Álfabakka 2A. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 21. janúar 2025.
Málavextir: Með erindi til byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar, dags. 12. nóvember 2024, var farið fram á tafarlausa stöðvun yfirstandandi framkvæmda við Álfabakka 2A og kannað hvort brotið væri á forsendum samþykktrar deiliskipulagsbreytingar fyrir Suður-Mjódd, dags. 5. október 2022 og 13. október 2022, byggingarleyfis dags. 17. október 2023 og/eða réttindum Búseta og íbúa við Árskóga 5-7, 109 Reykjavík. Með bréfi dags. 20. desember 2024 synjaði byggingarfulltrúi um þá beiðni og er sú afstaða sem fram kemur í því bréfi hin kærða ákvörðun í máli þessu.
Málsrök kæranda: Kærandi telur hina kærðu ákvörðun ekki í samræmi við lög og vísar til þess að mannvirkið og notkun þess brjóti í bága við skipulag, sbr. 1. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. einnig 1. mgr. gr. 2.9.1 byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Hann álítur að sú afstaða byggingarfulltrúa að byggingarleyfi samræmist byggingarreglugerð standist ekki nánari skoðun. Þá séu framkvæmdirnar ekki í samræmi við byggingarleyfi auk þess að ekki hafi farið fram mat á hvort framkvæmdin væri umhverfismatsskyld, sbr. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
Ákvörðun um hvort skilyrði séu til að stöðva framkvæmdir á grundvelli 1. mgr. 55. gr. laga um mannvirki, verði að byggja á heildstæðu mati á því hvort útgefið byggingarleyfi og framkvæmdir á þeim grundvelli sé í samræmi við lög og skipulagsáætlanir. Komi við nánari athugun í ljós að byggingarleyfi uppfylli ekki skilyrði viðeigandi laga og reglna hvíli sú skylda á byggingarfulltrúa að bregðast við og stöðva framkvæmdir. Stjórnvald sem sé upplýst um annmarka á ákvörðunum geti ekki vikið sér frá þeirri skyldu að koma málum í lögmætt horf og þá eftir atvikum afturkalla ákvarðanir sínar, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar kom fram að nefndinni beri að hafna kröfu um stöðvun framkvæmda þar sem ekki verði séð að hagsmunum kæranda verði raskað á meðan fjallað verði um gildi þeirrar afstöðu sem fram komi í bréfi byggingarfulltrúa frá 20. desember 2024. Heitið var frekari málafærslu fyrir úrskurðarnefndinni, en ekki þótti ástæða til að bíða hennar.
Málsrök leyfishafa: Af hálfu leyfishafa kom fram að útgefið byggingarleyfi sé í fullu samræmi við gildandi aðalskipulag, deiliskipulag og lög og engir formgallar séu á undirbúningi þess, sem réttlæti jafn íþyngjandi ákvörðun og þá að stöðva framkvæmdir.
———-
Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um það hvort skylt hafi verið af byggingarfulltrúanum í Reykjavík að stöðva framkvæmdir að Álfabakka 2A. Byggingarleyfi vegna framkvæmdanna hafa verið útgefin og hafa þau ekki verið kærð, en ágreiningur er um hvort framkvæmd sé í samræmi við nefnd leyfi og hvort brotið sé á forsendum samþykktrar deiliskipulagsbreytingar fyrir Suður-Mjódd, dags. 5. október 2022 og 13. október 2022, byggingarleyfis dags. 17. október 2023 og/eða réttindum Búseta og íbúa við Árskóga 5-7, 109 Reykjavík. Kæruheimild er í 59. gr. laga um mannvirki og barst kæra innan kærufrests, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefndina nr. 130/2011.
Samkvæmt 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er byggingarfulltrúa heimilt að stöðva byggingarleyfisskyldar framkvæmdir skv. 9. gr. laganna er þær eru hafnar án þess að leyfi sé fengið, ekki er sótt um leyfi fyrir breyttri notkun mannvirkis, það byggt á annan hátt en leyfi stendur til, mannvirkið eða notkun þess brýtur í bága við skipulag, mannvirki er tekið í notkun án þess að öryggisúttekt hafi farið fram eða ef mannvirki er tekið til annarra nota en heimilt er samkvæmt útgefnu byggingarleyfi. Slík ákvörðun er bráðabirgðaákvörðun sem taka skal tafarlaust leiki grunur á því að framkvæmd sé án tilskilins leyfis. Í framhaldi hefur byggingarfulltrúi undirbúning endanlegrar ákvörðunar, sem eftir atvikum getur falist í að aflétta stöðvun eða beina tilmælum til framkvæmdaraðila um að bæta úr því sem áfátt er eða fjarlægja byggingarhluta.
Meðan mál þetta var til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni barst tilkynning frá byggingarfulltrúa dags. 30. janúar 2025, um að framkvæmdir við kjötvinnslu á 1. hæð í Álfabakka 2A yrðu tafarlaust stöðvaðar. Ástæða stöðvunarinnar var sögð að nánari skoðun á aðaluppdráttum, samþykktum 24. september 2024 hafi leitt í ljós misræmi milli samþykktra aðaluppdrátta og skráningartöflu, gera þurfi betur grein fyrir rými 0101 sem áætlað er fyrir kjötvinnslu og að ekki liggi fyrir upplýsingar um hvort félagið hafi tilkynnt til Skipulagsstofnunar um fyrirhugaða kjötvinnslu og líkleg umhverfisáhrif hennar. Hlutaðeigandi aðilum var veittur 7 daga frestur frá móttöku bréfsins til að koma að skriflegum skýringum og athugasemdum vegna málsins. Þá kom fram að byggingarfulltrúi mundi, að þeim fresti liðnum, taka ákvörðun um framhald málsins. Er í bréfinu tekið fram að byggingarfulltrúa kunni að vera heimilt að breyta eða fella byggingarleyfi úr gildi samkvæmt 4. mgr. 14. gr. laga nr. 160/2010 eða eftir atvikum að undangenginni endurupptöku málsins að uppfylltum skilyrðum 24. gr. stjórnsýslulaga eða með því að afturkalla það samkvæmt 25. gr. sömu laga.
Með þessu verður að álíta að til sé að dreifa nýrri afstöðu byggingarfulltrúa sem leitt getur til nýrrar stjórnvaldsákvörðunar sem mögulegt er að verði borin undir nefndina til úrskurðar, sbr. 65. gr. laga nr. 7/1998. Verður af þeim sökum ekki talið að hin kærða ákvörðun frá 20. desember 2024 hafi réttarverkan og virðist eðlilegt að líta svo á að hún hafi verið afturkölluð með tilkynningunni dags. 30. janúar 2025. Með hliðsjón af þessu sem og því sem ráða má af tilkynningunni um yfirstandandi rannsókn máls, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, þykir ekki tilefni fyrir úrskurðarnefndina að fjalla frekar um málið og verður því af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.