Árið 2024, þriðjudaginn 19. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 120/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. júní 2024, um að samþykkja umsókn um leyfi til að hækka þak, byggja kvisti á báðum hliðum, lækka gólf í kjallara og grafa frá parhúsi nr. 14 á lóð nr. 12–14 við Haðarstíg.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. október 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi íbúðar að Njarðargötu 39, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. júní 2024 að samþykkja umsókn um leyfi til að hækka þak, byggja kvisti á báðum hliðum, lækka gólf í kjallara og grafa frá parhúsi nr. 14 við Haðarstíg. Byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum var gefið út 13. september 2024. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 21. október 2024.
Málavextir: Hinn 27. apríl 2023 var lögð inn umsókn til byggingarfulltrúa um byggingarleyfi til að hækka þak og mæni, breyta innra fyrirkomulagi og koma fyrir kvistum og svölum á rishæð ásamt því að breyta innra fyrirkomulagi á 1. hæð, útbúa nýjar svalir í suður, lækka gólf í kjallara og koma þar fyrir dyrum út í garð og síkka núverandi glugga á parhúsinu að Haðarstíg 14. Málið var tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. júlí 2023 og því vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 21. júlí 2023 var málinu vísað til umsagnar verkefnastjóra og á afgreiðslufundi 14. september s.á. lagði skipulagsfulltrúi fram umsögn í málinu þar sem ekki var fallist á erindið í þeirri mynd sem það barst þar sem það var talið valda neikvæðum grenndaráhrifum á aðliggjandi lóðir og fasteignir.
Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 5. október 2023 var samþykkt að grenndarkynna framangreinda byggingarleyfisumsókn. Grenndarkynningin fór fram frá 6. nóvember til 4. desember s.á. og bárust fjórar athugasemdir á kynningartíma. Að lokinni grenndarkynningu var málið lagt fyrir á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 7. desember 2023 þar sem því var vísað til umsagnar verkefnastjóra. Eftir yfirferð verkefnastjóra og skipulagsfulltrúa á málinu var þakkóti lækkaður og umfang stækkunar á bakhlið hússins minnkað. Málinu var síðan vísað til afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs þar sem það var samþykkt 28. febrúar 2024. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. júní 2024 var umsóknin svo breytt samþykkt og var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði 13. júní s.m. Byggingarleyfi var útgefið 13. september 2024.
Málsrök kæranda: Vísað er til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 14. september 2023, um að ekki væri fallist á umdeilt erindi í þeirri mynd sem það væri, þar sem það valdi neikvæðum grenndaráhrifum á aðliggjandi lóðir og fasteignir. Hins vegar hafi erindið verið grenndarkynnt þar sem kærandi og eigandi fasteignar að Njarðargötu 39 og 41 skiluðu inn neikvæðum athugasemdum vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar. Í kjölfar grenndarkynningar hafi kærandi ítrekað sent skriflegar fyrirspurnir á verkefnastjóra um stöðu máls, næstu skref, kæruferla og réttarstöðu að öðru leyti. Þeim fyrirspurnum hafi verið svarað 15. febrúar 2024 þar sem fram komi að kærandi fái bréf um afgreiðslu málsins. Ekki sé hægt að koma með frekari athugasemdir við erindið, það verði hægt að kæra niðurstöðuna en kæruleiðbeiningar muni koma fram í bréfinu. Í tölvupósti 1. mars s.á. svari verkefnastjóri kæranda með því að skrifa „þið komið til með að fá bréf sem segir ykkur hvernig þið getið kært erindið“. Hafi kærandi svarað samdægurs og bent á að hún muni kæra. Í tölvupósti frá verkefnastóra 2. apríl 2024 hafi einnig komið fram að byggingarfulltrúi komi til með að senda bréf með kæruleiðbeiningum þegar málið hafi fengið endanlega afgreiðslu hjá þeim. Það sé ekki hægt að kæra málið fyrr en afgreiðsla þess liggi fyrir. Málið sé í frestun hjá byggingarfulltrúa þar sem vísað sé til athugasemda á teikningum.
Byggingarleyfi hafi verið gefið út 13. september 2024 samkvæmt tölvupósti frá byggingarfulltrúa, dags. 3. október 2024, eftir skriflega fyrirspurn kæranda degi áður. Umrædd tilkynning um veitingu byggingarleyfisins hafi svo borist 10 dögum eftir að kærandi hafði sent skriflega fyrirspurn um stöðu málsins eða 23. september 2024, fyrst til verkefnastjóra og síðan með öðrum tölvupósti til byggingarfulltrúa, en þeim tölvupósti hafi ekki verið svarað. Hafi því tilkynning um veitingu framangreinds byggingarleyfis borist kæranda tæplega mánuði eftir að leyfið var sannarlega veitt.
Í kjölfar veitingu byggingarleyfisins hafi kærandi sent tölvupóst á verkefnastjóra, þar sem hún kveðst ekki enn hafa fengið bréf frá byggingarfulltrúa með nauðsynlegum leiðbeiningum vegna málsins. Verkefnastjóri hafi þá bent sér á að hafa samband við byggingarfulltrúa vegna málsins. Í skipulagsgáttinni, 11. október 2024 þegar kæra þessi var rituð, sé tiltekið að mál varðandi Haðarstíg 14 sé enn í vinnslu. Valdi það töluverðri réttaróvissu á meðal þeirra nágranna sem sent hafi inn athugasemdir vegna framkvæmdanna. Líkt og áður greini hófust framkvæmdir 3. október 2024 eða sama dag og tölvupóstur barst frá byggingarfulltrúa þar sem fram komi dagsetning byggingarleyfisins og að kærufrestur skuli vera mánuður án þess að frekari leiðbeiningar séu veittar, t.d. við hvaða tímamark sé verið að miða.
Hafi kærandi óskað í kjölfarið eftir gögnum er varði framangreint byggingarleyfi og svörum um hvers vegna tölvupóstur með nauðsynlegum leiðbeiningum um kæruleiðir og réttarstöðu hafi ekki enn borist. Hafi verkefnastjóri svarað þeim tölvupósti en ekki byggingarfulltrúi sem kæranda hafði áður verið leiðbeint um að ætti að beina erindi að. Í tölvupóstinum kveðst verkefnastjórinn ætla að taka málið til skoðunar og tiltekur við hvaða tímamark kæruheimild miði. Þá hafi verið liðnir tuttugu dagar frá útgáfu byggingarleyfisins og aðeins tíu dagar til stefnu til að kæra framangreinda leyfisveitingu til úrskurðanefndar umhverfis- og auðlindamála. Frekari skriflegum fyrirspurnum kæranda hafi ekki verið svarað. Þá liggi fyrir að nauðsynlegar leiðbeiningar um réttarstöðu og kæruleiðir hlutaðeigandi nágranna hafi ekki borist, hvorki frá byggingarfulltrúa né framangreindum verkefnastjóra.
Grenndarréttarreglur leggi ríkar kröfur á að stjórnvöldum, sem falið sé að veita byggingarleyfi sem óhjákvæmilega hafi í för með sér óþægindi fyrir hlutaðeigandi nágranna, rannsaki mál til hlítar svo unnt sé að leggja fullnægjandi mat á atvik og aðstæður málsins og þar með þolmörk þeirra óþæginda sem um ræði. Heimiluð framkvæmd komi til með að hafa í för með sér skuggamyndun og skerðingu á útsýni sem hafi óumflýjanlega áhrif á verðmat nærliggjandi fasteigna. Þá liggi fyrir álit fasteignasala og arkitekts þar sem ljóst sé að framangreindar framkvæmdir muni hafa í för með sér töluvert óhagræði fyrir fasteign kærenda að Njarðargötu 39.
Í rökstuðningi byggingarfulltrúa verði ekki séð að tekið hafi verið tillit til framangreindra athugasemda og sé þá sérstaklega vísað til umsagnar verkefnastjóra, þar sem fram komi að ólíklegt sé að innsýn aukist í glugga íbúða að Njarðargötu 39 og að ónæði verði vegna svala á suðurhlið hússins. Hafi umsögnin verið lögð fram án þess að aðstæður á vettvangi væru skoðaðar. Af því leiði að umsagnaraðilar byggingarleyfisins hafi ekki kynnt sér aðstæður áður en leyfi var veitt þrátt fyrir fjölda neikvæðra athugasemda hlutaðeigandi nágranna sem unnar hafi verið meðal annars af tveimur arkitektum, þ.e. eins eiganda á Njarðargötu 41 og arkitekts sem hafi komið á staðinn og skoðað allar aðstæður í aðdraganda þess að umsögn var skilað inn.
Krafa um ógildingu byggingarleyfis og samþykki byggingaráforma byggingarfulltrúa 4. júní 2024 sé byggð á því að málmeðferð byggingarfulltrúa sé ekki í samræmi við lög. Málsmeðferðin brjóti gegn meginreglum stjórnsýsluréttar og öllum þeim sem gert hafi athugasemdir við framkvæmdina. Í umsagnarferli hafi hvorki kæranda né öðrum verið leiðbeint um rétt sinn með tilhlýðilegum hætti eða kynnt niðurstaða byggingarfulltrúa. Hafi viðkomandi því hvorki notið andmælaréttar né leitað lögbundinna kæruleiða. Leyfisveitandi hafi að sama skapi ekki sinnt rannsóknarskyldum sínum í málinu með því að hafa virt athugasemdir í lögbundnu umsagnarferli að vettugi og ekki tekið afstöðu til þeirra.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Bent er á að við framkvæmd grenndarkynningar hinnar kærðu umsóknar hafi verið farið að öllu í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010. Fyrir mistök hafi þeim aðilum sem sendu inn athugasemdir ekki verið sent bréf með kæruleiðbeiningum og sé beðist velvirðingar á því. Þess verði gætt að skerpa verkferla varðandi sendingar slíkra bréfa og verði farið yfir verklagið við uppfærslu stöðu mála í skipulagsgáttinni úr „Í vinnslu“ í „Lokið“. Þrátt fyrir að misbrestur hafi orðið á sendingu bréfsins hafi kærandi verið meðvituð um málið innan kærufrests og fengið svör við spurningum sínum varðandi stöðu málsins og upplýsingar um kæruleið, bæði frá verkefnastjóra skipulagsfulltrúa og skrifstofufulltrúa hjá byggingarfulltrúa. Auk þess vísist til heimasíðu borgarinnar þar sem hægt sé að fylgjast með stöðu mála og finna má allar fundargerðir.
Málið eigi sér töluverða forsögu þar sem ýmsar útfærslur á breytingum á bæði Haðarstíg 12 og 14 hafi borist byggingar- og skipulagsfulltrúa frá árinu 2020. Upphaflega hafi verið sótt um að hækka mæni hússins á lóð nr. 14 við Haðarstíg og setja kvisti á hvora hlið, setja svalir á 1. hæð hússins, stækka glugga á suðausturhlið í kjallara og endurskipuleggja rishæð. Einnig hafi verið óskað eftir samþykkt á áður gerðum breytingum á innra skipulagi í kjallara og á 1. hæð ásamt ísetningu á glugga og hurð sem snúi að garði. Umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 21. janúar 2022 hafi sérstaklega tilgreint að ekki væri heimilað að útbúa séríbúð í kjallara og mælst gegn því að grafið yrði frá kjallara hússins með þeim hætti sem sýnt var í inn kominni fyrirspurn.
Í nýjustu byggingarleyfisumsókninni, dags. 27. apríl 2023, hafi verið fallið frá því að sækja um íbúð í kjallara. Sótt hafi verið um að hækka þak og mæni, breyta innra fyrirkomulagi og koma fyrir kvistum og svölum á rishæð. Breyta innra fyrirkomulagi á 1. hæð ásamt nýjum svölum í suður og lækka gólf í kjallara og koma þar fyrir dyrum út í garð og síkka núverandi glugga. Fremst í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 15. febrúar 2024, hafi fyrir mistök verið fjallað um að sótt væri um að innrétta íbúð í kjallara hússins. Neðar í umsögninni komi þó skýrt fram: „Það er ekki verið að sækja um fjölgun íbúða í húsinu, ekki er heimilað að hafa íbúð í kjallara. Í umsókn er sótt um breytingar á einbýlishúsi. Jákvætt var tekið í lækkun gólfs í kjallara til að auka notkunarmöguleika kjallarans.“ Í útgefnu byggingarleyfi komi einnig skýrt fram: „Sótt er um leyfi til að hækka þak, byggja kvisti á báðum hliðum, lækka gólf í kjallara og grafa frá parhúsi nr. 14 á lóð nr. 12-14 við Haðarstíg“. Því liggi skýrt fyrir að ekki hafi verið veitt samþykki fyrir því að útbúa íbúð í kjallara hússins að Haðarstíg 14 og ekkert bendi til þess að innra skipulag þess gefi það til kynna að eigendur séu að fara bakdyraleið að því að breyta fasteigninni í tvær íbúðir.
Við vinnslu málsins hjá skipulagsfulltrúa hafi verkefnastjóri embættisins farið á staðinn og kynnt sér aðstæður í götunni fyrir framan og aftan húsið að Haðarstíg 14. Brugðist hafi verið við inn komnum athugasemdum með því að lækka þakkótann úr 61,45 í 60,50 svo hæð hússins væri í samræmi við hæðir húsanna í götunni. Parhúsið við Haðarstíg 12-14 sé hluti af heillegri röð parhúsa við suðurhlið götunnar sem öll séu í grunninn byggð eftir sömu teikningunni. Þakbreytingar hafi verið gerðar á öllum húsum í götunni öðrum en parhúsinu að nr. 12-14. Að lokinni grenndarkynningu hafi jafnframt umfang stækkunarinnar á suðausturhlið hússins, sem snúi að Njarðargötu 39, verið minnkað svo skuggavarp hússins yrði sambærilegt og á Haðarstíg 16-18. Því sé ljóst að tekið hafi verið tillit til þess að um mikið nábýli sé að ræða og komið til móts við athugasemdirnar sem bárust vegna málsins.
Íbúar í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á næstu byggð sem haft geti í för með sér aukið skuggavarp eða aðrar breytingar á umhverfi íbúanna. Telja verði að sú skerðing sem íbúar í nágrenni við Haðarstíg 14 verði fyrir sé ekki umfram það sem íbúar í þéttbýli megi almennt búast við. Telji Reykjavíkurborg að í umþrættu máli séu ekki til staðar verulegir annmarkar sem réttlætt geti ógildingu hins útgefna byggingarleyfis og ákvörðun byggingarfulltrúa frá 13. september 2024.
Málsrök leyfishafa: Bent er á að erindið var grenndarkynnt og kærandi hafi 22. nóvember 2023 gert ítarlegar athugasemdir við framkvæmdina. Því sé ljóst að kærandi hafi þegar í ferli málsins komið athugasemdum sínum á framfæri, sem skipulagsfulltrúi hafi hafnað, öfugt við ýmsar aðrar athugasemdir í kjölfar grenndarkynningar sem tekið hafi verið tillit til.
Að lokinni grenndarkynningu hafi erindið verið lagt fram að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. júlí 2023 þar sem sótt var um leyfi til að hækka þak, byggja kvisti á báðum hliðum, lækka gólf í kjallara og grafa frá húsi parhúss nr. 14 á lóð nr. 12-14 við Haðarstíg. Samþykkt hafi verið á fundi skipulagsfulltrúa 23. nóvember s.á. að koma til móts við athugasemdir nágranna með því að lækka suðausturhlið svo skuggavarp hússins sé sambærilegt og á Haðarstíg 16-18 og lækka húsið svo það sé ekki hærra en húsin sitthvoru megin við.
Framkvæmdin, sem sé þegar hafin, byggi á byggingaleyfi dags. 13. september 2024, grundvallað á ofangreindri samþykkt skipulagsfulltrúa. Þar sem kæran byggi alfarið á því að kærandi hafi ekki komið sjónarmiðum sínum og athugasemdum að við veitingu byggingarleyfis og afgreiðslu skipulagsfulltrúa, en ljóst sé af gögnum málsins að svo er ekki, sé sú krafa gerð að kæru sé vísað frá, en til vara hafnað.
Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að framlagðar teikningar gefi villandi mynd af raunverulegri fjarlægð á milli húsanna að Haðarstíg 14 og Njarðargötu 39. Að öðru leyti eru ítrekuð fyrri sjónarmið. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.
—–
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. júní 2024 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að hækka þak, byggja kvisti á báðum hliðum, lækka gólf í kjallara, grafa frá parhúsi nr. 14 á lóðinni Haðarstíg 12–14 og gefa út byggingarleyfi í skjóli þeirrar samþykktar 13. september 2024. Kæruheimild er í 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.
Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi ítrekað sent skriflegar fyrirspurnir á verkefnastjóra, m.a. um stöðu málsins, næstu skref, kæruferla og réttarstöðu að öðru leyti. Þeim fyrirspurnum var svarað með þeim hætti að kærandi fengi bréf um afgreiðslu málsins og í því bréfi yrði leiðbeint um kæruleiðir. Tilkynning um samþykki umsóknar og útgáfu framangreinds byggingarleyfis barst kæranda þó ekki fyrr en tæplega mánuði eftir að leyfið var gefið út, eða hinn 3. október 2024, en þá var málið enn sagt í vinnslu í skipulagsgátt borgarinnar. Samkvæmt því verður að telja að kæra í máli þessu, sem barst úrskurðarnefndinni hinn 11. október 2024, hafi borist innan lögbundins kærufrests og verður það því tekið til efnismeðferðar.
Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir, eins og á við í máli þessu, getur sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Samkvæmt 2. mgr. nefndrar greinar fer grenndarkynning fram með þeim hætti að nágrönnum sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta af framkvæmdum samkvæmt leyfisumsókn eða tillögu að breytingu á skipulagsáætlun er gefinn kostur á að tjá sig um þær innan tilskilins frests sem skal vera a.m.k. fjórar vikur. Að þeim fresti liðnum og þegar sveitarstjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar.
Líkt og fram kemur í málavöxtum var umrædd byggingarleyfisumsókn grenndarkynnt með fjögurra vikna athugasemdafresti þar sem kærandi kom athugasemdum sínum á framfæri. Hins vegar liggur fyrir að þrátt fyrir ítrekaða tölvupósta frá kæranda með fyrirspurn um væntanlegt framhald og niðurstöðu málsins fórst það fyrir að tilkynna þeim sem tjáðu sig á kynningartíma um niðurstöðu og mögulegar kæruleiðir þegar erindið hafði fengið endanlega afgreiðslu hjá byggingarfulltrúa. Sá ágalli á málsmeðferð verður þó ekki talin raska gildi hinnar kærðu ákvörðunar enda varð kærandi ekki fyrir réttarspjöllum af þeim sökum. Hann fékk að lokum tilkynningu um lyktir málsins ásamt svörum við innsendum athugasemdum og kom að kæru í máli þessu. Að öðru leyti var meðferð málsins í samræmi við 44. gr. skipulagslaga.
Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 15. febrúar 2024, er tekið fram að parhúsið við Haðarstíg 12-14 sé hluti af heillegri röð parhúsa við suðurhlið götunnar sem öll eru í grunninn byggð eftir sömu teikningunni. Þakbreytingar hafi verið gerðar á öllum húsunum í götunni fyrir utan húsið nr. 12-14. Þær breytingar séu jafn fjölbreyttar og húsin eru mörg en hvergi sé að sjá samhæfða útfærslu milli tveggja aðliggjandi parhúsa. Þá kemur fram að skuggavarp fylgdi umsóttum breytingum sem sýni að þær komi til með að hafa áhrif í bakgarði húsanna við Njarðargötu 39 og 41. Skipulagsfulltrúi mælti gegn því að kynntar teikningar yrðu samþykktar óbreyttar og mælti með því að minnka umfang byggingarinnar. Lagði hann til að lækka suðausturhlið hússins en hún er bakhliðin sem snýr að Njarðargötu 39 svo skuggavarp yrði sambærilegt og frá Haðarstíg 16-18. Einnig var lagt til að húsið yrði lækkað svo það yrði ekki hærra en húsin sitthvoru megin við.
Á uppfærðum aðaluppdráttum, dags. 21. febrúar 2024, má sjá að brugðist hafi verið við inn komnum athugasemdum með því að lækka þakkóta hússins úr 61,45 í 60,50 svo hæð þess væri í samræmi við hæðir húsanna í götunni. Að lokinni grenndarkynningu var jafnframt dregið úr umfangi stækkunarinnar á suðausturhlið hússins svo skuggavarp yrði sambærilegt og frá Haðarstíg 16-18. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. júní 2024, þar sem hin kærða ákvörðun var tekin, voru lagðir fram endanlegir aðaluppdrættir og skuggavarpsteikningar.
Samkvæmt jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal við úrlausn mála gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Í því felst að aðilar við sambærilegar aðstæður skuli hljóta samsvarandi afgreiðslu. Reglan á að hindra að ákvarðanir verði tilviljunarkenndar, byggðar á geðþótta eða annarlegum sjónarmiðum.
Lóðin Haðarstígur 14 er 92 m2 og húsið á lóðinni 92,8 m2 og er nýtingarhlutfall lóðarinnar fyrir breytingu 1,01. Eftir heimilaðar breytingar verður byggingin 131,2 m2 og nýtingarhlutfall lóðarinnar 1,43. Lóðin sem tilheyrir húsi nr. 12, sem er hinn hluti parhússins er 147,8 m2 og húsið á lóðinni 76,7 m2 , en þar er stækkun hússins fyrirhuguð. Samkvæmt fasteignaskrá HMS má ætla að hús við götuna séu um 130 m2 en í nokkrum tilfellum stærri. Nýtingarhlutfall lóðarinnar Haðarstígs 8 er 1,34, á lóðum nr. 10 og 16 er nýtingarhlutfallið 0,93 og á lóðinni nr. 18 er það 1,48. Verður því stærð hússins og nýtingarhlutfall lóðar sambærileg við parhúsin sem standa sitthvoru megin við parhúsið á Haðarstíg 12-14 og önnur hús í sömu götu.
Af gögnum málsins verður ráðið að grenndaráhrif umdeildra breytinga með tilliti til skuggavarps verði óveruleg en að einhver innsýn í fasteign kæranda verði frá kvistinum, en þau grenndaráhrif teljast þó ekki umtalsverð eða meiri en gengur og gerist á svæðinu.
Með vísan til þess sem að framan er rakið er kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. júní 2024 um að samþykkja umsókn um leyfi til að hækka þak, byggja kvisti á báðum hliðum, lækka gólf í kjallara og grafa frá parhúsi nr. 14 við Haðarstíg.