Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

70/2024 Brimslóð

Árið 2024, þriðjudaginn 8. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 70/2024, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Húnabyggðar frá 29. maí 2024, sem staðfest var af sveitarstjórn 11. júní s.á., um að synja umsókn um byggingarleyfi vegna fasteignarinnar að Brimslóð 10C, Blönduósi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. júlí 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir Brimslóð ehf. þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Húna­byggðar frá 29. maí 2024, sem staðfest var af sveitarstjórn 11. júní s.á., að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi vegna fasteignar hans að Brimslóð 10C, Blönduósi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Húnabyggð 2. ágúst 2024.

Málavextir: Kærandi er eigandi fasteigna að Brimslóð 10A, 10B, 10C og Brimslóð 8 í Gamla bænum á Blönduósi. Í fyrstgreindum þremur fasteignum hefur kærandi rekið ferðaþjónustu frá árinu 2015. Hann sótti upphaflega um byggingarleyfi 18. mars 2022 fyrir viðbyggingu við hús sem stendur á lóðinni Brimslóð 10C. Umrætt svæði er ekki deiliskipulagt og var umsóknin því grenndarkynnt í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 en engar athugasemdir bárust á kynningartíma. Var umsóknin samþykkt á fundi skipulags-, umhverfis- og umferðar­nefndar Blönduóssbæjar 4. maí s.á. og staðfest á fundi sveitarstjórnar 11. s.m.

Framkvæmdir hófust ekki á þeim tíma og hinn 7. mars 2023 sótti kærandi um breytingu á hinu upprunalega byggingarleyfi þar sem byggingarmagn var aukið lítillega. Var umsóknin send til skipulags- og byggingarnefndar Húnabyggðar, en sameining sveitarfélaga hafði þá átt sér stað í millitíðinni. Umsóknin var tekin til umfjöllunar á fundi nefndarinnar 8. s.m. þar sem ákveðið var að fresta afgreiðslu málsins þar til tekin yrði afstaða til fyrirhugaðs byggingarmagns á lóð í deiliskipulagstillögu sem væri í vinnslu og einnig afmörkun lóðar þar sem lóðarmörk lægju ekki fyrir. Sveitarstjórn staðfesti þá afgreiðslu 14. s.m. Var umsóknin aftur tekin fyrir á fundi nefndarinnar 5. apríl 2023 og hún samþykkt þar sem um óveruleg frávik frá fyrri umsókn væri að ræða. Var byggingarfulltrúa falið að vinna málið áfram. Sú afgreiðsla var samþykkt af sveitarstjórn 11. s.m.

Málið var síðan tekið upp að nýju á fundi skipulags- og byggingarnefndar Húnabyggðar 6. september 2023 vegna erindis frá Þróunarfélagi Gamla bæjarins ehf. Nefndin afgreiddi erindið á þann veg að vísa því til byggingarfulltrúa þar sem tímarammi grenndarkynningar væri liðinn og óvissa ríkti um afmörkun lóða á svæðinu. Var niðurstaða fundarins að á meðan málið væri til skoðunar yrði ekki gefið út byggingarleyfi. Í kjölfar fundarins sendi lögmaður kæranda bréf til sveitarfélagsins, dags. 31. október 2023, þar sem krafist var að byggingarleyfi yrði gefið út án ástæðulauss dráttar. Þeirri kröfu var hafnað með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 23. nóvember s.á., með þeim skýringum að ekki væri hægt að gefa út byggingarleyfi eftir að réttaráhrif grenndarkynningarinnar frá árinu 2022 væru útrunnin.

Hinn 6. maí 2024 lagði kærandi aftur inn umsókn sama efnis og samþykkt hafði verið árið 2023. Lyktir málsins urðu þær að á fundi skipulags- og byggingarnefndar Húnabyggðar 29. s.m. var umsókninni synjað með skírskotun til umfjöllunar um Gamla bæinn í gildandi Aðalskipulagi Blönduóss 2010–2030, þar sem meðal annars kemur fram að á svæðinu sé hótel, trésmiðja, skrifstofur og íbúðir. Svigrúm væri fyrir stækkun á hóteli innan reitsins en annars teldist svæðið vera fullbyggt.

 Málsrök kæranda: Bent er á að fljótlega eftir að rekstur kæranda hófst á umræddum lóðum hafi fyrirsvarsmenn kæranda kannað möguleika á því að færa út kvíarnar m.a. með endurbótum og stækkun á fasteignum. Hafi áætlanir félagsins alla jafna mætt litlum skilningi og jafnvel dulbúinni andstöðu hjá hluta stjórnsýslunnar á Blönduósi. Hafi kærandi því þurft að leita á náðir úrskurðarnefndarinnar áður, en nefndin hafi lagt fyrir byggingarfulltrúa í úrskurði sínum í máli nr. 36/2018 að taka til efnislegrar meðferðar án ástæðulauss dráttar umsókn hans um byggingarleyfi vegna lóða sinna nr. 10A og 10C við Brimslóð. Hafi byggingarfulltrúi látið úrskurðinn sem vind um eyru þjóta og eigi mál þetta sér því langan aðdraganda.

Kærandi hafi aftur sótt um byggingarleyfi 18. mars 2022 sem falið hafi í sér 40,3 m2 við­byggingu við mannvirki sem þegar standi á lóðinni Brimslóð 10C. Hafi kærandi talið að umsótt framkvæmd félli í umfangsflokk 1, sbr. 1.3.2. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 og því hefði mátt veita byggingarheimild á grundvelli umsóknarinnar án grenndarkynningar, enda varðaði framkvæmdin ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og umsækjanda, sbr. 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þrátt fyrir það hafi umsóknin verið grenndarkynnt og engar athugasemdir borist. Hafi þáverandi skipulags-, umhverfis- og umferðarnefnd Blönduóssbæjar ekki gert athugasemdir við útgáfu byggingarleyfis og hafi afgreiðsla nefndarinnar verið staðfest á fundi sveitarstjórnar 4. maí 2022.

Hinn 7. mars 2023 hafi kærandi uppfært umsókn sína þar sem byggingarmagn hafi verið aukið lítillega frá upphaflegri umsókn og sent til umfjöllunar skipulags- og byggingarnefndar Húna­byggðar, en sameining sveitarfélaga hafi átt sér stað frá því umsóknin hafi verið lögð fram í öndverðu. Hafi umsóknin verið tekin til umfjöllunar á fundi nefndarinnar 8. s.m. Þar hafi verið ákveðið að fresta afgreiðslu málsins þar til tekin yrði afstaða til fyrirhugaðs byggingarmagns á lóð í deiliskipulagstillögu sem væri í vinnslu og einnig afmörkun lóðar þar sem lóðarmörk lægju ekki fyrir. Hafi sveitarstjórn staðfest þá afgreiðslu 14. s.m.

Kærandi telji þessa frestun á afgreiðslu málsins ólögmæta, enda alltaf legið fyrir að deili­skipulag væri ekki til staðar á því svæði sem um ræði og umsótt framkvæmd í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi. Þá liggi lóðarmörk skýrlega fyrir á svæðinu. Jafnvel þótt formlegum leigusamningi sé einungis þinglýst á lóðina Brimslóð 10B, en ekki 10A og 10C, þá séu lóðamörk allra fyrrgreindra lóða skýrlega dregin upp á korti í mælikvarðanum 1:500, sem fylgt hafi lóðarleigusamningi um Brimslóð 10B og sé hluti hans. Þótt lóðarleigusamningum hafi ekki verið þinglýst á lóðirnar Brimslóð 10A og 10C sé það fullljóst að kærandi sé handhafi leigulóðarréttinda sem löglíkur séu fyrir að séu algerlega þau sömu sem veitt séu í lóðarleigusamningi sem þinglýst sé á lóðina Brimslóð 10B, enda hafi sveitarfélaginu verið greitt fyrir allar tilgreindar lóðir í samræmi við 4. gr. hins þinglýsta samnings. Hafi því engin lagaheimild verið fyrir frestun á afgreiðslu málsins.

Hafi nefndin um síðir áttað sig á ólögmæti fyrri afgreiðslu sinnar og uppfært umsókn kæranda og tekið fyrir á fundi nefndarinnar 5. apríl 2023. Þar hafi verið tekin ákvörðun um að heimila aukið byggingarmagn í byggingarleyfi þar sem um óveruleg frávik væri að ræða og byggingar­fulltrúa falið að vinna málið áfram. Hafi sú ákvörðun verið staðfest af sveitarstjórn 11. s.m. Þegar hér hafi verið komið sögu hafi verið tæpur mánuður þangað til frestur skv. 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga rynni út. Hefði byggingarfulltrúa því verið í lófa lagið að gefa út hið umsótta byggingarleyfi.

Málið hafi svo enn og aftur komið til umfjöllunar hjá skipulags- og byggingarnefnd Húna­byggðar 6. september 2023 og tilefnið verið erindi frá lögmanni Þróunarfélags Gamla bæjarins ehf. Hafi nefndin afgreitt erindið á þann hátt að vísa málinu til byggingarfulltrúa þar sem tímarammi grenndarkynningar væri liðinn og óvissa ríkti um afmörkun lóða á svæðinu. Einnig hafi komið fram að á meðan málið væri til skoðunar yrði ekki gefið út byggingarleyfi. Ljóst sé að ekkert nýtt hafi komið fram í erindi lögmanns Þróunarfélagsins hvað lóðarmörk varði sem breytt gæti afstöðu nefndarinnar til þess atriðis.

Lögmaður kæranda hafi sent sveitarfélaginu bréf, dags. 31. október 2023, þar sem þess hafi verið krafist að byggingarleyfi yrði gefið út án ástæðulauss dráttar. Þeirri kröfu hafi verið hafnað með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 23. nóvember s.á., þar sem því hafi verið haldið fram að ekki væri hægt að gefa út umsótt byggingarleyfi áður en réttaráhrif grenndarkynningar rynnu út vegna atriða sem væru á ábyrgð kæranda. Þessu sé alfarið hafnað og bent á að aldrei hafi verið kallað eftir frekari gögnum frá kæranda eða honum verið leiðbeint um framhaldið.

Virðist kæranda sem sveitarfélagið hafi framselt skipulagsvald sitt að því er varði Gamla bæinn til fyrrnefnds þróunarfélags. Í hinni kærðu ákvörðun sé vísað til álits skipulagsfræðings sveitarfélagsins ákvörðuninni til stuðnings. Misskilnings gæti í álitinu að því er varði þá staðhæfingu að svæðið sé fullbyggt, en þar sé verið að vísa til lýsingar á svæði V8 í aðal­skipulagi. Að mati kæranda sé ekki hægt að líta til hinnar tilvitnuðu setningar án þess að horfa til annarra ákvæða sem fram komi í skipulaginu. Lóðin Brimslóð 10C sé á skilgreindu verslunar- og þjónustusvæði/íbúðarsvæði samkvæmt aðalskipulaginu. Á lóðinni standi vöru­geymsla byggð árið 1956 úr steinsteypu og timbri alls 74,4 m2 að stærð og feli umsókn kæranda í sér endurbætur innanhúss og utan á geymslunni, auk viðbyggingar 40,3 m2 að stærð.

Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá sé lóðin Brimslóð 10C alls 366 m2 að stærð og sam­ræmist það uppdrætti þeim sem fylgt hafi lóðarleigusamningi um Brimslóð 10B. Nýtingar­hlutfall lóðarinnar verði því 0,31% að umsókn staðfestri. Víki stærð og hæð mannvirkja á lóðinni og nýtingarhlutfall ekki að marki frá nágrannalóðum og sé staðsetning mannvirkja innan lóðarinnar í samræmi við staðsetningu annarra mannvirkja á svæðinu.

Frekari tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu ólíðandi, enda sé málið fullrannsakað. Hafi því bæði óskráðar og skráðar reglur um málshraða verið ítrekað brotnar við afgreiðslu málsins. Fyrrgreind afgreiðsla sveitarstjórnar, sbr. fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 6. september 2023, hafi ekki falið í sér lokaákvörðun varðandi umsókn kæranda í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, heldur hafi verið liður í málsmeðferðinni og því ekki kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Þar sem sveitarfélagið hafi vanrækt að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina á nýjan leik í samræmi við 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga hafi kærandi ákveðið að sækja um byggingarleyfi að nýju og sent enn og aftur sömu umsókn 6. maí 2024 og átt von á því í samræmi við fyrri afgreiðslu að umsóknin færi í grenndarkynningu og ferli sem ákvarðað sé í 44. gr. skipulags­laga. Þeirri skyldu hafi sveitarfélagið vanrækt til þessa og sé umsókninni nú hafnað á algerlega nýjum forsendum sem sé í fullkomnu ósamræmi við fyrri afgreiðslu.

Í hinni kærðu ákvörðun segi að umsókninni sé hafnað á grundvelli aðalskipulags, en það verði ekki skilið öðruvísi en svo að álit sveitarstjórnar sé að aðalskipulag útiloki málsmeðferð í samræmi við 44. gr. skipulagslaga. Kærandi telji þá niðurstöðu ekki í samræmi við fyrri afstöðu sveitarstjórnar sem að framan hafi verið lýst og verði að telja stjórnvaldið bundið við þá afstöðu sína, enda enn í gildi sama aðalskipulag og ekkert komið fram sem réttlætt geti kúvendingu af þessu tagi.

 Málsrök Húnabyggðar: Bent er á að Brimslóð ehf. hafi upphaflega sótt um byggingarleyfi þann 18. mars 2022 fyrir viðbyggingu húss sem standi á lóðinni Brimslóð 10C. Þar sem ekki hafi verið útbúið deiliskipulag fyrir svæðið sem Brimslóð 10 er innan, hafi sveitarfélagið látið fara fram grenndarkynningu með vísan til 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 enda Brimslóð 10C innan þéttbýlis Húnabyggðar og ekki útilokað að viðbyggingin hefði áhrif á eignir í nágrenninu. Engar athugasemdir hafi borist í tilefni af grenndarkynningunni.

Málið hafi í framhaldinu fengið afgreiðslu hjá sveitarfélaginu og hafi útgáfa byggingarleyfis verið samþykkt á fundi skipulags-, umhverfis- og umferðarnefndar Blönduóssbæjar 4. maí 2022 og í framhaldi á fundi sveitarstjórnar 11. s.m. Næstum ári síðar, þann 7. mars 2023, hafi Brimslóð ehf. sent inn uppfærða umsókn þar sem byggingarmagn hafði verið aukið frá fyrri umsókn sem samþykkt hafði verið og grenndarkynnt vorið áður. Hafi málið aftur verið tekið fyrir í skipulags- og byggingarnefnd Húnabyggðar daginn eftir þar sem niðurstaðan hafi verið að fresta málinu þar til afstaða hefði verið tekin til breytinga á byggingarmagni á lóðinni inn í deiliskipulagstillögunni sem sé í vinnslu og einnig afmörkun lóðarinnar þar sem hún lægi ekki fyrir. Hafi niðurstaðan verið samþykkt á fundi sveitarstjórnar 14. mars s.á.

Sá dráttur sem hafi verið á málinu hafi ekki verið á ábyrgð sveitarfélagsins heldur megi rekja til ýmissa þátta sem tilgreindir eru í lögum nr. 160/2010 um mannvirki sem ekki hafi verið uppfylltir af hálfu umsækjanda, kæranda máls þessa, á þeim tíma og því ómögulegt fyrir sveitarfélagið að gefa út byggingarleyfið. Vísist þar einkum til 13. gr. laganna. Ekki hafi verið lagðar fram fullnægjandi teikningar eða skráningartafla, byggingarstjóri og iðnmeistarar ekki tilnefndir og afrit ábyrgðartryggingar ekki lögð fram.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 6. september 2023 hafi málinu verið vísað aftur til byggingarfulltrúa þar sem tímarammi grenndarkynningarinnar hafi verið liðinn og óvissa ríkti enn um afmörkun lóða á heildarsvæðinu. Tekið hafi verið fram að á meðan málið væri til skoðunar yrði ekki gefið út byggingarleyfi. Enn hafi verið fjallað um málið á fundi nefndarinnar 29. maí 2024 þegar ákvörðun hafi verið tekin sem samþykkt hafi verið af sveitarstjórn 11. júní s.á. Ákveðið hafi verið að hafna veitingu byggingarleyfis og byggi sú niðurstaða á ákvæðum aðalskipulags og framtíðarhugmyndum um uppbyggingu og ásýnd svæðisins sem Brimslóð 10 tilheyri. Ekki sé því um að ræða afturköllun á byggingarleyfi því það hafi aldrei verið gefið út.

Á því tímabili sem umsóknir kæranda um byggingarleyfi hjá sveitarfélaginu hafi verið til umfjöllunar hafi mikill framgangur verið í uppbyggingu og þróun á svæði því sem eign kæranda standi á og hafi mikil vakning orðið í þá átt að vernda gömlu bæjarmyndina og að allar framkvæmdir sem leyfðar verði séu í samræmi við þá stefnu. Í Aðalskipulagi Blönduóssbæjar 2010–2030 birtist þessi stefna og standi yfir vinna við gerð deiliskipulags á grundvelli þess og í anda þeirrar umfjöllunar um Gamla bæinn sem þar sé að finna. Í þeirri umfjöllun segi að á svæðinu sé hótel, trésmiðja, skrifstofa og íbúðir. Svigrúm sé fyrir stækkun hótelsins innan reitsins en að öðru leyti teljist svæðið vera uppbyggt. Þar sé einnig gert ráð fyrir samkomutorgi við Brimslóð o.fl.

Hvað varði afmörkun lóða innan Gamla bæjarins sé margt óljóst og hafi aðeins örfáar lóðir verið hnitsettar og afmarkaðar þannig að uppfylli núgildandi kröfur. Eitthvað sé til af teikningum og sé eina slíka að finna sem fylgiskjal með lóðarleigusamningi um lóðina Brim­slóð 10B sem dagsett sé 21. ágúst 1990 og þinglýst á þá lóð. Uppdrátturinn sé ekki staðfestur af sveitarfélaginu með stimpli og áritun, ekki hnitsettur og sýni hann mjög takmarkaða mynd af aðliggjandi lóðum. Geti sá uppdráttur alls ekki verið talinn leiða til þess að ákvörðun sveitarfélagsins um að synja að gefa út byggingarleyfi með heimild til stækkunar húss með vísan til þess m.a. að lóðamörk á svæðinu séu óljós, teljist ólögmæt. Hafni sveitarfélagið þeirri fullyrðingu. Eins og fram hafi komið sé unnið að því að deiliskipuleggja svæðið í heild sinni og séu lóðirnar nr. 10A, 10B og 10C þar á meðal.

Á síðustu tveimur til þremur árum hafi verið lögð aukin áhersla á svæðið þar sem Gamli bærinn á Blönduósi liggi og sveitarfélagið hafið þá stefnu að halda húsum sem allra mest í upprunalegri mynd og heimila ekki stækkun á þeim. Lóðir innan svæðisins séu ekki allar vel skilgreindar og mörk milli þeirra alls ekki alltaf ljós. Því hafi verið mörkuð sú stefna að samhliða vinnu við deiliskipulag verði lóðarleigusamningar uppfærðir og endurnýjaðir .

Kærandi haldi því fram að um misskilning eða mistúlkun á ákvæðum aðalskipulags sé að ræða hjá sveitarfélaginu þar sem ákvæði varðandi verndun Gamla bæjarins sem fjallað sé um í kafla V8 í greinargerð með skipulaginu, bls. 53, beri að lesa í samhengi við almenn ákvæði um landþörf og þéttleika byggðar á bls. 46 í sömu greinargerð. Sveitarfélagið hafni þessu og telji skýrt að sérstakt ákvæði um það að Gamli bærinn teljist fullbyggður gangi framar almennum ákvæðum um þéttleika byggðar. Þá sé skýrt að með því að taka fram að svigrúm sé til stækkunar á hóteli innan reitsins þá þýði það að ekki sé heimilt að stækka önnur mannvirki innan sama reits.

Við höfnun á útgáfu byggingarleyfis til kæranda sé litið til heildarhagsmuna af því að svæðið sem Brimslóð 10 standi á sé viðkvæmt og sé sveitarfélagið að vinna að því að deiliskipuleggja og skilgreina lóðir, opin svæði og annað sem nauðsynlegt sé til að gera svæðið aðlaðandi og sem næst þeirri bæjarmynd sem áður hafi verið á Gamla bænum.

Ekki sé fallist á að eigendum og rekstraraðilum sé mismunað, heldur sé stefna sveitarfélagsins að vernda svæðið og falli allir undir þær takmarkanir sem því fylgi.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Hafnað er skýringum sveitarfélagsins á ástæðum fyrir drætti málsins. Það sem hafi í raun átt sér stað var að kærandi átti fund með byggingarfulltrúa og óskaði eftir leiðbeiningum með ákveðna útfærslu á þegar umsóttri framkvæmd. Hafi byggingarfulltrúi enga vankanta séð á þeim breytingum og fullvissað kæranda um að ekki þyrfti að grenndarkynna uppfærða umsókn. Ljóst sé að þrátt fyrir ólögmætar tafir á meðferð málsins hafi enn verið einn mánuður eftir af þeim ársfresti sem gefinn sé skv. 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga þegar uppfærð umsókn hafi verið samþykkt. Hafi byggingarfulltrúa einnig borið að leiðbeina kæranda um tilvist tímafrestsins og enn fremur að kalla eftir gögnum ef eitthvað vantaði svo gefa mætti út byggingarleyfi áður en frestur rynni út. Hafi byggingarfulltrúi þar vanrækt lögbundna leiðbeiningarskyldu sína og að láta fara fram grenndarkynningu að nýju eftir að tímafresturinn hafi runnið út.

Eins og áður hafi komið fram hafi ástæða frestunarinnar verið bréf frá lögmanni Þróunarfélags Gamla bæjarins, félags sem hafði þá nýverið fest kaup á Hótel Blönduós, en sveitarfélagið hafði skrifað undir viljayfirlýsingu við eiganda þess félags um fjárfestingu í Gamla bænum. Í þeirri viljayfirlýsingu komi fram að ákveðnir fyrirvarar séu m.a. um skipulagsmál. Hafi sveitarfélagið komið sér undan því að gefa upp hvað fælist í greindum fyrirvörum.

Sú útskýring sveitarfélagsins að umsókn kæranda sé ekki í samræmi við aðalskipulag þar sem svæðið teljist þegar fullbyggt sé að hans mati eftiráskýring, sem auk þess sé rangur skilningur á ákvæðum aðalskipulagsins. Bent sé á að tillaga að deiliskipulagi sem lögð hafi verið fram til kynningar sýni greinilega að þróunarfélaginu sé hyglað á kostnað annarra lóðarhafa á svæðinu. Megi nefna sem dæmi að í deiliskipulagstillögunni séu lóðir kæranda minnkaðar verulega miðað við fyrirliggjandi gögn, án þess að nokkuð samráð hafi verið haft við hann og engar bætur boðnar. Þá hafi kærandi einnig heimildir fyrir því að þróunarfélagið hafi kostað gerð deiliskipulagstillögunnar með stoð í 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Sé því skorað á sveitarfélagið að upplýsa hvort svo sé raunin og ef svo sé hvort ákvæði 2. málsliðar 2. mgr. 38. gr. þeirra laga hafi verið fylgt.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Húnabyggðar frá 29. maí 2024, sem staðfest var af sveitarstjórn 11. júní s.á., um að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir 40,3 m2 stækkun hússins að Brimslóð 10C, Blönduósi. Var synjun um útgáfu byggingarleyfisins byggð á ákvæðum aðalskipulags og framtíðarhugmyndum um uppbyggingu og ásýnd svæðisins.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er það í höndum sveitarstjórnar að annast gerð skipulagsáætlana innan marka sveitarfélags. Í því felst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Þó ber við töku skipulagsákvarðana m.a. að hafa í huga það markmið c–liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Þá ber að taka mið af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við undirbúning og afgreiðslu ákvarðana á þessu sviði sem endranær. Við afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi ber jafnframt að gæta þess að byggingaráform séu í samræmi við gildandi aðalskipulag sbr. 6. mgr. 32. gr. skipulags­laga og 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Samkvæmt uppdrætti Aðalskipulags Húnaþings 2010-2030 er lóðin Brimslóð 10C á blönduðu svæði sem merkt er sem íbúðarsvæði og verslunar- og þjónustusvæði. Í kafla 4.1.1 í greinargerð aðalskipulagsins er fjallað um íbúðarsvæði. Þar kemur fram að gert sé ráð fyrir að fullbyggja núverandi íbúðarsvæði og auka þéttleika þannig að 12 eða fleiri íbúðir verði á hvern hektara. Á þeim svæðum sem teljist til framtíðar íbúðarsvæða sé æskilegt að hafa til viðmiðunar töflu um nýtingar­hlutfall eftir húsagerðum þegar unnið sé deiliskipulag eða það endur­skoðað, en samkvæmt töflunni er nýtingarhlutfall einbýlishúsalóða á bilinu 0,2–0,4, raðhúsalóða á bilinu 0,4–0,6 og fjölbýlishúsalóða á bilinu 0,6–0,8. Í töflu 4.1 í greinargerð aðalskipulagsins eru talin upp götuheiti, hversu margar lóðir væru þegar byggðar og hve margar óbyggðar í viðkomandi götu. Þar kemur fram að við götuna Brimslóð sé þegar byggt á sjö lóðum en engin óbyggð lóð sé við götuna.

Í hinni kærðu synjun um útgáfu byggingarleyfis var vísað til umfjöllunar um Gamla bæinn í aðalskipulagi. Það svæði er merkt sem V8 í greinargerð aðalskipulagsins og er umfjöllun um Gamla bæinn að finna í kafla 4.2.2 þar sem fjallað er um verslunar- og þjónustusvæði. Um verslunar- og þjónustusvæði segir eftirfarandi: „Gefið er eðlilegt svigrúm fyrir þróun á núverandi og nýrrar verslunar- og þjónustustarfsemi. Deiliskipulagsskilmálar fyrir verslunar- og þjónustuhúsnæði miði að gæðum húsnæðis og vönduðu yfirbragði byggðar. Við skipulag byggðar og hönnun bygginga verði þess gætt að starfsemi geti þróast og breyst og hús og svæði nýst til annarra nota en upphaflega var áætlað. Þannig sé stuðlað að sveigjanleika og lífvænleika byggðarinnar.“ Þá segir að á svæðinu sé hótel, trésmiðja, skrifstofur og íbúðir. Svigrúm sé fyrir stækkun á hóteli innan reitsins en annars teljist svæðið fullbyggt. Gert verði ráð fyrir samkomutorgi við Brimslóð sem verði útfært sem fallegt almenningssvæði innan um gamla byggð. Stuðlað verði að aðlaðandi ásýnd byggðarinnar og áhersla lögð á frágang opinna rýma, s.s. hvað varði yfirborðsefni, gróður og lýsingu. Þá sé stærð svæðisins 2 ha. Á bls. 49 í greinar­gerð aðalskipulagsins kemur jafnframt fram að nýtingarhlutfall á verslunar- og þjónustu­svæðum skuli almennt vera að meðaltali um 0,2–0,6. Hefur kærandi í málatilbúnaði sínum vísað til þess að aðalskipulagið geri ráð fyrir enn frekari stækkun hótels á sama svæði og umrædd lóð hans liggur.

Lóðin Brimslóð 10C er 366 m2 og húsið sem stendur á henni er 74,7 m2 og er skráð sem vörugeymsla samkvæmt fasteignaskrá en fyrirhugað er að nýta húsið undir veitingastað og/eða kaffihús. Núverandi nýtingarhlutfall lóðarinnar er 0,2 en yrði 0,31 með umsóttri stækkun hússins í 115 m2. Nýtingarhlutfall lóðarinnar Brimslóðar 10A er 0,44 og nýtingarhlutfall lóðarinnar Brimslóðar 10B er 0,30. Þessar lóðir eru allar í eigu kæranda og er þar rekið gisti­heimili. Innan sama svæðis er 2.500 m2 lóð sem Hótel Blönduós stendur á og er nýtingarhlutfall þeirrar lóðar 0,48 og er ráðagerð í aðalskipulaginu um frekari stækkun þess.

Samkvæmt jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga skal við úrlausn mála gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Í því felst að aðilar við sambærilegar aðstæður skuli hljóta samsvarandi afgreiðslu. Reglan eigi að hindra að ákvarðanir verði tilviljunarkenndar, byggðar á geðþótta eða annarlegum viðhorfum.

Í hinni kærðu ákvörðun var einungis vísað til umfjöllunar um Gamla bæinn í aðalskipulagi. Það má telja til annmarka á hinni kærðu ákvörðun að ekki fylgdi nánari rökstuðningur, sérstaklega í ljósi heimilaðs nýtingarhlutfalls lóða samkvæmt ákvæðum gildandi aðalskipulags og þess misræmis sem gætir í nýtingarheimildum lóðar hótels á umræddu svæði og lóðar kæranda, en sömu skilmálar aðalskipulagsins eiga við um báðar lóðirnar. Í þessu sambandi verður að líta til sjónarmiða jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga er leiða til þess að fasteignaeigendur á svæði þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir eigi að njóta sambærilegra nýtingarheimilda á lóðum sínum nema að skipulagssjónarmið eða önnur efnisrök mæli því í mót. Sá texti í greinargerð aðalskipulagsins, að tilteknar lóðir við Brimslóð teljist fullbyggðar og vísað hefur verið til af hálfu skipulagsyfirvalda, felur í sér lýsingu á staðháttum á svæðinu við skipulagsgerð. Sú lýsing girðir ekki fyrir breytingar á þeim byggðu lóðum við deiliskipulagsgerð eða eftir atvikum með afgreiðslu umsóknar á grundvelli aðal­skipulags að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt 44. gr. skipulagslaga, svo fremi sem breytingin sé í samræmi við skilmála aðalskipulagsins og viðmið þess um nýtingarhlutfall.

Þá verður að líta til þess að árið 2022 var kæranda veitt byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum. Þó svo framkvæmdir hafi ekki hafist innan lögbundins tímafrests og að byggingarmagn hafi aukist lítillega með uppfærðri umsókn, var tekin ákvörðun 5. apríl 2023, sem staðfest var af sveitarstjórn 11. s.m. um að heimila aukið byggingarmagn á lóðinni. Hafði því umsókn kæranda um umrædda viðbyggingu verið samþykkt í tvígang að undangenginni málsmeðferð samkvæmt 11. gr. laga um mannvirki, þar sem m.a. er kveðið á um að gengið sé úr skugga um að umsókn samræmist gildandi skipulagsáætlunum. Hefði kærandi því mátt hafa réttmætar væntingar til þess að umsókn hans frá 6. maí 2024 yrði samþykkt, en umsóknin var sama efnis og sú sem samþykkt hafði verið 5. apríl 2023.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun haldin þeim ágöllum að fallast verður á kröfu kæranda um ógildingu hennar.

Úrskurðarorð:

 Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Húnabyggðar frá 29. maí 2024, sem staðfest var af sveitarstjórn 11. júní s.á., um að synja umsókn um byggingarleyfi vegna fasteignarinnar að Brimslóð 10C, Blönduósi.