Árið 2025, miðvikudaginn 22. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Halldóra Vífilsdóttir arkitekt og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.
Fyrir var tekið mál nr. 166/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 30. október 2024 um að samþykkja tilkynnta framkvæmd á lóð nr. 14 við Furuhlíð, Hafnarfirði.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 1. desember 2024, kæra eigendur, Fjóluhlíð 13, Hafnarfirði, ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 30. október 2024 um að samþykkja tilkynnta framkvæmd á lóð nr. 14 við Furuhlíð, Hafnarfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 13. desember 2024.
Málavextir: Kærendur í máli þessu eru lóðarhafar lóðar nr. 13 við Fjóluhlíð, Hafnarfirði. Bakhlið lóðarinnar er í suðvestur og liggja mörk hennar að hluta að mörkum bakhliðar Furu-hlíðar 14. Lóðirnar eru staðsettar í landhalla og standa húsin við Furuhlíð nokkuð hærra en hús við Fjóluhlíð. Gólfkóti íbúðarhússins að Furuhlíð 14 er samkvæmt samþykktum uppdrætti 33,80 en gólfkóti efri hæðar hússins að Fjóluhlíð 13 er 29,45. Eigendur Furuhlíðar 14 hafa reist sólpall á lóðinni ásamt skjól- og stoðveggjum.
Í september árið 2022 var embætti byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar gert viðvart um gerð skjólveggja og palls á lóð nr. 14 við Furuhlíð. Með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 24. apríl 2023, mótmæltu kærendur umræddri framkvæmd og var eigendum Furuhlíðar 14 gert að stöðva framkvæmdir á meðan málið var til skoðunar. Hinn 5. júlí 2023 sóttu lóðarhafar Furuhlíðar 14 um byggingarleyfi fyrir skjólvegg á lóðinni og var á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 12. s.m., samþykkt að kynna umsóknina fyrir aðliggjandi lóðarhöfum, þ. á m. kærendum í máli þessu. Kom þar fram að um byggingarleyfisskylda framkvæmd væri að ræða og að fyrirhugað væri að byggja 180 cm háan stoðvegg og 180 cm skjólvegg, samanlagt 360 cm að hæð. Kærendum var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sem þeir gerðu með bréfi, dags. 13. ágúst 2023. Athugasemdir kærenda lutu að hæð skjólveggjarins sem snýr í átt að lóð þeirra og lögðu þeir það til að hann yrði lækkaður í 180 cm miðað við jarðveg lóðarinnar innan ákveðinna tímamarka. Með tölvupósti, dags. 20. október 2024, kröfðust kærendur þess að skjólveggurinn yrði fjarlægður þar sem hvorki samkomulag né byggingarleyfi hafi legið fyrir.
Með tölvupósti, dags. 29. október 2024, óskuðu kærendur eftir því að umsókn um byggingar-leyfi yrði breytt í tilkynningu vegna framkvæmdar samkvæmt gr. 2.3.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Á samþykktum teikningum kemur fram að sótt sé um skjólvegg á lóðarmörkum þar sem hæsta hæð hans sé 1,8 m en 3,6 m sé frá hæsta punkti niður á stöllun lóðar. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa degi síðar var erindið tekið fyrir og samþykkt. Ákvörðunin var tilkynnt kærendum með tölvupósti, dags. 12. nóvember 2024.
Málsrök kærenda: Kærendur telja að umdeildur skjólveggur sé byggingarleyfisskyldur. Samkvæmt 2. og 3. mgr. gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 skuli afla byggingarleyfis vegna girðinga og skjólveggja á lóðum nema framkvæmdirnar falli undir undanþáguákvæði gr. 2.3.5. Skjólveggur sem sé 3,6 m að hæð falli ekki undir e-lið 1. mgr. 2.3.5. gr. í byggingarreglugerð. Það sé meginregla samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki að byggingarleyfi þurfi fyrir mannvirkjagerð og undantekningar á því skuli túlka þröngt. Þá sé mannvirkið ekki í samræmi við deiliskipulag. Íbúar við Fjóluhlíð nr. 13 hafi ekki veitt samþykki fyrir umræddum framkvæmdum.
Bygging 3,6 m hárrar skjólgirðingar sé umtalsverð breyting á mannvirkjum á lóð nr. 14 við Furuhlíð. Skuggavarp slíks mannvirkis hafi neikvæð áhrif á garð á lóð kærenda og sé ekki í samræmi við upphaflegt deiliskipulag. Mikill hæðarmunur sé á milli lóðanna, framkvæmdin skerði möguleika á nýtingu lóðarinnar ásamt því að hafa áhrif á birtu á lóð kærenda og útsýni frá henni. Grenndarkynningu byggingarfulltrúa hafi verið hafnað af hálfu kærenda þar sem hún hafi ekki tekið mið af áhrifum veggjarins á aðliggjandi eignir með nægjanlegum hætti. Skjólveggurinn hafi verið samþykktur þrátt fyrir skort á samþykki nágranna sem sé í andstöðu við kröfur í byggingarreglugerð og grenndarrétt. Byggingarfulltrúi hafi tekið ákvörðun um samþykki veggjarins án þess að taka nægjanlega tillit til framkominna athugasemda kærenda sem hafi lýst áhyggjum af skuggavarpi, sjónmengun og skorti á samráði. Að mati þeirra sé um óleyfilegt mannvirki að ræða sem ekki geti fengið löglegt byggingarleyfi og veki það athygli að ákveðið hafi verið að gefa út „tilkynningarskylt leyfi“ í staðinn.
Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Af hálfu bæjaryfirvalda er talið að ákvörðun byggingarfulltrúa um samþykki tilkynningarskylds leyfis hafi verið tekin á grundvelli laga og reglna. Ekki sé um að ræða byggingarleyfisskylda framkvæmd heldur tilkynningarskylda. Ástæða fyrir samþykkt á tilkynningarskyldri framkvæmd hafi verið að umræddar lóðir séu í halla. Ef fylgja hefði átt hæðarblöðum þyrfti að hækka neðri lóðina upp eins og hæðarkótar kveði á um og hefði veggurinn þá ekki sýnst eins yfirgnæfandi. Skjólveggurinn sé um 3,4 m frá lóðarmörkum kærenda og sé á lóðinni um litla aukningu skuggavarps að ræða, en þegar sé skuggavarp af húsi á lóð nr. 14 við Furuhlíð.
Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili byggir á því að ekki sé um byggingarleyfisskylda framkvæmd að ræða. Ljóst sé að umræddur skjólveggur sé ekki hærri en 1,8 m frá hæð lóðarinnar og fjarlægð hans frá lóðarmörkum sé meiri en 1,8 m eins og kveðið er á um í e-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Lóð kærenda sé mun lægri en hún hefði átt að vera samkvæmt samþykktum uppdráttum og því virðist veggurinn hærri. Í málinu liggi fyrir að Hafnarfjarðarbær hafi látið kanna mögulegt skuggavarp af umræddum skjólvegg. Samkvæmt gögnum málsins megi sjá að hann skerði ekki útsýni og valdi nánast engu nýju skuggavarpi á lóð kærenda. Lóðin standi fyrir neðan bratta brekku í norður hlíð, þar sem almennt njóti minni sólar.
Samþykki allra annarra nágranna en kærenda liggi fyrir. Þá sé byggt á því að samþykki kærenda sé ekki þörf vegna framkvæmdarinnar. Framkvæmdaraðilar hafi í öllu ferlinu farið eftir leiðbeiningum og fyrirmælum leyfisveitanda. Allt samstarf hafi gengið ágætlega nema við kærendur sem hafi með ómálefnalegum hætti reynt að stöðva framkvæmdir og bætt við skilyrðum sem standist ekki lög.
Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur telja umdeilda framkvæmd ekki tilkynningar-skylda. Skjólveggurinn sé byggingarleyfisskyldur þar sem hann sé yfir 1,8 m á hæð og valdi umtalsverðum grenndaráhrifum. Skjólveggurinn sé byggður út fyrir hallann á lóðinni og dekk sólpallsins hangi því í lausu lofti. Veggurinn styðji því bara við loftið. Þó veggurinn sé 3,4 m inn á lóð Furuhlíðar 14 hafi það engu að síður grenndaráhrif vegna hæðar og staðsetningar. Hann valdi skuggavarpi og sjónmengun sem rýri gæði og notagildi lóðarinnar Fjóluhlíðar 13. Hæð lóðar kærenda sé aðeins lægri en skipulag hafi sagt til um en á móti komi að lóð Furuhlíðar 14 sé hærri en upphaflegt skipulag hafi sagt til um, það auki enn frekar áhrif veggjarins. Kærendur hafi ekki samþykkt skjólvegginn enda liggi ekkert undirritað samþykki fyrir. Þegar í ljós hafi komið að sá hluti veggjarins sem sé á milli Furuhlíðar 12 og 14 væri ekki hluti af þeirri miðlunartillögu sem lögð hafi verið fram hafi kærendur dregið hana til baka.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar að samþykkja tilkynnta framkvæmd við gerð 1,8 m skjólveggjar ofan á stoðvegg á lóðinni Furu-hlíð 14 sem mun vera allt að 1,8 þar sem hann er hæstur.
Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Ráðherra getur í reglugerð kveðið á um að minni háttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar á mannvirkjum skuli undanþiggja byggingarleyfi eða að slíkar framkvæmdir séu einungis tilkynningarskyldar. Þannig eru í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 taldar upp þær framkvæmdir og breytingar sem undanþegnar eru byggingarheimild og -leyfi enda séu þær í samræmi við deiliskipulag.
Lóðin Furuhlíð 14 tilheyrir svæði Mosahlíðar, ÍB5, samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 þar sem í gildi er deiliskipulag Mosahlíðar. Í skilmálum deiliskipulagsins kemur fram í kafla 1.2.5 um frágang lóða að öll stöllun á lóð skuli gerð innan lóðar. Fjarlægð stalla frá lóðarmörkum skuli vera a.m.k. jöfn hæð þeirra nema þegar óhreyft landslag bjóði upp á betri lausnir. Á lóðinni Furuhlíð 14 hefur sú leið verið valin að stöllun lóðarinnar er gerð með allt að 1,8 m háum stoðvegg. Umræddur stoðveggur stendur allur innan lóðarinnar eða um 3,4 m frá lóðarmörkum. Samrýmist þessi frágangur lóðarinnar kröfum deiliskipulags svæðisins um stöllun á lóð og felur ekki í sér framkvæmd sem þarfnast byggingarleyfis eða byggingarheimildar, en samkvæmt d-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð er gerð palla og annar frágangur á eða við jarðvegsyfirborð undanþeginn byggingarleyfi. Þá kemur fram í e-lið greinarinnar að skjólveggir og girðingar, sem séu allt að 1,8 m á hæð og ekki nær lóðarmörkum en 1,8 m, séu jafnframt undanþegnar byggingarleyfi. Hinn umdeildi skjólveggur í máli þessu er samkvæmt teikningu 1,8 m á hæð og staðsettur ekki nær lóðarmörkum en 1,8 m og er þar af leiðandi undanþeginn byggingarleyfi.
Í gr. 2.3.6. í byggingarreglugerð er fjallað með tæmandi hætti um mannvirkjagerð sem er undanþegin byggingarheimild og -leyfi, en skuli tilkynnt leyfisveitanda. Ekki verður séð að sú framkvæmd sem hér um ræðir falli undir nefnt ákvæði og því voru ekki forsendur fyrir þeirri málsmeðferð sem málið fékk hjá byggingarfulltrúa. Þar af leiðandi verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.
Úrskurðarorð:
Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 30. október 2024 að samþykkja tilkynnta framkvæmd á lóð nr. 14 við Furuhlíð, Hafnarfirði.