Árið 2025, miðvikudaginn 22. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Halldóra Vífilsdóttir arkitekt.
Endurupptekið var mál nr. 79/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Mýrargötu 33–39.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 25. júlí 2024, kærir húsfélag Mýrargötu 33–39 þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Mýrargötu 33–39. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að byggingaraðila verði gert að ráðast í endurbætur svo húsið verði í samræmi við samþykkt hönnunargögn.
Með úrskurði nefndarinnar kveðnum upp 5. nóvember 2024 var kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað. Í úrskurðinum var á því byggt að kæran lyti að ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. maí 2024 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Mýrargötu 33–39 og kæmu því ekki til skoðunar atriði sem tekin hefðu verið út í lokaúttekt embættisins frá 19. janúar s.á., en vottorð um lokaúttekt þeirra atriða var gefið út sama dag. Í kjölfar úrskurðarins kom kærandi á framfæri ábendingum um að honum hefði ekki verið kunnugt um „að lokaúttekt hefði verið gefin út í tvennu lagi“ auk þess sem vottorðið frá 24. maí 2024 bæri þess ekki merki. Einnig benti kærandi á að í kærunni hefði sérstaklega verið tekið fram að honum væri ekki ljóst hvenær lokaúttekt hefði farið fram og hvenær vottorð hefði verið gefið út. Var af því tilefni óskað eftir upplýsingum frá byggingarfulltrúa um hvort starfsmenn embættisins hefðu tilkynnt kæranda um lokaúttektina sem fram fór í janúar. Svar barst frá borgaryfirvöldum um að engin frekari samskipti lægju fyrir önnur en þau sem þegar hefðu verið afhent nefndinni. Af þeim gögnum er ljóst að kæranda var aldrei tilkynnt um þá úttekt sem fram fór í janúar og það vottorð sem gefið var út í kjölfar þess.
Með bréfi, dags. 21. nóvember 2021, tilkynnti úrskurðarnefndin aðilum þessa máls og Reykjavíkurborg að kærumálið hefði verið endurupptekið þar sem að áliti nefndarinnar hefði skort á upplýsingar um málsatvik og grundvöll kærunnar við uppkvaðningu úrskurðarins.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. ágúst 2024, 12. september s.á., 8. október s.á. og 13. desember s.á.
Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 3. nóvember 2020 var tekin fyrir og samþykkt umsókn um leyfi til að byggja fjölbýlishús á sex hæðum á reitum S4–S8 á lóð nr. 2 við Seljaveg, matshluta 05, en fjölbýlishúsið hefur fjóra stigaganga sem bera nöfnin Mýrargata 33, 35, 37 og 39. Umsóknir um breytingar á byggingaráformunum voru samþykktar á afgreiðslufundum embættisins 15. júní 2021 og 27. júní 2023. Í byrjun árs 2023 munu íbúðir í fjölbýlishúsinu hafa verið settar á sölu. Hinn 19. janúar 2024 gaf byggingarfulltrúi út vottorð um lokaúttekt að hluta og náði sú úttekt samkvæmt efni vottorðsins til Mýrargötu 33, 35 og 39 ásamt bílakjallara, en Mýrargata 37 var undanskilin úttektinni. Á vottorðinu kom fram að lóðafrágangur yrði tekinn fyrir í lokaúttekt Mýrargötu 37. Hinn 24. maí 2024 gaf byggingarfulltrúi út lokaúttektarvottorð fyrir Mýrargötu 33, 35, 37 og 39. Þar kom fram að gögn hefðu borist sem staðfestu að úrbótum væri lokið vegna athugasemda sem fram hefðu komið við skoðun. Þá kom og fram að rými 0104, 0113 og 0114 skilist á byggingarstigi 2 – fokheldi. Sækja þyrfti um nýtt byggingarleyfi svo lokaúttekt fengist á þau rými.
Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að fulltrúi húsfélagsins hafi ekki vitað af þeirri ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að gefa út lokaúttektarvottorð fyrr en tölvupóstur hafi borist frá embættinu 28. júní 2024. Sé kæran því lögð fram innan kærufrests.
Samkvæmt 3. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skuli við lokaúttekt gera úttekt á því hvort mannvirkið hafi verið byggt í samræmi við samþykkt hönnunargögn, en það skilyrði hafi ekki verið uppfyllt í máli þessu þar sem töluvert misræmi sé á milli samþykkts aðaluppdráttar og raunverlegs frágangs hússins. Þannig segi á aðaluppdrætti að útihurðir í anddyri og dyr að hjóla- og bílageymslu séu með rafrænum opnunarbúnaði, en hvorki útihurðir frá anddyri Mýrargötu 33 né frá anddyri Mýrargötu 39 séu með rafrænum opnunarbúnaði.Ekki sé fyrir hendi snjóbræðslukerfi vegna inngangs að anddyri Mýrargötu 33 eins og kveðið sé á um á samþykktum aðaluppdráttum. Gangar og stigagangar á jarðhæð séu öll teppalögð þrátt fyrir að á aðaluppdrætti segi að þar eigi að vera mjúkt undirlag undir flísalögn.
Hönnunargögn kveði á um að frágangur lóðar verði samkvæmt landslagshönnun, en þar sem kærandi hafi ekki þá hönnun fyrir hendi sé óskað eftir því að úrskurðarnefndin fari yfir hana og meti hvort frágangur lóðar sé í samræmi við það sem þar komi fram, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan til sama lagaákvæðis sé þess einnig óskað að úrskurðarnefndin taki til skoðunar hvort fjölbýlishúsið sé í samræmi við önnur atriði sem gætu verið tilgreind í öðrum samþykktum hönnunargögnum. Í því sambandi sé bent á að dyr frá anddyrum séu án þéttilista sem orsaki mikinn hávaða í sameign jarðhæðar þegar vindasamt sé. Einnig hafi annarri dyr verið bætt við ruslageymslu í byggingu Mýrargötu 37 eftir að komið hafi í ljós að sú hurð sem fyrir hafi verið hafi ekki uppfyllt kröfu gr. 6.12.7. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um lágmarksbreidd umferðarmáls.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að af tölvupósti fulltrúa kæranda til byggingarfulltrúa, dags. 14. júní 2024, verði ráðið að honum hafi verið kunnugt um hina kærðu ákvörðun á þeim tímapunkti. Þar sem kæra hafi borist nefndinni 25. júlí s.á. sé kærufrestur liðinn í máli þessu, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, og því beri að vísa málinu frá. Verði ekki fallist á það sé krafist frávísunar málsins þar sem kærandi hafi ekki verið eigandi fasteignarinnar skv. d-lið 4. mgr. 15. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki á þeim tíma sem hið kærða lokaúttektarvottorð hafi verið gefið út. Hafi útgáfan því ekki lotið að réttindum eða skyldum kæranda á þeim tíma og geti hann því ekki talist aðili málsins, en íbúðir hafi verið seldar áður en hið kærða lokaúttektarvottorð hafi verið gefið út, sbr. d-lið 4. mgr. 15. gr. laga nr. 160/2010.
Í viðauka II við byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé fjallað um verklag við lokaúttektir í gr. 5.2. Þar komi fram að skoðun vegna lokaúttektar sé sjónskoðun og að skoðunarmanni sé hvorki ætlað að prófa virkni tækja eða búnaðar né að framkvæma mælingar. Ekki verði gerðar ríkari kröfur til skoðunarmanns en samkvæmt því. Hvað varði rafrænan opnunarbúnað í fjölbýlishúsinu að Mýrargötu 33–39 sé slíkur búnaður til staðar í útidyrum sem snúi að baklóð bygginganna. Ekkert í byggingarlýsingunni segi eða gefi til kynna að rafrænn opnunarbúnaður þurfi að vera í báðum útihurðunum, enda hefði það þá sennilegast verið orðað með þeim hætti. Skortur sé á sönnun þeirri fullyrðingu kæranda að ekkert snjóbræðslukerfi sé til staðar, en byggingarfulltrúi hafi fengið yfirlýsingu um stillingu hitakerfis og virkni stýrikerfa vegna öryggis- eða lokaúttektar frá pípulagningarmeistara. Byggingarfulltrúi hafi ekki haft neina ástæðu til þess að draga þá yfirlýsingu í efa. Ákvæði byggingarreglugerðar um hljóðvist sé að finna í 11. kafla, en reglurnar hafi þann tilgang að draga úr hávaða. Lagning gólfteppis á gangi og stigagangi á jarðhæð stefni að sama markmiði um hljóðvist og sú lausn sem komi fram í byggingarlýsingu á aðaluppdráttum fjölbýlishússins.
Þau atriði sem kærandi telji vera frávik á byggingarlýsingu geti ekki talist annað en minniháttar frávik sem valdi ekki ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Ef fallist yrði á kröfu kæranda hefði það slæmar afleiðingar í för með sér þar sem það gæfi til kynna að öll minniháttar frávik á byggingarlýsingu, s.s. lausir hurðarhúnar eða skortur á trjám, myndu leiða til ógildingar lokaúttektarvottorða. Í byggingarlýsingu er byggingaraðila veitt ákveðið svigrúm til að leita annarra sambærilegra lausna en þeirra sem tilgreindar séu nákvæmlega í byggingarlýsingu.
Athugasemdir verktaka: Vísað er til þess að í samningi við byggingaraðila hafi ekki verið kveðið á um rafrænan opnunarbúnað. Ekki hafi verið gert ráð fyrir snjóbræðslu á samþykktum teikningum. Verið sé að skoða hvort tilefni sé til úrbóta vegna flísalagnar á gólfum stigahúsa og sameiginlegra ganga á jarðhæð. Frágangur lóðar hafi verið í samræmi við aðaluppdrætti. Gerðar hafi verið hefðbundnar, einfaldar hljóðmælingar á stigagangi og ekki hafi mælst þar óeðlilegur hávaði miðað við staðsetningu, en umræddir stigagangar liggi beint við stofnæð úr bænum og höfn. Þó sé verið að skoða að bæta úr þessu með þéttilista.
Öll atriði sem kærandi bendi á teljist minniháttar frávik sem í mesta lagi hefðu getað orðið til þess að byggingarfulltrúi hefði gefið út vottorð með athugasemdum skv. 4. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Eigi einhverjar af athugasemdunum við rök að styðjast væri það í ósamræmi við sjónarmið um meðalhóf að fella lokaúttektina úr gildi í heild sinni.
Athugasemdir byggingaraðila: Bent er á að það séu ekki hagsmunir byggingaraðila að úttektarvottorð sé gefið út of snemma þar sem það sé á ábyrgð byggingarstjóra verkefnisins að klára verkefnið í samræmi við samþykkta uppdrætti. Í einhverjum tilfellum sé misræmi í textalýsingu og uppdráttum og hafi þá að öllu jöfnu verið farið eftir uppdráttunum. Til standi að ráðast í úrbætur vegna þeirra útihurða sem ekki séu með rafrænum opnunarbúnaði. Allar megingönguleiðir séu snjóbræddar í samræmi við hönnun lagnahönnuðar. Inngangur Mýrargötu 33 sé viðbótarinngangur sem hafi komið síðar í hönnunarferlinu, en teikning landslagshönnuðar sýni hvað eigi að vera snjóbrætt. Umfjöllun á aðaluppdrætti um flísalögn anddyris eigi við um flísalögn að dyrasíma. Hljóðhönnuður eigi að hanna verkefni þannig að það uppfylli ákvæði byggingarreglugerðar. Fyrirhugað sé að klára gróðursetningu og frágang á plöntum fyrir 25. september næstkomandi. Ekki sé gerð krafa um að plöntur séu komnar út í garða til að fá útgefið lokaúttektarvottorð. Þéttilisti hafi verið á dyrum frá anddyrum Mýrargötu 33 og 39 en vegna kröfu um úrbætur hafi verktaki tekið þéttilistana út. Engar hljóðmælingar liggi til grundvallar því hvort listarnir geri gagn eða ekki og geti þetta atriði ekki verið forsenda útgáfu lokaúttektarvottorðs. Þá sé bent á að þeirri hurð sem komið hafi verið fyrir í ruslageymslu Mýrargötu 37 hafi verið bætt við til að koma til móts við ábendingar kæranda um lágmarksbreidd umferðarmáls. Búið sé að óska eftir því að hurðarhúnn fyrri hurðar verði fjarlægður og að teikningar verði uppfærðar til samræmis við breytingarnar.
Viðbótarathugasemdir kæranda: Því sé andmælt að fulltrúa húsfélagsins hafi verið „fullkunnugt“ um hina kærðu ákvörðun 14. júní 2024 þegar hann hafi sent tölvupóst til byggingarfulltrúa. Eins og þar komi fram hafi hann heyrt en ekki fengið staðfest að lokaúttekt hefði farið fram. Fyrirspurn hans hafi ekki verið svarað fyrr en 14 dögum síðar eða 28. júní 2024 og hafi kærandi þá haft upplýsingar til að leggja mat á hvort kæra skyldi ákvörðunina. Ákvörðunin varði aðstæður og aðbúnað á heimili félagsmanna kæranda og því liggi lögvarðir hagsmunir í augum uppi.
Vel megi vera að lagning gólfteppis nái a.m.k. sama markmiði um hljóðvist og sú lausn sem komi fram í byggingarlýsingu, þ.e. flísalögn. Engu að síður sé bersýnilegt að teppi fari verr úr tíðri umgengni en flísalögn. Það sé heldur ekki hlutverk byggingarfulltrúa að leggja mat á hvort teppi eða flísalögn nái markmiði um hljóðvist, heldur beri honum að gera úttekt á því hvort byggt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Þá sé einnig bent á að samkvæmt samþykktum aðaluppdrætti skuli koma snjógildrum fyrir á þökum með málmklæðningu til að varna því að snjór og ís falli af þaki. Engar snjógildrur séu fyrir ofan glugga á húsi Mýrargötu 39 og hafi síðasta vetur skapast stórhætta þegar snjór hafi fallið niður af þaki.
Athugasemdir verktaka og byggingaraðila renni stoðum undir og gefi til kynna að rafrænn opnunarbúnaður eigi að vera við öll anddyri Mýrargötu 33–39, þ. á m. á anddyri Mýrargötu 33 sem enn vanti. Það að inngangur Mýrargötu 33 hafi komið til síðar í hönnunarferlinu séu ekki upplýsingar sem varði kæranda, enda komi þær ekki fram á samþykktum aðaluppdrætti.
Ábendingar hafi komið fram um leka úr loftplötum í bílakjallara sem beri þess merki að um sé að ræða alvarlegan galla á lóðafrágangi og/eða lagnafrágangi. Þá hafi silfurskottur verið að finnast í íbúðum í húsi Mýrargötu 33 og fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að galli í lagnafrágangi og/eða öðrum frágangi sé orsök vandans. Farið sé fram á að byggingaraðili ráðist í þær úrbætur sem hann hafi sagst ætla gera.
Viðbótarathugasemdir verktaka: Vegna ábendinga um leka hafi verktaki farið á staðinn og í ljós hafi komið að um staðbundinn leka væri að ræða. Bendi ekkert til þess að um sé að ræða alvarlegan galla á lóðafrágangi og/eða lagnafrágangi. Rétt þyki að upplýsa að málið sé í frekari skoðun í samráði við hönnuði hússins. Þá hafi meindýraeyðir farið í skoðun á húsinu og bílakjallara, en engar silfurskottur hafi fundist. Meindýraeyðirinn hafi jafnframt staðfest að hann sæi ekki neinn auðsjáanlegan galla eða ástæðu fyrir því af hverju silfurskottur væru að Mýrargötu 33 umfram það sem gengi og gerist annars staðar. Ýmsar eðlilegar ástæður geti verið fyrir tilvist þeirra, s.s. að fólk beri þær með sér í íbúðir eða að þær komið upp um niðurföll og lagnir sem standi opnar á meðan á byggingu standi. Allar athugasemdir kæranda hafi verið teknar til skoðunar og brugðist við þeim þar sem við hafi átt. Rétt sé að nefna að í fyrri athugasemdum hafi byggingaraðili nefnt að til skoðunar væri að setja upp þéttilista, en ekki hafi verið talið þörf á því vegna niðurstaðna hljóðmælinga. Þá sé búið að setja upp snjógildrur á þaki Mýrargötu 39.
Áréttað sé að allar athugasemdir kæranda lúti að atriðum sem myndu teljast minniháttar frávik sem hefðu í mesta lagi geta orðið til þess að byggingarfulltrúi hefði gefið út vottorð með athugasemdum, skv. 4. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 2. mgr. gr. 3.9.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Það væri í ósamræmi við sjónarmið um meðalhóf að fella lokaúttektina úr gildi í heild sinni.
Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Mýrargötu 33–39.
Eins og rakið er í málavöxtum fór lokaúttekt fjölbýlishússins fram í tveimur hlutum. Annars vegar var gefið út vottorð um lokaúttekt 19. janúar 2024 vegna Mýrargötu 33, 35 og 39 og bílakjallara, en hins vegar var gefið út vottorð um lokaúttekt 24. maí s.á. vegna Mýrargötu 37 og lóðafrágangs. Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 5. nóvember 2024 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að kæran hefði verið lögð fram innan lögbundins kærufrests skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að því er varðar síðargreinda ákvörðun byggingarfulltrúa frá 24. maí 2024. Þá liggur fyrir að kæranda var ekki kunnugt um útgáfu vottorðsins frá 19. janúar 2024 fyrr en eftir uppkvaðningu úrskurðarins og verður af þeim sökum litið svo á að kæran sé jafnframt lögð fram innan kærufrests að því er varðar þá ákvörðun.
Ekki verður fallist á með Reykjavíkurborg um að vísa eigi kærumáli þessu frá á þeim grundvelli að kærandi teljist ekki aðili málsins þar sem skv. d-lið 4. mgr. 15. gr. laga nr. 160/2010 beri fyrri eigandi ábyrgð skv. 1. mgr. lagagreinarinnar. Þrátt fyrir að útgáfa lokaúttektarvottorðsins hafi ekki beinst að húsfélagi Mýrargötu 33–39 verður að leggja til grundvallar að hún geti varðað hagsmuni félagsmanna þess verulega, sbr. álit umboðsmanns Alþingis frá 13. september 2011 í máli nr. 6242/2010 og úrskurðaframkvæmd úrskurðarnefndarinnar. Hefur kærandi því lögvarða hagsmuni af úrlausn þessa máls og verður honum því játuð kæruaðild.
Framkvæmd lokaúttektar og útgáfa vottorðs þess efnis er hluti af lögbundnu eftirliti byggingarfulltrúa með mannvirkjagerð, sbr. 2. og 3. mgr. 16. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Samkvæmt 3. mgr. 36. gr. laganna skal við lokaúttekt gera úttekt á því hvort mannvirkið uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið samkvæmt þeim og hvort byggt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Þá er mælt fyrir um í 4. mgr. lagagreinarinnar að ef mannvirkið uppfylli ekki að öllu leyti ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafi verið samkvæmt þeim þá geti útgefandi byggingarleyfis gefið út vottorð um úttektina með athugasemdum. Þáttum sem varði aðgengi skuli þó ávallt hafa verið lokið við gerð lokaúttektar. Segir jafnframt í 5. mgr. sömu lagagreinar að eftirlitsaðili geti fyrirskipað lokun mannvirkis komi í ljós við lokaúttekt að mannvirki uppfylli ekki öryggis- eða hollustukröfur og lagt fyrir eiganda þess að bæta úr, en lokaúttektarvottorð skuli þá ekki gefið út fyrr en það hafi verið gert.
Í byggingarlýsingu á samþykktum aðaluppdrætti er því lýst að gangstígar að inngöngum, aðkoma að bílageymslu, bílastæði fyrir hreyfihamlaða og aðkoma að sorpsvæði verði með snjóbræðslukerfi. Í máli þessu er óumdeilt að fyrir framan innganga Mýrargötu 33, þ.e. þá innganga sem snúa að Mýrargötu og leiða að rými fyrir atvinnuhúsnæði, er ekki að finna snjóbræðslu. Telur kærandi það fyrirkomulag ekki samrýmast samþykktum aðaluppdráttum en á móti bendir byggingaraðili á að ekki hafi verið gert ráð fyrir snjóbræðslu þar samkvæmt lóðaruppdrætti. Með hliðsjón af því orðalagi byggingarlýsingar að „gangstígar“ verði snjóbræddir þykir skortur á snjóbræðslu fyrir framan umrædda innganga Mýrargötu 33 ekki fela það í sér að frágangur lóðarinnar sé í ósamræmi við samþykkt hönnunargögn.
Tilgreint er í byggingarlýsingu að á anddyrum, gangi og stigagangi á jarðhæð verði mjúkt undirlag undir flísalögn en fyrir liggur að gangar og stigagangar á jarðhæð hafa ekki verið flísalögð. Þrátt fyrir að slíkur frágangur hafi gefið tilefni til athugasemda á lokaúttektarvottorði verður það ekki talinn verulegur annmarki á hinni kærðu ákvörðun með hliðsjón af því að ekki er um að ræða atriði sem varðar aðgengi eða öryggis- eða hollustukröfur, sbr. 4. og 5. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010.
Kærandi gerir athugasemd við að útihurðir frá anddyri Mýrargötu 33 eða 39 séu ekki með rafrænum opnunarbúnaði í samræmi við byggingarlýsingu, en á samþykktum aðaluppdráttum segir: „Útihurðir í anddyri og dyr að hjóla- og bílageymslu eru með rafrænum opnunarbúnaði.“ Hefur byggingaraðili svarað því til að ekki hafi verið kveðið á um rafrænan opnunarbúnað hurða í samningi verktaka. Telja verður að byggingarfulltrúa hafi borið að gera athugasemd við að skort hafi á rafrænan opnunarbúnað umræddra hurða, enda er sá skortur í andstöðu við samþykkt hönnunargögn. Að teknu tilliti til þess að ekki er um að ræða þátt er varðar aðgengi eða öryggis- eða hollustukröfur þykir umræddur ágalli ekki svo verulegur að varði ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Er þá haft í huga að í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er ekki gerð krafa um að inngangsdyr/útidyr í aðalumferðarleiðum séu með sjálfvirkan opnunarbúnað, heldur einungis að vel sé hægt að koma slíkum búnaði fyrir, sbr. b-lið 5. mgr. gr. 6.4.2.
Þá hefur kærandi komið á framfæri ábendingum um leka í bílageymslu og að silfurskottur hafi fundist í íbúðum og í bílakjallara. Af hálfu verktaka hefur komið fram að um staðbundinn leka sé að ræða í bílakjallara sem sé til skoðunar í samráði við hönnuð hússins. Jafnframt hefur hann bent á að í skoðun meindýraeyðis á húsi og bílakjallara hafi ekki fundist meindýr. Fyrir liggur í gögnum þessa máls tölvupóstur frá sama meindýraeyði þar sem hann telur upp helstu ástæður þess að silfurskottur hafi verið að finnast í húsinu en enginn þeirra snýr að því að húsið hafi ekki verið byggt í samræmi við kröfur byggingarreglugerðar eða samþykktra hönnunargagna. Með hliðsjón af því verður ekki talið að um sé að ræða ágalla á hinum kærðu ákvörðunum sem raskað geti gildi þeirra.
Með vísan til þess sem að framan er rakið og þar sem ekki verður séð að neinir þeir annmarkar séu á hinum kærðu ákvörðun er varðað geta ógildingu þeirra verður kröfu kæranda þar um hafnað.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. janúar 2024 um að gefa út vottorð um lokaúttekt að hluta vegna Mýrargötu 33–39 og ákvörðunar hans frá 24. maí 2024 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Mýrargötu 33–39.