Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

99/2024 Skólavörðustígur

Árið 2024, miðvikudaginn 18. september, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 99/2024, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 23. maí 2024 um breytingu á deiliskipulagi reits 1.181.3, Lokastígsreits 4 vegna lóðar nr. 61 við Njarðar­götu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 13. september 2024 kærir A, afsalshafi íbúðar, F2006107, í tvíbýlishúsi því er stendur á lóð nr. 44A við Skólavörðustíg, ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 23. maí s.á. um breytingu á deiliskipulagi reits 1.181.3, Lokastígsreits 4 vegna lóðar nr. 61 við Njarðargötu. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Auglýsing um hina umdeildu deiliskipulagsbreytingu var birt í B-deild Stjórnar­tíðinda 6. júní 2024. Í henni felst breyting á byggingarreit Njarðargötu 61 svo unnt verði að byggja þrjár hæðir og ris á lóðinni með allt að átta íbúðum, byggingarmagn aukist og nýtingar­hlutfall hækki. Var tillaga að breytingunni grenndarkynnt fyrir kæranda skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með bréfi, dags. 12. apríl s.á., sem sent var á lögheimili hans og frestur til að koma framfæri athugasemdum veittur til 22. maí s.á.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að hann sé með skráð tímabundið aðsetur erlendis en haldi þó lögheimili á Íslandi skv. reglugerð nr. 648/1995 um réttindi og skyldur manna sem dveljast erlendis við nám. Tillaga að breytingu á deiliskipulagi hafi verið „kynnt“ fyrir honum með einu bréfi sem ekki liggi fyrir að hafi borist á lögheimili hans. Önnur tilkynning hafi ekki borist, hvorki rafrænt né með öðrum leiðum. Kærandi hafi nú selt íbúð sína og séu kaupendur ósáttir við að hafa ekki verið upplýstir um þær framkvæmdir sem áformaðar séu.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá fyrstu birtingu ákvörðunar skv. 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Auglýsing um gildistöku þeirrar deiliskipulagsbreytingar sem deilt er um í máli þessu var birt í B-deild Stjórnartíðinda 6. júní 2024 og tók kærufrestur að líða degi síðar, sbr. 1. mgr. 8. gr. sömu laga. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 13. september s.á. og var kærufrestur þá liðinn.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá skv. 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til efnismeðferðar. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni enda ekki talið unnt, eins og atvikum er háttað, að taka málið til meðferðar að liðnum kærufresti samkvæmt fyrrgreindum undan­tekningar­ákvæðum 28. gr. stjórnsýslulaga enda hefur lögmælt opinber birting ákvörðunar þá þýðingu að almenningi telst vera kunnugt um hina birtu ákvörðun.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.