Árið 2024, miðvikudaginn 3. júlí 2024, tók Arnór Snæbjörnsson formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 68/2024, kæra á útgáfu heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra á starfsleyfi til eins árs, dags. 30. maí 2024, fyrir starfsemi móttökustöðvar fyrir úrgang og flutning úrgangs að Ægisnesi 3, Akureyri.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. júní 2024, er barst nefndinni 24. s.m., kærir Terra umhverfisþjónusta hf., útgáfu heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra á starfsleyfi til eins árs, dags. 30. maí 2024, til handa Íslenska gámafélaginu ehf. fyrir starfsemi móttökustöðvar fyrir úrgang og flutning úrgangs að Ægisnesi 3, Akureyri. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Málsatvik og rök: Kærandi var keppinautur leyfishafa í útboði sem varðaði starfrækslu grenndarstöðva og gámastöðva á Akureyri og álítur að annmarkar hafi verið á framkvæmd útboðsins þar sem leyfishafi hafi ekki fullnægt skilyrðum sem þar hafi verið sett um aðstöðu og mengunarvarnir og er mál vegna þessa til meðferðar hjá kærunefnd útboðsmála. Hafi leyfisveitandi síðan farið út fyrir valdheimildir sínar með því að gefa út hið kærða starfsleyfi, þar sem skilyrðum til þess hafi ekki verið fullnægt, en með leyfinu komist leyfishafi nær því að öðlast samning samkvæmt hinu umdeilda útboði. Ekki sé viðunandi „að þeir aðilar, sem ekki hafa yfir að ráða aðstöðu sem uppfyllir kröfur til mengunarvarna og annars konar umhverfisverndar, geti tekið að sér verkefni fyrir hið opinbera, á grundvelli lægri verða, sem hljóta a.m.k. að hluta til að ráðast af hinni óviðunandi aðstöðu, sem sé kostnaðarsparandi.“ Þá hafi útgáfa leyfisins önnur afleidd áhrif og skekki allan samkeppnisrekstur á svæðinu.
Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Verður að túlka þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum og verður þá litið til þess hvort kærandi eigi slíkra beinna, einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta. Kærandi hefur fært fram sjónarmið fyrir úrskurðarnefndinni um að hann eigi samkeppnislegra eða fjárhagslegra hagsmuna að gæta af útgáfu hins kærða starfsleyfis. Almennt leiða slíkir óbeinir hagsmunir ekki til kæruaðildar samkvæmt stjórnsýslurétti. Þá verður ekki ráðið að í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir sé gert ráð fyrir að samkeppnisaðilar í rekstri njóti aðildar að stjórnsýslumáli vegna umsóknar ótengds aðila um starfsleyfi, án þess að annað og meira komi til, t.d. grenndarhagsmunir eða hagsmunir sem kunna að leiða af skipulagsskilmálum. Þar sem ekkert liggur fyrir um að útgáfa hins umdeilda starfsleyfis snerti einstaklega lögvarða hagsmuni kæranda með þeim hætti að hann geti átt aðild að kæru vegna hennar verður kæru hans vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.