Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

46/2024 Hestagerði við Markarveg

Árið 2024, föstudaginn 31. maí, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 46/2024, kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu Kópavogsbæjar vegna erindis kæranda um hestagerði austan við lóð Markavegar 9.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 14. apríl 2024, kærir eigandi lóðarinnar Markavegar 9 í Kópavogi, aðgerðarleysi Kópavogsbæjar vegna hestagerðis austan við lóð kæranda. Er þess krafist að úrskurðarnefndin geri sveitarfélaginu að bregðast við erindi kæranda og taka ákvörðun í málinu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 16. maí 2024.

Málsatvik og rök: Í ágúst 2019 sendi kærandi bréf til umhverfissviðs Kópavogsbæjar þar sem gerðar voru athugasemdir við hestagerði Hestmannafélagsins Spretts sem staðsett er austan við lóð kæranda að Markavegi 9. Lutu athugasemdirnar aðallega að hæð gerðisins og skorti á dreni og niðurfalli, en það taldi kærandi að myndi leiða til snjó- og vatnssöfnunar á lóð hans. Óskaði hann eftir svörum við tilteknum spurningum og krafðist aðgerða af hálfu sveitarfélagsins, m.a. um að bærinn myndi byggja nýtt hringgerði í eðlilegri hæð. Svaraði sveitarfélagið fyrirspurnum kæranda 2. september s.á. en ekki var tekin afstaða til krafna hans. Hinn 12. júlí 2022 sendi kærandi bréf til umhverfissviðs og byggingarfulltrúa Kópavogs þar sem ítrekaðar voru athugasemdir um hestagerðið, m.a. að það væri í ósamræmi við byggingarreglugerð nr. 112/2012. Fór kærandi fram á að sveitarfélagið myndi bregðast við „þessari óleyfisframkvæmd og tryggja að gengið verði frá málum í samræmi við lög“. Einnig krafðist hann þess að sveitarfélagið myndi klára að leggja gangstéttir og steypa veggi á tilgreindum stöðum á svæðinu. Kærandi og sveitarfélagið voru svo í frekari samskiptum vegna málsins á árinu 2023 en í október það ár tilkynnti lögmaður sveitarfélagsins kæranda að málið væri í skoðun. Hinn 6. desember 2023 var af hálfu kæranda óskaði eftir svari við því hvort byggingarfulltrúi hygðist bregðast við erindi hans. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni sem fyrr segir 14. apríl 2024. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 15. maí s.á., var kröfum kæranda um aðgerðir af hálfu sveitarfélagsins hafnað.

Í kæru sinni bendir kærandi á að umdeilt hestagerði sé ekki í samræmi við byggingarreglugerð en hæðarmunur valdi snjó-, aur- og steinfoki á lóð hans auk þess sem vatn renni inn á hana með tilheyrandi tjóni og óþægindum. Ítrekað hafi hann reynt að fá byggingarfulltrúa eða Kópavogsbæ til að bregðast við í samræmi við lög en aldrei hafi verið brugðist við eða gefnar viðunandi skýringar á því af hverju ekki sé þörf á því. Slíkt sé í andstöðu við lög nr. 160/2010 um mannvirki, byggingarreglugerð, málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og góða stjórnsýsluhætti.

Kópavogsbær krefst þess að úrskurðarnefndin vísi kærumálinu frá þar sem brugðist hafi verið við erindum kæranda og hafi hann því ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Ákvörðun byggingarfulltrúa um að aðhafast ekki frekar sé kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Verði ekki fallist á frávísun málsins sé þess krafist að kröfum kæranda um aðgerðir af hálfu Kópavogsbæjar verði hafnað með vísan til þeirra raka sem fram komi í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 15. maí 2024.

Niðurstaða: Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er unnt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Kæra í máli þessu lýtur að drætti á afgreiðslu Kópavogsbæjar á erindi kæranda um að sveitarfélagið bregðist við í tilefni af hestagerði Hestamannafélagsins Spretts sem staðsett er austan við lóð kæranda að Markavegi 9. Líta verður svo á að í erindinu felist beiðni um beitingu þvingunarúrræða á grundvelli laga nr. 160/2010 um mannvirki, en skv. 59. gr. laganna sæta stjórnvaldsákvarðanir teknar á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Er málinu því réttilega beint til úrskurðarnefndarinnar.

Fyrir liggur að eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni brást sveitarfélagið við og afgreiddi umrætt erindi kæranda. Var það gert með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 15. maí 2024, þar sem fram kom það mat byggingarfulltrúa að umrætt hestagerði væri hvorki í ósamræmi við byggingarreglugerð nr. 112/2012 né byggingarleyfisskyld framkvæmd. Kröfum kæranda um gerð gangstétta og veggja var svarað á þann veg að slíkar framkvæmdir væru ekki í samræmi við deiliskipulag. Væri það mat embættisins að um einkaréttarlegan ágreining væri að ræða og að ekki væri tilefni til að grípa til þvingunarúrræða af þeim sökum, enda yrði ekki séð að öryggis- eða almannahagsmunir knýi á um slíkar aðgerðir. Það væri ekki á ábyrgð Kópavogsbæjar að kosta úrbætur, s.s. með gerð stoðveggjar. Að lokum var kæranda leiðbeint um kæruheimild og kærufrest vegna ákvörðunarinnar.

Samkvæmt framansögðu hefur byggingarfulltrúi brugðist við erindi kæranda með fullnægjandi hætti. Hefur það því ekki þýðingu að úrskurða um drátt á afgreiðslu erindis hans, eftir atvikum til að knýja á um afgreiðslu málsins,  og verður kröfu kæranda því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.