Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

156/2024 Oddeyrargata

Árið 2024, þriðjudaginn 17. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 156/2024, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Akureyrarbæjar frá 9. október 2024 um að synja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir gerð bílastæðis á lóð Oddeyrargötu 30.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. nóvember 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir Café Jensen ehf. eigandi lóðar nr. 30 við Oddeyrargötu, þá ákvörðun skipulagsráðs Akureyrarbæjar frá 9. október 2024 að synja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir gerð bílastæðis á lóð Oddeyrargötu 30. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 22. nóvember 2024.

Málavextir: Með umsókn, dags. 12. september 2024, sótti kærandi um framkvæmdaleyfi til að gera bílastæði á lóð Oddeyrargötu 30 á Akureyri. Nánar tiltekið fólu áformin í sér að gerð yrðu bílastæði fyrir tvo bíla á suðurhorni lóðarinnar. Að auki var óskað eftir leyfi til að gera geymslu inn af bílastæðunum til vesturs og vísað til þess að í hverfinu væru fordæmi fyrir framkvæmdinni. Erindið var tekið fyrir á fundi skipulagsráðs 9. október s.á. þar sem umsókninni var synjað með eftirfarandi rökstuðningi: „Mikil umferð gangandi er um Oddeyrargötu og telur skipulagsráð því ekki æskilegt að gerð verði aðkoma inn á lóð yfir gangstétt, sérstaklega þar sem eingöngu er mjó gangstétt öðru megin götunnar.“ Hinn 22. s.m. óskaði kærandi eftir frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni og var þeirri beiðni svarað af skipulagsfulltrúa 5. nóvember s.á. Kom þar fram að mikil umferð gangandi, hjólandi og hlaupahjóla væri um Oddeyrargötu. Eingöngu væri mjó gangstétt öðru megin götunnar og með því að heimila bílum að þvera gangstéttina til að komast að bílastæðum innan lóðar skapist óþarfa hætta fyrir þá sem nýti gangstéttina, sérstaklega þar sem bílar, gróður og girðingar lóða hindri oftar en ekki útsýni. Þá var í rökstuðningnum vísað til þess að hvergi væri að finna bílastæði innan lóðar á sam­bærilegum lóðum við Oddeyrargötu, þ.e. á lóðum milli Hamarstígs og Lögbergsgötu.

Málsrök kæranda: Kærandi andmælir þeirri fullyrðingu Akureyrarbæjar að mikil umferð sé á gangstéttinni við Oddeyrargötu. Ráðið vísi einnig til þess að gangstéttin sé mjó en ekki verði betur séð en að breiddin sé í samræmi við núgildandi staðal. Samkvæmt leiðbeiningum frá Vegagerðinni megi breidd gangstéttar vera 1,8 m sem sé einmitt breidd gangstéttarinnar. Fyrir liggi fordæmi á lóðum við Oddeyrargötu þar sem finna megi bílastæði sem hafi aðkomu yfir gangstétt, t.d. Oddeyrargata 4, 12, 13–15 og 18–22. Það sé mikilvægt að dregið verði úr því að bifreiðaeigendur sem erindi hafi í miðbæ Akureyrar leggi bifreiðum sínum í íbúðarhverfum og að tillit verði tekið til íbúa bæjarins með hliðsjón af þörfum þeirra fyrir bílastæði.

Málsrök Akureyrarbæjar: Af hálfu bæjayfirvalda er vísað til þess að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin með hliðsjón af mikilli umferð um Oddeyrargötu og mjórri gangstétt. Ákvörðunin sé því málefnaleg út frá sjónarmiðum um umferðaröryggi. Horfa þurfi til þess að umrædd lóð sé í miklum halla og ef bílastæðið eigi að vera á svipuðu „plani“ og gatan þurfi að grafa inn í brekkuna sem myndi skerða útsýni bílstjóra að gangstétt og götu. Einnig hafi verið litið til samliggjandi lóða Oddeyrargötu 30, þ.e. húsa á lóðum 36, 34, 32, 28 og 26 sem standi öll á milli Lögbergsgötu og Hamarstígs. Frá gangstétt að húsum þeirra lóða sé nokkur bratti á lóð og engin bílastæði með útkeyrslu á Oddeyrargötu. Húsin á Oddeyrargötu fyrir neðan Hamar­stíg, sem séu þau hús sem kærandi vísi til, séu á svipuðu „plani“ og gatan. Útsýni frá bílastæði að gangstétt og götu sé mun víðara þar og af þeim sökum sé fyrirkomulag þeirra lóða ekki sambærilegt við lóð Oddeyrargötu 30. Hin kærða ákvörðun hafi jafnframt verið tekin m.t.t. götumyndar svæðisins, en á Oddeyrargötu milli Lögbergsgötu og Hamarstígs séu engin bíla­stæði á lóðum.

Vísað sé til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 102/2023, en í því máli hafi byggingarfulltrúi synjað umsókn um gerð bílastæðis á þeim grundvelli að stæði á íbúðar­húsalóð myndi skapa talsverða slysahættu fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, sbr. gr. 12.10.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem segi að aðkoma að hverri byggingu, bílastæði og almennt göngusvæði við og að byggingu skuli þannig staðsett og frágengin að aðgengi að byggingunni sé auðvelt og ekki skapist slysahætta á svæðinu.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Af hálfu kæranda eru ítrekuð sjónarmið um að umferð sé ekki þung við Oddeyrargötu og að gangstétt sé í leyfilegri breidd. Bílastæðið yrði grafið inn í hlíðina en þar sem tré hafi verið fjarlægð þá verði útsýnið ekki verra en t.d. frá stæðinu við Oddeyrargötu 12.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun skipulagsráðs Akureyrarbæjar frá 9. október 2024 að synja umsókn kæranda um framkvæmdaleyfi fyrir gerð bílastæðis á lóð Oddeyrargötu 30. Var ákvörðunin tekin með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. sam­þykktar nr. 1674/2021 um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar, en í 2. gr. viðauka 1.1 við greinda samþykkt er skipulagsráði falið að afgreiða tiltekin verkefni skipulagslaga nr. 123/2010 án staðfestingar bæjarstjórnar, sbr. 2. mgr. 6. gr. þeirra laga.

Samkvæmt 10. tl. 2. gr. laga nr. 123/2010 er framkvæmdaleyfi skilgreint sem leyfi til framkvæmda í samræmi við skipulag sem ekki eru háðar ákvæðum laga um mannvirki. Í 1. mgr. 13. gr. sömu laga segir að afla skuli framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, en skv. 2. málsl. ákvæðisins þarf þó ekki að afla slíks leyfis vegna framkvæmda sem háðar eru byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki.

Í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem sett er á grundvelli laga nr. 160/2010 um mannvirki, er í kafla 4.3. fjallað um aðaluppdrætti og byggingarlýsingu. Segir í 1. mgr. gr. 4.31. að aðal­uppdrættir séu heildaruppdrættir að mannvirki ásamt afstöðumynd. Í 3. mgr. er svo mælt fyrir um að á afstöðumynd skuli sýna byggingarreit innan lóðar samkvæmt deiliskipulagi, bílastæði á lóð og aðkomu að mannvirkinu, en jafnframt skal skv. 8. mgr. tilgreina fjölda bílastæða, stæði fyrir önnur farartæki og gera sérstaklega grein fyrir samræmi við kröfur í deiliskipulagi og í byggingarreglugerð. Þá er og ljóst að um bílastæði gilda ákveðnar kröfur sem m.a. er fjallað um í gr. 6.2.2. í byggingarreglugerð, s.s. um að hönnun þeirra skuli vera með þeim hætti að ekki skapist hætta fyrir gangandi eða hjólandi vegfarendur.

Af framangreindu verður ráðið að gerð bílastæða sé byggingarleyfisskyld framkvæmd sam­kvæmt lögum nr. 160/2010 og því ljóst að ekki er þörf á framkvæmdaleyfi vegna þeirrar fram­kvæmdar, sbr. áðurnefndan 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Það er hlutverk byggingar­fulltrúa sveitarfélags að taka ákvörðun um það hvort samþykkja skuli eða hafna umsókn um byggingarleyfi en af samþykktum Akureyrarbæjar verður ekki séð að skipulagsráði hafi verið falið vald til að taka ákvarðanir á grundvelli laga nr. 160/2010. Verður ákvörðun þar að lútandi því einungis tekin af byggingarfulltrúa, eftir atvikum eftir að leitað hefur verið umsagnar skipulagsfulltrúa skv. 2. mgr. 10. gr. laganna, um hvort fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu.

Samkvæmt framansögðu var skipulagsráð ekki bært að lögum til að taka hina kærðu ákvörðun og af þeim sökum skortir á að um sé að ræða lokaákvörðun í máli þessu í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.