Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

105/2024 Skógarhólar

Árið 2024, miðvikudaginn 2. október, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 105/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Dalvíkurbyggðar frá 22. nóvember 2022 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Skógarhóla 11A.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 28. september 2024, kærir eigandi, Skógarhólum 11A, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Dalvíkurbyggðar frá 22. nóvember 2022 að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna byggingar raðhússins Skógarhóla 11A. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá krefst kærandi þess að íbúð hans verði keypt og að lögfræðikostnaður auk kostnaðar vegna byggingarmeistara verði greiddur.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá sveitarfélaginu Dalvíkurbyggð 30. september 2024.

Málsatvik og rök: Kærandi er eigandi íbúðar að Skógarhólum 11A en um er að ræða raðhús byggt árið 2022. Lokaúttekt fór fram 21. nóvember 2022 í samræmi við byggingarreglugerð nr. 112/2012 en vottorð um lokaúttekt var gefið út 22. s.m.

 Kærandi kveðst ekki geta selt íbúð sína að Skógarhólum 11A vegna vanefnda byggingaraðila. Galli í húsinu hafi komið upp og hafi þá komið í ljós að engin gögn séu til staðar fyrir húsið. Ekki verði séð að skilað hafi verið neinum teikningum af húsinu til embættis byggingarfulltrúa til skoðunar og samþykktar. Húsið hafi því verið byggt án samþykktra teikninga. Ekki liggi fyrir þau gögn sem þurfi að vera til staðar svo öryggisúttekt og lokaúttekt fari fram. Að vitund kæranda liggi ekki fyrir samþykktar teikningar af raflögnum, sérteikningum né pípulögnum fyrir húsið og þar af leiðandi séu úttektir ógildar. Þá sé vísað til 10. gr. og 22. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds-ákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Tekur úrskurðarnefndin því lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að framkvæma tilteknar athafnir. Verður samkvæmt framangreindu ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um að íbúð hans verði keypt og að lögfræðikostnaður auk kostnaðar vegna byggingarmeistara verði greiddur.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er mælt fyrir um að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Lokaúttekt vegna Skógarhóla 11A fór fram 21. nóvember 2022 og vottorð um lokaúttekt var gefið út daginn eftir, 22. s.m. Samkvæmt vottorðinu voru eigendur mannvirkisins viðstaddir vettvangsskoðun. Fram kemur á vottorðinu að kærandi sé meðal eigenda. Með hliðsjón af þessu verður að álíta að kæranda hafi verið kunnugt um ákvörðun um lokúttekt mannvirkisins, frá þeim tíma. Kæran í máli þessu barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 28. september 2024, sem var löngu síðar og að liðnum lögbundnum kærufresti.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar, sbr. 2. tl. ákvæðisins. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki verður talið eins og atvikum er háttað að taka málið til meðferðar að liðnum kærufresti.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.