Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

31/2024 Laugarásvegur

Árið 2024, fimmtudaginn 30. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 31/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. febrúar 2024 um að aðhafast ekki frekar vegna steypts veggjar á lóðamörkum Laugarásvegar 63 og 59, Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 21. mars 2024, kærir eigandi Laugarásvegar 61, þá ákvörðun byggingar­fulltrúans í Reykjavík frá 29. febrúar 2024 að aðhafast ekki frekar vegna steypts veggjar á lóðamörkum Laugarásvegar 63 og 59, Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 19. apríl 2024.

Málavextir: Lóðarhafar Laugarásvegar 63 munu hafa reist steyptan vegg á lóðamörkum Laugarásvegar 63 og 59, en síðarnefnda lóðin er borgarland sem gengur einnig undir nafninu Gunnarsbrekka. Kærandi sendi umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar ábendingu vegna veggjarins í júlí 2023 og var lóðarhöfum Laugarásvegar 63 sent bréf 17. nóvember 2023 þar sem skýringa var óskað. Var erindið ítrekað 5. desember s.á. Engin viðbrögð bárust við bréfinu og var það sent með birtingapósti 18. s.m. Lóðarhafar Laugarásvegar 63 óskuðu með tölvubréfi, dags. 20. s.m., eftir 14 daga fresti til að bregðast við efni bréfsins. Viðbrögð bárust 10. janúar 2024 þar sem fram kom að lóðarhafar Laugarásvegar 63 hefðu ekki áttað sig á að sækja þyrfti um leyfi fyrir veggnum en til stæði að láta gera aðaluppdrætti og afstöðumynd sem myndi fylgja með leyfisumsókn. Byggingarfulltrúi sendi lóðarhöfunum ítrekunarbréf með birtingarpósti 2. febrúar s.á. og tókst sú birting 8. s.m. Í kjölfarið sendu lóðarhafar Laugarás­vegar 63 byggingarfulltrúa samþykki Reykjavíkurborgar sem lóðarhafa Laugarásvegar 59 ásamt teikningum hinn 28. s.m. Kom þar jafnframt fram fyrirspurn þess efnis hvort þörf væri á byggingarleyfi ef undirritað samkomulag lægi fyrir. Byggingarfulltrúi tók ákvörðun hinn 29. s.m. um að aðhafast ekki frekar hvað varðaði umdeildan vegg og bókaði:

„Upplýsa þarf eiganda að hann þarf að tilkynna til embættis byggingarfulltrúa heitapottinn. Komið samþykki frá Reykjavíkurborg sem aðliggjandi lóðarhafa lóð nr. 59 fyrir steypta stoðveggnum. Ekki þarf samþykki eiganda á lóð nr. 61 þar sem stoðveggurinn er fjær en 3 m. Bókað að byggingarfulltrúi mun ekki aðhafast frekar að því er varðar steypta vegginn. Eigandi lóðar nr. 63 hyggst gera lokatilraun til að ná samkomulagi með eiganda lóðarhafa nr. 61 varðandi girðingu á lóðarmörkum. Náist það ekki mun hann fjarlægja umrædda girðingu.“

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er byggt á því að umræddur veggur sé byggingarleyfis­skyldur, auk þess sé heitur pottur á lóð leyfishafa tilkynningarskyldur samkvæmt byggingar­reglugerð nr. 112/2012. Hvorki hafi verið sótt um byggingarleyfi fyrir umræddum vegg né útiskýli og hafi engin slík leyfi verið veitt. Þá hafi heitur pottur ekki verið tilkynntur til byggingarfulltrúa með lögformlegum hætti.

Rannsóknarregla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið þverbrotin í málinu þar sem augljóst sé að lítil sem engin rannsókn hafi farið fram á áhrifum framkvæmdanna á lóð kæranda eða á almenna öryggishagsmuni. Þannig hafi engin formleg afstaða verið tekin af hálfu embættis byggingarfulltrúa til ábendinga kæranda. Ákvörðun byggingarfulltrúa um að aðhafast ekki sé órökstudd með öllu og með engum hætti hægt að gera sér grein fyrir á hverju hún sé byggð.

Óvænt og skyndilegt „eftir á samþykki“ eignaskrifstofu Reykjavíkurborgar á því að fram­kvæmdin nái yfir lóðamörk gæti verið mögulegt skilyrði fyrir veitingu byggingarleyfis, en geti ekki verið nægjanleg ástæða þess að byggingarfulltrúi aðhafist ekki í málinu. Sú teikning sem eignaskrifstofan hafi fengið í hendurnar rétt fyrir afgreiðslufund byggingarfulltrúa sé án málsetningar og ekki sé getið um byggingarefni stoðveggjar og ekkert fjallað um breytingu á landslagi vegna jarðvegsrasks á borgarlandi á lóð Laugarásvegar 59. Óljóst sé hvort tölulegar upp­lýsingar um stærð mannvirkisins á lóðarmörkum hafi legið fyrir þegar eignaskrifstofan hafi samþykkt vegginn og teikninguna. Þá hafi borgarráð ekki veitt samþykki eins og venja sé fyrir þegar borgarlandi sé ráðstafað. Um byggingarleyfisskylda framkvæmd sé að ræða sem sé háð grenndarkynningu samkvæmt ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010, en ekkert deiliskipulag sé í gildi á lóðinni. Engar skipulagslegar heimildir séu þannig fyrir hendi.

Byggingarfulltrúi hafi sent lóðarhafa Laugarásvegar 63 bréf, dags. 2. febrúar 2024, þar sem veittur hafi verið 14 daga frestur til að leggja inn byggingarleyfisumsókn, m.a. fyrir hinum umdeilda vegg. Svo virðist sem byggingarfulltrúi hafi horfið frá þeirri kröfu án þess að ákvörðunin hafi verið afturkölluð með formlegum hætti. Kæranda hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um þá ákvörðun.

Ákvörðun byggingarfulltrúa um að aðhafast ekki í máli þessu sé líklega lagalega fordæmis­gefandi. Þannig geti lóðarhafar í Reykjavík reist stóran steyptan vegg og útiskýli á lóðar­mörkum án þess að sækja um byggingarleyfi. Þá sé gerð athugasemd við óeðlilegan drátt á afgreiðslu máls hjá byggingarfulltrúa sem hafi fengið málið í hendurnar 11. júlí 2023 og lokið málinu í lok febrúar 2024. Engar teikningar séu til af útiskýli á lóð Laugarásvegar 63 og geti lóðarhafi því stækkað skýlið að vild, líkt og hann hafi gert hingað til.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Kvartanir kæranda sem hafi verið til meðferðar hjá byggingar­fulltrúa séu margþættar og varði hin kærða ákvörðun í máli þessu, sem snúi að steyptum vegg, einungis einn þátt þeirra umkvartana. Kvartanir sem snúi að heitum potti á lóð Laugarásvegar 63 og grindverki á lóðamörkum Laugarásvegar 61 og 63 séu enn í vinnslu. Þá hafi kærandi einnig kvartað yfir timburpalli á lóð Laugarásvegar 63 eftir að kæra í máli þessu hafi borist.

Byggingarfulltrúi hafi það hlutverk að hafa eftirlit með mannvirkjagerð, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og í 55. og 56. gr. laganna sé kveðið á um þvingunarúrræði sem mögulegt sé að nýta svo fylgja megi ákvörðunum eftir. Byggingarfulltrúi hafi haft mál er varðaði steyptan stoðvegg á lóðarmörkum til meðferðar frá 17. nóvember 2023 til 29. febrúar 2024. Málinu hafi lokið með ákvörðun þess efnis að aðhafast ekki frekar og þar með ákvörðun um að þvingunarúrræðum yrði ekki beitt til að knýja fram byggingarleyfis­umsókn eða að stoðveggurinn yrði fjarlægður.

Fyrir liggi að umræddur stoðveggur hafi verið reistur án leyfis. Rannsókn byggingarfulltrúa í málinu hafi snúið að því hvort tilefni væri til að beita þvingunarúrræðum mannvirkjalaga en 2. mgr. 55. gr. fjalli t.a.m. um þau úrræði sem í boði séu þegar byggingarframkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fyrir henni. Ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða sé háð mati byggingar­fulltrúa hverju sinni, en í athugasemdum við frumvarp það sem orðið hafi að mannvirkjalögum komi fram að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs.

Ákvörðun byggingarfulltrúa í máli þessu hafi byggt á málefnalegum sjónarmiðum. Líkt og fram komi í tölvubréfi til kæranda, dags. 5. mars 2024, hafi byggingarfulltrúi ekki talið forsendur fyrir því að halda málinu til streitu í ljósi samþykkis aðliggjandi lóðarhafa og vegna þess að ekki verði séð að hinn umþrætti veggur ógni öryggis- eða almannahagsmunum. Kæranda sé ekki tryggður lögvarinn réttur til þess að knýja byggingarfulltrúa til beitingar þvingunarúrræða.

Loftmynd af svæðinu sýni að umþrættur veggur nái ekki inn á lóð nr. 59 við Laugarásveg. Þá hafi ekkert komið fram í málinu sem renni stoðum undir þá kenningu kæranda að yfirborðsvatn renni nú í átt að Laugarásvegi 61. Veggurinn standi a.m.k. þrjá metra frá lóðamörkum kæranda og 13 m frá því húshorni kæranda sem næst standi veggnum.

 Athugasemdir eigenda Laugarásvegar 63: Af hálfu eigenda Laugarásvegar 63 er bent á að fyrir liggi samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar, Laugarásvegar 59, vegna veggjarins, í sam­ræmi við e-lið gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Staðfesting byggingarfulltrúa þess efnis að ekki sé um byggingarleyfisskylda framkvæmd að ræða liggi einnig fyrir. Aðrar fram­kvæmdir á lóð falli undir c- og d-lið gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar, en viðhald vegna lóða, girðinga, gerð palla og annar frágangur sé undanþeginn byggingarheimild og -leyfi, sem og tilkynningarskyldu.

Framkvæmdir á baklóð svipi til annarra minniháttar framkvæmda á lóðum í hverfinu. Skjól­veggi, palla og heita potta sé að finna við meirihluta einbýlishúsa í götum ofan Laugardals. Ekki verði séð hvernig framkvæmdin í heild sé frábrugðin þeim eða að hún skerði að einhverju marki hagsmuni kæranda. Inngangur og bílastæði séu á baklóð kæranda og þaðan séu 20 m að stoð­veggnum.

Leyfishafar telja nauðsynlegt að leiðrétta ýmsar rangfærslur sem fram komi í kæru. Teikning sú sem samþykkt hafi verið af Reykjavíkurborg sé í kvarða og innihaldi mál. Veggurinn, sem sé 2,2 m á hæð, sé allur á lóð nr. 63 og borgarlandi hafi því ekki verið ráðstafað. Stoðveggurinn sjáist ekki greinilega frá lóð kæranda. Þegar lauf séu á trjám sé veggurinn varla sýnilegur frá inngangi og bílastæði kæranda. Meira sjáist í vegginn á veturna. Ekki fáist séð að veggurinn skerði útsýni frá lóð eða gluggum kæranda að nokkru ráði. Þá sé það skoðun kæranda að veggurinn sé lýti í umhverfinu. Aðrir nágrannar og arkitektar hafi hrósað framkvæmdinni. Veggnum hafi verið slegið upp í anda hússins í takt við umsögn skipulagsfulltrúa við fyrirspurn leyfishafa. Horft hafi verið til gr. 6.5.4. í byggingarreglugerð við frágang á veggnum, en endanlegum frágangi sé ekki lokið. Útiskýli það sem kærandi vísi til sé pergóla sem sé opin að miklu leyti en lokuð yfir heitum potti með glæru plexígleri og svipi helst til skjólveggjar sem sé undanskilinn leyfum og tilkynningarskyldu skv. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Fullyrðing kæranda um að veggurinn beini vatni frá Gunnarstúni í átt að Laugarásvegi 61 sé ekki á rökum reist. Samkvæmt áliti fagaðila sem leyfishafi hafi aflað hafi komið fram að drenun við vegginn ætti frekar að losa vatn frá lóðinni en að auka það. Kærandi hafi í a.m.k. tvígang upplýst leyfis­hafa um leka í kjallara áður en stoðveggurinn hafi verið byggður, en ekki hafi verið upplýst um nýjan leka. Viðhald á eign kæranda sé einnig lítið sem ekkert, þakskyggni yfir svölum sé að hruni komið og þakið leki. Líklegt sé að löngu sé tímabært að drena lóðina við hús kæranda, en það standi á lægsta punkti fyrir neðan Gunnarstún. Þá beinast sleðaferðir niður Gunnarstún ekki í átt að veggnum, heldur fremur að lóð kæranda. Ekki þurfi að fá leyfi fyrir heitum potti, hann sé tilkynningarskyldur.

Baklóð kæranda snúi að Gunnarstúni og þar sé að finna inngang, bílastæði, ónýt grindverk og gróðurhús í niðurníðslu. Útsýni kæranda frá baklóð takmarkist einna helst af framangreindu, sem og gróðri. Þeir gluggar kæranda sem snúi að brekkunni séu stigagangsgluggi og langur eldhúsgluggi sem endi í brjósthæð. Erfitt sé að átta sig á hvaða útsýni kærandi missi enda liggi veggurinn ekki við lóð hans.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að afstaða byggingarfulltrúa að aðhafast ekki í málinu feli ekki í sér samþykki fyrir veggnum og því sé enn um óleyfisframkvæmd að ræða. Samþykki lóðarhafa Laugarásvegar 59 sé ekki það sama og að byggingarfulltrúi hafi samþykkt vegginn enda sé hann of hár og valdi slysahættu hjá börnum og varði því almanna­heill, ásamt því að valda leka í húsi kæranda.

Kærandi verði fyrir beinni og verulegri útsýnisskerðingu, ónæði og leka vegna veggjarins og sé öll sú óleyfisframkvæmd byggingarleyfisskyld. Samþykki skrifstofustjóra hafi verið óvænt þar sem frestur til að skila inn byggingarleyfisumsókn hafi verið liðinn.

Ósannað sé að fram hafi komið símleiðis að hinn umdeildi veggur þyrfti ekki byggingarleyfi. Þá hafi kærandi ekki orðið var við túnskriðu við lóðarmörk. Kærandi hafi látið framkvæma mælingu sem sýni að veggurinn sé á borgarlandi að hluta. Hann hafi verið reistur í óleyfi árið 2021 og fyrsti leki í húsi kæranda hafi orðið í norðausturhluta kjallara hússins árið 2022. Óljóst sé hvort og hvernig drenað sé við vegginn, enda ekki til neinar teikningar fyrir hann. Þá séu dæmi um að börn hafi klesst á vegginn í sleðaferðum niður brekkuna.

Varðandi athugasemdir Reykjavíkurborgar sé bent á að öryggis- og almannahagsmunum sé ógnað. Lína dregin á loftmynd sé ekki nægjanlega nákvæm til að kveða á um hvort veggurinn nái inn á borgarland og hafi kærandi undir höndum mælingaskýrslu frá skipulagssviði Reykjavíkurborgar þar sem fram komi að veggurinn nái inn á borgarland.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að aðhafast ekki frekar í tilefni af steyptum vegg á lóðamörkum Laugarásvegar 63 og 59. Ýmis önnur deiluefni eru nefnd í málsrökum lóðahafa Laugarásvegar 61 og 63, svo sem heitur pottur og timburpallur á lóð Laugarásvegar 63. Eru þau deiluefni enn í vinnslu hjá borgaryfirvöldum og hefur ekki verið tekin stjórnvaldsákvörðun í þeim málum, en skv. 1. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Deilur um grindverk á lóðamörkum Laugarásvegar 61 og 63 hafa ratað til úrskurðarnefndarinnar í öðru kærumáli, nr. 54/2024, og verður því ekki vikið frekar að þeim deilum í úrskurði þessum.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 geta þeir einir sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar. Kærandi í máli þessu er lóðarhafi Laugarásvegar 61 og liggur hinn umdeildi veggur ekki að lóðarmörkum hans. Hafa lóðarhafar Laugarásvegar 63 vísað til þess að veggurinn sjáist lítið sem ekkert frá inngangi kæranda, gluggum hans eða bílastæði. Í málinu liggja fyrir allnokkrar myndir af hinum umdeilda vegg, teknum frá lóð kæranda. Verður að líta svo á að veggurinn breyti ásýnd umhverfisins og útsýni kæranda að nokkru. Þá er ekki útilokað að tilvist veggjarins veiti vatni í auknum mæli á lóð kæranda, en halli er á landi ofan við vegginn. Með vísan til framangreinds verður litið svo á að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn máls þessa.

Það er hlutverk byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með mannvirkjagerð í sínu umdæmi, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og í 55. og 56. gr. laganna er kveðið á um þvingunarúrræði þau sem honum eru tiltæk til að fylgja ákvörðunum sínum eftir. Í 1. mgr. 55. gr. er m.a. tekið fram að byggingarfulltrúi geti gripið til aðgerða ef ekki er fylgt ákvæðum laganna eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim við byggingarframkvæmdir. Þá er kveðið á um það í 2. mgr. ákvæðisins að ef byggingarframkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu sé heimilt að beita dagsektum eða vinna slík verk á hans kostnað, sbr. 3. mgr. 55. gr. laganna.

Tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að sú breyting sé gerð frá fyrri lögum að byggingarfulltrúa sé heimilt að beita þvingunarúrræðum en sé það ekki skylt eins og verið hafði. Kemur þar fram að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Er ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða því háð mati stjórnvalds hverju sinni og gefur sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Fer það því eftir atvikum hvort nefndum þvingunarúrræðum verði beitt í tilefni af framkvæmd sem telst vera ólögmæt. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingshagsmuna enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting þvingunarúrræða sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki fyrrgreindum lagaheimildum, og fylgja þarf meginreglum stjórnsýsluréttarins, s.s. um rannsókn máls og að málefnaleg sjónarmið búi að baki ákvörðun.

Hugtakið mannvirki er skilgreint í 13. tl. 3. gr. laga nr. 160/2010 sem hvers konar jarðföst, manngerð smíð, sbr. einnig 55. tl. gr. 1.2.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Er hinn um­deildi veggur mannvirki í skilningi framangreindra ákvæða. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Í ákvæðinu er þó tekið fram að ráðherra geti í reglugerð kveðið á um að minni háttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar á mannvirkjum skuli undan­þiggja byggingarleyfi, að slíkar framkvæmdir séu einungs tilkynningarskyldar eða að gera skuli vægari kröfur um fylgigögn eða umsóknarferli.

Af ljósmyndum og samskiptum sem fyrir liggja í máli þessu er ljóst að hinn umdeildi veggur er steyptur og er fyrst og fremst gerður til að styðja við jarðveg, en landhalli er nokkur á svæðinu. Hugtökin skjól- og stoðveggur eru ekki skilgreind í byggingarreglugerð en í gr. 4.4.4. um lóðauppdrætti kemur fram að á uppdráttum skuli m.a. gera ráð fyrir skjólveggjum, sbr. c-lið, og stoðveggjum, sbr. d-lið. Er því í reglugerðinni gert ráð fyrir að um tvær gerðir af veggjum sé að ræða. Í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð er fjallað um minniháttar mannvirkjagerð sem undanþegin er byggingarheimild og -leyfi. Er þar fjallað um skjólveggi í e-lið en stoð­veggir ekki nefndir sérstaklega. Skilyrði þess að heimilt sé að beita gr. 2.3.5. er að þau mannvirki eða framkvæmdir sem þar eru upp talin séu í samræmi við deiliskipulag. Í e-lið er svo tiltekið að lóðarhöfum samliggjandi lóða sé heimilt án byggingarleyfis að reisa girðingar eða skjólveggi allt að 1,8 m að hæð á lóðarmörkum enda leggi þeir fram hjá leyfisveitanda undirritað samkomulag þeirra um framkvæmdina. Miðað skuli við jarðvegshæð lóðar sem hærri er ef hæðarmunur sé á milli lóða á lóðarmörkum.

Óumdeilt er að hinn kærði stoðveggur var byggður án þess að byggingarleyfi hafi verið veitt. Af hinni kærðu ákvörðun byggingarfulltrúa má ráða að niðurstaða hans um að aðhafast ekki hafi ráðist af því að samþykki eiganda aðliggjandi lóðarinnar Laugarásvegar 59 hafi legið fyrir þegar sú ákvörðun var tekin. Kemur sú afstaða jafnframt fram í tölvupósti frá Reykjavíkurborg til kæranda 1. mars 2024.

Meginregla laga nr. 160/2010 er að byggingarleyfi þurfi fyrir mannvirkjagerð og verður að túlka undantekningar þær sem finna má í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð þröngt. Verður orðalag e-liðar nefndrar greinar um samþykki lóðarhafa vegna skjólveggja ekki túlkað svo rúmt að það nái einnig til stoðveggja, en líkt og áður segir er gerður greinarmunur á þeim tegundum veggja í reglugerðinni. Sambærilegt ákvæði er ekki að finna um stoðveggi í reglugerðinni og getur samþykki því ekki haft réttaráhrif umfram það sem skýrlega er mælt fyrir um í greininni. Byggði ákvörðun byggingarfulltrúa um að aðhafast ekki frekar þar sem samþykki lægi fyrir því á röngum lagagrundvelli. Rétt þykir einnig að benda á að ekki er til staðar deiliskipulag fyrir svæðið, sem er forsenda þess að unnt sé að beita gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Þá virðist byggingarfulltrúi ekki hafa tekið efnislega afstöðu til sjónarmiða kæranda um ógn við almanna- og öryggishagsmuni, svo sem um slysahættu barna.

Í ljósi framangreinds verður að telja að rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar sé haldin slíkum ágöllum að ekki verði hjá því komist að fella hana úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. febrúar 2024 um að aðhafast ekki frekar vegna steypts veggjar á lóðamörkum Laugarásvegar 63 og 59, Reykjavík.