Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

118/2024 Brúarhlöð

Árið 2024, miðvikudaginn 9. október, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 118/2024, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 18. apríl 2024 um að samþykkja breytingu á Aðalskipulagi Hrunamannahrepps 2016–2023 vegna verslunar- og þjónustusvæðis við Brúarhlöð.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 7. október 2024, kærir eigandi lóðarinnar Einiholt Kálfholt í Bláskógabyggð, þá ákvörðun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 18. apríl 2024 að samþykkja breytingu á Aðalskipulagi Hrunamannahrepps 2016–2023 vegna verslunar- og þjónustusvæðis við Brúarhlöð. Er þess krafist að deiliskipulagsbreytingin verði felld úr gildi en til vara að hún verði felldi úr gildi hvað varði þá hluta eyja í Hvítá sem ekki séu innan sveitarfélagamarka Hrunamannahrepps.

Málsatvik og rök: Á fundi sveitarstjórnar Hrunamannahrepps hinn 18. apríl 2024 var tekin fyrir og samþykkt tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Hrunamannahrepps 2016–2023 vegna verslunar- og þjónustusvæðis við Brúarhlöð. Í breytingunni fólst að skilgreint yrði 4 ha verslunar- og þjónustusvæði (VÞ7) með heildarbyggingarmagni allt að 500 m2 og að landbúnaðarsvæði myndi minnka sem því næmi. Á sama fundi var tekin fyrir tillaga að deiliskipulagi vegna ferðamannaaðstöðu í landi Brúarhlaða. Samþykkti sveitarstjórn deiliskipulagstillöguna með þeim fyrirvara að gerð yrði ítarlegri grein fyrir skilgreindri reiðleið um svæðið. Á fundi sveitarstjórnar hinn 8. júlí 2024 var tillagan tekin fyrir að nýju og bókaði sveitarstjórn að hún mæltist til þess að deiliskipulagið tæki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda, að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, samhliða gildistöku aðalskipulagsbreytingarinnar.

Hinn 13. ágúst 2024 sendi Skipulagsstofnun Hrunamannahreppi bréf þar sem fram kom að stofnunin gæti ekki tekið afstöðu til forms deiliskipulagsins vegna tiltekinna atriða sem gera þyrfti betur grein fyrir. Var í bréfinu m.a. bent á að aðliggjandi sveitarfélag gæti þurft að staðfesta legu sveitarfélagamarka á eyjum í Hvítá. Skipulagsstofnun samþykkti aftur á móti aðalskipulagsbreytinguna 22. ágúst 2024 og tók sú breyting gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 5. september s.á. Á fundi sveitarstjórnar hinn 19. september 2024 var deiliskipulagstillagan tekin fyrir að nýju og bókað að brugðist hafi verið við umsögn Skipulagsstofnunar með fullnægjandi hætti. Mæltist sveitarstjórn til þess að deiliskipulagið tæki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda.

Kærandi bendir á að sveitarfélagamörk Hrunamannahrepps og Bláskógabyggðar liggi um miðjulínu eyja í Hvítá. Þrátt fyrir það sjáist greinilega á deiliskipulagstillögu, sem byggi á hinni kærðu aðalskipulagsbreytingu, að skipulagssvæðið nái yfir eyjarnar í heild sinni. Hann hafi ítrekað bent Hrunamannahreppi á þetta, en þeim athugasemdum hafi ekki verið svarað.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verða ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Breyting á aðalskipulagi er að sama skapi háð staðfestingu Skipulagsstofnunar og eftir atvikum ráðherra, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna. Hin kærða ákvörðun felur í sér samþykki sveitarstjórnar Hrunamannahrepps á aðalskipulagsbreytingu en samkvæmt framangreindum ákvæðum brestur úrskurðarnefndina vald til að taka þá ákvörðun til endurskoðunar.

Rétt þykir þó að leiðbeina kæranda um að hann geti komið að kæru vegna deiliskipulagstillögunnar ef auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins verður birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.