Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

149/2024 Drangahraun og Skútahraun

Árið 2024, miðvikudaginn 13. nóvember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 149/2024, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 28. ágúst 2024 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi iðnaðarsvæðis við Drangahraun og Skútahraun.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. október 2024, er barst nefndinni 1. nóvember s.á., kæra Nesnúpur ehf., VHE ehf., Bitter ehf., G.P. Kranar ehf. og Húsfélagið Skútahrauni 4 þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 28. ágúst 2024 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi iðnaðarsvæðis við Drangahraun og Skútahraun. Er þess krafist að lagt verði fyrir sveitarfélagið að taka málið upp að nýju og setja það í lögmæltan farveg áður en ný ákvörðun verði tekin. Jafnframt er þess krafist að framkvæmdir á lóðinni Drangahrauni 3 verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið sé til afgreiðslu hjá nefndinni. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnafjarðarbæjar 5. desember 2023 var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi iðnaðarsvæðis við Drangahraun og Skútahraun. Fól tillagan í sér að fallið yrði frá heimild um að bílastæði fyrir lóðir við Drangahraun væru á lóðum við Skútahraun. Kvöð um akstur og aðkomu að kjallara Drangahrauns 3 og 5 væri á lóðunum Skútahraun 2 og 2a. Var samþykkt að auglýsa tillöguna og málinu vísað til bæjarstjórnar sem staðfesti ákvörðunina á fundi sínum 20. s.m.

Deiliskipulagstillagan var auglýst 28. desember 2023 með athugasemdafresti til 8. febrúar 2024. Málið var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs 30. maí 2024 og lagðar fram athugasemdir og minnisblað lögmanns. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 22. ágúst s.á. var málið tekið fyrir að nýju og lögð fram samantekt athugasemda og uppfærður deiliskipulags­uppdráttur. Samþykkti ráðið svör við framkomnum athugasemdum og uppfærða tillögu deiliskipulags og vísaði málinu til bæjarstjórnar sem samþykkti framlagða tillögu að breytingu á deiliskipulagi Drangahrauns og Skútahrauns á fundi sínum 28. s.m. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 3. október 2024.

 Kærendur vísa til þess að skort hafi á að athugasemdir sem komið hafi verið með við meðferð málsins hafi verið teknar til fullnægjandi skoðunar við afgreiðslu málsins. Sveitarfélagið hafi ekki kynnt kærendum ný gögn í málinu og gefið þeim kost á að koma að sjónarmiðum sínum og þannig brotið gegn þáttökurétti almennings.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna slíkra leyfisveitinga er unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011, enda framkvæmdir fyrst þá yfirvofandi í skilningi 2. mgr. ákvæðisins. Er því almennt ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestun réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana. Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis skipulagsáætlana verður ekki séð að tilefni sé til að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar.