Árið 2024, miðvikudaginn 24. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 66/2024, kæra á ákvörðun Borgarbyggðar frá 7. mars 2023 um að synja beiðni kæranda um endurmat og endurgreiðslu á fasteignagjöldum vegna sorphirðu- og rotþróargjalds.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi Innviðaráðuneytisins, dags. 24. júní 2024, var úrskurðarnefndinni framsendur hluti kæru eins eigenda jarðarinnar Úlfsstaða í Borgarbyggð og fasteignar sem jörðinni tengjast, dags. 27. febrúar 2023, þar sem kærð er ákvörðun Borgarbyggðar frá 7. mars 2023 um að synja beiðni um endurmat og endurgreiðslu á fasteignagjöldum vegna áranna 2015 til 2022. Sá hluti kærunnar sem framsendur var til úrskurðarnefndarinnar lýtur að gjaldtöku vegna tæmingar á rotþró og synjun beiðni um niðurfellingu sorphirðugjalds. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að Borgarbyggð verði gert að endurmeta og endurgreiða kæranda ofgreidd gjöld.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni með framsendingu kærunnar 24. júní 2024.
Málavextir: Kærandi er ein fjögurra erfingja að jarðeigninni Úlfsstöðum í Borgarbyggð ásamt tilheyrandi fasteignum. Samkomulag var um að þrír þeirra sem höfðu tengsl við jörðina myndu skipta með sér greiðslu fasteignagjalda vegna jarðarinnar og greiða þriðjung hver. Fjórði erfinginn var látinn og samkvæmt samkomulaginu voru erfingjar hans ekki greiðsluskyldir. Árið 2014 varð breyting á eignarhaldi eins erfingjans og við það breyttist innheimta gjalda hjá Borgarbyggð á þann hátt að kæranda var gert að greiða að fullu öll fasteignagjöld vegna jarðarinnar. Jafnframt hefur kærandi verið krafinn um og greitt gjöld vegna sorphirðu og tæmingu rotþróar íbúðahússins á Úlfsstöðum, sem systir kæranda býr í, auk rotþróar sumarbústaðar síns.
Með bréfi kæranda til sveitarfélagsins, dags. 27. febrúar 2023, var kærð álagning fasteignagjalda 2023 auk þess sem farið var fram á að greiðsluhlutfall kæranda yrði leiðrétt til samræmis við eignahlutföll frá árinu 2007 sem samkomulag hafði verið um. Var þess krafist að álögð gjöld hennar yrðu lækkuð til samræmis. Fór kærandi fram á endurmat og endurgreiðslu á fasteignagjöldum vegna áranna 2015–2022 til samræmis við framangreind hlutföll. Kærandi fór jafnframt fram á að felld yrðu niður sorphirðugjöld, gjöld vegna tæmingar rotþróar og gjald vegna söfnunar og eyðingar dýraleifa.
Hinn 7. mars 2023 synjaði Borgarbyggð beiðni kæranda um að fasteignagjöld fyrir árin 2015–2022 yrðu endurmetin og endurgreidd til samræmis við það greiðsluhlutfall sem samkomulag erfingjanna hafði mælt fyrir um. Hins vegar var samþykkt beiðni um að greiðslu fasteignagjalda 2023 yrði skipt niður á þrjá greiðendur í samræmi við samkomulagið. Þá hafnaði sveitarfélagið niðurfellingu sorphirðugjalds og gjalds vegna tæmingar rotþróar. Að því er varðar gjöld vegna söfnunar og eyðingar dýraleifa þá upplýsti sveitarfélagið að þau hefðu ranglega verið lögð á kæranda og endurgreiðsla vegna áranna 2021 og 2022 kæmi því til lækkunar fasteignagjalda vegna ársins 2023. Var ákvörðun sveitarfélagsins kærð til Innviðaráðuneytisins 5. júní 2023. Eins og fyrr greinir var hluti kærunnar sem lýtur að tæmingu rotþróar og greiðslu sorphirðugjalda framsendur til úrskurðarnefndarinnar.
Málsrök kæranda: Vísað er til þess að kæranda hafi um nokkurra ára skeið hrörnað og sé nú á hjúkrunarheimili. Við lestur álagningarseðils fyrir árið 2023 hafi aðstandandi orðið var við að greiðsluhlutfall kæranda vegna jarðarinnar Úlfsstaða og eigna sem þar standi hafi verið 100 % auk gjalda vegna alifuglabús á jörðinni. Að auki hefðu bæst við önnur gjöld sem séu kæranda óviðkomandi eins og tæming rotþróar, söfnun og eyðing dýraleifa, sorptunnugjöld, rekstur grenndarstöðva og móttökustöðvar.
Við nánari skoðun á greiðslum frá árinu 2007 hafi komið í ljós að fasteignagjöld kæranda hafi fjórfaldast milli áranna 2014 og 2015 og hafi haldist á því róli síðan. Sökum aldurs hafi kærandi ekki borið skynbragð á upphæðirnar og því hafi umrædd gjöld verið greidd nánast sjálfkrafa af bankareikningi hennar án athugasemda, enda hafi hún ekki haft burði til að meta eða véfengja álögð gjöld opinberra aðila.
Í ljósi þess aðstöðumunar sem sé á kæranda og sérhæfðu starfsfólki sveitarfélagsins beri að gera ríkar kröfur til sveitarfélagsins um að útreikningar séu réttir og að ekki verði gerðar slíkar umfangsmiklar breytingar á greiðslufyrirkomulagi án þess að vekja athygli greiðanda á þeim.
Málsrök Borgarbyggðar: Sveitarfélagið kannist ekki við að hafa það samkomulag undir höndum sem kærandi vísi til en viðurkenni að greiðslur fasteignagjaldanna hafi breyst frá og með árinu 2015 í kjölfar þess að einhver breyting hafi orðið í eigendahópi fasteignarinnar. Á greiðsluseðlum komi skýrt fram um hvaða eign sé að ræða, fasteignamat hennar, hver séu álögð gjöld, hverjir séu eigendur eignarinnar og hverjir greiðendur gjaldanna ásamt dagsetningu og upphæð hvers gjalddaga fyrir sig. Það hafi því alltaf legið fyrir og upplýsingar þar um sendar árlega til allra eigenda. Ekki séu allir eigendur á sama aldri og kærandi og hafi því öllum eigendum átt að vera kunnugt um að kærandi greiddi öll gjöldin.
Borgarbyggð hafi hins vegar tekið til greina athugasemd hvað varði fasteignagjöld ársins 2023 og hafi gjöldum þess árs verið skipt í samræmi við eignarhluta hvers eiganda. Hafi það verið gert í ljósi þess að athugasemdir kæranda hafi borist þegar skammt var liðið frá álagningu gjaldanna. Ekki hafi í kærunni verið gerð athugasemd hvað varði fjárhæð álagðs fasteignaskatts en gerðar hafi verið athugasemdir hvað varði önnur álögð gjöld s.s. vegna tæmingar rotþróa. sorpgjalds og gjalds vegna söfnunar og eyðingar dýraleifa.
Gjald fyrir tæmingu rotþróa sé lagt á í samræmi við 16. gr. samþykktar um fráveitur og rotþrær í Borgarbyggð nr. 296/2007. Gjaldið sé árlega lagt á en tæming rotþróanna fari fram á þriggja ára fresti. Þriggja ára gjald eigi því að standa undir kostnaði við eina hreinsun. Kærandi eigi sumarhús á jörðinni og þar sé rotþró. Hafi hún síðast verið tæmd í október 2021 og sama eigi við um rotþró við íbúðarhúsið að Úlfsstöðum.
Sorpgjald sé lagt á samkvæmt gjaldskrá sveitarfélagsins og eigi að standa undir kostnaði við meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu í samræmi við 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og samkvæmt 11. gr. samþykktar um meðhöndlun úrgangs í Borgarbyggð nr. 898/2022. Eins og sú gjaldskrá beri með sér sé innheimt gjald fyrir þrjár sorptunnur á hverju heimili og síðan sé innheimt gjald fyrir rekstur grenndar- og móttökustöðvar. Í gjaldskránni sé ákvæði um að sé íbúðarhúsnæði nýtt til tímabundinnar dvalar, án fastrar búsetu og engar tunnur tæmdar, sé eingöngu innheimt gjald vegna reksturs grenndar- og móttökustöðvar. Samkvæmt upplýsingum frá íbúaskrá sé fólk með lögheimili að Úlfsstöðum og því sé innheimt gjald fyrir tunnur.
Viðbótarathugasemdir kæranda: Áréttuð eru fyrri sjónarmið sem fram komu í kæru. Vegna breytinga á innheimtu fasteignagjaldanna hafi öll gjöld varðandi sorphirðu og tæmingu rotþróar verið innheimt hjá kæranda frá árinu 2015. Eigi það einnig við vegna húseignar sem kærandi hafi ekki búið í.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar Borgarbyggðar frá 7. mars 2023 um að hafna beiðni kæranda um að felld verði niður gjöld fyrir tæmingu á rotþró og sorphirðugjald vegna fasteigna á jörðinni Úlfsstöðum í Borgarbyggð.
Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Þá kemur fram að sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá skv. 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. kemur fram að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Verður því kæru vegna álagðra sorphirðugjalda og tæmingar rotþróar vegna áranna 2015–2022 vísað frá úrskurðarnefndinni. Með hliðsjón af atvikum þykir rétt að taka til efnismeðferðar kæru vegna álagningar nefndra gjalda fyrir árið 2023 með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr stjórnsýslulaga þar sem ranglega var leiðbeint um kæruleið og kærufrest vegna umræddra gjalda, sbr. 20. gr. laganna.
Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi. Ber hún ábyrgð á flutningi heimilisúrgangs og skal sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar setur sveitarstjórn sérstaka samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
Í gildi er samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Borgarbyggð nr. 898/2022. Í 9. gr. er fjallað um skyldur íbúa, húsráðenda, rekstraraðila og landeigenda í sveitarfélaginu til þess að fara eftir þeim reglum sem sveitarfélagið setur um meðhöndlun úrgangs. Sérhverjum húseiganda eða umráðamanni húsnæðis í sveitarfélaginu, hvort sem um er að ræða íbúðar- eða frístundahúsnæði, sé skylt að nota þau ílát og þær aðferðir sem sveitarstjórn ákveður. Í 11. gr. samþykktarinnar er fjallað um skyldu sveitarfélaga til innheimtu gjalda samkvæmt lögum nr. 55/2003, sbr. 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Með vísan til laga nr. 55/2003 setti Borgarbyggð gjaldskrá fyrir söfnun, förgun, móttöku og flokkun sorps í Borgarbyggð nr. 1649/2022, sem birt var í B–deild Stjórnartíðinda 4. janúar 2023. Samkvæmt 1. gr. hennar skal sveitarstjórn Borgarbyggðar innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs í samræmi við 2. mgr. 23. gr. laganna og samkvæmt 11. gr. samþykktar sveitarfélagsins nr. 898/2022. Í 2. gr. nefndrar gjaldskrár kemur einnig fram að sé íbúðarhúsnæði nýtt til tímabundinnar dvalar, án fastrar búsetu og engar tunnur séu þar, verði innheimt gjald vegna reksturs grenndar- og móttökustöðva kr. 32.280. Í 16. gr. samþykktar um fráveitur og rotþrær í Borgarbyggð nr. 296/2007, sbr. 59. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir kemur fram að húseigandi skuli greiða árlegt rotþróargjald sem standa skuli undir kostnaði við tæmingu rotþróa.
Lögð er á það áhersla í lögum nr. 55/2003 að meðhöndlun sorps sé grunnþjónusta í sveitarfélagi og beri það ríkar skyldur til að tryggja að sú þjónusta sé í föstum skorðum. Þjónustan er þess eðlis að hún má ekki falla niður þótt einhverjir íbúar nýti sér hana ekki, enda er sveitarfélagi beinlínis skylt að innheimta gjald fyrir meðhöndlun úrgangs, sbr. áður tilvitnað ákvæði 23. gr. laganna. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum tekur umdeilt gjald mið af áætluðum kostnaði sveitarfélagsins við veitta þjónustu vegna sorphirðu og tæmingu rotþróa.
Ekki leikur vafi á að umrædd þjónusta hafi verið veitt á tilteknum tíma og að umrædd gjaldtaka eigi sér stoð í fyrrgreindum lögum, reglugerð og samþykkt sveitarfélagsins. Þá liggur fyrir úrskurður Innviðaráðuneytisins, dags. 5. júní 2024, þar sem kæranda er bent á hina almennu reglu eignaréttar, að hafi með löglegum hætti verið stofnað til skuldbindinga vegna sameignar gagnvart þriðja manni, sé ábyrgð sameigenda gagnvart honum óskipt.
Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun Borgarbyggðar frá 7. mars 2023 um að synja beiðni um niðurfellingu sorphirðugjalds og gjalds við tæmingu rotþróa vegna ársins 2023.
Að öðru leyti er kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.