Árið 2025, þriðjudaginn 21. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundabúnað.
Fyrir var tekið mál nr. 150/2024, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hornafjarðar frá 17. október 2024 um að veita undanþágu frá tilmælum um mænisstefnu í skilmálum deiliskipulags frístundasvæðis í Stafafellsfjöllum í Lóni.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. október 2024, er barst nefndinni 1. nóvember s.á., kærir landeigandi við Stafafellsfjöll, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hornafjarðar frá 17. október 2024 að veita undanþágu frá tilmælum um mænisstefnu í deiliskipulagi frístundasvæðis í Stafafellsfjöllum á lóð nr. 1D. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið sé til afgreiðslu hjá nefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Hornafirði 11. nóvember 2024.
Málavextir: Með erindi, dags. 24. júlí 2023, óskaði umráðandi lóðar 1D í Stafafellsfjöllum eftir byggingarleyfi fyrir frístundahúsi og gestahúsi á lóðinni. Var umsóknin samþykkt og byggingarleyfi gefið út 30. janúar 2024. Ný afstöðumynd var send inn 9. apríl s.á. og samþykkt af staðgengli byggingarfulltrúa 24. maí s.á. Lóðarhafi var upplýstur með tölvupósti 16. september 2024 að borist hefði ábending um að hús það sem verið væri að reisa á lóð 1D í Stafafellsfjöllum væri í ósamræmi við deiliskipulag og var hann inntur eftir útskýringum. Með tölvupósti 17. s.m. óskaði lóðarhafi eftir undanþágu frá skilmálum deiliskipulags. Sveitarfélagið fór fram á stöðvun framkvæmda með tölvupósti 18. september 2024 í ljósi þess að bygging sumarhúss á lóð 1D í Stafafellsfjöllum samræmdist ekki skilmálum gildandi deiliskipulags.
Erindi lóðarhafa um undanþágu frá skilmálum fyrrgreinds deiliskipulags var tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagssviðs 18. september s.á. og var ákveðið að afla skyldi umsagna landeigenda Stafafellsfjalla og Brekku vegna málsins. Eigendum óskipts lands Stafafellsfjalla og Brekku, þar á meðal kæranda, var sendur tölvupóstur 20. s.m. þar sem óskað var afstöðu þeirra vegna framkominnar beiðni. Kærandi kom á framfæri mótmælum vegna óskar lóðarhafa um frávik frá skipulagsskilmálum og benti á að staðsetning hússins væri í ósamræmi við skýrt orðalag greinargerðar deiliskipulagsins. Kærandi var sá eini af fjórum landeigendum sem var mótfallin framkominni beiðni um undanþágu. Á fundi umhverfis- og skipulagssviðs 2. október s.á. var samþykkt að veita undanþágu frá tilmælum um mænisstefnu í skilmálum deiliskipulags frístundasvæðis í Stafafellsfjöllum í Lóni í samræmi við 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Bæjarstjórn Hornarfjarðar staðfesti afgreiðslu umhverfis- og skipulagssviðs á fundi sínum 17. s.m.
Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hin kærða ákvörðun sé ekki í samræmi við skýrt orðalag í gildandi deiliskipulagi svæðisins og að framkvæmdir hafi verið hafnar á lóð Stafafellsfjalla 1D áður en leyfi hafi verið veitt. Ekki sé um óverulegt frávik að ræða og það verði að hafa góð rök til að breyta skipulaginu. Engin slík rök hafi komið fram önnur en að þetta þóknist eigandanum betur. Þetta varði hagsmuni kæranda og annarra sem leið eigi um svæðið og ákvörðun sveitarfélagsins sé fordæmisgefandi og miklir hagsmunir í húfi fyrir lóðarhafa, rétt eins og landeiganda. Ef nauðsynlegt sé að víkja frá skipulagi þurfi að vera til staðar skýr rök.
Málsrök Sveitarfélagsins Hornafjarðar: Bent er á að ekki liggi fyrir hvaða hagsmuni kærandi hafi vegna málsins. Gerð hafi verið athugasemd er varðaði fyrirhugaða stefnu aðalmænis og málsmeðferð. Ekki komi þó fram hvaða hagsmunir það séu er varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Þá sé ekki ljóst á hvaða grundvelli sú fullyrðing að málið varði hagsmuni þeirra sem leið eigi um svæðið og hvernig það tengist túlkun 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Því sé haldið fram að um fordæmisgefandi ákvörðun sé að ræða en í raun séu fjölmörg dæmi um hús þar sem stefna aðalmænis fylgi ekki meginstefnu í landi.
Sveitarfélagið telji ákvörðun sína, sem byggð sé á 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga, vera í samræmi við þá skilmála sem fram komi í málsgreininni. Um svo óverulegt frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Hvergi í samskiptum kæranda við sveitarfélagið hafi komið fram að þeir hagsmunir sem 3. mgr. 43. laganna fjalli um teljist skertir.
Samkvæmt gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið og skráningu í landeignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar liggi tvær landeignir að umræddri lóð, þ.e. lóð 1E og landeign L223430 Stafafellsfjöll móður sem sé í óskiptri eigu kæranda og þriggja annarra. Á svæðinu séu í heild um 50–60 sumarbústaðalóðir. Landeign sú er kærandi sé meðeigandi að sé í raun um 190 ha opið svæði. Það sé ekki gert ráð fyrir í deiliskipulagi að eigendur þess lands geti reist mannvirki þar, skýli eða útbúið annan stað til íveru í nágrenni við lóð 1D. Mörg hús séu með mænisstefnu þvert á hlíðar og ef rétt væri hjá kæranda að krafa um að „miðað sé við […] að stefna aðalmænis fylgi sem mest meginstefnu í landinu og verði að jafnaði samsiða hlíðum“ sé ófrávíkjanleg þá yrðu öll hús með annað form þaks en mænisþak ekki í samræmi við deiliskipulag. Mörg hús, þar á meðal hús kæranda á lóð nr. 7, séu með aðra útfærslu á þaki en mænisþak og því ljóst að útfærsla húsa í frístundabyggðinni sé fjölbreytt. Þá geti verið erfitt að uppfylla skilmála deiliskipulagsins um mænisstefnu á einhverjum lóðum þar sem svæðið sé það landfræðilega fjölbreytt að á mörgum lóðum geti aðalstefna mænis ekki verið samsíða hlíðum.
Ákvæði 43. gr. skipulagslaga fjalli um breytingar á deiliskipulagi og ljóst sé að hin kærða ákvörðun fjalli um frávik frá kröfum deiliskipulags. Kærandi sé aftur á móti að krefjast að ákvörðun um frávik frá deiliskipulagi verði felld úr gildi þar sem hún sé ekki í samræmi við skipulag. Forsenda þess að heimilt sé að beita undanþáguákvæði 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga sé að um svo óverulegt frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Kæranda hafi í tvígang verið gefið færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í þeim tilgangi að athuga hvort hagsmunir hans myndu skerðast að einhverju leyti hvað varðaði framangreind atriði. Þar sem hvorki hann né aðrir aðilar hafi lýst því yfir að þessir hagsmunir myndu skerðast, hafi bæjarstjórn tekið ákvörðun um að heimila frávik frá viðmiðunarskilmálum deiliskipulagsins.
Athugasemdir leyfishafa: Bent er á að stefna mænis hafi á engan hátt áhrif á nálægar lóðir eða þá sem leið eigi um svæðið enda sé mænishæð hússins langt undir leyfilegri mænishæð samkvæmt deiliskipulagi. Með tilliti til alls verði ekki séð að grenndarhagsmunir eigi að nokkru leyti við og allra síst í tilfelli kæranda sem hafi enga aðra hagsmuni af málinu en að viðhalda deilum við aðila sem landeigandi hafi enga aðkomu að. Orðalag ákvæðis í deiliskipulagi sé á engan hátt afdráttarlaust eða eins skýrt og kærandi vísi til. Öllum þeim sem kynni sér málið sé ljóst að húsin fylgi sem mest meginstefnu hlíða og séu „að jafnaði“ samsíða þeim hlíðum sem séu í Stafafellsfjöllum. Fjöldi sumarhúsa séu í umræddri orlofsbyggð sem snúi á ýmsa vegu og meðal annars megi telja hátt í tug húsa sem séu algjörlega samsíða húsi leyfishafa, sé miðað við stefnu mænis.
Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekaði fyrri sjónarmið og benti á að erfitt væri að sjá hvaða hagsmuni sveitarfélagið hefði af því að virða gildandi skipulag að vettugi. Það væri hlutverk m.a. arkitekta að hanna svæðið svo vel færi en ekki einstakra nefndarmanna eða bæjarfulltrúa eftir hentugleika.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 17. október 2024 um að heimila að víkja frá kröfu 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um breytingu á deiliskipulagi vegna byggingar frístundahúss á lóð nr. 1D í Stafafellsfjöllum á grundvelli 3. mgr. sama ákvæðis.
Í 43. gr. skipulagslaga er fjallað um málsmeðferð við breytingu á deiliskipulagi. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. skuli fara fram grenndarkynning. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Þá segir í 3. mgr. lagaákvæðisins að við útgáfu framkvæmda- eða byggingarleyfis geti sveitarstjórn heimilað að vikið sé frá kröfum 2. mgr. um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu þegar um svo óveruleg frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn.
Ákvörðun bæjarstjórnar um að víkja frá kröfu um breytingu á deiliskipulagi var tekin á grundvelli nefndrar 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Sambærilega reglu er að finna í gr. 5.8.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en þar segir jafnframt að byggingarfulltrúi eða skipulagsfulltrúi geti að lokinni samþykkt sveitarstjórnar, um heimild til að víkja frá breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu, sbr. gr. 5.8.2. reglugerðarinnar, afgreitt byggingarleyfið eða framkvæmdaleyfið. Frávik séu bundin viðkomandi leyfi og verði ekki sjálfkrafa hluti skipulagsskilmála.
Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun
Kærandi er einn af fjórum eigendum lóðarinnar Stafafellsfjöll móður, L223430. Lóðin er tæplega 200 ha að stærð, en innan marka hennar er fjöldi frístundalóða sem skipt hefur verið úr upprunalegri lóð og seldar. Lóð sú er um ræðir í máli þessu, Stafafellsfjöll 1D, er ein þeirra. Sitt hvoru megin við lóð 1D eru lóðirnar Stafafellsfjöll 1B og 1E, en hvorug þeirra lóða er í eigu kæranda.
Í gögnum málsins kemur fram að kærandi telji málið varða mikla hagsmuni fyrir sig, aðra lóðarhafa og aðra sem leið eigi um svæðið án þess þó að fram komi í hverju þessir hagsmunir felist. Þrátt fyrir að kærandi sé eigandi lóðar þeirrar sem lóð 1D var skipt úr verður ekki talið að hann verði fyrir grenndaráhrifum vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Frístundahús kæranda sem stendur á lóð Stafafellsfjalla 7 er í töluverðri fjarlægð frá lóð 1D og eru nokkrar lóðir og hús á milli þeirra. Verður að teknu tilliti til framangreinds ekki álitið að grenndarréttur kæranda sé skertur með þeim hætti að hann teljist hafa lögvarða hagsmuni í málinu.
Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.