Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

125/2024 Sundlaugin í Vík

Árið 2024, þriðjudaginn 10. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Geir Oddsson auðlindafræðingur og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 125/2024, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurlands frá 27. ágúst 2024 um að synja kæranda um að neyta heimildar til að hafa einn starfsmann á vakt í sundlaug Mýrdalshrepps í Vík á tímabilinu 1. september til 31. maí.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. október 2024, er barst nefndinni 22. s.m., kærir Mýrdalshreppur þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurlands frá 27. ágúst 2024 að synja kæranda um að neyta heimildar til að hafa einn starfsmann á vakt í sundlaug Mýrdalshrepps í Vík á tímabilinu 1. september til 31. maí. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðisnefnd Suðurlands 14. nóvember 2024.

Málavextir: Með bréfi til Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, dags. 21. ágúst 2024, tilkynnti Mýrdalshreppur, að til stæði að nýta heimild 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum, er lyti að laugargæslu, fyrir sundlaugina í Vík. Yrði íþróttaðstaðan, líkamsræktin og íþróttasalurinn um leið skilgreind sem ómönnuð heilsurækt. Voru í bréfinu jafnframt færð fram ýmiss nánari sjónarmið um ástæður þessara áforma. Þau áform sem með þessu var lýst höfðu komið til umfjöllunar hjá Heilbrigðisnefnd Suðurlands þá um sumarið. Þeirra var getið í fundargerð frá fundi nefndarinnar 20. ágúst 2024, þar sem ritað var að borist hafi erindi um að nýta ákvæði reglugerðar um einn á vakt á virkum dögum á sundlaugasvæði, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 773/2012 um breytingu á reglugerð nr. 814/2010. Var framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Suðurlands falið af heilbrigðisnefndinni að vinna málið áfram í samræmi við umræður á fundinum.

Með bréfi Heilbrigðiseftirlitsins, dags. 27. ágúst 2024, var brugðist við tilkynningu Mýrdalshrepps. Var í bréfinu fjallað um hana með hliðsjón af reglugerð nr. 814/2010 jafnframt því að vísað var til athugasemda við eftirlit frá 25. júní s.á. Var og sett fram sú afstaða, með vísan til skýrslu frá þeirri eftirlitsferð og þess að um væri að ræða sameiginlegt húsnæði með íþróttahúsi og líkamsræktaraðstöðu fyrir almenning, að Heilbrigðisnefnd Suðurlands álíti að ekki væri hægt að samþykkja að einn laugarvörður væri á vakt í sundlaug Víkur. Sú afstaða sem fram kemur í bréfinu er hin kærða ákvörðun í máli þessu. Nokkur samskipti urðu í framhaldi þessa þar sem færð voru fram frekari sjónarmið í tilefni málsins og gerðist jafnvel að leitað var til ráðuneytis umhverfismála um úrlausn. Var málinu vísað þaðan með bréfi dags. 1. október 2024, þar sem bent var á að ágreiningur um skilyrði fyrir því að einn starfsmaður sinnti vakt í sundlaug, skv. reglugerð nr. 814/20100, gæti ekki talist til ágreinings um framkvæmd laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem vísað yrði til ráðherra skv. 1. mgr. 66. gr. laganna. Rót málsins væri ágreiningur tilkominn vegna ákvörðunar um að hafna breytingu á starfsleyfi sem fremur sætti kæru til úrskurðarnefndarinnar skv. 65. gr. sömu laga.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hann hafi í erindi sínu til Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, dags. 21. ágúst 2024, fært rök að því að skilyrðum 3. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 814/2010 væri fullnægt til þess að laugarvörður yrði einn á vakt. Lýst hafi verið aðstæðum og m.a. lögð fram gögn þessu til stuðnings. Sérstaklega hafi verið tekið fram að líkamsræktarstöð yrði ómönnuð líkt og heimilt sé. Hafi sjónarmið sem færð hafi verið fram í hinni kærðu ákvörðun komið á óvart, en þar hafi verið vísað til skoðunarskýrslu við eftirlit sem varðað hafi óskyld málefni. Að auki sé ekki gert ráð fyrir öðru í reglugerðarheimildinni en að tilkynning verði látin í té. Standi heimildir stjórnvalds ekki til annars en að taka við slíkri tilkynningu, færa til bókar og geta við endurnýjun starfsleyfis þegar til þess komi. Hafi stjórnvaldið auk þess ekki boðað endurskoðun starfsleyfis með vísan til málsins.

Í síðara svari Heilbrigðiseftirlitsins, dags. 24. september 2024, hafi verið vísað til þess að eitt starfsleyfi væri fyrir rekstur sundlaugar og íþróttamiðstöðvar og fjallað um ábyrgð starfsfólks íþróttahúss vegna gæslu í íþróttahúsi í tengslum við öryggi gesta. Líkamsræktarstöð gæti verið ómönnuð en öðru gegndi um íþróttasalinn og sérstaklega þann hluta sem sneri að börnum. Gestir og börn gætu leitað til laugarvarðar ef enginn væri á staðnum og truflanir gætu haft neikvæð áhrif á hæfni laugarvarðar til að fylgjast með sundlauginni og tryggja öryggi þar. Væri við svo búið eigi raunhæft að hafa einn starfsmann á vakt og af þeim sökum myndi íþróttamiðstöð Víkur, þar sem svo víðtæk starfsemi sé rekin undir sama þaki, ekki uppfylla þær kröfur sem við ættu.

Málsrök Heilbrigðisnefndar: Á það er bent að við sundlaugina í Vík sé í gildi eitt kaflaskipt starfsleyfi á grundvelli laga nr. 7/1998 sem byggi á reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum nr. 814/2010 og reglugerð um hollustuhætti nr. 903/2024. Í 11. gr. reglugerðar nr. 814/2010 sé mælt fyrir um aukna laugargæslu fyrir sundstaði sem séu lengri en 40 m eða með flóknari uppbyggingu. Falli sundlaugin á Vík undir þetta, en þar sé einnig barnalaug/vaðlaug, heitur pottur, rennibraut, kaldur pottur og sána. Að auki sé hún hluti af íþróttamiðstöð, þar sem séu íþróttasvæði barna. Þessi atriði auki öryggisáhættu og krefjist samfellds óskerts eftirlits með laugarsvæðinu sem ekki sé hægt að tryggja með einum laugarverði.

Mýrdalshreppur hafi tiltekið að lyftingasalur á staðnum sé skráður án starfsmanna, en að mati heilbrigðiseftirlitsins munu gestir að öllum líkindum leita til laugarvarðar eða starfsmanns í afgreiðslu ef atvik koma upp í lyftingasalnum. Þar sem börn sem sækja íþróttatíma í íþróttasal séu aðeins á ábyrgð íþróttakennara á meðan á skipulögðum íþróttatíma standi skapist öryggisáhætta fyrir laugarvörð utan kennslutíma. Séu börn á svæðinu fyrir eða eftir tíma, þar á meðal í búningsklefum og sturtum sem séu sameiginleg fyrir íþróttahús og sundlaug, sé ábyrgð og öryggi þeirra ekki nægilega tryggt sem geti óhjákvæmilega krafist viðbragða frá laugarverði.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar Heilbrigðiseftirlits Suðurlands frá 27. ágúst 2024 um að synja kæranda um að nýta heimild til að hafa einn laugarvörð á vakt í sundlaug Mýrdalshrepps í Vík á tímabilinu 1. september til 31. maí.

Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum er mælt fyrir um að slíkir staðir skuli hafa starfsleyfi viðkomandi heilbrigðisnefndar og er mælt fyrir um að rekstraraðili eða eftir atvikum eigandi skuli með hæfilegum fyrirvara tilkynna heilbrigðisnefnd um fyrirhugaðar breytingar á starfseminni sem varðað geta ákvæði starfsleyfis, svo sem við eigandaskipti og ef umtalsverðar breytingar verða á búnaði, húsnæði eða rekstri. Um útgáfu starfsleyfis og eftirlit fari að öðru leyti samkvæmt ákvæðum reglugerðar um hollustuhætti, sbr. 3. mgr. reglugerðargreinarinnar. Í 6. gr. reglugerðarinnar er mælt fyrir um að heilbrigðisnefnd á hverjum stað, undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar, hafi eftirlit með því að farið sé að ákvæðum reglugerðarinnar.

Í hinni kærðu ákvörðun felst sú viljaafstaða eftirlitsaðila að ekki séu forsendur fyrir því að einungis einn starfsmaður verði á vakt við sundlaugina í Vík í Mýrdal. Þessi afstaða kom fram í tilefni af tilkynningu um breytingu á starfsháttum á sundstað. Slík afstaða getur leitt til nánara viðbragðs, sbr. m.a. 55. gr. laga nr. 7/1998. Verður að því virtu að telja að til sé að dreifa ákvörðun í máli þessu sem borin verði undir úrskurðarnefndina. Kæruheimild er í 1. mgr. 65. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Í 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 814/2010 eru fyrirmæli um eftirlit með sundgestum, sem um er deilt í máli þessu. Þar segir að laugarverði skuli tryggð yfirsýn og skuli hið minnsta vera einn laugarvörður við gæslu við hverja sundlaug. Óundanþægt sé að hafa tvo verði séu laugar lengri en 40 metrar eða með „flóknari uppbyggingu“. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hefur vísað til þess að um sameiginlegt húsnæði með íþróttahúsi og líkamsræktaraðstöðu fyrir almenning sé að ræða við sundlaugina og sé uppbygging sundlaugarinnar flókin, þar sem einnig sé þar barnalaug/vaðlaug, heitur pottur, rennibraut, kaldur pottur og sána auk þess að sundlaugin sé hluti af íþróttamiðstöð þar sem börn séu á ferli. Við þær aðstæður sé ekki hægt að samþykkja að einungis einn starfsmaður sé á vakt. Að áliti úrskurðarnefndarinnar verður hér fyrst og fremst að horfa á sundlaugarsvæðið sjálft og verður ekki talið það sé flókið í þessum skilningi, en þar er ágæt yfirsýn yfir sundlaug sem er aðeins 16,7 m að lengd sem og tengd mannvirki.

Í 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 814/2010 er mælt fyrir um að tryggja skuli að starfsmenn sem sinna laugargæslu fylgist stöðugt með gestum í laugum og á laugarsvæði og hafi eftirlit og yfirsýn yfir alla hluta laugar og sinni ekki öðru starfi samhliða. Undantekning er gerð frá þessu í 3. mgr. reglugerðargreinarinnar þar sem mælt er fyrir um aukastörf laugarvarða sem séu einir á vakt. Með slíkum störfum virðist vísað til afgreiðslu aðgangsmiða og smávöru. Tekið er fram að vakt og afgreiðsla skuli við þessar aðstæður í sama rými og yfirsýn úr rými sé með þeim hætti að auðvelt sé að fylgjast með gestum í laug um leið og afgreiðsla fari fram. Meðan gestir séu í laug megi laugarvörður ekki sinna öðrum störfum en þeim að selja aðgang ofan í laug eða tilfallandi störfum við laugarbakka þar sem yfirsýn yfir laugarsvæði sé gott. Nánari skilyrði eru sett fyrir þessu fyrirkomulagi sem varða m.a. gestafjölda og aðgengi að farsíma og kveðið er á um skyldu til að tilkynna um það til hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar svo skrá megi um það athugasemd við útgáfu eða endurskoðun starfsleyfis, sbr. 3. mgr.

Í tilkynningu Mýrdalshrepps frá 21. ágúst 2024 var gerð grein fyrir því hvernig þessum skilyrðum væri fullnægt vegna áforma um að einungis einn sundlaugarvörður yrði að störfum. Fram kom að laugin væri 16,7 m að lengd, vakt og afgreiðsla væri í sama rými með yfirsýn yfir laugina auk þess að nýtt myndavélakerfi hefði verið sett upp. Einnig kom fram að laugarvörður kæmi ekki til með að gegna öðrum störfum og hefði fyrirfram skilgreindan aðila sem unnt væri að hringja í, kæmi til þörf á liðsauka af einhverjum ástæðum. Þá var einnig fjallað um skilyrði er vörðuðu gestafjölda. Að áliti úrskurðarnefndarinnar verður að telja þessar fullyrðingar trúverðugar en um leið er vert að árétta þá ríku skyldu sem hvílir á starfsleyfishöfum að tryggja fullnægjandi eftirlit á sundstöðum og þar með talið að laugarvörður verði ekki látinn sinna öðrum störfum en honum eru ætluð. Í tilefni af umfjöllun um mögulega truflun sem sundlaugarvörður geti orðið fyrir vegna barna í íþróttastarfi þykir rétt að benda á að standi áform til þess að hafa íþróttasal og líkamsræktarstöð ómannaða er skylt að fara eftir reglum og leiðbeiningum þar að lútandi og með því m.a. takmarka aldur einstaklinga við 18 ára, séu þeir ekki í fylgd fullorðinna.

Með hliðsjón af framanröktu er það álit úrskurðarnefndarinnar að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hafi verið óheimilt að synja Mýrdalshreppi um að nýta heimild til að hafa einn starfsmann á vakt í sundlaug Mýrdalshrepps í Vík á tímabilinu 1. september til 31. maí.

 Úrskurðarorð:

 Felld er úr gildi ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurlands frá 27. ágúst 2024 um að synja kæranda um að nýta heimild til að hafa einn starfsmann á vakt í sundlaug Mýrdalshrepps í Vík á tímabilinu 1. september til 31. maí.